Færsluflokkur: Sögur af hetjum

Ræða í sjötugsafmæli Ólafs Þorsteinssonar 8.3. 2018

Þegar Ólafur Þorsteinsson varð sextugur fyrir réttum tíu árum síðan hélt hann mikla veislu í safnaðarheimili Neskirkju. Þar vorum við mætt. Við það tækifæri hélt Ólafur frændi minn ræðu og sagði að fimm menn hefðu haft hvað mest áhrif á hann á lífsleiðinni. Hófst svo upptalning, en ekki komst hann lengra en á þriðja mann, því að þá hafði hann tapað þræðinum í útúrdúrum og skógarferðum og komst þarafleiðandi ekki til þess að nefna tvo hina síðustu. Það var allt í lagi, því að enginn tók eftir þessu...nema Vilhjálmur Bjarnason. En svona er Ólafur.

Við þessir vinalausu aumingjar sem alltaf gerum allt eins og líður best illa

Viljum heiðra vin okkar og félaga til fjölda ára á sjötugsafmæli hans í dag.

Fundum okkar bar fyrst saman að því ég best man þegar ég var 11 ára gamall og hann þá væntanlega 21. Góðir menn, annað hvort Einar Þorvarðarson, síðar frkv.stjóri HSÍ, eða Pétur Arnarson kallaður Pilot, komu að máli við mig og föluðust eftir leikni minni og tækni í knattspyrnu. Til stæði að þreyta kappleik á grasbala milli Þjóðminjasafns og aðalbyggingar Háskóla Íslands. Er komið var á svæðið sá ég þar helstan Ólaf Þorsteinson, sem ég vissi að var frændi minn. Faðir hans hafði verið tannlæknir fjölskyldu minnar til ára og áratuga.

Ekki man ég gjörla eftir leiknum sjálfum, annað en menn sóttu hann af kappi, en ég stóð aðallega með hendur í vösum og spjallaði við markvörðinn.

En mér er minnisstætt að er leik var lokið kom Ólafur Þorsteinsson til mín, tók í höndina á mér og þakkaði fyrir framlag mitt, ég hefði staðið mig frábærlega. Þessi kurteisi kom mér á óvart, en ég var ákaflega þakklátur fyrir vinsemdina.

Síðar fékk ég sömu móttökur er ég mætti til sunnudagshlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Tekið var á móti mér með mikilli kurteisi og rætt um mikinn hvalreka fyrir Samtökin.

Hvað um það. Verður er góður vinur gjafa. Er um það var rætt í hópi vorum hvað hægt væri að gefa manni sem ætti allt datt mönnum einna helst í hug eitthvað sem gæti glatt andann og þá er ég ekki að ræða um bækur með bílnúmerum. Eitthvað sem rennur. Nei, kirkjuráðsmenn og bókagerðar risu öndverðir gegn slíkum áformum og vildu helst gefa afmælisbarninu geit í Afríku. Hér varð undirritaður hugsi mjög og velti fyrir sér á hverjum ætti að vinna góðverk: geitinni eða afmælisbarninu? Hver ætti að gefa geitinni að borða og hýsa hana? Hver ætti að hirða hana? Hver ætti að koma í veg fyrir að geitin sjálf yrði borðuð? Var ætlast til þess að Formaður vor til Lífstíðar legði land undir fót og færi alla leið til Afríku til að huga að geitinni?

Nei, við verðum að vera praktískir og gefa eitthvað sem gleður til lengri en aðallega skemmri tíma. Því varð að ráði að fjárfesta í nokkrum flöskum af eðalvíni, m.a. héraðsvíni Vesturbæjarins. En þeirri gjöf fylgja þó varnaðarorð: grútur einn í hópi vorum fékk flösku af héraðsvíninu að gjöf á fimmtugsafmælinu og tímdi ekki að opna flöskuna fyrr en að fimm árum liðnum. Þá hafði vínið breyst í edik.

Svo við segjum: ekki draga um of að opna vínið, það myndi t.d. sóma sér vel á borðum að afloknu Holtavörðuheiðarhlaupi á sumri komanda.

Njóttu vel og megir þú eiga sem flesta afmælisdaga í vændum.

Skál!


Citius, Altius, Fortius: Jörundur Guðmundsson stórhlaupari 70 ára

Jörundur Guðmundsson, prentari, sem er sjötugur í dag, er einhver magnaðasti hlaupari Lýðveldisins, og þótt víðar væri leitað. Þegar skoðuð er hlaupafaraldsfræði hans sem nú spannar aldarfjórðung og ríflega það má segja með sanni að fáir menn ef nokkrir hafa fengið jafn mikið út úr sínu áhugamáli sem hann. Hann hefur haft sérstakt lag á því á löngum ferli að komast hjá meiðslum að nokkru ráði, enda flottasti og frískasti hlaupari í Reykjavík á sínum aldri- nú kominn á áttræðisaldur - Þá hefur hann af lítillæti og hógværð sinni aldrei komið óorði á þessa tegund tómstundaiðju.  Þeim hjónum frú Önnu Vigdísi, hjúkrunarfræðingi, af ætt kammerráðsins frá Melum í Hrútafirði og Jörundi og fjölskyldu þeirra eru nú sendar á þessum heiðursdegi Jörundar hamingjuóskir og kveðjur með þakklæti fyrir sérstaklega ánægjuleg og geðug samskipti í um þrjá áratugi.

Menn og konur hafa rætt það sín á milli að ekki megi láta þetta tækifæri ónotað, en safna saman í góðan hóp hlaupafélaga til að hlaupa nýja leið hér á hlaupaslóð hans í Vesturbæ Reykjavíkur, sem kalla mætti Jörundarleið, til heiðurs þessum harðsnúna útivistar- og langhlaupakappa.  Leiðin ætti að vera tæpir tuttugu km. og ætla má að hraðinn verði frá 5:30 og upp í 5:50 á brautinni hjá meginhópnum. Undirritaður hefur átt það til að skokka með Jörundi helming þessarar leiðar af og til síðasta aldarfjórðung á ca. 5:45 og við höfum látið dæluna ganga allan tímann um landsins gagn og nauðsynjar eða sameiginlega vini, lífs, en sumir á leið í krókinn, sem og alveg liðna. - Og án þess að blása úr nös - ! Það er sérlega ánægjulegt að mega kalla þennan mann gildan lim í Hlaupasamtökum Lýðveldisins og megi svo vera um langan aldur!
Ólafur Þorsteinsson, Formaður Hlaupasamtaka Lýðveldisins
 

Tveir á ferð í rigningu

Við Jörundur hittumst á Ægisíðu og hlupum  69. Rigning var á og mótvindur nánast alla leið inn að Elliðaám, það gerði hlaupið erfiðara og leiðinlegra, en við létum það ekki stöðva okkur. Í dag skyldi hlaupin 69 og ekkert múður!

Blómasalinn hafði gefið í skyn að hann hygðist hlaupa, en lét ekki sjá sig. Ég var búinn að undirbúa flím til heiðurs honum í ljósi þess að það var happy hour hjá  Vinum Bigga, en ég á þennan brandara bara inni.

Þegar kólnar svona og rignir hefur maður ekki jafnmikla þörf fyrir vökvun, ég var með Powerade með mér en hefði getað sleppt því. Við tókum því rólega framan af en vorum komnir á góðan skrið í Fossvogi og héldum góðu tempói til loka.

Mættum þeim Eiríki og Rúnari á Hofsvallagötu þar sem þeir voru aleinir að fara í eitthvert hare krishna-hlaup í Kvosinni. Ósköp sem þeir voru einmana! Við kenndum í brjósti um þá og tókum þá tali. Jörundur gaukaði einhverjum upplognum tölum um gömul hlaup til að æsa Eirík upp, sjáum til hvort það skilar einhverju.

Ég var aleinn í potti, Jörundur þorði ekki inn þegar hann heyrði að það væri happy hour, ég sá blómasalann tilsýndar þar sem hann kom í heitasta pottinn, en nennti ekki að kalla í hann. Mér virtist hann hafa fitnað mikið síðustu daga.

Fyrsti Föstudagur á morgun, allt í volli heima hjá Jörundi og konan í vinnu svo ekki verður ráðrúm til að undirbúa neitt fyrir félagana. Ætli það verði ekki bara Dauða Ljónið?

Í gvuðs friði, ritari.

Hrekkjusvín

Ritari hjólaði sem leið lá út í Nauthólsvík um miðjan dag og fór í sjóinn, synti fram og aftur um Flóann. Á leið tilbaka mætti hann hlaupurum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins með blómasalann og prófessor Fróða í broddi fylkingar. Eftir á var þetta niðurstaðan:

1. Kári hljóp út í Nauthólsvík - fór í sjóinn - hljóp tilbaka og varð samferða Benedikt.

2. Blómasalinn hljóp í óþvegnum hlaupafatnaði sem ilmaði ekki beinlínis. Formlegri kvörtun var komið á framfæri.

3. Í hópnum voru þrjú hrekkjusvín sem heita Einar, Ágúst og Friðrik - þeir hrekktu Kára með því að fjarlægja hjól af reiðhjóli hans þar sem það hékk á rekkverkinu við inngang Laugar.

4. Sif er vinur sem afhjúpar hrekki. Hún varð ekki vinsæl af framtakinu.

Hlaupið í fyrramálið kl. 9:30 frá VBL. Langt.

Tímar í Icelandair-hlaupi 7. maí 2009

Hér fylgir skrá með tímum helztu hlaupara Hlaupasamtakanna í Icelandair-hlaupi 7. maí 2009.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tímar í London-maraþoni og vormaraþoni Reykjavík

Eiríkur Magnús Jensson 3:21:07
Benedikt Sigurðsson 3:32:44

Sigurður Ingvarsson 3:19:12 í vormaraþoni Reykjavík.


Naglar

Svofelld frásögn af sunnudagshlaupi að aflokinni náttlangri skemmtan hefir verið send á eter:

"Að Laugu Vorri mættu í morgun þeir Bjarni Guðmundsson, Einar Þór Jörgensen, Flosi Kristjánsson og Þorvaldur Gunnlaugsson. Voru þeir furðu skýrir í augum, að teknu tilliti til göngu um gleðinnar dyr hið næstliðna kvöld; hver ganga má hafa verið útfærð með aðgát og skynsemi, að því er þessa fjóra einstaklinga varðar.
Veður var stillt en þó svalt, og til okkar bárust ómar klukknanna frá Kirkju Krists Konungs að Landakoti.  Ónefndum viðskiptafræðingi í hópnum vöknaði um augu og sagði eitthvað í þessa veru: "Ó, er þetta ekki yndislegt?" Naglar þeir sem mættir voru að hlaupum með honum gáfu lítið fyrir þessa viðkvæmni, en spurðu hvort menn væru hér samankomnir til að hlaupa eða til að kjafta.
Að svo mæltu var skokkað af stað, hefðbundna leið um Sólrúnarbraut með stefnu á Kirkjugarð og Veðurstofuhálendi. Umræðuefnið var af ýmsum toga og skiptust menn á skoðunum um hversu siðlegt það er að "taka stöðu" á fjármálamarkaði. Þá var einnig rætt um flugvélar og flygildi hvers konar og reyndust tveir af fjórum nærstöddum hlaupurum sýnu glúrnastir í þeim fræðum. Sannaðist hér enn einu sinni, eins og reyndar var vikið að í einu ávarpi að afmælishófi Doktors Jóhönnu, að í hópnum er saman komið slíkt einvalalið gáfumanna að leitun er á öðru eins.
Fyrir innan Skítastöð varð á vegi okkar ókunnugur skokkari, sem hneigði sig kurteislega og sagði eitthvað í þessa veru: "Mætti ég (ef mig skyldi kalla) slást í hóp með yður; ég lofa að þegja og mun gera mitt ýtrasta til að halda í við yður". Slíkar trakteringar er erfitt að standast og féllumst við á að þessi alþýðumaður úr Austurbæ fylgdi okkur nokkurn spöl.
Ofangreindir hlauparar sýndu hefðum sunnudagshlaupa fulla tillitssemi og minntust þess að í Nauthólsvík væri ævinlega gengið, en létu þó ógert til að forkelast ekki. Í Kirkjugarði var hinsvegar staðnæmst við bautastein, hvar á eru letruð dánardægur hjóna í Reykjavík og fylgdi því stoppi fróðlegur fyrirlestur, þar sem farið var yfir siðfræðilegar og lögfræðilegar vangaveltur.
Fátt varð tíðinda á ferð okkar um Hlíðar og Klambratún, enda bílaumferð með minnsta móti og hverfandi líkur á því að menn kæmust í lífsháska við að fara yfir gatnamót, hvort heldur ljós voru gul, rauð eða græn. Á Sæbraut hneigðist orðræðan enn og aftur að flugsamgöngum og var hrein með ólíkindum á hve háu plani umræðan var.
Að potti voru mættir áköfustu aðdáendur Hlaupasamtakanna: Baldur Símonarson, Einar Gunnar Pétursson, Helga Jónsdóttir og Stefán Bjarnason*.  Urðu þarna fagnaðarfundir og jókst þó kætin að mun þegar sómahjónin Jóhanna og Helmut mættu glaðbeitt um hádegið. Þá heiðruðu okkur Ævar kommúnist og hans frú Hansína ásamt Þjóðskáldinu Þórarni Eldjárn og frú Unni.  Og til að setja punktinn yfir i-ið birtist alveg óforvarendis hlaupari með lambúshettu á höfði og rauð- og svartröndótta treyju niður undan stakki sínum. Þótti okkur þá dagurinn vera giska ánægjulegur, svona heilt yfir.
Svona eiga sunnudagar að vera! "

PS
Hér mun próf. dr. Flúss standa að baki frásögn í fjarveru ritara sem er fjarri góðu gagni sakir flensu og hefur ekkert með fyrrgreint skemmtanahald að gera. Því er sett stjarna við nafn Stefáns "Bjarnasonar" að vér teljum að rangt sé farið með faðerni dánumanns í Vestbyen og að hið rétta sé að hann sé Sigurðsson - nema breytingar hafi orðið á högum fyrrnefndrar frú Helgu, einnar ágætiskvinnu af ætt Gröndala og Zoega. Í gvuðs friði af sjúkrabeði, ritari. 

Eyðimerkurbúi og sellerí stangir

Meðfylgjandi frásögn af hlaupi dagsins barst ritara inn um lúguna sem hann sat og horfði á gamlan Taggart-þátt á DR 1:

"Það vill henda á hlaupum, að maður verður vitni að einhverju sem í fyrstu virðist yfirskilvitlegt, en á sér þó sína skýringu. Hún kemur yfirleitt af sjálfu sér, eins og þessi  hlaupari sem hér ritar, í fjarveru okkar ástsæla embættismanns,  ritara og bonus pater familias, upplifði í hlaupi dagsins.

En að upphafi hlaups. Fjöldi mættur á brottfararplan VBL, snarpur að austan og rigning; sem sagt gerist varla betra um hávetur. Upplegg þjálfara virtist ná illa eyrum viðstaddra, venju samkvæmt, en óljós niðurstaða þó sú, að hlaupið skyldi yfir og undir brúarmannvirki bæjarins. Segir fátt af einum, því ég steðjaði af stað, fullur orku, enda atvinnulaus og get þar af leiðandi undirbúið mig and- og efnislega allt frá því ég vakna og fram að hlaupi. Skildi við hópinn á Hofsvallagötu og sá hann ekki síðan.

En, sem ég er mismuna mér í gegnum 15 eða 16 kílómetrann, við hlið höfuðstöðvar LÍÚ, skammt austan Búllunnar sé ég undir sóla sem mér fannst ég kannast við. Geystist fram úr og sá mér til furðu eyðimerkurbúa, að því er virtist, kona af ætt bedúína, sem eru eins og kunnugt er hirðingjar í Miðausturlöndum og Norðurafríku. Flestir múslimar. Sást aðeins í augu hennar. Svo mjög var mér brugðið að ég gleymdi að beygja upp brekkuna Landakots og hélt áfram vestur úr. Náði áttum við OLÍS í Ánanaustum, beygði og hélt austur Hringbraut og niður Hofsvallagötu. Bregður þá svo við að ég hleyp aftur fram úr nefndri konu. Var mér öllum lokið og taldi að hér væri komin álaganorn sem vildi mér illt. Herti því enn á mér til laugar.

Pottur all góður og sagði ég mönnum frá því sem á hlaupið hafði drifið og spurði hvernig viðstaddir læsu í þetta. Þá segir ónefndur maður, nýkominn úr afar hægu hlaupi; „þetta var ég, ég sá þig taka fram úr mér, tvisvar". Það er ekki oft að maður tekur fram úr sama manninum tvisvar í sama hlaupi, þegar hlaupinn er einn hringur, en nú hefur það sem sagt gerst. Ég bað viðkomandi vinsamlegast að gaumgæfa hjá sér æfingaplanið. Bar hann við að ónefndur grafíker hefði komið til sín í dag með 25 prins póló og beinlínis troðið þeim í hann klukkustund fyrir hlaup. Því sem hann torgaði ekki (4 stykki) stakk hann ofan í skúffu. Séður maður, heildsalinn.

Var honum bent á að betra væri fyrir hann að borða sellerí stöngla. Þeir væru þeirri náttúru gæddir að líkaminn notaði fleiri kaloríur við að melta stönglana, en hann fengi úr þeim. Honum datt strax í hug einhver uppskrift að sellerístöngla - rétti. Hvernig hægt væri að gera þá ljúffenga. Ótrúlegt að menn skuli halda því fram að sellerí geti verið uppistaðan í ljúffengum rétti. Jafnvel Björn kokkur hafði aldrei heyrt um neitt slíkt og hefur hann þó verið til sjós.

Þarna var mér öllum lokið og kvaddi."

Er nú annarra að ráða í hver ritaði og um hvern.

Í gvuðs friði, ritari.


Tímar félaga í Gamlárshlaupi ÍR 2008

Félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins tóku þátt í Gamlárshlaupi ÍR. Árangur þeirra og tengdra aðila birtist í meðfylgjandi skrá. 
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Haltur þjálfari snýr við - en veður gott að öðru leyti

Heilir og sælir hlaupafélagar! 
Í morgun mætti þjálfarinn Rúnar og hljóp haltur
með okkur að Fossvogsgöngubrú þar sem hann snéri við
en við Kalli og Jóhanna fórum svokallaðan "Viktor"
sem er nákvæmlega sama leið og Sixty Nine
nema hún heitir VIktor en ekki Sixty Nine.

Við vorum létt á okkur og geystumst þetta áfram
á tempóinu 5+ og leið vel allan tímann.
Veður gott, hlýtt og í bakið alla leið, utan smá kafla
á leiðinni til baka meðfram sjónum.
Tíðindalaust að mestu en almennt áhyggjuleysi
einkenndi umræður. Ekki kæruleysi, almennt erum
við á því að allt fari þetta nú vel, en aðeins þó ef
fólk sinnir hlaupum reglulega og af einhverju veti.

Í potti voru engir markverðir utan ein kona sem mun
hafa verið í marki fyrir KR á árunum 1958-1962.
Ég held hún heiti Friðbjört.

Í gvuðs friði,

Biggi Jógi

ps. árshátíð hjá Kór Neskirkju í kvöld.
Enn vantar okkur góða tenóra.

PS - við þessa frásögn Birgis er því að bæta að á framangreindri árshátíð slasaðist Biggi við það að sveifla öðrum fætinum yfir hinn (hvernig sem það er hægt!) - þar með slítandi eitthvað í hné. Kveðst ekki munu hlaupa á næstunni, nema þá bara beint áfram, af mikilli íhygli og þarafleiðandi jafnvel í kyrrþey.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband