Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Fimmti leggur - b

Dagurinn lofaði góðu, sól skein í heiði og vindar voru mildir. Ætlunin var að ganga fimmta legg - b - í Pílagrímagöngu frá Taglaflötum að Apavatni í árlegri guðræknigöngu Hlaupasamtakanna, þegar menn ganga þöglir og íhugulir og hugsa um gvuð og líður helst svolítið illa í leiðinni. Þegar Svíar finna til iðrunar og velja heppilega aðferð til að sýna hana fara þeir inn í skáp og draga eitthvað gamalt yfir sig. Íslendingar ganga yfir heiðar og hugsa um gvuð. 

Mætt við Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 9 skrifari, Ágúst, Ólöf, Maggie, Guo Xiu Kan, Helmut, Jóhanna, Flosi, Frikki, Rúna og Ragnar. Einar var í sveitinni og bað um að vera sóttur. Guðrún Geirs fór á eigin vegum. Nú ríkti bara heiðríkjan í skipulagsmálum þeirra Helmuts og Jóhönnu, en vanalega hafa þau staðið og rifist um hvernig ætti að skipta á bíla, hver færi með hverjum og hvert, en nú var samstaðan algjör og eindrægnin líkust fuglasöng að vori. Jæja, kemur þá ekki Rúna þrammandi þung á brún og upphefur gagnrýni á skipulag og hvers vegna eigi að gera þetta svona, af hverju má ekki gera þetta hinsegin og áður en langt var liðið logaði allt í illdeilum á Plani um hvernig væri rétt að skipa málum. Oh yes, hugsaði skrifari, akkúrat það sem við þurftum nú, og blómasalinn í fullkominni óvissu um aðkomu sína að hlaupi dagsins. Að endingu var gerð einhver málamiðlun svo að við þyrftum ekki að standa þarna í allan dag. Fólki raðað á bíla og stefnan sett á Þjónustumiðstöð á Þingvöllum.

Skrifari ók þeim Maggie og Guo Xiu áleiðis, þær spjölluðu sín á milli alla leiðina en ræddu fátt við skrifara. Er komið var á Þingvöll ók Flosi okkur göngufólki að Gjábakka þar sem ganga okkar átti að hefjast. Við vorum Helmut, Ólöf, skrifari og Guo Xiu. Það var norðanátt, en eiginlega ekki kalt í veðri. Haldið af stað í áttina að Bragarbót, hagi og hagaganga, rollur á beit. Hér rifjaðist það upp markvert úr síðustu ferð, göngunni góðu á Þingvöllum, Skógarkotsleið út að Gjábakka, þegar Þorvaldur Gunnlaugsson lýsti yfir því að hann teldi það skógrækt til framdráttar ef nokkrar rollur fengju að naga gróðurinn á þessum helgasta reit þjóðarinnar.

Jæja, við röltum þetta og förum rólega yfir og dettum jafnvel í berjamó á stöku stað. Ólöf heldur uppteknum hætti að hirða drasl upp af götu sinni og var komin með álitlegt safn áður yfir lauk. Við vorum varla búin að ganga nema 5-6 kílómetra þegar fyrstu hlauparar dúkka upp, þar fóru Maggie og Flosi. Þeim lá einhver ósköp á að halda áfram og máttu ekki vera að því að staldra við fyrir myndatöku. Aðrir hlauparar komu þétt á hæla þeirra og voru öllu rólegri. Öllum stillt upp í myndatöku áður en ferðinni var haldið áfram.

Gönguskór mínir voru farnir að meiða mig, hef ekki notað þá í ár og þarf trúlega að ganga þá til að nýju. Alla vega varð ég að stansa og skoða hæla mína. Ólöf mætt með plástra, umbúðir og skæri og var ég plástraður á staðnum í bak og fyrir og gat haldið áfram ferð minni með slíkum umbúnaði.

Næst gerðist það markvert að skrifari fann tampong, ónotaðan, en skilgreindur rusl, og svo gengum við fram á uppsprettu sem rann beint undan fjallinu með blátæru, ísköldu fjallavatni. Yndislegt. Héldum áfram að naga ber af lyngi þegar svo bar undir og tafði það för okkar. Komumst þó niður að Apavatni og höfðum þá verið á göngu í fjóra klukkutíma.

Það var ljúft að komast úr gönguskóm og komast til Laugar í Fontana, með heitum pottum, saunu, hveragufu með ýmsum hitastigum - og svo sjálfu Laugarvatni þar sem mátti svamla sér til svölunar. Þarna slökuðum við á og var jafnvel hægt að fá afhentan bjór út um lúgu endurgjaldslaust.

Ólöf tíndi fram dótið sem hún hirti upp af leið sinni og lagði á tún að Laugarvatni. Þar var ístað og gúmmístig sem passaði í ístaðið, veifur, tvær veifur, bjórdós, varagloss, hestaskeifa á timburfleti o.fl. o.fl. Þetta var myndað og verður trúlega birt á heppilegum stað.  

Frábær dagur að baki með 17,7 km. hlaupi/göngu. Framundan RM - og svo lokaleggur Pílagrímaleiðar. Stefnt er að veislu að loknum lokaleggnum.  


Klósettpappír fyrr og nú

Skrifari bar ekki gæfu til að hlaupa föstudagshlaup með félögum sínum vegna eymsla í hné, en lét ekki undir höfuð leggjast að mæta til baða í Laug að loknu hlaupi. Þessir vóru: Flosi, próf. Fróði, Benz, Þorvaldur og Ó. Gunnarsson. 

Þegar skrifari hafði tekið sinn útmældan skammt af skömmum og formælingum í Útiklefa hélt hann til Potts. Þangað komu framangreindir, þó ekki Ólafur hinn. Nú hófst spakleg umræða. Prófessorinn kvartaði yfir eymslum í nára og voru menn allir af vilja gjörðir að leiðbeina honum um hvernig mætti ráða bót á því. Rætt var um íbúfen, Voltaren, og jafnvel erótískt nudd - og leist prófessornum harla vel á hið síðastnefnda. Þó hafði hann áhyggjur af því hvaða líkamspartar nytu góðs af slíkri meðferð og viðraði efasemdir um að meðferðin næði tilætluðum árangri ef ekki yrði vel á haldið.

Næst þessu barst talið að þjóðflokki þeim í BNA sem kallaður er amish-fólkið. Flosi hafði fengið á disk sinn kjöt frá Kaufmann Yoder sem var lífrænt og án hormóna. Hér varð prófessorinn dreymandi á svip og fór að velta fyrir sér salernismálum ytra, þar er hvorki vatn né rafmagn - en hvað gera þeir í klósettmálum, spurði prófessorinn. Mönnum þótti sennilegast að kamrar væru í boði. En klósettpappír? Rifjaði þá skrifari upp umræðu föstudagshlaups fyrir allnokkrum árum sem hófst á klósettpappír og endaði á klósettpappír. Meðal þeirra sem tóku til máls þá var Þorvaldur Gunnlaugsson og upplýsti um gæði klósettpappírs í Englandi á sjöunda áratugnum. Skrifari vissi að segja frá klósettpappír í Ungverjalandi 1980.

Standardinn á umræðunni í þessum löngu liðna hlaupi var langt fyrir neðan sygekassegrænsen og kvartaði skrifari við Jörund yfir þessu er komið var í Pott. Þá bætti Jörundur um betur og sagði frá klósettpappírnum í Hollandi sem er svo þunnur að puttinn fer í gegnum hann...

Um þetta var rætt í Potti og margt fleira. Hinn vísindalega og fræðilega þenkjandi prófessor sá tækifæri og fleti á umræðuefninu. Hann taldi víst að mætti sækja um styrk til Evrópusambandsins til þess að leiða mannfræðilega og félagsfræðilega rannsókn á notkun klósettpappírs. Tilgátan myndi snúast um fjölda blaða sem menn nota og yrði stuðst við breyturnar kyn, aldur, þjóðerni, trúarbrögð, kynhneigð, menntun og starf til þess að leiða í ljós mismunandi fjölda blaða sem fólk kýs að nota að lokinni klósettferð.

Hér voru sagðar nokkrar klósettsögur, misfagrar.  Einkennilegt hvað málefnið hefur tilhneigingu til þess að kveikja í fólki. 

Einhverjir viðstaddir töldu sig hafa verið svikna um Fyrsta Föstudag, sem þó var haldinn hátíðlegur sl. föstudag. Þessu kvabbi var ekki sinnt. Halda menn að hægt sé að seinka Ramadan um heila viku ef þurfa þykir? Á að fara að taka upp siði Castros sem seinkaði jólunum fram í marz út af sykuruppskerunni? Erum við e-r marxistar og trúleysingjar? Ja, kona spyr sig.

Skrifari sendir félögum sínum kveðjur gvuðs og sínar á Gleðidögum mannréttindabaráttunnar.  

 


Leggjabrjótur

Fjórði leggur á Pílagrímaleið var farinn í gær, 31. júlí, á afmælisdegi Kaupmannsins. Skipt var á bíla við Vesturbæjarlaug. Þessi gengu: Helmut, Flosi, Ólöf, skrifari og kínversk vinkona Maggiear, Guzhou, ef ég man rétt. Þessi hlupu: Ágúst, Jóhanna, Frikki, Rúna og Maggie, auk þess sem Guðrún Geirsdóttir bættist við á Þingvöllum. 

Göngufólk ók sem leið lá í Hvalfjörðinn og lagði bíl Kaupmannsins á bílastæði í botni. Þar var lagt upp í góðu veðri, sól og 18 stiga hita, en norðangjólu sem kældi. Gangan upp úr Hvalfirði var tíðindalítil og frekar auðveld. Flosi sýndi fljótlega tilburði til þess að arka á undan hópnum og var ekki langt um liðið þegar hann var búinn að setja nokkra vegalengd á milli okkar.

Þegar við höfðum gengið ríflega 8 km mættum við hlaupurunum. Svo skemmtilega vildi til að við mættumst við vörðu nokkra, en nánari staðsetningu kann ég ekki. Hér þreifaði Ágúst inn í vörðuna og dró þar út koníakspela. Þar var einnig að finna nokkur staup. Sunginn var afmælissöngurinn fyrir Friðrik og skálað í koníaki. Svo héldu hóparnir hvorir sína leið. 

Áfram þrammað í grýttu landslagi og mætti segja mér að hlaupurum hafi reynst torveld yfirferðin með norðangjóluna í fangið. Leggjabrjótur ber nafn með rentu, einstaklega grýtt leið og erfið.

Komið á Þingvöll eftir nær fimm tíma göngu. Flosi villtist af leið og endaði í 23 km, Helmut í 21 og við hin milli 17 og 18 km. Flosi beið okkar við Flosagjá eins og var við hæfi. Þar dró Helmut upp kampavínsflösku og var aftur skálað fyrir Friðriki Kaupmanni.

Frábær ganga í fallegu landslagi að baki og bíða menn spenntir eftir næsta legg, frá Þingvöllum að Apavatni.  


Leggjabrjótur

Fjórði leggur á Pílagrímaleið var farinn í gær, 31. júlí, á afmælisdegi Kaupmannsins. Skipt var á bíla við Vesturbæjarlaug. Þessi gengu: Helmut, Flosi, Ólöf, skrifari og kínversk vinkona Maggiear, Guzhou, ef ég man rétt. Þessi hlupu: Ágúst, Jóhanna, Frikki, Rúna og Maggie, auk þess sem Guðrún Geirsdóttir bættist við á Þingvöllum. 

Göngufólk ók sem leið lá í Hvalfjörðinn og lagði bíl Kaupmannsins á bílastæði í botni. Þar var lagt upp í góðu veðri, sól og 18 stiga hita, en norðangjólu sem kældi. Gangan upp úr Hvalfirði var tíðindalítil og frekar auðveld. Flosi sýndi fljótlega tilburði til þess að arka á undan hópnum og var ekki langt um liðið þegar hann var búinn að setja nokkra vegalengd á milli okkar.

Þegar við höfðum gengið ríflega 8 km mættum við hlaupurunum. Svo skemmtilega vildi til að við mættumst við vörðu nokkra, en nánari staðsetningu kann ég ekki. Hér þreifaði Ágúst inn í vörðuna og dró þar út koníakspela. Þar var einnig að finna nokkur staup. Sunginn var afmælissöngurinn fyrir Friðrik og skálað í koníaki. Svo héldu hóparnir hvorir sína leið. 

Áfram þrammað í grýttu landslagi og mætti segja mér að hlaupurum hafi reynst torveld yfirferðin með norðangjóluna í fangið. Leggjabrjótur ber nafn með rentu, einstaklega grýtt leið og erfið.

Komið á Þingvöll eftir nær fimm tíma göngu. Flosi villtist af leið og endaði í 23 km, Helmut í 21 og við hin milli 17 og 18 km. Flosi beið okkar við Flosagjá eins og var við hæfi. Þar dró Helmut upp kampavínsflösku og var aftur skálað fyrir Friðriki Kaupmanni.

Frábær ganga í fallegu landslagi að baki og bíða menn spenntir eftir næsta legg, frá Þingvöllum að Apavatni.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband