Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Gamlaárshlaup 2008

Óvenjumargir voru mættir í Gamlaárshlaup ÍR 2008 - tæplega 500 forskráðir og örugglega margir til viðbótar sem mættu beint í hlaup. Fjölmargir úr Hlaupasamtökunum mættir: Margrét og Rúnar, Ágúst (klæddur jólasveinabúningi og kom hlaupandi úr Kópavoginum), Kalli (arabískur sjeik), ritari (Hálandahöfðingi á Skotapilsi), Flosi (nýlentur eftir Ameríkuflug), Magnús Júlíus, dr. Friðrik, Jörundur (Íslendingur á lopapeysu), Bjössi, Rúna og Friðrik, Eiríkur, Birgir og Sigurður Ingvarsson. Fólk úr periferíunni: Denni. E.t.v. hafa verið fleiri - en ég man ekki eftir fleirum, þetta var eins og á góðri æfingu (NB enginn blómasali!). Veður eins og bezt verður á kosið til hlaupa, hægur vindur og hiti um 4 gráður.

Búið var að breyta hlaupaleiðinni - hlaup hófst í brekkunni hjá rússneska sendiráðinu og hefur mönnum þar innandyra sjálfsagt brugðið við að sjá þennan mannsöfnuð fyrir utan hjá sér. Rakettan fór í loftið og þvagan silaðist af stað - Jörundur hafði á orði að þetta væri eins og við upphaf hlaups í Berlín, maður komst ekkert áfram fyrstu metrana. Svo leystist úr þrönginni og menn gátu farið að spretta úr spori.

Það var allt í lagi að hlaupa í Skotapilsi - ekkert of þungt eða íþyngjandi. Það hringlaði í hausnum á Jörundi, hann var með húfu á hausnum sem á var fest eitthvert glingur, auglýsingar fyrir Sjóvá og eitthvað fleira í þeim dúr.

Mér varð hugsað þegar kom út á Nesið að þessu væri í raun lokið áður en það hæfist. Ákvað að hafa hlaupið þægilegt æfingahlaup og bara njóta þess. Á leiðinni var vatn í boði skipuleggjenda hlaups og var ágætt - engin sérstök þörf á einhverju meira í svona stuttu hlaupi. Áður en maður vissi af var komið út á Suðurgötu og þá var bara farið á lensinu tilbaka. Löng biðröð við markið vegna hins mikla fjölda.

Ég vil nota tækifærið og þakka félögum mínum í Hlaupasamtökunum, sem og öðrum hlaupurum, fyrir gott hlaupaár og óska ykkur alls hins bezta á nýju ári. Í gvuðs friði, ritari.

PS - frá ritun pistils hefur komið í ljós að bæði Einar blómasali og Hjálmar þreyttu Gamlaárshlaup ÍR. Er það áréttað hér með, þeir beðnir afsökunar á vanrækslu ritara (líklega hafa þeir verið svona vandlega dulbúnir að ég bar ekki kennzl á þá) - jafnframt því að fært er til bókar hálfmaraþonhlaup Þorvaldar Gunnlaugssonar frá því í sumar sem erifðlega hefur gengið að fá viðurkennt á tímanum 1:45:35. Er þetta afrek hér með límt við nafn hans um ókomna framtíð.

Hefur frétzt af hlaupi?

Spurt er: var hlaupið? Sunnudag, laugardag? Hið rétta í málinu er að sem ritari situr í potti Laugar Vorrar um hádegisbil á laugardag þyrpist að honum einvalalið hlaupara, þar fremstir Benedikt og Eiríkur, og eru óðamála. Segja frá 18 km löngu hlaupi á laugardagsmorgni undir stjórn þjálfara, Rúnars og Margrétar. Að vísu eru þeir óforskammaðir til að byrja með og hreyta ónotum í ritara, vænandi hann um leti og ómennsku. Síðan bætast við þeir Hjálmar, Ósk og sjálfastur blómasalinn ekki skammt undan, glaðbeittur og óþolandi hress. "Ég hljóp 18" sagði blómasali. "Hljópst ÞÚ 18?" spurði ritari hissa. "Já, ég hljóp 18." Það kom leiðarlýsing sem minnti á 69.

Ritari hljóp síðar sama dag 16,35 km.

Um sunnudag vitum vér það sannast að hlaupið hafi Jörundur og Þorvaldur. Blómasali reyndi að villa um fyrir fólki með því að mæta til Laugar og blanda sér í hópinn, en hann hljóp ekki. Er ritari mætti í útiklefa mætti hann blómasalanum og dr. Einari Gunnari og var umræðuefnið: matur.

Hins vegar eru áform um hlaup í dag kl. 17:30 - stundvíslega. Skráning í gamlaársdagshlaup er hafin á hlaup.is. Muna búningana.

Íðilfagur Elliðaárdalur - fjölmenni á ferð

Hlaupasamtök Lýðveldisins stóðu fyrir hlaupi á annan dag jóla frá Árbæjarlaug, sem opnaði kl. 12 á hádegi. Mættir til hlaups Ólafur ritari og Þorvaldur. Við tókum góðan túr um dalinn allan, fyrst upp að Breiðholtsbraut austanvert, svo yfir ána og alveg niðurúr og yfir hjá Rafstöð og þaðan aftur upp að Laug.

Ritari eyddi gærdeginum í að svara sms-skeytum frá ónefndum blómasala sem hafði þungar áhyggjur af því hvar hlaupið yrði í  dag. Verður það Vesturbæjarlaug eða Árbæjarlaug? Engin niðurstaða. Þar sem ritari ekur síðan sem leið liggur um Miklubraut fyrr í dag í átt í Árbæinn sér hann hóp hlaupara sem er strandaður á umferðareyju við Lönguhlíð. Hann bar kennsl á suma, en sá ekki blómasala og varð mjög hissa. Taldi þar vera kominn hluta Vesturbæjarhópar - en enginn blómasali.

 Veður fagurt til hlaupa og því var engin leið að hætta. Ástand gott. Margt í laugu. Aftur hlaupið á morgun, laugardag.

 Í gvuðs friði, ritari.


Allur að koma til

Fagur dagur til hlaupa, en fáir mættir: Bjössi kokkur, Kalli kokkur, S. Ingvarsson, Eiríkur, Þorvaldur, Benedikt og ritari. Bjarni lét svo lítið að kíkja við í Brottfararsal um það bil sem við vorum að leggja í hann. Gömul kona í Kópavogi beið eftir akstri og Bjarni gat ekki brugðist henni. Við lögðum til að hann hlypi í Voginn og tæki kellinguna á bakið. Honum fannst það ekki góð hugmynd. Enginn gaf sig fram  til þess að leiða hópinn, svo að Þorvaldur var beðinn um að taka að sér að teyma hópinn á rekspöl.

Jólaundirbúningurinn var mönnum ofarlega í huga á Sólrúnarbraut, einkum póstkortin. Áður en maður vissi af var umræðan komin út á einkennilegar brautir. Eiríkur fór að tala um fábreytni póstflokkunarstarfsins, þarna stæðu menn og flokkuðu og flokkuðu, fengju sífellt nýja bunka, skutluðu þeim inn í tilheyrandi hólf og þegar þeir sneru sér við væri kominn nýr bunki til að sortéra. Þannig héldi þetta áfram í það endalausa og starfinu yrði aldrei lokið. Nei, sagði Bjössi, svo snappa þeir og fara með haglara inn í næsta stórmarkað og plaffa á mannskapinn, drepa 20 manns eða svo. Menn tóku almennt undir þessa lýsingu og töldu ástæðu til þess að vera á varðbergi gagnvart sínu nánasta umhverfi, einkum nú um jólin, þegar mikið er að gera hjá póstflokkunarfólki.

Það var þokkaleg færð, búið að ryðja brautina, en samt rann maður svolítið til í snjónum. Stillt og ekki sérstaklega kalt. Hópurinn hélt hópinn af mikilli samheldni inn í Nauthólsvík og ræddi málin af mikilli spekt. Þá skildi með okkur, þeir sem fóru hraðar yfir létu gamminn geisa, en við Þorvaldur fórum fetið. Upp gegnum djúpan snjó hjá  Hi-Lux og það var erfitt og þungt. Upp brekkuna og svo nokkuð hefðbundið tilbaka. Við vorum nokkuð frískir og slökuðum í raun aldrei á. Fórum þó Laugaveg, sem var ekki góð hugmynd á þessum tíma, allt fullt af fólki og við þurftum að fara á svigi. Eina jákvæða var að stéttin var þurr.

Þegar komið var til Laugar var þar mættur próf. Fróði og hafði farið 5 km. Hann er að fara Sólstöðuhlaup á morgun, hlaupið frá 11:20 eða þar um bil og eitthvað fram eftir degi, í rúma fjóra klukkutíma. Löng hefð er fyrir þessu hlaupi og eru menn hvattir til að mæta í Vesturbæjarlaug og taka þátt í hlaupinu.

Blómasalinn var í útiklefa. Hann kom til ritara hátíðlegur í bragði og rétti honum penna merktan Sindrason. Hvað nú, hugsaði ritari. Æ sér gjöf til gjalda. Þetta fæ ég að heyra í framtíðinni, að hann hafi gefið mér penna. Svo fer hann að miða tímatalið við daginn þegar hann færði mér penna. Þegar hann rifjar upp liðna tíma og segir: Jú, munið þið ekki, góðir drengir? Þetta gerðist tveimur vikum áður en ég gaf ritara pennann. Þannig voru nú hugrenningarnar hjá manni í útiklefa í dag eftir hlaup.

Svo var setið í potti góða stund og rætt um áfengi. Svolítið um mat líka. Framundan mikil neyzla. Maggi kom í pott og við ræddum um bíla. Toyota og Chevrolet eru að sameinast. Ákveðið hefur verið að fyrri hlutann úr Toyota og seinni hlutann í Chevrolet í nafnið á nýja bílnum: Toylet. Svo verður hægt að kaupa Toylet Sedan, sem hlýtur að vera mjög seljanlegt nafn á bíl. „Ertu á bíl?“ „Já, ég kom á toiletsetunni.“ Ágúst vill kaupa sér nýjan bíl. Allir réðu honum frá því. Hann hlustaði ekki á það. Hann vill kaupa sér eitthvað krassandi, svarta drossíu með lituðu gleri svo að hægt verði að fela sig og gera ýmislegt sem þolir ekki dagsljós. „Eins og hvað..?“ spurðum við. „Ulla á fólk!“ sagði prófessorinn. Einhverjum hefði dottið eitthvað annað í hug.

Gott hlaup að baki og hressandi, minn allur að koma til eftir að hafa dottið í ótímabært sukk í Danaveldi. En nú er komin sú árstíð að hlaup litast mjög af hátíðahöldum. Aldrei mikilvægara en nú að láta hlaup ekki falla niður. Huga þarf að tímasetningu hlaupa um jólin, t.d. annandaginn, þegar laug er trúlega aðeins opin til 18. Tilkynningar eða tillögur um hlaup verða sendar út eftir hendinni. Í gvuðs friði og njótið hátíðarinnar! Ritari.  


Fækkar að hlaupum

Þjálfara þótti fámennt að hlaupum í kvöld. Sjálfur var hann glaður og reifur og lét svo lítið að heilsa fólki með formlegum hætti, þ.e. handhristingu (handshake). Svo fámennt var í kvöld, ekki nema fjórtán sálir, að rétt þykir að telja þær upp: báðir þjálfarar, Una, Þorvaldur, Magnús, Bjarni, Ágúst, Sigurður Ingvarsson, Sif Jónsdóttir langhlaupari, Eiríkur, Benedikt, ritari, Denni og Hjálmar. Geysilega samhentur og snaggaralegur hópur. Birgir jógi sást í útiklefa, en taldi sig ekki komast til hlaupa vegna þess að einhver sem hann þekkti væri að spila á fiðlu og...

Veður gott til hlaupa, hiti við frostmark, stillt og hætt að snjóa. Þjálfari gaf út leiðarlýsingu, fara hefðbundið, Þriggjabrúahlaup, fara hægt út og bæta svo í. Sumir lýstu yfir áhuga á að fara styttra. Ritari ákvað að fara fulla vegalengd og var ólmur að hefja hlaupið. Var með fyrstu hlaupurum af stétt. Heyrði að baki sér hæðnisglósur frá ónefndum bankamanni sem fáir vita hvernig lítur út, en þekkja skósólann hans og skónúmer.  Hann sagði eitthvað á þessa leið: „Nú? Ritari bara fremstur!“ líkt og hann vildi leggja áherzlu á að það myndi ekki standa lengi. Í framhaldinu fór hann að velta fyrir sér vali á manni ársins og velti upp þeim fleti hvort maður ársins þyrfti ekki að vera hlaupari.

Svo var bara haldið á Sólrúnarbraut, sem búið var að ryðja, öllum til mikillar furðu og gleði. Einhverra hluta vegna lenti þessi hlaupari með Ágústi og S. Ingvarssyni og allt í einu lentur á rífandi blússi, þrátt fyrir að skynsamlegra hefði verið að fara hægt út og auka síðan hraðann þegar hiti væri kominn í kroppinn. Ég gerði semsagt þveröfugt við það sem þjálfari lagði fyrir okkur og galt fyrir það síðar. Rætt var um síðasta Powerade-hlaup sem var ævintýralegt, brjálað rok, björgunarsveitir á fullu um allan bæ að bjarga verðmætum, og 150 brjálæðingar að hlaupa í Elliðaárdalnum. Sigurður lýsti því þannig að hann hefði verið að hlaupa í þvögu fólks og svo hefðu hlauparar bara fokið útúr myndinni, dottið út af brúm og annað eftir því. Menn sem ættu auðveldlega 45 mín. Í 10 km hefðu verið að skila sér á 60. Fyrir utan kuldann. Melabúðar-Friðrik hefði komið skjálfandi af kulda eftir hlaup og eftir klukkutíma í potti hefði hann enn verið skjálfandi af kulda. Þetta eru hetjur! Að vísu hættu margir í miðju hlaupi – voru það þeir skynsömu? Hver veit?

Hvað um það, ætt á fullu stími inn í Nauthólsvík á vel ruddri hlaupabraut. Ágúst stefndi á 25 km – aðrir á eitthvað styttra. Mig grunar að Magnús og Þorvaldur hafi ætlað Hlíðarfót, eða í mesta lagi Blóðbanka, aðrir voru kappsfullir. Það var fyrst í Nauthólsvík sem ég varð var við hlauparana fyrir aftan mig, Eirík, þjálfara, Hjálmar, Unu – Benedikt löngu horfinn náttúrlega. Ég leyfði þeim að ná mér og jafnvel að fara fram úr, farinn að hægja á mér og fann þyngsli og þreytu hellast yfir mig. Á Flönum gerðist hið fyrirsjáanlega: ég var skilinn eftir. En mig brast hvorki þor né þrek, hélt ótrauður áfram, ákveðinn að ljúka Þriggjabrúadæminu.

Bjóst við að hitta Laugahópinn einhvers staðar á þessum kafla, en þau kjósa greinilega að hírast í lauginni í Laugardal og ylja sér í stað þess að fara út og láta gamminn geisa. Út að Spitala, upp brekku sem var óvenjuerfið, ég hafði hlaupara á undan mér í augsýn, leit tilbaka og sá einhverja að brjótast upp brekkuna á eftir mér, gátu verið Denni og Bjarni. Þegar hér var komið var hlaupi nánast lokið, héðan í frá var þetta bara niður í móti. En hundleiðinlegt að vera alltaf einn. Ég velti fyrir mér hvort fólk væri að forðast mig. Og ef svo væri: hvers vegna? Hvað um það, einfalt að láta sig detta niður á Miklubraut, Kringlumýrarbraut og svo Sæbraut. Hér fann ég verulega fyrir þyngslum og þreytu – og fannst gott að fá enn vatn í vatnsfonti. Við Seðlabanka náði Bjarni mér, en sneri jafnskjótt tilbaka að ná í Denna.

Nú er komin sú árstíð að menn eru rólegir í potti, það var verið í einn og hálfan tíma, á endanum dúkkaði blómasalinn upp og hafði skoðanir á kvótakerfi og viðskiptakerfi, og rúsínan í pylsuendanum var sjálfur Ágúst, búinn að fara 23 km. Það verður að sýna svona höfðingja þann sóma að staldra við og ræða málin.

Á föstudag verður farið hefðbundið – hver þorir?

Í gvuðs friði, ritari.


Alone again - naturally

Nei, nei, það fór eins og mann gat grunað. Meira um það seinna. Meðal merkra mættra: dr. Friðrik, dr. Karl kokkur, dr. Magnús Júlíus, prof. dr. Ágústus, próf. Flúss, Þorvaldur, Björn kokkur og þannig mætti lengi telja. Þjálfari önugur sem fyrr og drógust kveðjuorð upp úr honum aðeins með eftirgangsmunum, er hann þar farinn að minna á ónefnda feðga sem hlotið hafa viðurnefnið "enir heilsulausu" sökum þess að þeir heilsa aldrei þegar þeir koma innan um fólk. Það vakti eftirtekt viðstaddra að hvorki voru mættir ónefndur blómasali úr 107 og ónefndur jógakennari úr sama hverfi og spunnust út af þeirri fjarveru langar tölur um leti, áunna eða eðlislæga, hvernig hún stæði í vegi fyrir að menn nýttu möguleika sína og gætu oxið (eins og Bóbó sagði einhvern tíma). En það er svona. Leti var ekki inni í myndinni hjá Hlaupasamtökunum - hér var stefnan sett á átakahlaup, þrátt fyrir að færð byði ekki upp á neinar rósir.

Hefðbundið út að Skítastöð - ólíklegir karaktérar fremstir, alla vega hvað þennan hlaupara áhrærir. Við Skítastöð voru gefnar leiðbeiningar, eitthvað sem hét 1, 2, 3 eða eitthvað í þá veruna. Ég veitti því ekki eftirtekt, hljóp bara áfram og elti þar góða drengi eins og Magnús Júlíus, Þorvald og fleiri. Ekki varð ég var við spretti af hálfu annarra hlaupara, nema hvað ég sá Flosa æða fram úr okkur á einhverju sem mætti kalla sprett. Á eftir fylgdu aðrir hlauparar en ég gat ekki gert upp við mig hvort þeir væru að spretta úr spori eða bara að derra sig. Þetta staðfestist á því að ekki varð vart við ónefnda starfsmenn úr bankageiranum fyrr en komið var í Nauthólsvík, þá fyrst siluðust þeir fram úr þessum hlaupara, sem var ekki einu sinni á spretti, lötraði bara áfram innan um tiltölulega metnaðarlitla meðalhlaupara.

Það voru mér vonbrigði að sjá góða drengi koðna niður í Nauthólsvík og fara Hlíðarfót, taldi mig hafa samið um að fara a.m.k. Suðurhlíðar, og ef allt um þryti, Öskjuhlíð. Hér stóðu mál þannig að þeir sem voru í sprettunum voru komnir fram úr mér. Um sama leyti hurfu góðir hlauparar mér og fóru minna farinn veg hjá Gvuðsmönnum. Ég var skilinn einn eftir. mikið var þetta kunnugleg tilfinning! Einhvers staðar mitt á milli metnaðarlítilla og metnaðarmeiri hlaupara. Hvað um það, ég ákvað að gefast ekki upp, Hlíðarfótur var of stutt vegalengd fyrir mig. En ég hafði efasemdir um Suðurhlíðar. Mér leiðast brekkur. En þegar upp var staðið var þetta ekki spurning um hvort ég kæmist þessa leið, þetta var spurning um hvort sálarstyrkurinn væri nægur til þess að bera mig áfram. Það kom mér á óvart hversu auðveldlega ég leysti þessa þraut þótt einn færi: skeiðaði vakurlega niður hjá kirkjugarði, út að Kringlumýrarbraut og svo upp brekkuna löngu og erfiðu. Sló hvergi af og lenti í hagléli við Perlu. Niður í myrkri og svo hefðbundið tilbaka.

Eftirtekt vakti að hvarvetna sem ég fór stöðvuðu menn ökutæki sín og hleyptu mér yfir götur, m.a.s. strætisvagnar staðnæmdust. Mér varð á að hugsa að þeir mistækju mig fyrir Flosa bróður, sem hleypur eins og sá sem Valdið hefur í Vestbyen, veifandi hvítklæddri hendi og nýtur óskoraðrar aðdáunar hvar sem hann fer. Já, maður dylst vel inni í í balaklövunni...

Teygjur í Móttökusal. Hitti fljótlega hina hlauparana, sem höfðu farið út að Sléttuvegi á þessum undarlegu sprettum og svo beinustu leið tilbaka, einkennilegt hlaup. Ekkert spurðist til Ágústs, sem kvaðst ætla 20 km í dag. Aðspurður um svo langa vegalengd á mánudegi sagði hann: Ég hljóp ekkert í gær! Pottur vel mannaður. Mikið rætt um gamlar uppeldishefðir, gamla kennara, sem lögðu í einelti og gáfu nemendum viðurnefni. Einkum íþróttakennara. Aðferðir þeirra þættu ekki góð latína í dag. Einhver hafði á orði: við skulum vona að kennarastéttin hafi eitthvað skánað síðan... Það góða við pott er að allt sem þar er sagt er sagt í aaaaaalgjörum trúnaði og fer ekki lengra. Þess vegna eru menn hreinskilnir í potti.

Næst hlaupið á miðvikudag. Er ástæða til þess að senda út leitarleiðangra eftir blómasölum og jógum? Það verður gert ef þeir fara ekki að sýna sig. Í gvuðs friði, ritari.

Alvitlaust veður

Sumir taka það sem vott um geðbilun þegar menn fara út að hlaupa í alvitlausri suðaustanátt, einkum þegar hlaupið er með storminn í fangið. Þetta tökum vér félagsmenn í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem merki um andlegt og líkamlegt heilbrigði. Enda mæta aldrei fleiri til hlaupa en þegar veður er brjálað eins og það var í kvöld.  Svo skemmtilega vildi til að ritari gleymdi hlaupabuxum og varð að skjótast heim til að sækja þær. Þorvaldur bauð fram buxur sem Vilhjálmur hafði hlaupið í, en aðspurður kvaðst Þorvaldur ekki geta fortekið að hann hefði á einhverjum tímapunkti lánað buxurnar Framsóknarmanni. Af þeirri ástæðu var boðið afþakkað. Þegar ritari kom tilbaka var blómasalinn mættur. Hann spurði hvað hefði gengið á. Ritari sagði það sem hann vissi sannast í málinu. „Nú?“, sagði blómasalinn, „gleymdi konan þín að setja hlaupabuxurnar í töskuna þína?“ Allir helztu hlauparar Samtakanna voru mættir og því þarflaust að fara með nafnaþuluna. Skal þess þó sérstaklega getið að Nesverjar voru mættir í ljósi þess að lokað er í laug á Nesi. Þjálfarar mættir og lögðu til að farið yrði hefðbundið Þriggjabrúahlaup.

Veður var samkvæmt almannaskilningi óhagstætt til hlaupa, hvöss suðaustanátt og rigning. En slíkar aðstæður örva félaga í Hlaupasamtökunum til dáða. Lagt af stað á hógværu nótunum eins og venjulega. Það sem eykur á erfiðleika er myrkrið, mikil óvissa fylgir hlaupum, því að myrkrið geymir margan leyndardóminn. Og óvissa ríkir um hvar maður stígur niður fæti. En við létum skeika að sköpuðu, fremstir fóru gamalkunnir kappar, Benedikt og Eiríkur, Björn og Flosi, litlu aftar við minni spámenn, ritari, Helmut, blómasali og þannig áfram. Fljótlega fór lífernið að segja til sín og ritari seig aftur úr hraustari mönnum. Einhverra hluta vegna ílentist Helmut með honum, vafalaust af einhverri aumingjagæzku. Blómasalinn skeiðaði áfram eins og herforingi, dr. Jóhanna var þar einnig, og maður sá fólkið bara hverfa (þó ekki í reykjarmekki).

Við Nauthólsvík náði ég blómasalanum, þar var einnig Rúnar mættur. Hann bað okkur fyrir blómasalann og að skilja hann ekki eftir. Nei, nei, hér er enginn skilinn eftir. Hér vorum við Helmut, blómasalinn og ritari samferða – allir svolítið þungir á sér. Það skal viðurkennt að þyngstur var hugurinn og tók það mikinn sálarstyrk að þrauka og halda áfram yfir fyrstu brúna. Auk þess einhver vöðvabólga við mjaðmir og mjóbak sem gerði manni erfitt um vik. Það hvarflaði að mér satt að segja að stytta og fara Suðurhlíðar – en þá hugsaði ég til brekkunnar og vissi sem var að hún var engu léttari en brekkan hjá Borgarspítala. Þannig að það var bara að halda áfram. Og brekkan við Spítalann olli engum vonbrigðum: hún var þrælerfið! En þegar upp var komið var þetta eiginlega búið. Þá vorum við lausir við vindinn og lausir við landhækkun, nú var bara hlaupið á jafnsléttu eða niður í móti. Hér skildi Helmut okkur líka eftir og hvarf. Það er merkilegt hlutskipti að lenda alltaf með blómasalanum á hlaupum, þetta virðast vera manni ásköpuð örlög.
Það var rætt um eldhúsinnréttingar, uppþvottavélar og önnur heimilistæki, verð á vörum, verðhækkanir, sparnað, fjárfestingar, - en líka svolítið um mat. Það var farið alla leið niður á Sæbraut og þaðan vestur úr opinberlega staðfesta hlaupaleið, 13,6 km. Enn streymir kalt vatn úr drykkjarfonti á Sæbraut sem svalar þyrstum hlaupurum. Á seinni hluta leiðarinnar voru hlauparar orðnir þreyttir og fóru hægt yfir, en það var allt í lagi. Ég var stoltur yfir því að hafa yfirleitt nennt að fara þessa leið og haft úthald til þess. Nú er upp runninn tími jólaboða, mikið borðað, mikið drukkið og mikil óregla í gangi. Ekki einmitt tíminn til að léttast. Svo tekur Þorrinn við og enn meiri matur og meira sukk. Því er mikilvægt að eiga þess kost að fara út og spretta úr spori. Okkur leið vel að hlaupi loknu, hittum fyrir Bjössa, Helmut og dr.  Jóhönnu, þau hófu strax að henda gaman að vatnavöxtum í Móttökusal Laugar sem þau sögðu að fylgdu ritara. Hann kvartaði yfir andstyggilegri framkomu í sinn garð. Fleiri í potti. Blómasalinn hitti Sæma rokk í heitasta pottinum og átti langt spjall við hann. Nú er sem sagt um að gera að missa ekki dampinn og halda áfram að hlaupa og reyna að halda í við sig í mat sé þess nokkur kostur.


Hlaupið á aðventunni

Það var hefðbundinn sunnudagsmorgunn á aðventunni og mættir til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins voru Flosi, Jörundur, Þorvaldur, Einar blómasali, ritari, Ólafur þýzki, og svo maður úr Flóanum sem nýfluttur er í bæinn, Ingimundur að nafni. Menn stóðu fullklæddir og tilbúnir stundvíslega kl. 10:10 og ekki fleiri í augsýn. Ekki var eftir neinu að bíða með að leggja í hann. Snjóföl á jörðu, en ekki kalt. Ritari var þungur á sér og ekki hlaupalegur eftir langt úthald, og auk þess slæmur í baki. Ekki leit vel út með að hann færi langt. Við svona skilyrði er gott að hafa traustan hlaupara eins og Jörund með sér, hann fer hægt yfir framan af og hitar sig vel upp  áður en hann fer að taka á því.

Mikið rætt um mynd sem birtist í Reykjavíkurbréfi Dödens avis í dag með texta undir þar sem rætt var um litla fjárfesta í hópi stóru strákanna. Við erum náttúrlega ánægð með okkar mann og þarf raunar ekki að hafa frekari orð umfram téða mynd til stuðnings þeirri skoðun ritara að þarna fari maður ársins 2008!

Þegar komið var fyrir flugvöll og hópurinn nálgaðist Nauthólsvík birtist á stígnum fyrir framan okkur kunnugleg vera með kunnuglegan göngustíl og rauðsvartröndótta línu niður undan jakkanum. Jú, mikið rétt! Þar fór Ó. Þorsteinsson, formaður til lífstíðar, og hafði farið á undan okkur út að hlaupa. Fagnaðarfundir urðu þarna á stígnum og fögnuðu allir formanni sínum. Þegar upphófst umræða um Reykjavíkurbréfið og þann lærdóm sem draga mætti af því. Ekki staldrað lengi við til söguflutnings en haldið áfram.

Á Veðurstofuhálendi voru Jörundur og Ó. Þorsteinsson farnir að ganga meira en góðu hófi gegndi að mati undirritaðs og því var ekkert annað að gera en að skilja þá eftir og halda áfram hlaupandi. Það var ekki mikill hraði á hópnum, en þó skárra en að ganga. Á Sæbraut er enn vatn að hafa sem svalar þyrstum hlaupurum. ritara tókst með herkjum að ljúka hlaupi þrátt fyrir dapurlegt ástand.

Það fór svo á endanum að þeir Jörundur og Ólafur skiluðu sér ekki í pott á tilsettum tíma og varð umræða því öll með frábrugðnum hætti. Það breyttist þó ekki að rætt var um mat og þau matarboð sem framundan eru, m.a. jólahlaðborð í Turninum n.k. laugardag. Dr. Baldur með áhyggjur af staðsetningunni, erfitt yrði að rata þangað og enn erfiðara að rata þaðan.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband