Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Fimm athuganir

Athugun I
Sr. Ólafur Jóhannsson vakti athygli ritara á því í Morgunskýli að uppi á snaga héngi reyfið af velþekktum atgervismanni í Vesturbænum, manni sem gat sér gott orð í blómasölu hér á árum áður, en hefur snúið sér að öðrum efnum í seinni tíð. Jú, þarna héngu garmarnir, en hvorki sást tangur né tetur af innihaldinu.

Athugun II
Magnús tannlæknir kom galvaskur til hlaupa með það sérstaka erindi frá frú Sigurlínu að menn tækju eftir nýjum og glæsilegum fatnaði sem keyptur var í Bison-útláti í Kringlu (outlet): forláta gallabuxur, grá treyja (NB: ekki græn!) og nýjar og flottar nærbuxur sem Magnús veifaði framan í viðstadda. "Nú er mér ekkert að vanbúnaði að lenda í góðu slysi og í framhaldinu á Skadestuen - ég þarf ekki að skammast mín fyrir að mæta hjúkrunarliði í svona flottu garmenti."

Athugun III
Vilhjálmur Bjarnason var glaðbeittur er hann mætti til hlaups í morgun. Hann hafði fallega sögu að segja. S.l. fimmtudag hringdi síminn Brunahringingu kl. 8:32. Á hinum endanum var Ó. Þorsteinsson, þekktur velunnari útivistar og hreyfingar í Vesturbænum, og hafði þær fréttir að færa að kl. 7:30 þá um morguninn hefði maður fengið hægt andlát á Landspítala. Hringt var í Ó. Þorsteinsson kl. 8:30 og honum færð tíðindin. Reuter sefur aldrei. Ólafur lét það verða sitt fyrsta verk að hringja beint í V. Bjarnason og færa honum fréttirnar. Nú skiptist í tvennt hver viðbrögð voru: annars vegar segir Vilhjálmur að hann hafi brugðist við af hægð og sagt: Jæja, Ólafur minn, þú hefur einkennilegan húmor. Á hinn bóginn mun Ó. Þorsteinssyni hafa virst Vilhjálmur bregðast æfur við. Var rifjuð upp nafnbót sem Foringi Hvítu Mannanna gaf dr. B. Símonarsyni fyrir margt löngu: B. Telefónsson. Var það til þess að endurgjalda prófessornum fyrir nafnbót sem hann gaf téðum foringja og hangir enn sem fastast við  hann. Var það niðurstaða Vilhjálms að þeir Ólafar, og jafnvel fleiri, hefðu svipaðan húmor.

Athugun IV
Upplýst var i Esjugöngu að Helmut og dr. Jóhanna hefðu fyrr á þessum degi hlaupið 25 km og 28 km til undirbúnings Berlín. Tóku svo Esjuna í beinu framhaldi. Vel af sér vikið. Ennfremur kom fram að Birgir hefði laumað sér í hlaup með sunnudagshlaupurum og hlýtur að teljast einkar lúalegt, píska sér áfram gagngert til þess að hala sig upp töfluna. Hver þarf óvini þegar hann á slíka vini?

Athugun V
Fyrrnefndur atgervismaður úr stétt blómasala sendi út skeyti á eter um að hann hefði á þessum degi hlaupið einn, og hlaupið 27 km. Hlaupið var í kyrrþey.

Gelið er málið

Orkugelið, sumsé, meira um það seinna. Auglýst hlaup frá Vesturbæjarlaug á laugardegi kl. 9:00. Mætt: ritari, Margrét, Rúnar, Benedikt, Birgir, Hjálmar og Ósk. Fyrirheit um langt, á bilinu 27-32 km. Ritari gerði tillögu um leið og féll hún í góðan jarðveg, sama leið  og Ágúst plataði okkur að fara hér um daginn. En þegar þjálfari hóf upp raust sína og gaf út leiðarlýsingu var ljóst að áætlun ritara var sett snyrtilega á hilluna og önnur plön lögð. Taka fyrst hring á Nesi, ca. 10 km, koma svo aftur til Laugar og sækja eitthvert fólk sem treystir sér ekki til þess að mæta til hlaups á hefðbundnum fótaferðatíma í Vesturbænum.

Þrátt fyrir þetta var hugur í mönnum og við Birgir tókum strax forystuna og héldum uppi góðum hraða í upphafi hlaups, líklega 5 mín. tempói. Smásaman fór þó fólk sem við þekkjum að streyma fram úr okkur venjulegum, dauðlegum hlaupurum og þannig var það það sem eftir lifði hlaups. Þau Margrét, Rúnar og Benedikt fóru sínar eigin leiðir og segir fátt af þeirra högum á blöðum þessum. Þau fóru vel á undan okkur og komu við í Laug að sækja eftirlegukindur. Ég, Biggi, Ósk og Hjálmar fórum upp hjá Eiðistorgi og var sú ráðstöfun snilldarbragð þess er hér slær takka, en af djúpu sálfræðilegu innsæi sá ég að það myndi virka öndvert að fara um Grandaveg í hlaupi sem var rétt að hefjast, en þar eru menn alla jafna að ljúka hlaupi. Hætt var við að e-m dytti í hug að láta staðar numið. Til þess að forðast þá stöðu mála kom óvænt breyting og það var farið um Nesveg tilbaka. Hjálmar hætti eftir 10 km enda nýbúinn að hlaupa 28 km - en við hin héldum ótrauð áfram um Ægisíðu. En ég verð að viðurkenna að það var mótdrægt að vera á hefðbundnum upphafsreit hafandi lagt að baki 10 km og eiga 22 eftir - mér varð hugsað: Er ég að nenna þessu? Hvað um það, áfram var haldið, en ég ákvað: EKKI AFTUR! Þ.e.a.s. ekki hringavitleysu þegar menn eru að fara langt.

Við vorum vel birg af drykkjum, og ég var með orkugel aukreitis. Veður var gott til hlaupa, lítill vindur, 10 stiga hiti og einhver rigning, sem átti eftir að ágerast er leið á hlaupið. Í Nauthólsvík var staldrað við og bætt vatni á brúsa. Þar fékk ég mér fyrst orkugel og vatn með. Um þetta leyti komu þau hin og náðu okkur. Margrét hafði áhyggjur af að ritara væri kalt á fótunum, en hann var í stuttbuxum. Svo leit hún á fætur ritara (sem sumir hafa sagt að í sjálfu sér væru staðfesting þess að Guð er til) og sagði: Nei, þetta er í lagi, hann er svo vel hærður... Það er vissulega óvenjulegt að fá svona komment frá þjálfurum, og einhver myndi kalla þetta einelti en þjálfarinn er greinilega orðin illa smituð af anda Hlaupasamtakanna og farin að dreifa kringum sig kvikyndislegum athugasemdum um hlaupara af litlu tilefni.

Með þeim í för var einn nýr hlaupari af óþekktum uppruna og óskilgreindri stöðu, ekki fékkst gefið upp nafn né heldur annað sem máli skipti. Það fauk í Birgi sem fannst eftirtekjan rýr af heilum 10 km hring: Er þetta hlauparinn sem nennti ekki að vakna á sama tíma og aðrir? Óþekkti hlauparinn brást furðu lostinn við þessum orðum, greinilega ekki vanur að fá svona viðtökur. Þau héldu áfram, og við svo á eftir.

Við Ósk og Birgir héldum í Fossvoginn og alla leið að Víkingsvelli, þaðan til hægri upp í Kópavog og hjá Goldfinger. Yfir í Breiðholtið og stöðvuðum næst á benzínstöð Olís við Álfabakka. Þar bættum við á okkur vatni, fylltum brúsa og ég fékk mér annað orkuskot af geli. Teygt lítillega og haldið svo áfram upp að Stíbblu. Ég hélt að ég myndi verða slappari og slappari eftir því sem á hlaupið leið, en sú varð ekki reyndin. Einhvern veginn hélt ég fullri orku og þreki og fann eiginlega ekki til þreytu. Eftirá þakka ég gelinu fyrir þetta, þetta verður greinilega málið í Berlín.

Fórum niður hjá Rafstöðvarheimilinu og yfir Elliðaár og svo aftur inn hjá Víkingsheimili og inn í Fossvoginn. Birgir var með Garmin, sem hann slökkti samvizkusamlega á þegar við stönzuðum, en gleymdi jafnan að kveikja á aftur. Ósk var með Garmin, sem kveikt var á allan tímann, líka þegar við vorum kjur, en mældi vegalengdir í mílum. Af þeirri ástæðu nennti maður ekki að vera að velta vegalengdum mikið fyrir sér í dag, einna helzt að spurt væri hvað við hefðum hlaupið lengi, því fyrirmæli þjálfara voru þau að ekki mætti hlaupa lengur en í 3 klst.

Enn jókst furða mín er komið var í Fossvoginn, þessi hlaupari sem jafnan var farinn að ganga um þetta leyti í svo löngu hlaupi, neitaði að hætta og hélt áfram á góðu stími eins og maskína. Það fór að rigna og rigndi alveg óskaplega, maður blotnaði rækilega í gegn og þurfti öðru hverju að vinda hanzka. Vitanlega var margt spjallað, m.a. kom langt innlegg frá Bigga þar sem hann greindi í smáatriðum frá nýlegu hlaupi sem hann varð að gera hlé á til þess að sinna öðrum þörfum, og sýnir í hnotskurn vanda hins einmana hlaupara. Einnig rifjaðar upp senur úr Klovn, sem bæði Biggi og ritari halda mikið upp á. Klassískur danskur húmor sem þarf að venjast. Sumir venjast honum líklega aldrei.

Jújú, það skal viðurkennt að sjóbað heillaði, en við ákváðum að vera skynsamir. Við vorum báðir slæmir í mjöðmum og sjóbað kælir svo mikið niður. Ég reyndi þetta um daginn þegar ég hljóp með Ágústi, Bjössa og líklega Helmut, þá fórum við í sjóinn eftir langt og ég kólnaði svo mikið að það tók mig alla leið að Hofsvallagötu að hitna þannig að ég væri í hlaupatæku formi. Svo við slepptum sjóbaði, þótt sjóböð séu mjög að færast í aukana þessi missirin, bæði Ósk og Hjálmar stunda sjóböð af kappi og þykja þau gera sér gott.

Ekki var slegið af neins staðar á leiðinni og mætti segja mér að meðaltempó hafi verið 5:30, alveg þokkalegt. Komum til Laugar eftir ca. 3:15 klst. hlaup og 20 mílur að baki, sem mér reiknast til að séu 32 km - það sem stefnt var að. Það hvarflaði að mér hvort aðrir Berlínarfarar væru alveg í lagi að láta svona tækifæri ganga sér úr greipum, hvað er fólk að hugsa? Hvar er undirbúningurinn? Einkum hefur maður áhyggjur af ónefndum blómasala sem er bara á fiskveiðum úti á landi, vel birgur af mat og drykk. Hvernig fer þetta? Við gripum í tómt við Laug, þar voru engir af þeim hlaupurum sem við lögðum upp með fyrr um daginn og er ekki vitað um afdrif þeirra. Legið góða stund í potti og mál rædd vítt og breitt. Ákveðið að hvíla til mánudags. Næsta vika er vikan þegar menn toppa, og lengsta hlaupið er eftir, verður þreytt n.k. laugardag, 35 km. Guð sé oss næstur!


Aðeins fyrir karlmenni

Veður var með slíkum ólíkindum í dag að aðeins hörðustu hlauparar voru mættir til hlaups: Flosi, Þorvaldur, Helmut, ritari, dr. Jóhanna, dr. Sigurður Ingv., og Rúna. Það blekkti fólk að vindur var ekki mikill á plani, en reyndir hlauparar vissu að það yrði mikill mótvindur á Ægisíðu. Af þeirri ástæðu var hlaupið um garða framan af. En um síðir var ekki undan því vikist að fara út í óveðrið. Í Skerjafirði var slíkur mótvindur að við stóðum nánast í stað og höfu vér skjaldan lent í slíkum mótbyr. Fólk fór að tína tölunni og var ekki vitað hvað um það varð. Rætt um morgundaginn, þegar við eigum að fara langt. Ákveðið að hafa þetta stutt í dag, fara um Hlíðarfót til þess að tryggja gott hlaup á morgun.

Á leiðinni tilbaka var sett í fluggírinn og farið á meðaltempói kringum 4:50 - og á köflum á 4:20 eða þar um bil. Tekið vel á því. Nú bíða menn bara spenntir eftir morgundeginum.

Athletics anonymous

Þegar ég var ungur maður í Lærðaskólanum þótti fínt að vera anti-sportisti, fara til próf. dr. Ófeigs og fá vottorð í leikfimi, standa úti á tröppum sem sneru mót Lækjargötu með trefil um hálsinn, reykjandi Salem og hósta lungum og  lifur, vitandi að maður var dauðvona úngskáld með eitt ódauðlegt ljóð nýbirt í Skólablaðinu. Það var hlegið að sportidjótum eins og Þorgrími Þráinssyni sem geystist um hlöð, ímynd æsku og hreysti. Ekki hvarflaði að mér og vinum mínum þá að við myndum 30 árum síðar hafa breytt lífsmáta okkar á þann hátt sem orðið er í þeirri veiku von að endurheimta eitthvað af glataðri æsku og þrótti sem við fordjörfuðum með óskynsamlegum ákvörðunum. Ekki þýðir að gráta það nú, en herða upp huga og snúa ólifnaði í ... nei.

Hlaupasamtök Lýðveldisins státa af einhverju glæsilegasta mannvali í Vesturbæ Höfuðborgarinnar. Þar má finna ungmenni á ýmsum aldri og væri fáránlegt að vera að stimpla einhverja ákveðna sem unga hlaupara eða gamla hlaupara. Ekki veit ég yngra eða kraftmeiri hlaupara en fél. Jörund Guðmundsson. Ekki þekki ég hlaupara sem viðheldur prakkaranum betur í sál sinni en frændi minn og vinur Ó. Þorsteinsson, og skammt undan er V. Bjarnason með sinn grallaraskap, þótt önugur sé á köflum. Hlaupin yngja, viðhalda geðheilsu, fresta innlögn eða gera hana óþarfa með öllu. Að ekki sé minnst á Bjarna bílstjóra, sem á hreint ógleymanlegar rispur þegar hann mætir til hlaups.

Jæja, það var hlaupið í dag. Miðvikudagur, en stutt og rólega. Minnir mig. Staðið á stétt og masað - ótrúlegur fjöldi Garmintækja. Mættur glæsilegur hópur hlaupara, spurning hvort maður er nokkuð að telja upp, slíkur var fjöldinn. Og alltaf bætast nýir í hópinn. Óljós fyrirmæli þjálfara við brottför, orðastimpingar við einstaka hlaupara, deilt um hvert heiti áfangastaðar væri, menn sættu sig ekki við "skítastöð" - báðu þjálfara að gæta virðingar sinnar og nefna staðinn með réttu heiti. Hann sagði að staðurinn héti þessu nafni skv. hefð Samtakanna og því yrði ekki breytt. Þjálfari var einbeittur í málflutningi sínum og er æ meira farinn að minna á hina þrjóskufullu og þvermóðskugjörnu meðlimi Hlaupasamtakanna. Vér áorkum þó nokkru.

Eitthvað var verið að lofa upp í ermina á sér með vilyrðum um rólegt og stutt - allt var gleymt þegar kom að frægri Skítastöð. Þá var liði stillt upp og mönnum sagt að fara að tempói næstu 8 km . Ég lét sem ég heyrði þetta ekki og fór fetið í átt að Nesi. Dr. Jóhanna á undan mér á fullu skriði, dr. Friðrik þar á eftir eitthvað hægari. Ég á maraþontempói vestur úr. Það leið langur tími áður ég varð var við aðra hlaupara, einhvers staðar í Skjólum kom fyrstur Rúnar, og hafði einhver orð um þéttinga, ég lét sem ég heyrði þetta ekki, enda búinn að brenna mig á heilræðum með alkunnum meiðslum. Svo komu þeir hver af öðrum, eða hvert af öðru, Benni, Eiríkur, Bjössi - og á Nesi skaut Margrét upp kolli eins og skrattinn úr sauðalæknum.

Farið á Nesið og um Lindarbraut, ég hélt skynsamlegu maraþontempói og lét ekki æsa mig til afreka. Vissi sem var að að baki mér voru margir frambærilegir og illaþefjandi hlauparar sem ekki sáu til sólar á þessum degi í hlaupalegri merkingu. Komið á Móttökuplan og þar var mannfjöld. Þar var upplýst að ónefndur hlaupari hefði gert hlé á hlaupi í miðju hlaupi, farið heim til sín og gengið örna sinna, mætt síðan galvaskur aftur til hlaups og látið sem ekkert var. Þar sem hann stóð á Plani og sagði frá varð honum litið á ritara, og með það sama opnaðist munnhvoftur hans svo sjá mátti úfinn blakta í hægri golu Vesturbæjarins, og hann öskraði: NEIIIIIIII! En það var um seinan, frásögnin var meitluð í huga ritara og ljóst að hún yrði færð í annála, téðum hlaupara, fjölskyldu hans og afkomendum næstu 10.000 árin til ævarandi hneisu og skammar.

Fólk hafði greinilega hlaupið mjög misjafnar vegalengdir, verið að tínast inn lengi, farið í pott. Þar var valinkunnur hópur, en því miður virtist hann einna helzt hafa áhuga á miður vönduðum kveðskap. Meira um það seinna. Hlaup dagsins vel heppnað, óljóst með framhald, þó stefnt að 32 km á laugardag kl. 8:30. Í gvuðs friði, ritari. 

 

Laumuhlaupari gómaður

Ritari var staddur í Útiklefa fyrr í dag. Stóð hann og skiptist á vísum með hæpnu innihaldi við dr. Einar Gunnar Pétursson. Vindur þá sér inn maður í Útiklefa, hlaupmóður nokkuð og sveittur. Viðkomandi brá nokkuð er hann sá ritara og vissi augljóslega upp á sig ákveðna skömm. Hér kom nefnilega maður af hlaupum á degi sem er eini dagur vikunnar þegar EKKI er hlaupið. Er gengið var á hann brotnaði hann niður og játaði að hafa hlaupið í þeim tilgangi að komast upp fyrir ritara og blómasala í Dagbókinni. Hér var á ferðinni einstaklingur sem dags daglega svarar nafninu Eiríkur, kenndur við Kappa Fling. Viðurkenndi hann jafnframt að með í för í dag hefðu verið tveir veikgeðja einstaklingar, þeir Benedikt og Birgir, sem auðvelt hefði verið að tala inn á að bregðast félögum sínum og vera með moldvörpustarfsemi. Ja, svei! 

Tímar í Reykjavíkurmaraþoni

Hér er hægt að skoða tíma hlaupara Hlaupasamtakanna í Reykjavíkurmaraþoni 23. ágúst 2008. Sjá skrá.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjölmenni að hlaupi tveimur dögum eftir maraþon

Vilhjálmur Bjarnason er jafnan mættur tímanlega í útiklefa á hlaupadegi. Þar var einnig fyrir Þorvaldur er ritari mætti um 17:15 í dag. Uppáhaldsumræðuefni okkar Vilhjálms og endalaus uppspretta spakmæla og hnyttni er frændi ritara og vinur, sjálfur Ó. Þorsteinsson Víkingur. Það hvarflaði að ritara hvort VB myndi þora að láta allt flakka að ÓÞ viðstöddum sem fær að flakka að honum fjarstöddum. Hann fullyrti að svo væri. Allt um það skemmtum við okkur konunglega í hvert skipti sem tækifæri gefst til þess að ræða um fjarstadda félaga, án þess að um eiginlegt baktal sé að ræða.

Slíkur fjöldi hlaupara var mættur í dag að ekki tjóir að nefna þá alla, einfaldara að telja upp fjarverandi félaga: Jörund og Gísla. Þjálfararnir búnir að lofa rólegri viku, mælt með því að fresta löngu hlaupi fram á laugardag. Í dag skyldi farið 15-17 km - ágæt málamiðlun að fara Stokkinn sem er 16 km. Þrátt fyrir að ströng fyrirmæli hefðu gengið út um hægt og rólegt hlaup, var eins og sumir þekktu ekki annað en fast forward og áður en maður vissi af var fólk komið á fljúgandi fart og allt of hratt. Ekki hafði ég áhyggjur af þessu, slóst í för með Magnúsi , dr. Jóhönnu og Sjúl og dólaði inn í Fossvog á tempói sem ég réð við að afloknu hálfu maraþoni s.l. laugardag.

Það var upplýst að Sjúl hefði hlaupið 10 km og bætist því í þann frækilega hóp HLV sem þreytti hlaup í Reykjavíkurmaraþoni. Við vorum furðu sprækir þrátt fyrir að svo stutt var frá hálfu maraþoni. Þreytu gætti ekki, nema hjá ónefndum hlaupurum sem nýttu sunnudaginn í eitthvað annað en að hvíla sig. Það var gaman að koma á kunnuglegar slóðir í Fossvoginum og inn að Elliðaám, yfir árnar og aftur tilbaka undir Breiðholtsbrautina og upp Stokkinn. Enn voru menn bara brattir og slógu ekki af.

Á Bústaðavegi var farið að draga af okkur Magnúsi og við fórum fetið, með stífa vestanátt í fangið. En við létum ekki deigan síga, héldum kúrsi og keyrðum áfram allt til Laugar. Þar stóðu á Stétt úti menn sem fluttu mikinn leikþátt og hermdu eftir ónefndum hlaupafélögum. Þótti slíkt ekki sæma menningarlegum samtökum sem HLV.

Í Potti var minnt á greiðslur Berlínarferðar og Björn hélt ádíens. Í gvuðs friði, ritari.


Berlín - 5. vika

Æfingarnar
Til hamingju með hlaupið á laugardaginn! Fyrir maraþonfarana var þetta ákveðin prófraun og getur gefið vísbendingu um hvar menn standa. En nú getum við einbeitt okkur að Berlín enda ekki nema 5 vikur þangað til. Þessi vika og næsta eru erfiðar og mikilvægar. Í þeim eiga lengstu hlaupin og flestu kílómetrarnir að vera. Þar sem hálfa maraþonið hefur tekið nokkuð á og vöðvarnir teygðir og togaðir og viðkvæmir er ekkert vit í að taka hefðbundna mánudagsæfingu. Einnig ráðleggjum við öllum að draga Langa hlaupið eins langt fram eftir viku og mögulegt er, laugardagurinn væri fínn! Þið sem ekki eruð að fara til Berlínar hafið hægt um ykkur í þessari viku. Hér fylgir áætlun sem við þjálfarar leggjum til:

Æfingaáætlun
Mánudagur. Rólegt. 15 – 17 km. Millilangt á rólegum hraða. 5:00 - 5:45 - 6:30

Miðvikudagur. Tempó. 14 – 16 km. 4 km upphitun og 4 km niðurskokk. 6 – 8 km tempó á hálfmaraþon hraða.

Fimmtudagur. Langt Interval. 9 – 14 km. 3-4 km upphitun og 2 km niðurskokk 2-4x2x1km interval 4:00 - 4:15 - 4:30.

Laugardagur. Langt og rólegt 27 – 32 km. 5:00 - 5:45 - 6:30

5. æfingin. Rólegt 5 – 12 km. 5:00 - 5:45 - 6:30


Hlaupið hálft í Reykjavíkurmaraþoni 23. ágúst 2008.

Hlaupasamtökin voru vel representeruð í Reykjavíkurmaraþoni hinn 23. ágúst 2008 og trúi ég að fljótlega muni liggja fyrir listi með árangri flestra hlaupara, nema þar sem hlaupatíminn kann að vera trúnaðarmál.

 

En safnast venju samkvæmt í Útiklefa Vesturbæjarlaugar þegar laug opnaði, þessi mætt: ritari, Þorvaldur, blómasali, Helmut og dr. Jóhanna. Gerðum stuttan stanz, en héldum fljótlega til móts við félaga okkar við Listasafn Íslands, þar sem til stóð að hita upp og teygja með jógaæfingum undir leiðsögn Birgis. Er þangað var komið beið okkar föngulegur hópur hlaupaefna: báðir þjálfarar, Birgir, Björn, Kári, Sigurður Ingvars., Ósk, Hjálmar Sv., Þorbjörg – og man ég að segja að við hittum síðar Vilhjálm, Flosa, Rúnu og Friðrik, og dr. Friðrik, auk þess sem Formaður Vor til Lífstíðar hljóp 10 km þennan dag, sem og Hjörleifur. Síðastan en ekki síztan skal nefna fél. Gísla Ragnarsson sem hljóp heilt maraþon í dag. Ég biðst fyrirfram velvirðingar á því ef ég gleymi einhverjum.

Jógaæfingar voru snaggaralegar, og athygli vakti að blómasalinn heimtaði meira og meira. Jógi sagði: Nei, þetta dugir. Meira, meira!!! hrópaði blómasalinn. Hvað var í gangi? spurðu menn furðu lostnir. Svo rann upp fyrir viðstöddum að hér var í boði ókeypis jógaæfing og miklir fjármunir að glatast ef ekki væri haldið áfram.

 

Veður allgott fyrir hlaup, 13 stiga hiti, einhver vindur og regn hékk í loftinu. Þúsundir saman komnar í Lækjargötu við upphaf hlaups og stemmning mikil eins og venjulega. Hlaupið var ræst kl. 8:40 af utanríkisráðherra og um leið og skotið reið af hljómaði lag Stones, Start me up – virkaði eins og vítamínsprauta á þennan hlaupara. Passaði mig á að fara ekki of geyst af stað – en það eru mistök sem ég hef gert í mörgum undangengnum maraþonum. Það gerði að vísu minna til í þetta skiptið þar eð stefnan var “aðeins” sett á hálft maraþon. Ég var stoltur að fara skynsamlega af stað, en sá að sumir félaga minna fóru allhratt af stað, m.a. Birgir, blómasalinn og Björn. Ég hugsaði sem svo að þeir myndu sprengja sig á þessu tempói og ég tína þá upp á leið minni.

 

Þetta hlaup var að því leyti til frábrugðið fyrri hlaupum að ég hafði ekki félagsskap félaga í Hlaupasamtökunum, en þó var fjöldinn slíkur að maður hljóp alltaf í hópi annarra hlaupara, það mynduðust aldrei göt í keðjunni. Hefðbundið um Suðurgötu, Lynghaga, Ægisíðu og út á Nes. Ég hafði smááhyggjur af mótvindi á leiðinni inn úr, en þegar til átti að taka var hann ekkert til þess að gera rellu út af. Mér leið bara nokkuð vel alla leiðina, var aldrei þreyttur eða búinn, þrátt fyrir meiðsli eftir mánudagsæfingu og svefnlitla nótt, sem er aldrei gott hlaupurum. Ég fór að hugsa á Sæbrautinni: Æ, bráðum er þessi æfing búin! Það er leiðinlegt!

 

Niður hjá Eimskipum og þar í gegn. Það var góð tilfinning þegar upp var komið á Sæbraut að nýju að ekki var farið lengra í austur, heldur stefna strax sett á miðbæinn og maður vissi að það voru aðeins örfáir kílómetrar eftir. Svo rúllaði þetta tíðindalaust áfram, nema hvað ég fann enga aðra félaga á leið minni en Bjarna og Rúnu, virtist ekki ætla að draga aðra uppi. Sú varð og raunin, eins og sjá má af hlaupatímum, að menn voru að ljúka hlaupi á tímanum frá 1:26 upp í 1:44 – meðan ég kom sjálfur á tímanum 1:51, hafði þó sett markið á 1:50 og helzt undir. Var þó allsáttur þrátt fyrir allt.

 

Fann fyrir félaga mína í Lækjargötu, en hraðaði mér til Laugar. Tók þá eftir að ég hafði gleymt að láta klippa flöguna af skó mínum. Hafði orð á þessu við félaga minn. Sá setti upp spurn í andliti: hvaða helv... flögu? Nú, flöguna sem ákvarðar þér tímann í hlaupinu. Flögu, sagði hann. Enginn sagði mér frá neinni helv... flögu! Nú varð okkur ljóst að hér hafði hlaupari lagt að baki 21,1 km á mjög frambærilegum tíma (1:45) og fengi hann aldrei skráðan, hafandi auk þess greitt hátt þátttökugjald. Og hlaupið hlaup að auki sem ekki yrði tekið aftur.

 

Þessi epísóða vakti athygli í potti velmönnuðum. Þar var sunginn afmælissöngur Helmut hálfsextugum. Menn höfðu uppi heit um að aka rakleiðis til ríkisverzlunar nokkurrar sem sérhæfir sig í fljótandi gæðavöru. Ýmislegar fyrirætlanir um hvernig menn hugðust verja kveldinu og nóttinni í menningunni.

 

Velheppnuðu Reykjavíkurmaraþoni lokið -  en það er jú aðeins liður í æfingaáætlun fyrir Berlín. Við tekur hefðbundin æfing á mánudag, en ætlan mín er rétt. Þar um kemur instrúx frá þjálfurum. Í gvuðs friði, ritari.


Stóri hlaupafiskisúpudagurinn

Eftir hlaup 15.ágúst buðu Birgir Jóakims og Björn kokkur öllum hlaupahópnum í fiskisúpu. 

IMG_4678

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Súpan var grilluð úti í garði hjá Birgi Jóakims og frú.  Björn meistarakokkur, sjósundmaður og maraþonhlaupari átti heiðurinn af súpgerðinni.  Því miður er ekki hægt að taka ljósmynd af bragðinu.

 

IMG_4681

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_4682

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_4688

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_4689

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_4690

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 IMG_4691

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_4693

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_4694

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_4696

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Rúna tilkynnti hlaupara mánaðarins sem að þessu sinni var Einar en hann var fjarri góðu gamni.

 

IMG_4699

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_4700

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vilhjálmur kom færandi hendi og bauð upp á Hrefnukjöt sem við borðuðum í vísindaskyni með góðri sojasósu. 

IMG_4707

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þar sem Birgir ljósmyndari festist ekki á filmu bæti ég minni eigin mynd af honum hér í lokin:

 IMG_0212

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndir frá Birgi en færslan frá Kára

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband