Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Bakkavörin tekin með látum, aftur og aftur

Ekki færri en seytján hlauparar mættir til hlaups á mánudegi, þ. á m. Jón Gauti fjallaleiðsögumaður, nýkominn úr frægðarför þar sem lífi konu var bjargað með snarræði. Magnús sagði að Ágúst hefði gleymt öllum gagnlegustu hlutunum í Sahara: sundgleraugum, froskalöppum og vindsæng. Þjálfarar seinir og eitthvað utan við sig í dag. Við stóðum góða stund á Plani án þess að nokkuð virtist ætla að gerast. Kári tók af skarið og fór sína leið, sömuleiðis Helmut og Magnús. Loksins kom leiðarlýsing frá þjálfurum, stytzta leið út á Nes og Bakkavarir. Það var norðangarri á Hofsvallagötu og manni leist ekki meir en svo á þetta. En það voru sprækir hlauparar sem lögðu í hann og alltaf er maður jafnstoltur af hersingunni þegar hún leggur af stað og vekur undrun og aðdáun hvar sem hún kemur.

Farið upp á Hringbraut og þaðan vesturúr, hjá JL-húsi og út á Nes. Hraði nokkuð góður, mér heyrðist einhver nefna tempóið 5:20. Nú er svo komið að jafnvel lökustu hlauparar, eins og ritari, eru farnir að hanga í hinum betri hlaupurum og er þeim samferða alla leið. Það var farið út í Bakkavör og ekki verið að bíða neitt heldur farið beint í sprettina. Margrét, sem stýrði för í dag, lagði til 6-8 Bakkavarir, horfði svo á hlaupara í kringum sig og sagði: Mér sýnist nú menn alveg geta tekið 10.

Þetta endaði á 7 eða 8. Jörundur kvartaði yfir því að menn kynnu að hlaupa upp, en ekki niður. Það er ekki sama hvernig farið er niður brekku. Það er kúnst. Menn halda höndum með síðum, beygja sig eilítið fram á við og taka löng skref, svífa eða láta sig detta eins og sumir kalla það. Þetta kann fólk almennt ekki, sagði Jörundur. Sömuleiðis spurði hann um bílinn Magnúsar: Er búið að fjarlægja hann? Já, það er langt síðan, sagði ritari.

Það tók á að taka sprettina í Vörinni, enda í fyrsta skipti sem ritari tekur sprettina þetta árið. Yngra fólkið fór þetta létt, Eiríkur í sérstöku prógrammi fyrir London. Flosi sprækur og tók vel á því. Þegar þessu var lokið fóru menn sömu leið tilbaka og komið var, nema beygt var inn Grandaveginn og þá leið tilbaka. Farið á góðum spretti og ekkert slegið af. Teygt vel á eftir í Komusal. Helmut kom gangandi tilbaka og kunni frá því að segja að hann hefði tognað í kálfa í hlaupinu og þurft að ganga frá Nesi.

Rætt um ríkisstarfsmenn í potti. Ekki eru allir hrifnir af ríkisstarfsmönnum. Bjössi sagði af myrkvuðu kvöldi á Argentínu, þar sem hann þurfti að nota ljósið frá símanum til að sjá steikina sína, bein með smá tægjum utan á. Þetta minnti viðstadda á blindraveitingastaðinn í Berlín, þar sem allt er myrkvað og menn sjá ekki hvað þeir eta, blindir bera fram matinn.

Frábært hlaup að baki og bara bjartsýni um næstu hlaup. Í gvuðs friði, ritari.

Þekkt góðmenni í Vesturbænum hlaupa á sunnudagsmorgni

Fjögur þekkt góðmenni í Vesturbænum mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug að morgni sunnudagsins 29. marz. Þetta voru þeir Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Friðrik kaupmaður og Ólafur ritari. Eðlilega var ræða Davíðs á landsfundinum efst á Baugi og töldu menn  sig sjá merki um benjamín í uppsiglingu, einkennin væru ótvíræð.

Upplýst að brottför Sahara-hlaups hefur frestast vegna vatnavaxta! Í Sahara! Ákvörðun um brottför verður tekin að kveldi 29. marz.

Nýfallinn snjór var yfir öllu, en veður annars gott og hagstætt hlaupurum. Sem fyrr bar álitsgjafa í Garðabænum á góma og ritari inntur eftir því hvað hann hefði fyrir sér í því að álitsgjafinn færi að sýna sig á meðal vina og hlaupafélaga, en orðrómur í þessa veru hefur verið afar þrálátur. Í morgun spurði m.a. Bjarni Felixson um Villa, hvað þetta væri með hann, hvort hann væri alveg hættur að láta sjá sig.

Eins og menn þekkja er persónufræðin í aðalhlutverki á sunnudögum. Svo var og í dag. Einna bezt dugði okkur umfjöllun Ólafs Þorsteinssonar um nýskipaðan sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins, hún hófst við Hofsvallagötu og entist okkur langleiðina inn í kirkjugarð. Afi saksóknara var formaður stjórnmálaflokks og endaði sem sendiherra. Haraldur Guðmundsson formaður Alþýðuflokksins. Ólafur sýndi sig vera einkar fróður um alla hans ætt.

Fjölmargir góðborgarar voru á ferli og oftar en ekki þekkti Ólafur þá og þurfti að heilsa þeim, og helzt tala lítillega við þá. Staðnæmst á réttum stöðum og sagðar sögur. Allar fallegar. Rætt um New York maraþon, en þangað fara Friðrik og Rúna, auk Helmuts og dr. Jóhönnu. Jörundur hefur hlaupið í New York og segir það skemmtilegasta maraþonið, en brautin erfiðari en í Berlín.

Við bentum Frikka á tréð hans Magga við Óttars platz og sögðum honum af hverju það væri kallað tréð hans Magga. Fórum niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Að hlaupi loknu voru menn sammála um að sjaldan hefði hlaup verið öllu ánægjulegra, veður gott og félagsskapurinn góður. Gæðastund í potti með hefðbundinni áhöfn.

Er það satt? Getur það verið?

Horfur góðar framan af degi, en svo snerust veðurhorfur gegn okkur, það dimmdi yfir, kólnaði og fór jafnvel að bera á snjókomu. Mættir í Útiklefa Þorvaldur og Ólafur ritari. Eðlilega varð þeim fyrst hugsað til Vilhjálms Bjarnasonar og áttu saman langt spjall um þann mæta meðborgara og félaga. Við ræddum einna helzt um líkindi þess að hann mætti aftur, en ansi langt er orðið síðan hann sást síðast í kátra sveina og meyja hópi á Sólrúnarbraut. Flogið hefur fyrir að hann hyggi á hlaup á ný með félögum sínum í Hlaupasamtökunum og er víst að honum verður tekið fagnandi er hann birtist. Eina sem getur truflað eru óheppilegar athugasemdir frænda míns og vinar, Ó. Þorsteinssonar, Formanns til Lífstíðar, en hann á það til að segja hluti við Vilhjálm í vikulegum samtölum þeirra sem verða til þess að hleypa illu blóði í Álítsgjafann. En við bíðum spennt eftir að sjá þennan ljúfling í hópi okkar á ný.

Mættir nokkrir valinkunnir hlauparar þrátt fyrir leiðindaveður. Flosi, Helmut, dr. Jóhanna, Kalli, Magnús, Brynja, Friðrik kaupmaður, Jón Gauti, Kári, Bjarni Benz og fyrrnefndir tveir hlauparar. Kári fór á undan hópnum og var bara frískur fyrsta kílómetrann. Aðrir voru frískir aðeins lengur, sumir allt hlaupið. Ritari var aldrei frískur, byrjaði að kveinka sér og væla þegar í byrjun og leið illa allt hlaupið, sem þó var ekki langt, Hlíðarfótur, 8 km. Aðrir fóru lengra, Klambratún og Blóðbanki, jafnvel Sæbraut.

Nei, það var hlunkast þetta af stað, maður var þungur eftir utanlandsferð og ólifnað. Það situr í manni. Kalt. Blés á norðan. Bærilegt út Ægisíðuna, en svo skall norðankyljan á manni við flugvöll og það var erfitt. Ég ætlaði að láta það koma í ljós í Nauthólsvík hvað ég færi langt, útilokaði sosum ekki hefðbundið - en svo sá maður að það var ekkert vit annað en stytta.

Eðlilega voru menn með hugann við hlauparann í Sahara. Honum fylgja góðar óskir að heiman og verður hugur okkar hjá honum á sunnudag þegar hann sprettir úr spori og lætur gamminn geisa í sandinum. Þó er brýnt fyrir honum að hann gleymi ekki að nefna Hlaupasamtökin á nafn þegar hann kemur fram í fjölmiðlum (t.d. í Fréttablaðinu í morgun).  

Ólmir hestar – Heavy Horses

24 mættir – hið minnsta. Þegar Hlaupasamtökin söfnuðust til hlaups í dag stóð yfir myndataka af e-u óskilgreindu tagi og sætti það furðu að myndefnið var ekki hlauparar Samtaka Vorra, heldur einhverjir skringilegir karaktérar á Brottfararplani. Ágúst var mættur með eyðimerkurhúfu og var það hald manna að nú mættu bedúínakonur í eyðimörkinni fara að vara sig. Þjálfarar báðir mættir og lögðu til rólegt hlaup um Víðimel út að Dælustöð í Skerjafirði (og bíða þar). Þrátt fyrir þetta var tempóið út komið á gott ról þegar á Suðurgötu og greinilegt að það var hugur í mönnum. Við mættum Einari Baldvin þegar við komum í Skerjafjörð, hann hljóp í öfuga átt. Blómasalinn hætti fljótlega þar sem hann taldi sig þurfa að sinna fjölskylduerindum í stað þess að hlaupa. Einhver sagði að hann hefði snúið við af því Frikki sagði honum frá tilboðinu á ýsuflökunum í Melabúðinni, en ég held að það sé lygi.

Við komu út að Dælustöð var gefin út skipun um eftirfarandi: þrír 800 m sprettir í vesturátt, 1 mín. hvíld á milli, 2 mín. fyrir þá sem vildu taka fleiri en 3 spretti. Svo var bara gefið merki um brottför og menn sprettu úr spori. Menn eru náttúrlega misjafnlega staddir í þoli og hraða og það sýndi sig á þessum kafla, það gisnaði hópurinn á leiðinni vesturúr. Þá mættum við Benedikt sem hljóp öfugt eins og Einar Baldvin. Það tekur á að hlaupa 800 m á spretti og maður veltir því fyrir sér hvenær spretturinn taki enda. En þetta gekk vel, maður hélt nokkurn veginn í við hina og sá hvenær þeir hægðu á sér.

Svo kom að næsta spretti og hann náði út alla Ægisíðuna út að Hofsvallagötu. Á leiðinni mættum við Neshópi og voru þar nokkur þekkt andlit, þ. á m. nýbakaður doktor, Jóhanna Einarsdóttir, skólasystir ritara úr Reykjavíkur Lærða Skóla, svo að oss er vandi á höndum: hver er dr. Jóhanna? Hér var ritari orðinn einn, en hann grillti Sirrý á undan sér. Svo er bara að skella sér á Nesið, í Skjólum dúkkaði Helmut upp, og á Nesvegi fóru Ágúst og Rúnar fram úr mér. Hér var þriðji sprettur í gangi og engin leið að vita um hvenær honum lyki. Ég var í góðum gír og treysti mér áfram út á Lindarbraut (sem var uppnefnd Unter den Linden í potti).

Leiðin tilbaka var einföld og ritari hélt tempói til loka. Einn af þessum frábæru vordögum þegar allt gengur hlaupara í hag, veður, aðstæður, og annað. Það var teygt við Sundlaug og skrafað saman. Ég sagði Bigga brandara sem er vart hafandi eftir, en má samt fljóta. Íþróttafréttamenn segja stundum hluti án þess að hugsa, þetta er dæmi: „Dunga tekur Baggio aftanfrá, enda þekkjast þeir frá því þeir léku saman hjá Fiorentina.“

Pottur vel mannaður. Prófessor Fróði í aðalhlutverki, enda líður senn að brottför. Áfram flugu góð ráð honum til handa. Það væri að æra óstöðugan að tilgreina þau öll, en það laut að úlfaldahlandi, illa þefjandi hlaupurum, Bragakaffi í boði Magga á afmælisdaginn hans 2. apríl og hvað Ágúst ætti að gera á frídaginn (máttu ekki hlaupa? spurðu menn). Ekki var verra að Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti í pott og gat miðlað góðum ráðum. Friðrik sagði sögu sem Biggi missti af sökum athyglisbrests, hann heimtaði að fá söguna sagða aftur, en Friðrik neitaði. Þá heimtaði Birgir að ritari segði söguna í pistli kvöldsins, en ég segi bara: BIRGIR! FYLGSTU MEÐ!

Að svo mæltu er ritari horfinn til mikilvægra embættisverka á suðlægari slóðum. Slóðin á hlaup Ágústs verður birt fljótlega á bloggi og vonandi berum við gæfu til þess að halda Fyrsta Föstudag 3. apríl n.k. og fylgjast þá með lokasprettinum í Hlaupinu Mikla. Í gvuðs friði.


Útivist og heilbrigðir lífshættir í Vesturbæ

Þrír voru mættir í hlaup dagsins: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur og Ólafur ritari.  Við fengum rapport af samtali morgunsins, en brunahringing var upp úr 8. Það var gefinn mætingarfrestur en fleiri bættust ekki í hópinn svo að við lögðum bara af stað. Vindur allnokkur á sunnan, en annars bærilegt.

Hlaup í alla staði hefðbundið en stoppin þó heldur fleiri en alla jafna. Upplýst var um heilbrigðisdaga í akademíunni og um hlaup sem Ó. Þorsteinsson er að undirbúa í því samhengi 2. apríl næstkomandi. Þetta mun vera fimmtudagur og eru hlaupnir 7 km - og hefst hlaup kl. 15. Eins og sést á tímasetningunni er hlaupið einkum ætlað akademíunni, ríkisstarfsmönnum og atvinnulausum. Svo skemmtilega vill til að 2. apríl er hvíldardagur í Saharahlaupi Ágústs og vel við hæfi að spretta úr spori honum til heiðurs og hvatningar. Ekki er verra að sjálfur viðskiptaráðherra mun ræsa hlaupið, alls staðar koma Hlaupasamtökin sínu fólki að!

Nýtt hlaup á morgun kl. 17:30.


Hér segir frá hreint makalausu hlaupi á föstudegi

Þeir voru ekki margir hlaupararnir sem mættu til hlaups í Brottfararsal í dag, en hvílíkur hópur! Hvílík gæði! Fyrstan og fremstan meðal jafningja skal nefna hetju Hlaupasamtakanna og væntanlegan sandhlaupara, próf. dr. Ágúst Kvaran. Aðrir vinsælir og viðurkenndir hlauparar voru Karl kokkur, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Bjarni Benz, Brynja, dr. Jóhanna, Jón Gauti, Biggi, frú Unnur (eiginkona Bigga), og svo var náttúrlega einnig ritari til þess að skrá framvindu hlaups og nótera það ef einhver missir eitthvað óheppilegt út úr sér. Unnur var að mæta í sitt fyrsta hlaup með Hlaupasamtökunum og geislaði af eftirvæntingu að fá að spretta úr spori með þessum legendarísku hlaupurum sem Birgir hefur sagt henni svo margt frá.

Nú er vorið komið. Það þýðir bara eitt: sprettir, lengingar, þéttingar, Elliðaár, sjóbað... (þetta er að vísu ekki eitt, en þið fattið hvað ég meina). Veðrið yndislegt, 10 stiga hiti, smávindur, auð jörð, en sandur á Sólrúnarbraut. Mér datt í hug að það gæti verið gott fyrir Ágúst að hlaupa í sandi og lét mig því hafa það, vegna þess að nú eru allir að hugsa um Sahara-hlaup félaga okkar og hvernig hann mun auka hróður Hlaupasamtakanna með góðri frammistöðu þar. En sandur fer annars illa með okkur og Magnús okkar þurfti að stoppa á leiðinni til þess að hreinsa úr skónum.

Nema hvað, merkilegur andskoti að nánast allir meðlimir Hlaupasamtakanna hafa lent í veikindum. Núna var það Biggi sem var að rísa upp úr flensu og 60 stiga hita. Hann virtist furðu hress miðað við hremmingarnar. En af þessari ástæðu fór hann bara rólega í hlaupi dagsins og var ekkert að derra sig.

Þetta var þéttur hópur framan af eins og venjulega, en svo dró eitthvað sundur með fólki við flugvöll, þar fóru fremstir prófessorinn, Bjarni og Jón Gauti, þá komum við blómasalinn, Magnús og Jóhanna, aðrir voru á eftir okkur. Þar eð þetta var föstudagur var stefnan sett á hefðbundið, Hi-Lux, brekku, kirkjugarð og annað eftir því. Þó svo að fólk væri illa haldið af ýmsum kvillum, við dr. Jóhanna illa sofin, Magnús með tak í læri, blómasalinn með sína yfirvigt – þá breytti það ekki því að við fórum á frábæru tempói, sem þegar upp var staðið sýndi sig vera 5:42 að jafnaði, ekki slæmt fyrir fólk sem er lasburða.

Það var erfitt að fara upp brekkuna í Öskjuhlíðinni, en það hafðist, þá höfðu blómasalinn og dr. Jóhanna yfirgefið okkur Magnús. Við náðum þeim þó á Veðurstofuhálendi og áttum samleið niður á Hlemm. Hér var sögð sagan af Súpermanni sem var á ferð um himinhvolfin, sá Köngulóarkonuna sem lá á bakinu og ákvað að taka hana á einum hundraðasta úr sekúndu. Köngulóarkonan spurði þá Ósýnilega manninn: Hvað var þetta? Ósýnilegi maðurinn sagði: Ég veit það ekki, en mig logverkjar í rassgatið!

Enginn Villi utandyra við Gallerí Fold. Við út á Sæbraut, þar komst Jóhanna á undan okkur yfir brautina, en við hinir stóðum eins og álkur á rauðu ljósi. Vatnið í fontinum kalt sem aldrei og svalaði þorsta okkar.

Við vorum bara spakir á Sæbraut en héldum áfram tempóhlaupi, enda engin ástæða til að slaka á. Athyglisverðir hlutir gerðust við ljósin hjá Útvarpshúsinu gamla, Einar og Magnús einhentu sér í tilraun til sjálfsmorðs með því að hlaupa fram fyrir bílana, ritari varaði þá við, en endurtók sömu tilraun stuttu síðar svo vart mátti milli sjá hverjir voru glæfralegir og er áhættulifnaður Þ. Gunnlaugssonar farinn að setja óþægilega sterk mörk á hlaup félaga á föstudögum. En við komumst allir lifandi frá þessari raun.

Við erum svo bundnir af gömlum hefðum að við breytum aldrei neinu. Það var Mýrargata og Ægisgata, Minningarhlaup Vilhjálms. Aðrir eru farnir að hunza Vilhjálm og fara um Tjarnarsvæðið til þess að losna við brekkuna. Svo eru aðrir sem lengja bara áfram Mýrargötu og vestur á Grandaveg um Ánanaust. Þeir fóru 12,5.

Þvílíkt hlaup! Þvílíkar hetjur! Allir voru ánægðir að hlaupi loknu, líka Biggi og Unnur. Nú er þessi árstími upp runninn að við getum verið úti á stétt og teygt og talað og andað að okkur hreinu vorloftinu, og skrafað um allt sem okkur dettur í hug.

Eðlilega var Sahara-hlaup mjög í brennidepli í potti og Ágúst þráspurður um hvort hann hefði örugglega allt með sem hann þyrfti: ferðaklósett, klósettpappír, dýnu, svefnpoka, tæki til að draga út sporðdreka, prímus til að elda leðurblökur, en Ágúst varðist fimlega og sagðist vera með allt sem hann þyrfti. Hann þyrfti að drekka 7 l af vatni á dag og elda upp úr tveimur í viðbót. Viðstöddum bent á að fylgjast með hlaupinu af vefsíðu Ágústs. Hann verður svo í sambandi við frú Ólöfu daglega gegnum tölvupóst og fáum við að fylgjast með fréttum.

Síðan tók við nördastund. Fyrst kom einhver mólekúlfyrirlestur og vangaveltur um vatnsdropa á gleraugum prófessorsins. Svo fór Birgir á flug og hóf að segja frá afrekum sínum á óperusviðinu. Ingi kom stuttu síðar og þeir náðu vel saman að segja frá kirkjukór Neskirkju og Óperukórnum og Aidu og því dæmi öllu. Á meðan hallaði Bjarni höfði og var hugsi. Ritari hugsaði sem svo: mikið erum við Bjarni menningarlausir, ekki syngjum við með kórum! Nei, þá lyftir Bjarni höfði og upplýsir viðstadda um að hann hafi sungið með karlakórnum Stefni í Mosfellshreppi í 20 ár. Flytur svo langa tölu um kvikmyndina Karlakórinn Hekla, sem mun að mestu byggð á sögum af ferli Stefnis.

Þannig lauk samveru í potti þetta kvöldið, ekkert einsdæmi, en sannarlega gefandi samvera með góðum félögum.


Manni á að líða vel – ekki illa

Miðvikudagur – langt. Ekki skemur en inn að Elliðaám var sagt. Mættir heldur færri en s.l. mánudag, en þó margir af máttarstólpum Samtaka Vorra. Má þar nefna próf. Fróða, Flosa, Magnús Júlíus og Jörund.  Björn mættur með soninn sem átti að bíða í Lauginni meðan faðirinn hlypi og virtist ekki lítast meira en svo á þá ráðagjörð. Prófessorinn að prófa nýja drykki sem sponsorarnir dæla í hann.

Uppi hugmyndir um Stokk. Aðrir hlynntir Þriggjabrúahlaupi. Kári mættur og bara sprækur fyrstu ca. 50 metrana, en svo fór að draga af honum. Þéttur hópur í góðu veðri á Sólrúnarbraut alla leið inn í Nauthólsvík, þar viku fyrstu af leið og fóru Hlíðarfót. Aðrir áfram og sást Flosi fara fyrir fylkingunni. Það er nú svo merkilegt með það að hlutskipti ritara virðist vera einsemdin. Maður lendir á eftir fremstu hlaupurum, en á undan þeim sem aftar fara. Þannig fór ég einn frá flugvelli eða þar um bil yfir Kringlumýrarbraut og upp hjá Spítala.

Við brúna yfir Miklubraut náði Jörundur mér og var það ágætt. Við ræddum ýmis þörf málefni, svo sem atvinnuástandið, málefni eftirlaunaþega, hlaup og utanlandsferðir. Jörundur masar og masar og maður gleymir stað og stund, sem gerir hlaupið bærilegra. Hann sagðist vel geta náð fremsta fólki með því að bæta aðeins í, en mönnum ætti að líða vel á hlaupum og ekki vera að spenna sig umfram vellíðunarstuðulinn. Fólkinu sem fremst færi liði illa. Ég var sammála Jörundi og var ekkert að spenna mig.

Fórum Mýrargötu og Ægisgötu, sem nú orðið heitir Minningarhlaup Vilhjálms. Maður var orðinn svolítið þrekaður undir lokin, en aðrir hlauparar voru bara léttir, einnig þeir sem fóru Stokk. Blómasalinn mætti í pott og var skömmustulegur. Kannski fer þetta að verða bærilegra, árangur og framfarir að nást og ístra að minnka. Menn höfðu á orði að hér áður fyrr hefðu eingöngu karlar hlaupið með Hlaupasamtökunum, nú væri fullt af ungum og grönnum konum sem hlaupa hratt og ekki nokkur leið er að halda í við. Er eitthvert réttlæti í því?

Dagurinn fullkomnaður með góðum sigri á Makedónum í handbolta.


Metþátttaka á mánudegi

Einhver taldi 26 þátttakendur í hlaupi dagsins hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, og þegar þeir eru taldir sem ekki voru með í dag kemur í ljós að hátt í 40 manns hlaupa að staðaldri með Samtökum Vorum.  Þarna mátti bera kennzl á gamalkunna hlaupara eins og Jörund og próf. Fróða, dr. Friðrik, Kalla kokk og Sigurð Ingvarss., en svo voru líka yngri hlauparar sem eiga framtíð í hlaupum.

Það var rætt um lögin sem munu fylgja próf. Fróða í Sahara-hlaupinu, fyrir utan Þrjú tonn af sandi. Jörundur mælti með I´m just a lonely boy, lonely and blue, og svo Love letters in the sand (Pat Boone).

Þjálfarar báðir mættir og bara sprækir. Leiðarlýsing gefin út, Skítastöð og eitthvað óvænt eftir það. Mikið hlýtur það að vera tilkomumikil sjón að sjá er Hlaupasamtökin leggja upp í hlaup og eru svo fjölmenn sem í dag! Gaman væri að vera farþegi í bíl á Hofsvallagötunni þegar lagt er upp í hlaup, en samt er skemmtilegra að vera stoltur þátttakandi og hreyfa sig í góða veðrinu í stað þess að sitja á afturendanum í bíl og hugsa um hlaup.

Nú er vorið á næsta leiti og veðrið verður bara betra. Þá fara menn að lengja. Áður en langt um líður fara að skjóta upp kollinum kennileiti í pistlum ritara eins og Stíbbla, Kársnes, Sundlaug, Dalur – þá verður gaman!

Það var sumsé farið út að Skítastöð, þar skiptist hópurinn, Magnús og Þorvaldur fóru austurúr ásamt einhverjum fleirum, aðrir fóru á Nesið og tóku kílómetraþéttinga þar. Ritari fór austurúr og lauk við Hliðarfót.

Rætt í potti um Vesturfara og ferðir þeirra á 19du öld, nú eru horfur á endurtekningu. Rifjaðar upp ættir Flosa og Ólafs Grétars í Vesturheimi, en langafi þeirra flutti vestur 1888. „Eigið þið sama langafa?“ spurði Hjálmar. „Já, við eigum líka sama pabba og sömu mömmu,“ svöruðum við. „Á, þanninn!“ Kári átti sem oftar gullkorn dagsins: „Verður amma í kvöldmat?“ spurði sonurinn Kjartan Almar í gær. „Nei, lasagna,“ sagði Kári án þess að blikna. Björn kokkur sá sér leik á borði að vera fyndinn í vinnunni næstu daga.


Kalt

Ekki var það nú björgulegt þegar ritari vaknaði að morgni þessa sunnudags. Úti blés norðanáttin og við það minnkaði til muna löngunin til þess að fara út að hlaupa. En hafandi í huga það einkenni félaga í Hlaupasamtökunum að eftir því sem veður er verra - þeim mun meiri er löngunin til að mæta á svæðið, reima á sig skóna og fara út að skokka. Ritari harkaði af sér, tók saman gírið og dreif sig af stað. Sem var eins gott, því ekki færri en fjórir hlauparar aðrir mættu: Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og Jörundur. Enginn hafði orð á því að veður væri óhagstætt  - enda brýnni málefni sem biðu krufningar. Menn mundu að óska foringja sínum til hamingju með afmælið.

Í Brottfararsal áttu tal saman Pétur óháði Þorsteinsson og Jörundur, þó ekki um andleg málefni. Nei, þeir áttu spjall um skatta. Jörundur sagðist borga skattana sína með glöðu geði. Ritari skaut því inn að skattar væru nauðsynlegir til þess að greiða ríkisstarfsmönnum dagpeninga. Hér kom hann inn á viðkvæmt málefni, því að dagpeningar ríkisstarfsmanna eru sameiginlegt áhyggjuefni Jörundar og Péturs. Hins vegar glöddust þeir innilega yfir því að búið væri að lækka dagpeninga ríkisstarfsmanna um 10%. Ritari var ósammála.

Það voru niðurstöður forvala stjórnmálaflokkanna sem einna helzt voru til greiningar, þar sem jafnréttisbaráttan virðist hafa snúist upp í andstæðu sína. Konur raða sér víðast hvar í efstu sæti, en þurfa svo að víkja fyrir karlaræflunum sem enginn vill hafa í efstu sætum. Athygli vekur slök útkoma Kollu hjá VG í Reykjavik, svo og Einars Más Sigurðarsonar hjá Samfó á Austurlandi. Ræddir möguleikar nýrra framboða og hvers væri að vænta af þeim. Spurt var: hvað gerir Vilhjálmur?

Ólafur nýkominn af túndru og lét vel af dvöl sinni þar. Komin ný hlaupabraut nyrðra sem bíður hlaupafúsra fóta.

Hópurinn skokkaði sem leið lá um Sólrúnarbraut út í Nauthólsvík og tók lögbundið stopp þar. Sagðar sögur svo sem hefð er um. Áfram í kirkjugarð og þá leið alla eins og við gerum alltaf á sunnudögum. Ekki var tekið í mál að fara Sæbrautina í þessari átt, enda orðið tímabært að telja aftur tómu verzlunarplássin á Laugaveginum. Þau reyndust vera 29 þegar talið er frá Hlemmi niður á Ingólfstorg, og hefur fjölgað um 5 á tveimur vikum.

Kalt var í potti, svo maður kveið því að fara upp úr. Pottur þó vel mannaður þekktum fræðimönnum í Vesturbæ Lýðveldisins. Umræða úr hlaupi dagsins endurtekin nokkurn veginn orðrétt og í sömu röð. Í gvuðs friði.


Ístra á undanhaldi

Blásið hafði verið til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins föstudaginn 6. marz AD 2009. Margir af þekktustu og bezt látnu hlaupurum Samtakanna mættir, má þar nefna Gísla skólameistara, próf. Dr. Ágúst Kvaran, Flosa, Þorvald o.fl. Sérstaka athygli vakti að blómasalinn var ekki mættur, né heldur Magnús Júlíus. Aðrir sem létu sjá sig að hlaupi voru Rúna og Brynja, dr. Jóhanna, Friðrik í Melabúðinni. Björn, Birgir og ritari. Einnig varð vart við Önnu Birnu, en ekki víst hún hafi hlaupið beinlínis með okkur. Þorvaldur að mæta í fyrsta sinn eftir veikindi og var bara sprækur í hlaupi dagsins. Veður stillt, bjart, sólskin, hiti líklega nálægt 4 stigum, sem er kjörhitastig hlaupara, nei, hugsuða.

Raunar var svo hlýtt í veðri að ritari varð að rífa af sér balaklövu eftir nokkur hundruð metra til þess að soðna ekki og var Gísli jafnframt beðinn að skrúfa aðeins niður í hitanum. Ágúst fór að hafa áhyggjur af hitanum í Sahara og spurði hvað Gísli gæti gert fyrir sig í þeim efnum. Var vel tekið í að skoða kostina í stöðunni.  Í tilefni þess að það var föstudagur var ákveðið að fara hægt og njóta hlaups, enda lægi ekkert á. Til þess að undirstrika þessa stefnu tóku Björn og Birgir strikið á undan öllum öðrum og voru horfnir fljótlega. Birgir þessi hefur tekið upp notkun á nýrri tegund af lækningaplástri, sem heitir LifeWire eða eitthvað í þá veruna. Plásturinn er án virkra efna, en hefur reynst honum vel í baráttu hans við feimni og lágan raddstyrk.

Við förum þetta í rólegheitunum og allt lítur þetta vel út, en svo er það segin saga, það er eins og fjandinn hlaupi í Gamalíel og menn eru óðara farnir að þeysa þetta á 5+ tempói. Það voru þessir sömu vandræðamenn sem stóðu fyrir látunum, Friðrik Fyrsti, Ágúst, Bjössi o.fl. Við Nauthólsvík voru þeir horfnir manni, ég fór með Þorvaldi upp Hi-Lux og þar var náttúrlega sami dónaskapur í gangi sem maður hefur vanist gegnum tíðina, menn að reykja sígarettur og annað eftir því. Brekkan var alveg þolanleg og merkilegt hvað maður er sprækur, en þeim mun mikilvægara að hafa einhvern með sér sem keyrir upp hraðann og pískar mann áfram. Mér fannst einkennilegt að sjá ekki til neinna hlaupara í brekkunni upp Öskjuhlíðina, þar hefði alla vega einn nafnkunnur hlaupari átt að vera.

Það er ekki fyrr en á Klambratúni að Flosi dúkkar upp að baki okkur og hafði ætlað að stytta, en óvart lent í því að lengja í staðinn. Því var hann þarna kominn, en hafði verið á undan okkur fram að því. Við héldum síðan áfram hefðbundið um Rauðarárstíg. Hver stendur ekki utan dyra við Galleríið nema sjálfastur Vilhjálmur Bjarnason, hlaupari og listunnandi úr Garðabæ? Hann tekur okkur vel og  er hinn vinsamlegasti í viðmóti. Bauð okkur inn á listsýningu, en við báðumst undan menningu í þetta skiptið, e.t.v. seinna.

Svo var tekin stefnan á Sæbraut, annað ekki í myndinni þegar veðrið er svona fallegt.  Á móts við gamla útvarpshúsið varð á vegi okkar viðskiptaráðherra, sem skrúfaði niður rúðuna á ráðherrabílnum og kallaði hvatningarorð til okkar. Við horn þess sama húss var svo dómsmálaráðherra rétt búin að keyra yfir okkur, en hún tengist Samtökunum óbeint bæði með búsetu í Vesturbæ og með viðkomu í Hagaskóla, er tengdadóttir Björns Jónssonar, skólastjóra þar um árabil. Við sluppum lífs frá þessum ráðherrum báðum og héldum sem leið lá gegnum bæinn og upp Ægisgötu á góðum hraða. Mér skilst meðaltempó hafi verið 5:30 eða því sem næst.

Er komið var til Brottfararsalar var fólk þá þegar búið að skila sér, Biggi og Jóhanna höfðu lengt gegnum bæinn og meðfram Tjörnum. Ágúst líklega lengt eitthvað enn meira. Í pott mætti svo Kári óhlaupinn, ræntur skynsemi fyrr um daginn með snittum og rauðvíni. Einnig Denni af Nesi, farinn í baki. Pottur svíkur aldrei, mikið rætt um áfengi, kokkteilblöndur og annað uppbyggilegt. Þegar við helztu drengirnir erum svo að klæða okkur í útiklefa rekst þar inn kunnugleg persóna, fyrrnefndur blómasali, einnig óhlaupinn, en ber því við að hann hafi þurft að hesthúsa heila nautalund í hádeginu og drekka kynstrin af rauðvíni með. Hann ætlaði hins vegar að taka sig á og hlaupa á laugardeginum. Sætti hann þungum ummælum af hálfu félaga sinna, einkum þar sem hann  hafði ætlað að lauma sér í pott óhlaupinn í trausti þess að við værum farnir. Í lokin var svo stigið á vigt og staðfest að hlaupin eru að skila árangri, ístran á undanhaldi, kílóunum fer fækkandi, en kílómetrunum fer fjölgandi.

Enginn Fyrsti Föstudagur, en athugað verður næsta föstudag með samkomuhald.

 Hátíðarhlaup sunnudaginn 8. marz 2009. Vel mætt og stundvíslega kl. 10:10.  Ritari


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband