Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Horn í Hólavallakirkjugarði

Það er farið að kula af hausti og því tímabært að fara að huga að skjólfatnaði á hlaupum. Tími stuttbuxna senn liðinn. Mætt til hlaupa: Maggi, Flosi, Þorvaldur, Kalli, skrifari, Gummi, dr. Jóhanna, Benzinn, Kári og Ragnar. Engin sérstök áform, bara hlaupið beint af augum. Rólega. Skrifari þungur á sér, og þeir voru fleiri þungir á sér í hlaupi dagsins og enginn skilinn eftir.

Hlaupið hefðbundið um Ægisíðu og í Skerjafjörð, Ragnar, Gummi og dr. Jóhanna greinilega á hraðferð, Þorvaldur í sveppaleit, við hinir á góðum nótum. Við Flugbraut mættum við Formanni til Lífstíðar á vesturleið. Hann kvaðst hafa hlaupið inn að kirkjugarði. Einhver spurði hvort hann væri að líta eftir reitnum sínum. Hér þótti Formanni. "Legupláss í Fossvogi! Þvílíkt og annað eins." Skrifari útskýrði að Formaður ætti sinn öruggan hvílustað í Hólavallagarði. Nú gerðust menn dreymnir á svip og e-m varð á orði að e.t.v. ætti það fyrir okkur að liggja að halda undir horn á kistu í Hólavallagarði. Tilhugsunin gaf okkur aukinn kraft og þrek til þess að halda áfram hlaupi.

Fimm hlauparar sameinuðust í Nauthólsvík: Flosi, Benzinn, Maggi, Kalli og skrifari. Héldum hópinn eftir þetta, fórum Hlíðarfót með Laufássafbrigði og gott betur. Maggi átti erindi við séra Friðrik á Hlíðarenda, en náði okkur með góðum spretti á brú yfir Hringbraut. Þaðan var hlaupið upp á Laufásveg þar sem beið lögreglufylgdin sem vakir yfir velferð forsætisráðherra Dana. Lokaðar götur, en þó glaðbeittir þjónar réttvísinnar sem mættu okkur. Við niður Bragagötu og svo inn Fjólugötu, þaðan um Hallargarð og Fríkirkjuveg. Gleymdum að stoppa við Fríkirkjuna, en gerðum þóknanlegan stanz hjá Dómkirkju með tilheyrandi signingum. Kirkjustræti og upp Túngötu. Aftur stoppað hjá Kristskirkju og seremónían endurtekin þar.

Svo var það nú bara hefðbundið niður Hofsvallagötu og tilbaka. Eiginlega orðið of kalt úti til að teygja, svo menn héldu í Pott. Þangað kom maður sem stríðir við óútskýrða þyngdaraukningu, en hefur góð ráð að bjóða öðrum sem kljást við sama vanda. Kvaðst hafa hlaupið með Kára, hvað Kári staðfesti. Rætt um túristakonuna sem hvarf og fór að leita að sjálfri sér.


Hlaupið í regni á Nes

Hefðbundið föstudagshlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi, mætt dr. Jóhanna, Jörundur, Þorvaldur, Bjarni Benz, skrifari og Maggi. Þegar leið að hlaupi brast á með hellirigningu svo að brottför tafðist og von kviknaði um að Einar blómasali myndi ná hlaupi. Tvær grímur runnu á Magga, sem ýmist er maður eða mús. Hann varð mús, snöri við og kvaðst ætla að synda. Aðrir stóðu í Brottfararsal og biðu þess að rigningu linnti. Á endanum var tekið af skarið og lagst í hlaup, við myndum hvort eð er blotna við það að fara í sjó, eins og ráðgert hafði verið.

Við fimm töltum þetta upp á Víðirmel og þaðan vestur úr niður í Ánanaust, farið hægt og haldið hópinn. Reim losnaði hjá Benzinum, en honum var gefið ráðrúm til að binda fast. Áfram meðfram ströndinni og rætt um maraþon sem hópurinn gæti farið sameiginlega í, Amsterdam, Munchen á næsta ári, og þannig. Jörundur er hvatamaður þess að menn setji sér markmið og fari saman í hlaup, hvað menn athugi.

Bjarni í miklum hug og skildi okkur hin eftir. Gerði þó stanz við hákarlaskúr og beið eftir okkur hinum. Saman fórum við svo hjá Gróttu og á Nes. Farið niður í fjöru og skellt sér í sjóinn, utan hvað Jörundur hélt áfram og fór fyrir golfvöll. Við hin, þ.m.t. Þorvaldur, slökuðum á í svalri Atlanzöldunni, og skolað af fótum á eftir í pollum sem myndast höfðu á steinum í rigningunni.

Haldið áfram, en farið hægt og nutum við þess að það var föstudagur og lok vinnuviku, allt í lagi að vera hægur. Fórum um hefðbundnar slóðir á Nesi, Lambastaðabraut og það dæmi allt, niður hjá og fram hjá Flosaskjóli, þar sem húsráðendur eru í óða önn að raða búslóð í gám fyrir flutning að Laufási. Við áfram, en Þorvaldur dokaði við og hóf að tína sveppi.

Er komið var í Pott kom þangað kunnuglegt andlit, prof. dr. Ágúst Kvaran með kút sem hjálpar honum að "hlaupa" í vatni. Hann reyndi að sannfæra okkur um að hlaupnir kílómetrar í vatni væru þrítugfaldir kílómetrar í hlaupi á hefðbundnum hlaupastíg. Hann var gerður afturreka með þá kenningu. Rætt um slysið og hvað hefði eiginlega gerst, hversu stór var steinvalan sem hann hjólaði á, var þetta stórgrýti eða steinvala, hjólaði hann á hana eða varð hann bara hræddur, paníkeraði og snarhemlaði með fyrrgreindum afleiðingum? Prófessorinn kvartaði yfir því að menn væru ekkert breyttir og sama andstyggilega eineltið í gangi. Okkur hlýnaði um hjartarætur að heyra þessi orð. Ákveðið að hann myndi mæta í reglulegt hlaup að nýju mánudaginn 10. september nk. - og fara Aumingja. Góður undirbúningur fyrir Reykjafellshlaup 15. september.


"This fat guy in the red shirt in front of us is amazingly fast!" (á áströlsku)

Nýjasti hlaupavinur Samtaka Vorra er frá Ástralíu og heitir Robin. Hún hefur hlaupið að undanförnu með Maggie, en mætti í dag til þess að fara einn hring með hópi sem hún hafði fundið á Netinu. Kvaðst mundu fara á rólegu tempói og þáði samfylgd skrifara. Aðrir mættir: Maggie, Flosi, Benzinn, Maggi, René (í fyrsta skipti í 6 mánuði), dr. Jóhanna, Kári, Einar blómasali og Gummi Löve. Veður gott, 18 stiga hiti, léttskýjað og hreyfði varla vind.

Allnokkur bið á Plani eins og venjulega eftir blómasala, eins var einhver vandræðagangur á Maggie og hún hlaupandi út og inn eftir e-m óskilgreindum varningi. Loks silaðist hópurinn af stað og fór rólega, héldum hópinn ótrúlega lengi. Hefðbundnir hraðfarar fremstir og fóru að setja upp tempóið, þá Maggi, Benzinn og blómasalinn, loks skrifari og Robin. Ég útskýrði fyrir henni hugmyndafræði Samtakanna, þar hlypi saman fólk af ýmsum stærðum og þykkleikum og ekki allir sem eltust við tímann. Tók dæmi af sjálfum mér og blómasalanum. Þessu samsinnti hún og bætti við: "Yes, the fat guy in the red shirt in front of us is amazingly fast." Skrifari áréttaði að það gæti virst svo nú, "...but soon he will be like a popped balloon and begging us not to go so fast". Hvað kom á daginn.

Tempóið var frekar hratt út, ekkert 6 mínútna tempó eins og ég hafði lofað, líklega nær því að vera 5:30. En ég á ekki klukku eins og þau hin og því er þetta ekki bundið vísindalegri nákvæmni, nógu nákvæmt þó fyrir máladeildarstúdent úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Við töltum þetta sumsé og ræddum hlaup á hinum ýmsu stöðum, ég sagði frá Holtavörðuheiðarhlaupi og Reykjafellshlaupi, en hún frá hlaupum hinum megin á hnettinum, í Malasíu og Ástralíu. Alls staðar hleypur fólk og ekki er betri leið til þess að kynnast landi og fólkinu sem þar býr en reima á sig skóna og leggja braut undir sóla í glaðra sveina og meyja hópi.

Fyrr en varði var komið í Nauthólsvík og þá voru þau fremstu horfin okkur, dr. Jóhanna, Gummi og Maggie og var það álit manna að þau hefðu ætlað að fara 18 km, trúlega á Kársnes. Dró saman með öðrum, utan hvað Kári og Robin fóru Hlíðarfót. Aðrir settu stefnuna á Þriggjabrúa. Fremstir fóru Bjarni og Maggi, svo Flosi og blómasalinn - og loks rak skrifari lestina. En það átti eftir að breytast.

Á Flönum kom þessi tilfinning yfir skrifara, að brátt yrði hlaupi lokið, þar sem Boggabrekka nálgaðist og þá væri bara heimleiðin eftir, að vísu yfir Veðurstofuhálendið. Yfir brú á Reykjanesbraut og svo lagt á brattann. Þá kom það fram sem skrifari hafði spáð fyrr í hlaupinu, að blómasalinn yrði ekki svo brattur allt hlaupið. Hann hætti að hlaupa og fór að ganga, meðan skrifari dró á hann og dró hann raunar uppi. Eftir þetta kjagaði hann upp brekku hálfskælandi og bað um að það yrði gengið er upp væri komið. Þá voru þeir Maggi og Benzinn löngu horfnir í síðsumarmóðuna.

Það sem eftir lifði hlaups héldum við þrír nokkurn veginn hópinn, blómasali, gamli barnakennarinn og skrifarinn, þótt stundum yrði vík milli vina. Þannig skildu þeir mig eftir hjá Kringlunni, en ég náði þeim aftur þegar komið var á Sæbraut. Þá byrjaði blómasalinn aftur að rifja upp hefðir frá sunnudagshlaupum um staði þar sem er gengið. Hann gerðist lýrískur og horfði til Esjunnar og bað okkur um að aðgæta hvort þar væri snjóskafl að sjá. Svo var ekki. Hann varð allur upplyftur af þessu og lagði til að fyrirsögnin á pistli kvöldsins yrði í þeim anda, enginn snjór í Esju. Skrifari kvaðst nú þegar vera kominn með annan betri.

Það var Sæbrautin, með hefðbundnu stoppi við drykkjarfont, svo áfram hjá Hörpu, þar var rifjað upp að hefð var um göngu. Þar dúkkaði Helmut upp á reiðhjóli, með kjapt, kvaðst vera ríkisstarfsmaður og þurfa að vinna. Skrifari kannaðist ekki við þessa kröfu og þótti hún tortryggileg. Loks þreytt hlaup að Verbúðum og gengið. Hlaupið upp Ægisgötu, pottlok af við Kristskirkju og hneigt sig fyrir nunnu sem gekk heim frá tíðum. Einar kunni sig ekki og tók ekki ofan húfu. Suma vantar allar andlegar þenkingar um hjálpræðið. Nú var ekki annað eftir en skokka niður Hofsvallagötu og klára þetta. Við Hringbraut kom barnakennarinn á fullu stími og fór á svigi yfir götuna móti rauðu ljósi sem Þorvaldur Gunnlaugsson hefði verið stoltur af. Teygt á Plani og Pottur. Á Plani voru Benzinn og Maggi. Þeir voru báðir á undan okkur hinum og við drykkjarfont á Sæbraut skildi Maggi Benzinn eftir og dró ekki saman með þeim fyrr en við Sólfar. Maggi kvaðst vera lakasti hlaupari Samtaka Vorra og þótti okkur hinum það kyndugt, skilja okkur hina eftir í hitamóðu og lýsa svo yfir aumingjaskap í lok hlaups á Plani. Af hverju ekki bara að halda sig við "fögur er fjallasýnin"?

Í Potti var Kári og Helmut óhlaupinn. Við inntum Kára eftir samræðum þeirra Robin. Jú, manneskjan var hin geðþekkasta, margt rætt og skrafað um lönd og þjóðerni. Robin kvaðst hafa heyrt að munurinn á Íslandi og útlöndum væri að í útlöndum mætti gera ráð fyrir að í hópi sem teldi tylft kvenna mætti finna ellefu ljótar og eina fallega, en í samsvarandi hópi á Íslandi mætti finna ellefu fallegar og eina ljóta. "Já, þetta er rétt," sagði Kári, "og ég veit hver hún er, hún er hollensk." Þetta var Kári dagsins, fullkomnaði hlaup.


Suðurhlíð með Laufássafbrigði

Fyrstir í Útiklefa: Þorvaldur og skrifari. Skipst á ónotum. Svo bættust fleiri í hópinn, Kári, Benzinn, gamli barnakennarinn í Brottfararsal. Þangað komu einnig Maggi og Jörundur, dr. Jóhanna, Gummi og Ragnar. Um það bil sem lagt var upp kom Frikki Meló. Einhverjir höfðu hlaupið um helgina og ætluðu stutt og hægt, aðrir voru bara daprir og ætluðu líka stutt. Bjarni var afmælisbarn dagsins.

Skrifari fylgdi Jörundi sem "dó" að eigin sögn í maraþonhlaupi laugardagsins. Við fórum afar hægt út, en ekki langt undan voru Bjarni, Þorvaldur og Maggi. Rætt um úrslit maraþonsins, það þarf að hringja í Arnar og fá Guðmundarbikarinn til áletrunar að nýju, blása svo til lítillar athafnar einhvern hlaupadaginn og fá jafnvel Kára Stein til þess að taka sprett með okkur. Svona gengu samræðurnar meðan við fórum fetið í Skerjafjörðinn.

Rætt um skófatnað og mikilvægi þess að þungir menn hlypu á góðum skóm. Við fórum fram úr Kára. Þorvaldur týndist. Nú voru hinir fremstu 400 m fyrir framan okkur. Í Nauthólsvík beygðu þeir af, Maggi, Þorvaldur, Jörundur - og Frikki sem hafði náð okkur til þess eins að fara Hlíðarfót. Við Bjarni héldum áfram og tókum Suðurhlíð. Alltaf gleði að taka brekkuna í einum spretti upp að Perlu. Pústað út þar efra og stefnan sett á Stokk. Bjarni lagði til afbrigði, fara upp hjá Kennarahúsi og inn Laufásveginn.

Þetta reyndist mikið heillaráð, hlaupið um fagra götu skreytta trjám í görðum, beygt niður Bragagötu og staldrað við hjá húsinu Laufási, byggðu 1896. Þar sáum við fyrir okkur í hillingum dúkað borð úti á stétt, þakið glösum fylltum hvers kyns aldinsafa og öli, gæti sem bezt verið eitthvert föstudagseftirmiðdegið á lokakafla föstudagshlaups. Niður Bragagötuna og gegnum Hljómskálagarðinn og yfir hjá Þjóðminjasafni. Þar varð á vegi skrifara jeppabifreið og sköllótt höfuð sem stóð út um glugga og öskraði: "Komaso!" Reyndist höfuðið sitja á jógabúk.

Býsna gott hlaup hjá okkur Bjarna og vorum við vel sveittir er komið var á Plan. Þar var teygt vel og lengi og skrafað. Pottur vel skipaður og sunginn afmælissöngur fyrir afmælisbarnið.


Blíðlyndi, hæglæti og hógværð

Fáir hafa komizt betur að orði en Pétur Zophoníasson ættfræðingur er hann lýsir langömmu Formanns til Lífstíðar, Valgerði Ólafsdóttur, bæjarfulltrúa og fátækrafulltrúa í Reykjavík, Ólafssonar, búsetts í Lækjarkoti, fæddrar 1. jan. 1858 í Viðey, er seinna var gefin Þorsteini Tómassyni járnsmið, hverra sonur var Ólafur Þorsteinsson, háls-, nef- og eyrnalæknir, afi Formanns. Hún fékk þessa umsögn hjá Pétri: "Hún var blíðlynd, hæglát og hógvær." Efast menn um hvaðan Formanni er komið upplag og geðslag? Ellegar tenging við Viðey, þar sem Hlaupasamtökin héldu eftirminnilega árshátíð sína á liðnu vori?

Jæja, tilefnið var hlaup á fögrum föstudegi í ágúst, degi fyrir Þonið. Þá mættu helztu syndaselir Samtakanna til hlaups. Þetta voru Bjarni Benz, Þorvaldur, Helmut, Flosi, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Ákveðið hafði verið á rafrænum sýndarfundi um morguninn að hlaupa á Nes og fara í sjó. Ekki var breyttur ásetningur manna. Það eina sem var breytt var að Biggi var ekki mættur. En það var hluti af attraksjóninni að fara með Bigga í sjóinn. Við lögðum upp léttir og kátir í bragði.

Létt skokk upp á Víðirmel, þaðan vestur úr og niður í Ánanaust. Þar blés eilítið og við héldum á Nes. Ekki höfðum við lengi farið er við mættum hlaupara á grænum sokkum. Það reyndist vera Karl G. Kristinsson og slóst hann í för með okkur. Stuttu síðar mættum við svo þeim Nesverjum, Denna og Kristjáni, þeir vildu ekki fylgja okkur svo að við létum þá sigla sinn sjó. Helmut sá sel í sjónum og gátum við hinir staðfest að ekki var um missýningu að ræða. Selurinn sækir í makrílinn sem syndir um allan sjó á Höfuðborgarsvæðinu og verður helzt að lemja aftur niður í sjóinn til þess að fá frið fyrir honum. Makríllinn var mjög ágengur í morgun er Helmut og Jóhanna fóru í sjó í Bakkatjörn.

Það var tekið á því hjá Gróttu og alla leið út að baðstað. Flosi á hjóli þar sem hann ætlar að hlaupa á morgun. Við skelltum okkur í hásjávaða ölduna, Helmut, Flosi, Benzinn, blómasali og skrifari. Aldan var há og yndislegt að skoppa upp og niður eins og korktappi. En alltaf sama vesenið þegar kemur að því að þurrka sand af fótum og fara í sokka og skó.

Haldið áfram og farið hefðbundið. Blómasalinn með einhvern rembing og þeyttist fram úr okkur, við hinir tiltölulega rólegir. Við Helmut og Benz fórum niður í skjólin, en blómasalinn stytti. Allir hittumst við þó á Plani og teygðum saman. Pottur stuttur - mönnum er falin sú sýsla að annast matargerð á heimilum sínum.

Á morgun er Reykjavíkurmaraþon, þá verðum við nokkrir á ferð og fylgjumst með okkar fólki: S. Ingvarssyni, Jörundi, Snorra, Magano, Pétri, Bigga, Unni, Flosa - og hverjum þeim sem hlaupa í nafni Samtaka Vorra. Gott gengi!


Hlaupasamtökin að rísa úr ösku

Í morgun sté þekktur blómasali í Vesturbænum á stokk í Útiklefa og lýsti yfir því að nú yrði farinn Þriggjabrúahringur og ekki feti skemur og mætti hann ella hundur heita! Blómasali þessi er einn af þeim félögum Hlaupasamtakanna sem kljást við illviðráðanlega og óútskýrða þyngdaraukningu sem torveldar árangursrík hlaup. Skrifari tilheyrir sama þjóðfélagshópi. Saman hafa þeir reynt að horfast í augu við vandann og finna lausn við honum, en baráttan virðist vera fyrirfram töpuð. Þó er baráttuhugur þeirra óbugaður og áfram skal reynt að berjast við umframkílóin.

Þegar skrifari mætti til hlaups í dag var það því með eftirvæntingu því nú skyldi tekið á því. Því voru það ákveðin vonbrigði að blómasalinn mætti ekki í hlaupið, en skýringar á því fengust í lok hlaups. Þessir voru mættir: Flosi, Helmut, Frikki, Benzinn, Kalli, Maggi, dr. Jóhanna, Gummi, skrifari og líklega einhverjir fleiri sem gleymast. Þannig að helstu hlauparar eru farnir að flykkjast til hlaupa og héðan eftir batnar það bara.

Af meðfæddri skynsemi ákvað skrifari að fara Hlíðarfót og var fljótur að rekrútera Magga og Kalla til þeirrar ferðar, aðrir ætluðu lengra, Helmut nefndi Suðurhlíð. Sjálfsagt hafa einhverjir ætlað eitthvað lengra. Eðlilega var rætt um maraþonið hans Kára Steins í Lundúnum og sagði Kalli okkur gjörla frá því ævintýri. Hersingin silaðist af stað og voru flestir bara rólegir framan af.

Skrifari fór fetið með þeim Magga, Bjarna og Kalla. Aðrir voru fyrir framan okkur, en fóru þó ekki mjög hratt yfir. Hlýtt í veðri, 16 gráður, skýjað og algjör vindstilla. Skrifari þungur á sér og reyndi á hnén við þau skilyrði, en góð hreyfing og mikill sviti. Rætt um RM og þá staðreynd að afar fáir hlauparar í Samtökum Vorum eru skráðir til þátttöku. Sumir af þeirri prinsippástæðu að vilja ekki mylgra undir Íslandsbanka-auðvaldið, aðrir vegna þess hve verðið er orðið hátt fyrir það eitt að fá að renna 10 km skeið.

Jæja, þegar við komum í Nauthólsvík er Helmut búinn að planta sér við leiktæki og farinn að teygja á vöðvum. Maðurinn sem leiddi hópinn fimm mínútum fyrr! Qué pasa? Jæja, karlinn var yfirspenntur fyrstu kílómetrana "af því mér leið vel" eins og hann skýrði eftir á. Vellíðanin entist ekki nema tæpa fjóra kílómetra svo tóku kálfarnir yfirráðin. Þarna stóð hann sumsé og teygði meðan þau hin héldu áfram, ýmist Þriggjabrúa eða á Kársnes á 4:30.

Við aumkuðum okkur yfir Helmut og leyfðum honum að fylgja okkur Hlíðarfót. Hérna hafði Biggi bæst í hópinn og samkjaftaði ekki það sem eftir var leiðar. Við fórum Flugvallarveg, hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautina tilbaka. Hann upplýsti m.a. að hann hefði heyrt í blómasalanum fyrr um daginn og sá upplýst að hann kæmist ekki í hlaup því hann þyrfti að sigla. "Á skútu?" spurði Biggi. "Nei," sagði blómasalinn. "Á spíttbát?" spurði Biggi. "Nei," sagði blómasalinn. "Nú, ætlarðu að róa til fiskjar?" spurði Biggi. "Nei," sagði blómasalinn, "ég ætla að dóla í hafnarkjaftinum á jullu." Hér kvaðst Biggi hafa misst allt álit á blómasalanum og aumari afsökun fyrir fjarveru frá hlaupum hefði líklega ekki heyrst. Óskaði hann eftir því að fá samtalið fært til bókar.

Við mættum Kára á Plani, hann var á reiðhjóli. Hann var glaðbeittur sem endranær. Það entist ekki lengi. Einhver sagði skemmtisögu og Biggi rak upp hláturroku sem lenti í ytra eyranu á Kára og olli pirringi. Biggi kvaðst vera með reikning í innheimtu hjá blómasalanum fyrir eymslum sem hann hefði orðið fyrir af því að hjóla í sveitina til hans á afmælinu í sumar. Hann gaf upp nákvæma lýsingu á eymslum þessum, en um þau verður ekki fjallað frekar hér á þessum blöðum af virðingu fyrir fjölskyldu og vinum þess meidda.

Nú er spurt: hvað verður að kveldi RM? Munu menn koma saman og fagna?


Magano spyr: "Af hverju er hann kallaður prófessor Fróði?"

Einfalda svarið er: af því hann er prófessor. En veruleikinn er, eins og við vitum, alltaf eilítið flóknari. Tilefnið var hefðbundið hlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins frá Laug Vorri á föstudegi kl. 16:30. Valinkunnir hlauparar mættir, Flosi, Helmut, Benzinn, skrifari, Kalli, og svo Maggie okkar. Það var rigningarlegt, vindasamt, en hlýtt í veðri. Þegar hópurinn var kominn saman í Brottfararsal steðjaði skrifari út og hóf hlaup, ekki eftir neinu að bíða, ekki boðið upp á gáfumannahjal á Plani um rafrænt einelti.

Skrifari sosum sprækur framan af, en hann vissi að þau hin myndu ná honum. Furðu þótti honum þó langur tími líða þar til hann heyrði másið í Flosa og Benzinum, en Maggie stígur fram létt eins og hind og blæs ekki úr nös. Helmut ekki langt undan. Flosi og Maggie tóku forystuna í Skerjafirði og héldu lengst af, en við þrír héldum hópinn svona nokkurn veginn. Það blés á móti okkur á Ægisíðunni og ekki fyrr en við flugvöll að við fengum hlé. Eftir það var þetta ekki óbærilegt.

Í Nauthólsvík var beðið eftir okkur, Maggie kom á móti okkur og vildi hvetja til dáða. Fyrir hlaup hafði verið rætt um Hlíðarfót, en er hér var komið kom ekkert annað til greina en fara fulla porsjón. Áfram á Flanir, hjá Hofpresti þeirra Ásatrúarmanna, Hi-Lux og upp brekku. Nú voru þau hin löngu horfin, en við kjöguðum þetta áfram félagarnir. Ekki fer miklum sögum af því sem fyrir augu bar á leiðinni, það var Veðurstofa, Saung- og skák, Klambrar og annað eftir því.

Kláruðum flott hlaup á góðum tíma og í hellirigningu á Plani. Maggie spurði okkur hvað hjólastólar og göngugrindur væru að gera í Laug Vorri. Við sögðum henni að félagi okkar, prófessor Fróði, hefði verið að hjóla í Sviss, séð steinvölu á leið sinni og fyllst skelfingu, hemlað fast og flogið á hausinn. Heimfluttur væri hann farinn að sækja sundæfingar gamalmenna í SVL, kútur væri reyrður um mitti honum og hann látinn troða marvaða.

"Af hverju er hann kallaður prófessor Fróði?" spurði Maggie. Spurningar Maggiear eru beinskeyttar og ekki víst að alltaf séu svör við þeim. Við reyndum okkar besta að útskýra andlegt sem líkamlegt atgervi þessa félaga okkar sem ku mega fara að hlaupa af nýju 9. september nk. kl. 15:00. Sem er heppilegt, því að Reykjafellshlaup verður þreytt laugardaginn 15. september og ekki seinna vænna að sá gamli fari að stíga í fótinn. Frekari upplýsingar er nær dregur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband