Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Líffæraverkfall við Elliðavatn

Hlaup dagsins var óhefðbundið, alla vega hvað þennan hlaupara varðar. Búið var að gefa út tilkynningu um 35 km hlaup í upptakti fyrir Reykjavíkurmaraþon. Þegar upp var staðið mættu þrír hlauparar til boðaðs hlaups. ritari, Sjúl og Birgir. Sjúl nýbúinn að fara 35 í Grímsnesinu og Birgir fús til þess að gera tilraun um mannslíkamann sem gekk út á að leiða í ljós hvað hann þyldi af hlaupum án þess að hafa orkuvökva með sér. Lagt í hann kl. 16:35, veður gott, 15 stiga hiti og léttskýjað.

Á leiðinni var aflað fregna af veizlunni miklu að Hesti í Grímsnesi um helgina hjá Sjúl og fjölskyldu. Þar hljóp semsagt Sjúl 35 km, einhverjir hjóluðu 10 km - aðrir gerðu minna. Síðan var slegið upp veislu og skemmtu menn sér vel lengi nætur.

Birgir talar mjög mikið - og hátt. Ekki gefur Sjúl honum mikið eftir, þótt á lágværari nótum sé. Ég held að nýtt samtalsmet hljóti að hafa verið sett, því að samtal féll ekki niður alla þá leið sem ég fylgdi þeim félögum, líklega eina 25 km. Við fórum hefðbundna leið inn Fossvogsdalinn, upp Elliðaárdal og að Breiðholtsbraut, þar undir og yfir í Elliðavatnshverfið. Um það leyti fór ég að finna fyrir þreytu í skrokknum og fór að hafa áhyggjur af leiðinni tilbaka. Þegar við fórum kringum vatnið byrjaði að rigna og var svalandi að fá úðann yfir sig. Tilraun Birgis gekk ágætlega og við náðum niður í Árbæjarlaug á skikkanlegu tempói. Þar splæsti Sjúl Powerade á línuna og viðurkenndi Birgir eftir á að það hefði bjargað honum að fá orkuna á þessum tímapunkti.

Við hlupum hjá félagsheimilinu hjá Rafstöðinni og sáum að verið var að sýna Dýrin í Hálsaskógi - Sjúl var með hugmynd um að við læddumst inn og kæmum inn í leikritið sem Kasper, Jesper og Jónatan úr Kardimommubænum - rifjuðum upp sönginn þeirra: Við læðumst hægt um laut og dal/og leyndar þræðum götur/á hærusekki heldur einn/en hinir bera fötur....

Er komið var í Fossvogsdalinn leyfði ég þeim að streyma áfram - ég varð að hvíla skrokkinn - einhvers konar líffæraverkfall var brostið á og líkaminn virtist ósáttur við að vera það flutningstæki sem honum er alla jafna ætlað að vera. Ég tók upp göngutakt milli þess sem ég reyndi að spretta úr spori þar til ekki varð lengra komist. Það voru vonbrigði að geta ekki lokið hlaupi á rífandi takti - og ekki gott að útskýra hvað gerðist hjá þessum hlaupara. En það verður að komast á hreint áður en lagt verður upp í heilt maraþonhlaup.

Félagar mínir voru enn í laugu er ég kom þangað - en engir aðrir hlauparar Hlaupasamtakanna og því ekki gott að vita hvað varð, ef nokkuð, úr hefðbundnu miðvikudagshlaupi.

Nú verður lagt í hann, farið á Mærudaga á Húsavík um helgina. Hlaupið í norðrinu. Kveðjur, ritari.

Heitt og sveitt

Hér í Svíþjóð eru reknar líkamsræktarstöðvar undir heitinu "Svettis" - sem á íslenzku myndi útleggjast "Svitó" - ekki heiti líklegt til þess að trekkja að frekar en rafvirkinn sem kaus að kalla fyrirtæki sitt "Rafstuð" - maður vill ógjarnan lenda í að fá rafstuð eftir að hann er búinn að véla um raflagnir heimilisins. En Svíar eru óútreiknanlegir og finnst það bara huggulegt að geta farið inn á staði sem heita Svitó og svitnað þar. En ekki held ég ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins hafi þótt huggulegur þar sem hann skeiðaði um stíga Uppsala og lækirnir fossuðu og hjöluðu niður stæltan skrokkinn í 22 stiga hita, sólskini og ládeyðu. Hér var sumsé dagurinn tekinn með látum um það bil er rifa myndaðist í augum prófessora heima á Íslandi, stefnt á langt hlaup, en óljósara með hlaupaleið. Þegar upp var staðið varð það aftur Gamla Uppsala en þó lengt um Eriksberg og Flogsta og þannig farið lengra en síðast, líklega 27-28 km - ekki 35 eins og hlaupaáætlun sagði fyrir um, en býsna gott engu að síður í þessum hita. Hlaupari var orðinn ansi þrekaður á seinni partinum og hefði ekki viljað bæta þessum 7-8 km við sem þurfti til að uppfylla áætlun.

Ég varð ekki fyrir neinu aðkasti að þessu sinni, enda vel á verði, ávallt reiðubúinn að víkja og færa mig þegar ég mætti hjólafólki. Hins vegar brá svo við nú að allir stígar voru fullir af hlaupandi fólki og var það ágæt tilbreyting. En hér tíðkast ekki að fólk kasti kveðju hvað á annað eins og regla er heima þegar hlauparar mætast. Og raunar allir njóta þegar frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, er á ferð: þá er öllum heilsað. Að ekki sé talað um Magnús J. Kristinsson, tannlækni, sem þekkir mjög marga einstaklinga sem hlauparar mæta. Nei, hér heilsast fólk ekki, engin samstaða meðal hlaupara. Og synd að hlaupari komst ekki í kalt vatn að kæla sig - en úr því verður bætt í næstu viku, þegar farið verður í sjóinn á miðvikudag.

Kærar kveðjur héðan úr Svíaríki. Ritari.

Hlaupið í Paradís

Um það leyti er prófessorar á Íslandi sneru sér til veggjar og sofnuðu vært á ný í morgun reimaði ritari á sig hlaupaskóna, opnaði útidyrnar á litlu raðhúsi í Malma Backe og dró djúpt andann - þótt aðrir sofi skal ekki vikið eitt iota frá hlaupaáætluninni. Enn var rýnt í kortið af borginni - í þetta skiptið ákveðið að leggja undir sig suðurhéröðin. Eins og áður hefur komið fram í annálum þessum er Svíþjóð paradís hlauparans, þar liggja endalausir stígar út um hvippinn og hvappinn og hægt að hlaupa af augum fram svo lengi sem þrek endist. Landið er sléttlent, veður er hagstætt þessi missirin, ekki neitt yfirmáta hlýtt, hægur vindur og svalandi ef eitthvað er.

Ég lagði sumsé í hann vel birgur af orkuvökva og í nýjum, aldeilis frábærum hlaupabuxum sem ég innhöndlaði hér í staðnum, léttar og ekki of þéttar. Hljóp þannig niður Vardsatraveg, sem er býsna langur, út að Granebergsveg og svo upp á Dag Hammarskjöldsveg - sem ég geri ráð fyrir að menn muni eftir frá því ég týndist hérna í haust í Gottsunda. Þessi túr er á að giska 16-17 km - og mátuleg upphitun fyrir langa hlaupið mitt á morgun, 35 km. Eftir er að ákveða hvaða leið verður farin en trúlega verður það blanda af þessu hlaupi og hlaupinu út í Gömlu Uppsala á miðvikudag. Fann mikinn kraft í lok hlaups í dag og greinilegt að þessi hlaupari er allur að koma til í aðdraganda maraþons.

Ég bið hlaupurum allrar blessunar, hef heyrt ávæning af fyrirætlunum um langt hlaup á morgun í Grímsnesinu og vona að sem flestir blandi sér í það. Einnig sendi ég mínar bestu kveðjur öllum sem koma til útivistar að sumarhöll Sjúl í sveitinni.

Í gvuðs friði, ritari.

Inn í skóginn - út úr honum aftur...

Um svipað leyti og syfjaðir prófessorar heima á Skerinu voru að nudda stírur úr augum í morgun lagði ykkar maður í Svíþjóð, ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins, af stað í langhlaup um skógarstíga og götur í henni Uppsala. Samkvæmt hlaupaáætlun skyldi farið langt - eitthvað um 25 km. Ég skoðaði kort af borginni fyrst og sá að það yrði metnaðarfullt að stefna á Gömlu Uppsala, hið forna höfðingjasetur Upplands, þar sem er að finna gamlar höfðingjagrafir, hauga, sem hýsa hinsta legstað höfðingja eða konunga frá 6. öld. Þar er einnig auðvelt að sjá fyrir sér senur úr henni Heimskringlu og næsta ljóst að Snorri Sturluson hefur verið þar á ferð fyrr á tíð að viða sér efni í frásögur sínar. Ég áttaði mig ekki vel á vegalengdum en sá að þetta gæti orðið langt og gott hlaup.

Leiðin olli engum vonbrigðum, hiti um 14 gráður, hálfskýjað, vindur sem kældi mann á leiðinni. Það er yndislegt að hlaupa í Uppsölum, þar eru endalausir stígar og gönguleiðir og engin hætta á að maður villist - það þarf ekki annað en skima eftir turnum dómkirkjunnar eða eftir Höllinni - þá getur maður staðsett sig. Eina hættan er að halda sig ekki réttu megin á stígunum þegar maður mætir hjólafólki, því að fátt þykir Svíum hneykslanlegra en maður, hlaupandi eða gangandi, sem heldur sig röngu megin á göngustíg. Og maður fær að heyra það ef maður lendir í þeirri reginvillu að vera vitlausu megin á stígnum. Ég reyndi því að vera réttu megin þegar ég mætti fólki og alltaf reiðubúinn að víkja.

Ég var með nægan orkuvökva með mér og í verulega góðu formi, fann að það væri ekkert annað að gera en að hlaupa. Varð hugsað til félaga minna heima, nú gætu þeir verið stoltir af sínum manni. Eina sem vantaði var kalt vatn til þess að kæla sig í og heitur pottur á eftir til að slaka á í og heyra kjaftasögur. Þótt það virðist langt á korti að fara til Gömlu Uppsala var það í raun ekki svo langt og virðist mér eftir á að þetta hafi verið góður Goldfinger, ca. 24-25 km. Ég rölti aðeins um svæðið og las á skilti - en haskaði mér svo tilbaka þegar það var orðið dumbungslegt og farið að blása. Það var ótrúlega fámennt á leiðum og fáir hlauparar, sem er merkilegt miðað við hvað það er kjörið að hlaupa um skóga og stíga við kjöraðstæður.

Fátt markvert eða frásagnarvert gerðist á leiðinni. Ég var léttur og frískur á mér, íklæddur nýjum, stuttum hlaupabuxum sem eru miklu betri en þær gömlu því að þær límdust bókstaflega á fæturna á mér og þyngdu mig. Bolurinn sömuleiðis ídeal, hleypti út miklu vatni sem flæddi frítt. Ég var farinn að þreytast á heimleiðinni en gaf mig ekki og hljóp alla leið. Næst verður farið á föstudag, ca. 15 km. Sé svo til hvort ég næ ekki 30 km. á laugardag. En hef hugsað mér að fara Elliðavatnshringinn miðvikudaginn 25. júlí í upptrappningu fyrir Reykjavíkurmaraþon - byrja snemma, kl. 16:30 og taka sjóbað á bakaleiðinni. Hafi einhverjir áhuga á þessu hlaupi er þeim frjálst að slást í hópinn.

PS - ég sendi heillaóskir þeim Einari blómasala og Önnu Birnu, sannarlega kraftaverkafólk og sómar Hlaupasamtakanna, gera okkur hinum skömm til og megum við eymingjar heita að hafa misst af Lónssundi. Nú fyrst skilur maður af hverju Einar er svona tregur til sjóbaða - sjórinn er einfaldlega ekki nógur kaldur!

Virðingarfyllst,
ritari


Afrek utandagskrár

Einar blómasali og Anna Birna konan mín, sem stundum hefur hlaupið,  tóku áskorun kvikmyndatökumanna frá  ónefndu erlendu stórfyrirtæki um að stunda sjósund í Jökulsárlóni gegn greiðslu.

P7170050


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég veit að Einari verður varla trúað í næsta hlaupi.  Því ákvað ég að birta hér myndir sem ég tók við þetta tækifæri til að sannleikurinn nái fram að ganga, en það er yfirleitt æskilegast.

P7170027

 P7170030

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7170038

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Konan mín synti einnig ítrekað, þar til leikstjórinn æpti og klappaði af hrifningu og tökum lauk.  Ég var svo upptekinn af því að vera henni  til taks, að ég steingleymdi að taka myndir af hennar afrekum meðan hún synti.


P7170049

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hafði ekki geð í mér til að segja syndurunum að ég hafði mælt hitastig lónsins  núll gráður fyrr en eftir að þrekraunum lauk, enda vita þeir sem til þekkja að  sjósund er mjög andleg iðja.

Þessi Lónssundsprettur er utan hefðbundinnar hlaupadagskrár og því ómaklegt að  skrá stig fyrir, en gjörningurinn er samt skjalaður hérmeð.

PS: Ég var sjálfur ráðinn af leikstjóra sem "Iceberg pusher", en það er sá sem  syndir út í lónið og ýtir jökum til og frá til að gera leikmyndina sem  fallegasta.  Það afrek mitt telst ekki mikið enda var ég í kajak gallanum.

Með vinsemd og virðingu,

    Kári Harðarson

 

 


Á afmæli sessunnar

Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins biður fyrir kveðju Guðs og sína héðan úr Svíaríki, daginn eftir að Viktoría krónprinsessa hefur fyllt þriðja tuginn. Hér var gott veður í gær, sól og 20 stiga hiti. Í dag er hins vegar dumbungur, þótt ekki sé kalt. Kjörveður til hlaupa enda voru skór reimaðir á fætur þessa hlaupara og hann af stað. Þeim, sem kunnugir eru í Uppsala til fróðleiks, skal upplýst að lagt var af stað  frá skógivöxnu íbúðahverfi sem heitir Malma, farið um götur sem leið liggur til Eriksberg og Flogsta, þaðan inn í miðbæ, framhjá Höllinni og út á Dag Hammarskjöldsveg og tilbaka þá leið, framhjá Botaniska. Þetta var túr upp á tæpan einn og hálfan klukkutíma á góðum Jörundartakti, sem sagt hægt. Ritara þykir gott að hlaupa í Svíþjóð og hafði á tilfinningunni að hann gæti hlaupið endalaust. En það er hundleiðinlegt að hlaupa einn, fátt sagt, engar sögur af einkennilegu fólki né nokkur ættfræði að ráði. Þess vegna er pistill með styttra móti í dag - en ég skrepp til Brussel á morgun og hleyp því ekki fyrr en á miðvikudag næst - ég ætla að reyna að komast út í Gömlu Uppsala sem er sögusvið eins kafla í Ólafs sögu helga, eins og fram hefur komið á þessum blöðum áður. Læt ykkur fylgjast með.

Góðar stundir. Ritari. 


Vindlareykingar

Þema dagsins var vindlareykingar. Vilhjálmur Bjarnason lagði línurnar þegar í upphafi þegar hann gekk að Gunnlaugi Pétri og sagði: þú ert mikill lærdómsmaður úr því að Ólafur Grétar gat kennt þér vindlareykingar á ungum aldri. Gunnlaugur kom af fjöllum og var greinilega búinn að gleyma orðræðu fyrra árs um vindlareykingar. Ég rifjaði upp fyrir honum fyrstu kynni hans af launhelgum vindlareykinga í Rottuhúsinu á Hjarðarhaga 19 einhvern tímann 1968-69 og það kviknaði dauft ljós - jú, mig rámar í eitthvað í þessa veru.

Mætt til hlaupa á þessum fagra föstudegi: Ágúst, Jörundur, Birgir, Kári, Brynja, Magnús, Rúna, Vilhjálmur, Gunnlaugur Pétur og ritari. Góður, þéttur hópur. Vilhjálmur kvaddi þegar í upphafi - og virtist sáttur við að skilja við okkur. Ágúst var ánægður með sig, hann þakkaði ritara góð orð í sinn garð, lýsti yfir því að framkoma hans s.l. miðvikudag hefði haft tilætluð áhrif, brotið hlauparann niður, lætt inn samvizkubiti og skömm og verið hvati að löngu hlaupi á fimmtudaginn. Þetta hafi verið það sem vakti fyrir þjálfaranum. Það verði enginn góður hlaupari á því að sitja heima og vorkenna sjálfum sér. Vitnaði í Nagamura. Jörundur lýsti yfir samstöðu með ritara og þakkaði honum fyrir að segja sannleikann um próf. Fróða. 

En Jörundur kom færandi með frekari upplýsingar. Hafði verið að hlusta á Úbbartið og heyrt þar kunnuglega rödd, félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, í debatt við Eyjajarl, sæúlf og útgerðarjálk, sem er nýbúinn að hirða Toyota-umboðið af fátækum Dönum. Og hvert var umræðuefnið? PÉÉNINGAR! PÉÉNINGAR! Var minnst á Hlaupasamtökin? Nei, aldeilis ekki. Var mætt til hlaupa að því loknu? Nei, aldeilis ekki. Hlauparar sem þannig hegða sér setur niður meðal félaga sinna og þurfa að bæta ráð sitt.

Geysilega stemmndur hópur, Birgir nýkominn frá Svíþjóðu, eitthvað hlaupið, en ekki skipulega ef ég skildi hann rétt. Veður eins og bezt verður á kosið - kjaftað fulllengi úti á stétt eins og menn væru ekki æstir í að fara af stað. Loks komst hreyfing á hersinguna og það var kjagað af stað. Forystu tóku Gunnlaugur, Ágúst og Ólafur ritari - og fljótlega bættist Birgir í hópinn. Við sáum ekki til hinna eftir það, nema hvað Magnús náði okkur Birgi einhvers staðar, líklega í Nauthólsvík. Einhverra hluta vegna duttum við inn í umræðu um áfengi, áfengisstefnu, aðgengi að áfengi - og fleira í þeim dúr. Upplýst að þessi umræða fari gjarnan af stað á föstudögum og virðist sem sumir hlauparar séu knúnir áfram af tilhugsuninni um bjórglasið sem bíður þeirra er heim verður komið. Sannarlega ekki íþróttamannslegt hugarfar - en svona erum við! Öðruvísi.

Það var hratt tempó á fremsta hópi, Gunnlaugur ólmur að taka sprett, Ágúst þreyttur og vildi fara hægt, við Birgir náðum að hanga í þeim, og síðar Magnús líka. Þeir komu gjarnan aftur og sóttu okkur hina lakari hlaupara. Ég færði í tal sjóbað, en fékk litlar undirtektir. Hefðbundið um Nauthól og Hi-Lux - sprettur upp brekkuna. Rætt um vindlareykingar, Birgir hafði fjárfest í Kúbuvindlum á leið til Svíþjóðar og taldi þá vera mjög til þess fallna að bæta heilsuna. Hér hafði ég dregist aftur úr og heyrði ekki hverjar undirtektir voru.  En svo gerðist það að á þessum tímapunkti fann ég fyrir auknum krafti og gat vel fylgt eftir fremstu mönnum, skeiðað um Hlíðar, Klambra, Hlemm og út á Sæbraut, þá var ég skyndilega orðinn fremstur og fékk mér að drekka vatn á vatnshana við Sæbraut. Missti af fremstu mönnum fram úr mér. Þrátt fyrir að ég hefði lagt til lengingu á Nes og sjóbað þar kusu félagar mínir að stytta um Ægisgötu - ekki skil ég hvers vegna þegar lenging er í boði. Á Sæbraut var tekið eftir manni er ók bláum Toyota jeppa, HY-060, og flautaði einhver ósköp á okkur - kunnugir töldu sig þekkja þar ónefndan blómasala sem var að koma heim úr vinnu kl. 18:30 - akandi alla leið úr Havnefjord. Mörg ljót orð um það byggðarlag féllu á þessum stað í hlaupi.

Skeiðað niður Hofsvallagötu - það angraði mig að hafa ekki komist í sjó í einhvern tíma. Var orðinn mjög heitur og sveittur. Birgir sagði: nú væri gott að komast í sjó. Ég lagði til sjóbað við Ægisíðu. Hann bar við veikindum. Þegar til Laugar var komið greip ég hjólfák minn og hjólaði niður á Ægisíðu, fann þar góða baðströnd, svipti mig klæðum og henti mér í svala Atlanzhafsölduna - þvílík tilfinning! Er tilbaka var komið kom áhyggjusvipur á próf. Fróða: hvernig ætlarðu að skrá þetta? Þú varst einn, ég var ekki á vettvangi, sjóbaðið var ekki boðað fyrirfram, engar reglur höfðu verið samþykktar... Prófessorinn klóraði sér í hausnum yfir þessu, en var greinilega mjög irriteraður yfir að menn væru að búa til nýjar sjóbaðskategóríur án þess að nokkurt samráð væri haft við hann.

Það var legið lengi í potti og rætt um málefni efnafræðilegs eðlis. Ekki tókst að efna til Fyrsta Föstudags, sem út af fyrir sig er teikn um bindindissemi félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins nú þegar menn kjósa að njóta veðurblíðu og samveru við fjölskyldu og ættmenni.

Félagar verða vítt og breitt næstu vikur, Gísli og Magnús í Noregi, ritari í Svíþjóð - pistlar munu áfram berast af afrekum  á slóðum Heimskringlu í Gömlu Uppsala þar sem Þórgnýr Þórgnýsson hélt ræðuna frægu sællar minningar til þess að fá Ólaf hinn sænska Eiríksson konung að sættast við konung Noregs, Ólaf digra Haraldsson helga.

Í gvuðs friði. Ritari, over and out.


Vandur er vinlaus maður

Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins er viðkvæm sál og auðsærð eins og félagar hans vita. Og einföld. Hann var varla lentur eftir flug frá París þegar konan segir: "Farðu nú og finndu félaga þína þó þú sleppir hlaupi í dag! Þeir verða áreiðanlega glaðir að sjá þig!" Þetta hafði mér ekki dottið í hug sjálfum, en um leið og hún sagði það sá ég að þetta var snjallræði. Þannig stóð nefnilega á að ég hafði misst mig í hreindýrakjöti í vélinni og ekki beinlínis vel upp lagður fyrir hlaup. Brá mér því á bak hjólfáki mínum og hjólaði til laugar. Þar var geysilega fríður hópur kominn út á brottfararplan, og man ég að greina frá þessum: Hauki, Magnúsi, Ólöfu Þorsteinsdóttur, Rúnu, Brynju, Jörundi, Önnu Birnu, Sjúl, Ágústi, Benedikt, dr. Friðriki, dr. Jóhönnu, Kára og Einari blómasala. Ég gerði fólki strax ljóst að ég myndi ekki hlaupa í dag, en datt niður á það óráð að gefa misvísandi skýringar á hvers vegna það væri, einum sagði ég að hlaupagírið væri óhreint, öðrum að ég hreinlega hefði ekki haft tíma til að... og varð svo óskýr í máli þannig að afgangurinn tapaðist. Ég vissi sem var að menn myndu ekki sýna ástæðum mínum skilning. Aðeins Einari blómasala sagði ég sannleikann: ég réð ekki við fíkn mína í hreindýrakjöt. Vissi sem var að hann myndi sýna mannlegum breyskleika skilning, enda er hann einstakur mannvinur og skilningsríkur.

Þar sem ég stóð við inngöngudyr Vesturbæjarlaugar og ræddi við vin minn og sálufélaga Einar blómasala leit prófessor Fróði á klukkuna sína og sagði: "Mér sýnist ritarinn vera eitthvað rólegur í tíðinni, við erum að leggja í hann..." Þegar honum svo skildist að ritarinn hygðist ekki hlaupa að sinni sagði hann: "Er ÞESSI maður að æfa fyrir maraþon?" ÞESSI var skáletrað, undirstrikað, með hástöfum og fyrirlitningu. Sjaldan hefur ritara sárnað meira orð félaga síns, nýbúinn að hlaupa ALEINN upp að Árbæjarlaug, eina 22-23 km - og með fullan hug á að byggja sig vel upp fyrir Reykjavíkurmaraþon, búinn að senda hlaupaáætlun út á allan hópinn. Nei, þá er bara reynt að brjóta mann niður með andlegu ofbeldi og einelti.

Ég lét ekki bugast, kvaddi vin minn og hélt til potts. Hitaði mig vel upp og hreinsaði mig innra sem ytra eftir erfiða daga á erlendri grund. Hitti svo Hauk og Magnús er þeir komu tilbaka. Oss hafa borist nánari lýsingar á hlaupi dagsins, svofelldar (heimild: próf. Fróði):

Ágúst fór í sjóinn ásamt Kára, konunni hans Kára, Friðriki lækni, Einari blómasala og 1/4 x Ólöfu. Þar fór fram ítarleg myndataka og heimildasöfnun um sjósundsafrek félagsmanna af hálfu Pegasus
kvikmyndafyrirtækisins fyrir erlent orkufyrirtæki. Ljóst er að frægð og frami bíður allra þeirra er "opinberuðu" sig.

Sjúl og Benedikt hirtu ekki um frægðina og skunduðu saman í "Goldfinger og 69"

Eftir sjósund hélt hópur fólks (Rúna, Brynja, dr. Jóhanna, Kári, Jörundur, Einar og Ágúst) austur Fossvogsdal. Í nánd við Víkingsheimilið skildi Ágúst við hópinn og hélt í austurveg ... Goldfinger etc. ALEINN og einmana og hélt í humátt á eftir þeim félögum Sjúl og Benna. Náði þeim í heita pottinum. Aðrir fóru Stokkinn. Vegalengd gagnasafnara var ca 25 km.

Af Sjúl og Benedikt þetta (Sjúl hefur orðið): 
Við Benedikt hlupum Goldfinger og 69. Samtals 24,5 km. Hlaupið var frekar hratt og ekkert gefið eftir, sérstaklega í byrjun. Benedikt fann eitthvað fyrir vöðvatognuninni í lærinu í byrjun hlaups og var heldur varkár, tók ekki neina þéttinga og lét mig sjá um tempóið. En semsé, við urðum strax langfremstir og misstum allt samband við hinn hluta hópsins strax á Ægisíðunni. En sem sannur meðlimur Hlaupasamtaka Lýðveldisins lét Bensi þessi meiðsl sín ekki hafa nein áhrif á sig enda fór svo að um mitt hlaup voru verkirnir horfnir og hann orðinn miklu öflugri en ég. Hann lét mig enn ráða hraðanum enda skynsemispiltur og heildartíminn varð tæpir 2 tímar og 13 mínútur sem er mjög gott miðað við fyrri hlaup mín. Við litum inn í Árbæjarlaug og Olís við Glæsibæ rétt til að skvetta í okkur smá vatni.

Ritari hafði samvizkubit yfir því að hafa ekki hlaupið á miðvikudag. Af þeim sökum mætti hann til Laugar í dag kl. 17 og reimaði á sig skóna. Hann fór einn í prýðisveðri inn að Elliðaám, í gassandi hita í Fossvogsdal, fullt af hlaupurum út um allt. Á leiðinni varð honum hugsað til þess að víða á stígum eru hjólreiðamenn og fara hratt yfir. Það virðist óvarlegt að líta svo til að reiðhjólastígar séu ætlaðir undir æfingar keppnisfólks á reiðhjólum. Þarna ægir öllu saman á sama stígnum, gangandi vegfarendum, börnum, hundum, hlaupurum og eina reglan sem gengur upp er skynsemi og tillitssemi. Það er ekki hægt að ganga út frá að þó menn haldi sig þeim megin sem merkt er reiðhjólum leyfist þeim allt. Þá sé í lagi að setja allt á fullt og svo mega bara aðrir passa sig. Halló! Hér kem ÉG, ekki vera fyrir MÉR eða þið hafið verra af! Börn eru óútreiknanleg og alltaf að færa sig til og frá, hafa litla yfirsýn og fylgjast ekki með því sem framundan er. Eins og þessi hlaupari upplifði því minnstu munaði að hann yrði undir hlaupahjólum smæstu borgaranna í tvígang á hlaupi dagsins. Ég velti því sumsé fyrir mér hvort ekki væri nauðsynlegt að borgaryfirvöld settu einhverjar nánari reglur um það hvað má og hvað má ekki á útivistarstígum Borgarlandsins. Í þeim tilgangi að forða frá slysum, sem hljóta að gerast ef menn halda áfram að hjóla með því hugarfari að þeir eigi réttinn á þeim hluta stígsins sem er merktur hjólum og svo mega aðrir vegfarendur bara passa sig!

Mig dauðlangaði í sjóinn en lét ekki verða af því - einhver spéhræðsla eða aumingjaskapur. "Ég fer á Nesinu" hugsaði ég eins og Þórbergur í Framhjágöngunni. Fór yfir Elliðaárnar og öfundaði þar blessuð börnin sem busluðu í svölu árvatninu. Aftur yfir og tilbaka og hefðbundna 69. Var með nóga orku með mér að drekka. Mætti fleira fólki. Heyrði það síðar í fréttum að von væri á Stefano Baldini, gullmanni Ólympíuleikanna í Aþenu í maraþoni, á Reykjavíkurmaraþon, þar sem hann ætlar að hlaupa hálft. Norska hlaupadrottningin Grete Waitz kynnti þetta í Höfða í dag. Ég þurfti að leita lengi að þessari frétt á Moggavefnum, þar er ekki fjallað um annað en fótbolta. Ætla mætti að fóbbolti væri sterkasta keppnisgrein íslenzku þjóðarinnar - en því er nú aldeilis ekki að heilsa, ekki nema þá kvenþjóðarinnar!

Þegar upp var staðið lét ég nægja að fara 69 - sleppti Nesi og sjóbaði. 17,5 km eins og hlaupaáætlun gerði ráð fyrir. Á morgun er hefðbundinn föstudagur - minnt er á að ekki er enn búið að taka út Fyrsta Föstudag. Svo fer ritari í frí til Svíþjóðar í rigninguna, maður er orðinn langþreyttur á öllu þessu sólskini á Skerinu. Verð í 10 daga, en stefni að því að hlaupa af kappi á sléttum Uppsalaauðs og rapportéra daglega.

Vel mætt. Í gvuðs friði.
ritari


 


Það var langt í dag...

Svo sem boðað var í föstudagspistli var boðið upp á langhlaup í dag. Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins var mættur í brottfararsal Vesturbæjarlaugar kl. 8:50 og beið þess að þar hópaðist fólk til langhlaups á fögrum sumarmorgni. Einu kunnuglegu andlitin sem birtust tilheyrðu Helmut og dr. Jóhönnu og sonum - öll með stírur í augum og ekki þessleg að þau stefndu á hlaup. Það var því einmana hlaupari sem lagði í hann í glimrandi hlaupaveðri, 13 stiga hita og logni. Það reyndi á andlegan styrk og karaktér að hefja hlaup að þessu sinni, aleinn eins og áður er komið fram, og vitandi það að framundan væru 25 langir kílómetrar í fullkominni einveru og einsemd. Vitanlega hefði verið skemmtilegra að hafa nokkra góða félaga við hlið sér, en það verður víst ekki á allt kosið öllum stundum. Þannig að ég reyndi að herða upp hugann, vera bjartsýnn, einbeittur og viljasterkur. Sem betur fer var fullkomið hlaupaveður og því hrein unun að streyma fram Ægisíðu á útopnuðu.

Mér varð hugsað til þess sem dr. Jóhanna sagði, hún rifjaði upp spurningu í potti í gær. Haukur spyr tvo pilta sem staddir voru í potti og töluðu sín á milli íslenzku: Eruð þið íslenzkir? Þeir horfðu hissa á hann og sögðu: Já! Og spurðu tilbaka: Eruð þið íslenzk? Já, sagði Haukur, við erum nú vön að hafa vara á okkur þegar við tölum saman um okkar heimulleg málefni og viðstaddir kunna að skilja það sem á milli okkar fer. Spurningin þótti svo einkennileg að furðu sætti.

Skeiðaði af krafti út í Nauthólsvík - ekki margir á ferli, fáir hlauparar. Mætti Sif Jónsdóttur langhlaupara í Fossvogi. Áfram inn að Víkingsheimili, undir Breiðholtsbraut og sem leið liggur upp Elliðaárdalinn og alla leið upp að Árbæjarlaug. Staldrað við, fyllt á vatnsbrúsa og svo tilbaka. Fór niður hinumegin í dalnum, og svo yfir á hólmann og þannig niðureftir. Aftur undir Breiðholtsbraut og inn í Fossvog. Þannig tilbaka. Líklega einir 22 km - nennti ekki í Laugardalinn, gat hugsað mér að fara í sjó í Nauthólsvík á bakaleiðinni - en þegar til kom var farið að kólna í veðri, hafgola, og ekki baðveður að sumri. Auk þess var ég einn að hlaupi, eins og áður er fram komið, og skv. reglum Ágústs telst það ekki sjóbað þegar menn fara einir í sjóinn og án eftirlits.
´
Mér fannst hlaup takast gizka vel. Ekki nein veruleg þreyta eða mæði í lokin. Nú verður hvílst meðan ritari heldur til starfa í þágu Lýðveldisins á erlendri grund - en stefnt er að löngu næstkomandi miðvikudag. Hvatt er til þess að hver og einn hlaupara stilli sig af miðað við hlaupaáætlun Ágústs og skrái samvizkusamlega öll hlaup. Vitanlega geta komið upp frávik og menn geta þurft að hliðra til með hlaup hér og hvar eins og raunin varð á s.l. miðvikudag hvað þennan hlaupara áhrærir. En menn geta alltaf bætt sér slík frávik upp, eins og gert var á þessum fagra degi.

Hittumst heil - hvet til átakahlaups á morgun, sunnudag, og á mánudag, þó án sjóbaða.

Góðar stundir!
Ritari


Hlaupið á föstudegi

Magnús hefur frétt af rauðleitu afbrigði af lúpínu og er búinn að tryggja sér einn sekk af þessari nýju tegund, vongóður um að Jörundur muni bregðast vel við þegar þessi nýi gróður teygir anga sína um garðinn hans. En Magnús rapportéraði einhverja taugaveiklun við dyrnar hjá Jörundi, hann má ekki sýna sig utandyra með bréfpoka, þá er strax farið að rjátla við dyrnar hjá Jörundi og farið að undirbúa útrás.

Ólafur Þorsteinsson er að mati V. Bjarnasonar einkennilegur maður. Rætt var um uppákomu á Skaga þar sem sonur G. Þórðarsonar skoraði umdeilt mark og þótti ekki karlmannleg framkoma. Þar öttu Skagamenn kappi við Keflvíkinga. Í stað þess að koma Keflvíkingum til bjargar og veita þá hlutlægu umsögn að markið hafi verið andstætt góðum sið í knattspyrnu, sagði frændi minn og vinur að Keflvíkingar væru svo orðljótir menn að ekki væri hægt að bjóða kvenmanni á kappleik í Keflavík. Það er umhugsunarefni hvers vegna ekki má bjóða kvenfólki á kappleiki þar sem orðljótir menn mæta, er kvenfólk minna orðljótt en karlar? Ekki rekur mig minni til þess. Við VB vorum sammála um að þessar áhyggjur Ó. Þorsteinssonar væru teikn um aldurdómlegan hugsunarhátt hans, karlmennsku og riddaramennsku gagnvart kvenfólki, en Ó. Þorsteinsson er kominn af reykvízkum aðli gegnum aldir.

Fátt í hlaupi: stöllur af Nesi, Rúna og Brynja, trúlega gíraðar áfram af loforði um Fyrsta Föstudag, Vilhjálmur, ritari, Haukur, Kári, Magnús, og dr. Jóhanna. Þetta var góður þéttur hópur. Í þetta skiptið voru engin Garmin-tæki og var það ákveðinn léttir. Þær Brynja og Rúna settu óneitanlega svip á hlaupið, leiddu framan af og voru alla jafna fremstar í flokki, en þó er skylt og rétt að greina frá því að Haukur var flottur í hlaupi í dag, teinréttur, bar höfuð hátt, lyfti fótum hátt á hlaupi og var bara glæsilegur forystumaður fyrir Hlaupasamtökunum, til sannrar prýði. Maður skammast sín ekki að hlaupa með slíkri úrvalssveit.

Eins og samsetning hópsins gefur til kynna var hraði ekki aðalmálið í kvöld. Það var silast áfram um Ægisíðu og út í Nauthólsvík. Þær héldu okkur við efnið dömurnar af Nesi. aðrir hægir. Nokkur hiti, líklega 16-17 gráður, en vindur sem kældi. Upp í Öskjuhlíð, Hi-Lux, og þar fram eftir götunum. Annað hefðbundið allt þar til er við komum að Ægisgötu, þá höfðu þær stallmeyjar af Nesi ákveðið að halda áfram Mýrargötu - Magnús horfði á mig og spurði: "eigum við fylgja þeim?" - skít og la´go hugsaði ég. Það var farið niður í Ánanaust og yfir á sjávarstíginn og svo alla leið út að Rekagranda - ekki var ég að nenna þessu. Yfir hjá Þokkabót og KR-heimili og þannig tilbaka til Laugar. Líklega einir 12-13 km. Fólk var í góðu formi eftir hlaup, það var teygt vel og látið braka í liðum.

Margt skrafað að hlaupi loknu, bæði utandyra og í potti. Mættir Ellert Schram og dr. Einar Gunnar Pétursson. Rætt um ævir sýslumanna og presta. Fram kom að Kári verður í Frakklandi á haustönn og fékk hann ýmis góð ráð um úthald einsemdar og kokkamennsku hins einmana karlmanns. 

Minnt er á hlaupaáætlun Á. Kvarans, ritari verður að vísu að tilkynna syndir: utanlandsferðir í þágu Lýðveldisins framundan. En til þess að bæta fyrir yfirsjónir undanfarinna daga verður hlaupið langt á morgun, farnir vonandi 25 km í fyrramálið frá Vesturbæjarlaug kl. 9. Áhugasömum er frjáls þátttaka.

Í gvuðs friði. Ritari.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband