Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Metþátttaka í velheppnuðu ÍR-hlaupi

Hlaupasamtök Lýðveldisins áttu glæsilegan hóp í Gamlárshlaupi ÍR þetta árið, ekki færri en 22 hlauparar úr okkar hópi þreyttu hlaupið og voru til fyrirmyndar. Veður var afbragðsgott, þurrt, stillt og hiti um frostmark. Þátttakendur voru yfir 1000 og var stemmningin sem aldrei fyrr. Lagt upp frá mótum Hólavallagötu og Túngötu, hlaupið ræst með flugeldi. Svo mikill var fjöldinn að maður hljóp í hópi alla leiðina og var aldrei einn.

Var til að byrja með í samfylgd við blómasalann, en fljótlega gaf hann í og hvarf. Stuttu síðar dúkkaði Helmut upp með hatt og bakpoka. Í bakpokanum geymdi hann kampavínsflösku og við belti dingluðu nokkur glös. Ég ákvað að hengja mig á hann. Það gekk nokkurn veginn fyrstu fimm kílómetrana, en svo seig hann fram úr og hvarf.

Það var hált á hlaupaleiðinni og því mátti fara varlega. Brautarvarsla var með ágætum og hressandi að fá kalt vatn að drekka á drykkjarstöð. Það var farið að draga af manni á Suðurgötu og árangurinn ekkert til að hrópa húrra fyrir er komið var í mark, en samt bærileg lok á hlaupaárinu. Ég hóf þegar brjálæðislega leit að Helmut og kampavínsflöskunni, en fann ekki. Það var farið að kólna og ég drattaðiðst heim á leið.

Ritari óskar lesendum bloggs gleðilegs nýs árs og farsældar á nýju hlaupaári.


Rólegt fyrir Gamlárshlaup

Allnokkur fjöldi hlaupara mættur til hlaups á miðvikudegi fyrir Gamlárshlaup ÍR. Margrét þjálfari albrjáluð og vildi að menn tækju á því, en skynsamir menn gengu á milli og töldu hóflegt að fara Hlíðarfót á léttu nótunum í ljósi þess að framundan væri keppnishlaup. Prófessor Fróði skimaði of alla kima og króka í leit að bandamönnum til þess að fara langt og rökstuddi það með því að "keppnishlaupið" á föstudag væri svo stutt! Honum fannst algert lágmark að fara Stokk, þrátt fyrir það illa orð sem fór af honum fyrir að skilja barnakennarann eftir einsamlan við Elliðaár sl. mánudag. Hér hlakkaði í prófessornum og hann viðurkenndi að þetta væri eitt af þessum velheppnuðu hlaupum þegar hann nær að draga velmeinandi hlaupara með sér sem lengst í austurátt og svo þegar hann er við það að leka niður er gefið í og viðkomandi hlaupari skilinn einn eftir i myrkri, kulda og hálku.

Jæja, það komu fjórir nýir hlauparar til brottfarar í dag og höfðu greinilega haft veður af tilvist Samtaka Vorra. Var þeim vel tekið sem venja er og boðið að hlaupa með okkur. Það var lagt upp á hægu nótunum í sömu vetrarblíðunni og ríkt hefur undanfarið, en í ljós kom að launhált var á stígum og mátti því fara varlega. Alltaf sama myrkrið á Ægisíðunni, en Pollýönnur hópsins bentu upp í himininn og sögðu: "Sko, sjáið þið hvað það er að birta!"  Come on! Það er 29. des. Talið við mig eftir mánuð.

Það var dólað í rólegheitum framan af, en svo var náttúrlega bara gefið í, og vakti athygli hvað blómasalinn var sprækur í dag, þrátt fyrir að hafa ekki slegið slöku við jólaborðhaldið. Ritari dróst aftur úr enda staðráðinn í að halda sig við upphaflegt prógramm um að fara rólega. Fyrir framan voru Helmut, nýbúinn að innbyrða hlaðborð á Vox, og Guðrún Harðardóttir, hlaupari á framfarabraut. Þau hin voru einhvers staðar þarna langt fyrir framan og héldu þéttu tempói.

Er komið var í Nauthólsvík sást hópurinn beygja upp Fótinn, en prófessorinn og Helmut héldu áfram út í óvissuna. Menn lýstu yfir furðu á því að maður með svona mikinn hádegisverð í belgnum skyldi treysta sér lengra. En hvað um það, Hlíðarfótur. Þar beið Guðrún eftir ritara og er greinilega smituð af ærlegheitum Helmuts og fl. að bíða eftir okkur lakari hlaupurum. Við héldum hópinn tilbaka um hornið hjá Gvuðsmönnum, Þrjár brýr á Hringbraut og hjá Háskóla. Þá leið tilbaka. Við ræddum m.a. um frönskunám við Reykjavíkur Lærða Skóla.

Nokkur hópur á Plani og sagðar bænir. Svo var pottur. Þar áttum við langt samtal við kínverskan vin okkar um núðlubúskap í Kína og mismunandi tegundir núðlna. Einnig rætt um fylliorð í mismunandi tungumálum. Svo kom Björn kokkur með Guðjón bróður sinn sem búsettur er á Kúbu og voru fluttar lofgjörðir um Fídel sem hefur ávallt verið boðinn og búinn að senda lækna til svæða þar sem þeirra er þörf, svo sem á Haíti eftir jarðskjálftann þar fyrr á árinu og til svæða í Bandaríkjunum sem urðu fyrir eyðileggingu Katarínu, New Orleans o.fl. staða.

Nú þurfa hlauparar að skrá sig í Gamlárshlaup ÍR - Hlaupasamtökin stefna að því að vera með myndarlega sveit þar. Hlaupið hefst kl. 12, en hægt er að skrá sig á Netinu. Næsta hefðbundna hlaup Hlaupasamtakanna sunnudaginn 2. jan. 2011 stundvíslega kl. 10:10 frá Vesturbæjarlaug. 


"I am from Roma..."

Gríðarlegur fjöldi hlaupara mættur á  mánudegi milli jóla og nýárs. Þeirra á meðal er ástæða til að nefna sérstaklega blómasalann og próf. Fróða, sem hafa ekki sézt lengi að hlaupum. Svo mikill var fjöldinn að það væri að æra óstöðugan að nefna hvern og einn. Verða þeir því aðeins kynntir til sögu að lögmál frásagnarinnar kalli á slíkt. Veður hreint með eindæmum gott, þurrt, stillt og hiti yfir frostmarki.

Rólega út að Skítastöð og sprettir á Nesi, þetta var dagsskipunin frá þjálfurum, sem voru báðir mættir, annar á reiðhjóli. "Má hlaupa af stað?" spurði blómasalinn ráðvilltur og horfði í kringum sig, líkt og hann þyrfti leyfi þjálfara til að leggja upp. Það var farið upp á Víðimel og sú leið í Skerjafjörðinn. Á leiðinni kom í ljós að það voru hélublettir hér og þar og ástæða til þess að fara gætilega.

Er komið var í Skerjafjörðinn héldu Flosi og Fróði áfram austur úr, Maggi og dr. Friðrik sömuleiðis, en við hin fórum vestur úr á Nes. Þar af vorum við blómasalinn og Jörundur afgerandi slakastir í dag og fórum hægt yfir, á 6 mín. tempói. Við vorum búnir að taka vel til matar okkar um jólin og var það skýringin á hægaganginum, en við vorum ánægðir að vera komnir af stað aftur og farnir að hreyfa okkur. Fórum rólega á Ægisíðunni, um Skjólin og vestur að Hagkaupum, snerum þar við og fórum niður á Norðurströnd og þá leið tilbaka. Hér var farið að planera Laugaveginn, en skráning í hann verður opnuð 5. jan n.k. og þá verða menn að vera við tölvuna! Þessir þrír ætla að skrá sig og fara með tjöld og flottheit í Mörkina. Sömuleiðis hefur flogið fyrir að vilji sé til að fara í Mývatnsmaraþon. Hvað sem öllu líður er ljóst að menn þurfa að fara að undirbúa seríösar æfingar á næstu vikum.

Jæja, það var teygt á Plani eins og venjulega. Farið í pott. Barnapottur lokaður og því farið í Örlygshöfn. Þar voru erlendir einstaklingar fyrir á fleti. Ritari teygði úr sér eins og hann er vanur að gera. Snerti víst kálfa á útlendingi, sem brást hinn versti við og bað um að vera ekki snertur. Ritari benti á að það væri óhjákvæmilegt að snerting ætti sér stað í sundlaugum á Íslandi og menn kipptu sér ekki upp við slíkt. Gestir hér mættu til að átta sig á því. Hér bætti Kári við: "When in Rome, do as the Romans do." Hér sagði hinn viðkvæmi: "I am from Roma..." og áttaði sig um leið á því að hann gæti ekki setið í potti á Íslandi og frætt innfædda og Vesturbæinga á því hvernig menn hegðuðu sér í potti í Vesturbænum. Eftir því sem fjölgaði varð snerting enn meiri og því ekki annað að gera fyrir Rómverjann en hverfa á braut.

Er komið var úr potti voru Flosi og Fróði ekki enn komnir tilbaka og því fróðlegt að vita hversu langt var hlaupið og hvert.

Næst hlaupið á miðvikudag, og svo Gamlárshlaup á Gamlársdag.


Hlaupið um jólin

Hlaupasamtök Lýðveldisins bjóða upp á hlaup um hátíðarnar sem hér segir:

Aðfangadag, stutt hlaup frá Vesturbæjarlaug kl. 9:30 (laugin lokar kl. 12:30).

Annan dag jóla (sunnudag) - hefðbundið sunnudagshlaup frá Laugardalslaug kl. 12:10 (laugin opnar kl. 12).

Vel mætt! Gleðileg jól!
ritari


Einn illyrmislegur sermón um sólskinshlaupara

Enn var spurt: hvar var blómasalinn? Hvar var prófessor Fróði? Getur verið að nístingskuldi og norðanátt hafi haldið þeim frá hlaupi í dag? Um þetta var rætt í Brottfararsal er safnast var saman til hlaupa á þessum kalda og vindasama mánudegi í versta vetrarmyrkrinu. Mætt voru: ritari, Bjarni, Bjössi, Flosi, Karl, Þorvaldur, Magnús, Melabúðar-Frikki, Rúnar, Dagný, Ósk og Jóhanna Ólafs. Ekkert plan lá fyrir um hlaup dagsins svo að menn æddu beinustu leið niður á Ægisíðu og þaðan inn í myrkrið þar sem ekki sá handa skil.

Fremstir fóru vaskleikamenn, þeir Flosi og Bjarni, og Þorvaldur blandaði sér í keppnina. Ritari náði að hanga í þeim inn að flugvelli, en þá hurfu þeir, við Þorvaldur héldum hópinn og stefndum á Hlíðarfót, þar sem Dagný náði okkur. Þau styttu síðan þvert yfir hjá Gvuðsmönnum, en við hinir fórum rétta leið fyrir hornið á Vodafone-höllinni. Síðan voru farnar Þrjár brýr á Hringbraut, að Háskóla, Háskólagöng, Háskólatorg, Aragata og svo aftur niður á Ægisíðu og þannig klárað 10 km hlaup á 55 mín, 5:30 tempó eða þar um bil.

Aldrei varð ég var við aðra hlaupara í hlaupinu og veit ekki hvað þeir gerðu, en sá þá koma tilbaka nokkru á eftir okkur slefandi af kulda og illri meðferð. Var greinilegt að Rúnar hafði pískað þá áfram og látið þá hafa fyrir hlutunum.  Teygt í Sal áður en haldið var til Potts, þar sem setið var lengi og sagðar  sögur og rifjaðir upp staðhættir á Snæfellsnesi. Þar sátu engir sólskinshlauparar, heldur hetjur sem láta ekki nístandi gadd og norðanátt tefja hlaup. Næst hlaupið á miðvikudag: þá verður það enn verra!


Laumast úr landi - ævisaga embættismanns

Er von menn spyrji: hvar er blómasalinn? Hvar er Gústi gamli á Grund? Frétzt hefur að blómasalinn hafi laumað sér úr landi án þess að mikið bæri á og ættu menn að hafa meiri áhyggjur af ferðalögum ritara. Mættir fyrstir á svæðið Björn matreiðslulistamaður, Bjarni Benzfræðingur og Ólafur ritari. Aldrei þessu vant fór bara vel á með þeim köppum og vakti það vonir um góðan og farsælan hlaupadag. Það sást til Þorvaldar, svo kom Flosi og Helmut og þá var þetta farið að verða verulega lofandi. Menn ræddu eðlilega um kosningar til Stjórnlagaþings, en að þessu sinni fóru þær umræður fram af stillingu, varfærni og virðingu fyrir skoðunum viðmælenda. Slíkt er fátítt í hópi vorum.

Svo var gengið til Brottfararsalar og þar sáust Magga, S. Ingvarsson, Ragnar, Flóki (með hund), Ósk og René á stuttbuxum. Kári var einnig mættur, en hvorki blómasalinn né Ágúst. Veður var með ágætum, 6 stiga hiti, nánast logn og færð góð. Ekki var staldrað lengi við á Plani, þangað mætti Rúnar þjálfari og hugðist ferðast áfram án hjálpartækja eins og reiðhjóls.

Það var dimmt á Ægisíðu, svo dimmt að við lá að við rækjumst á aðra vegfarendur á stígnum. En það var farið rólega og enginn asi á mannskapnum. Fyrr en komið var fyrir Skerjafjörð, þá fóru þessir vanalegu að setja upp hraðann. Ritari dróst aftur úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum, en hafði verið býsna lofandi í byrjun. Loks var svo komið að ég varð að láta mér nægja félagsskap þeirra Þorvaldar og Kára.

Þannig var kjagað áfram í Nauthólsvík. Þar biðu eftir mér þeir höfðingjar Helmut og Bjarni. Þetta líkaði mér vel. Ég hef í seinni tíð velt fyrir mér þessum æðibunugangi sem einkennir hlaupin okkar seinni misserin, þar sem við lakari hlauparar erum skildir eftir einir og megum una við eigin félagsskap langar leiðir. Það sem gefur hlaupunum gildi er félagsskapurinn og samtölin. Hérna sýndu þeir félagar að haldin eru í heiðri hin fornu gildi og enginn skilinn eftir. Því var það svo að við héldum hópinn saman Suðurhlíð og Þorvaldur bættist við.

Ritari var undarlega þungur og þreyttur í dag og eins og orkulaus. Varð að hvíla inn á milli, ganga. Upp Suðurhlíð, hjá Perlu og þar mætti ég þessum öðlingum aftur, nema Þorvaldi, sem sá greinilega ekki ástæðu til þess að taka þátt í þessu félagslega hlaupi. Við niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Tókum Þrjár brýr til þess að lengja örlítið svo að þetta aumingjalega hlaup gæti staðið undir nafni. Hjá Háskóla og tilbaka til Laugar. Teygt á Plani og rætt um einkenni hópsins, sem eru hógværð, sérhæfing, efagirni, en jafnframt þekking á eigin takmörkunum.

Pottur hefðbundinn, utan hvað Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti. Hún vill gjarnan njóta hins bezta af báðum heimum, hleypur með afburðahlaupurum, en blandar geði við skemmtilegt fólk sem hún finnur í hópi vorum. Einhverra hluta vegna barst talið að bloggi. Gat Sif þá upplýst að hún hefði fyrir þremur árum verið að velta fyrir sér Garmin málefnum, en ekki munað hvar fyrirtækið væri að finna hér á landi. Hefði hún gert það sem allir gera: gúgglað. Hún gúgglaði "Garmin". Kom þá upp setningin: "...illa þefjandi blómasali lagði frá sér Garmin úrið á stétt..." - og þá rann það upp fyrir Sif að líklega mætti óska sér meiri grandvarleika þegar ritun pistla í Samtökum Vorum er annars vegar.

Fyrsti Föstudagur: hvað gerist? Verður það Ljónið? Verður það heimilisböl hjá einhverjum í hópnum?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband