Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Sunnudagur - síðustu leikir á HM í handbolta

Það ku hafa verið hlaupið á þessum morgni, enda falla hlaup ekki niður þótt annálaritari sé frá vegna þrálátra meiðsla. Veröldin heldur víst áfram og skapar sína sögu þótt maður eigi bágt með að trúa því. Þeir voru fimm sem hlupu: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Þorvaldur, Einar blómasali og Magnús Júlíus. Hlaupinn hefðbundinn sunnudagshringur, en stytt um Laugaveg vegna eindreginnar vestanáttar. Magnús sneri að vísu við án þess að hafa lokið embættisverkum morginsins og mætti Mími á Ægisíðu sem tók létt skokk með honum síðustu metrana.

Ritari lét sig hafa það að mæta í pott, enda einvalalið þar fyrir. Fyrir utan hlaupara voru dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Helga Jónsdóttir Zoega og fyrrnefndur Mímir. Helstu mál voru rædd og greind í þaula. Rifjuð upp kosningaúrslit frá sjöunda áratugnum, en fáir eru fróðai um niðurstöður kosninga en dr. Baldur. Þá var rætt um handboltann, en síðustu leikir í heimsmeistarakeppninni eru í dag. Þótti mönnum synd að Ísland hefði ekki fengið tækifæri til að mæta Dönum eða Svíum á mótinu. Það eru oft skemmtilegir leikir. Sagðar sögur af fólki. Stutt umfjöllun um Hrepparnir keppa frá föstudegi þar sem hann Vilhjálmur okkar sigldi áfram önugur að vanda. Höfðu menn áhyggjur af heilsufari dómarans, sem veiktist á sl. vetri og einhvern rámaði í kvitt þess efnis að Ó. Þorsteinsson hefði verið nefndur sem líklegur arftaki hans í sæti spurningahöfundar og dómara.

Nú líður vonandi senn að því að ritari komist í hlaupaform á ný og geti haldið áfram undirbúningi að Laugavegshlaupi á sumri komanda. Þá er bara að halda áfram að horfa á úrslitakeppni HM á DR1. Áfram Danmörk og SvíÞjóð!


Langt og erfitt -brýrnar reyndust fjórar þegar upp var staðið

Rætt um handbolta í Útiklefa, nema hvað. Þar voru nokkrir Naglar mættir, fleiri bættust við í Brottfararsal. Veður gott til hlaupa, og því var hæðst að ritara fyrir að vera með balaklövu. Sú afstaða átti eftir að breytast. Nú brá svo við að prófessor Fróði lét svo lítið að mæta til hlaups með okkur dauðlegum og notuðu menn tækifærið til þess að óska honum gleðilegs árs. Þarna mátti bera kennsl á dr. Friðrik, Jörund, Magga, Möggu, dr. Jóhönnu, Ósk, Albert, blómasalann, Birgi Þ. Birgisson sem er nýr félagi, Flosa, Bjössa, Benzinn, Þorbjörgu Karlsd. og ritara. Og einhverja fleiri, Kalla og Frikka í Melabúðinni. Kári sást á reiðhjóli utandyra, en hann var of seinn, hvatti okkur til að tefja ekki hlaup, hann myndi hvort eð er ná okkur.

Þriggjabrúa vaxandi var dagsskipunin. Ég spurði Jörund hvort ekki yrði bara farið hægt. Hann horfði á mig fullur efasemda og vantrausts, en lét svo tilleiðast að fara rólega með mér. Við vorum með öftustu hlaupurum frá byrjun, en fljótlega duttu dr. Friðrik og Maggi aftur fyrir okkur, en skammt fyrir framan okkur var blómasalinn. Ekki leið á löngu áður en við vorum búnir að ná blómasalanum, sem kvartaði yfir verk í hné, baki og höfði, nema hvað? Það var dólað þetta á 6 mín. tempói. Í Skerjafirði brast á með hríðarbyl og þá hlógu ekki þeir sem höfðu gert grín að höfuðfatnaði ritara. Jörundur heimtaði að fá húfuna mína því að hann væri gamall maður á eftirlaunum. Ég sagði það ekki koma til greina.

Fljótlega fundum við til þess að blómasalinn var farinn að detta aftur úr. Við hittum Birgi sem virtist þungur á sér, hann var í leit að sálufélögum sem mætti spilla. Einn auðspilltan fann hann í blómasalanum. Saman drógust þeir meðvitað aftur úr okkur svo að þeir yrðu ekki beittir þrýstingi í Nauthólsvík að halda áfram á Flanir, en gætu snúið inn á Fótinn og farið stutt. Kalli virtist einnig vera í leit að slíkum félagsskap. Vonandi hafa þeir átt gefandi samfélag um legginn hjá Gvuðsmönnum.

Um þetta leyti vorum við orðin þrjú: Jörundur, ritari og Þorbjörg og héldum jöfnu tempói í krapafæri. Yfir brú á Kringlumýrarbraut og þar fórum við að mæta ÍR hlaupurum sem komu á mikilli ferð. Upp brekkuna og fórum bara rólega þar. Yfir á ljósum, fengum grænt og svo beið okkar Útvarpshæðin, síðasti farartálminn. Tókum þetta léttilega og runnum greiðlega yfir brú á Miklubraut og hjá Framheimili og svo yfir á Kringlumýrarbraut.

Á Sæbrautinni fór þessi hlaupari að verða þreyttur, enda með aukakíló í farteskinu. Maður saknar þess að geta ekki drukkið vatn við póstinn. Við fórum um Miðbæ og Hljómskálagarð og þar var vakin athygli á því að brú er á einum stað í garðinum, sem gerir það að verkum að þetta er í reynd Fjögurra brúa hlaup. Síðasti kaflinn farinn á þrjóskunni, en mikill léttir að ljúka þessu. Ekki vitað um afdrif annarra hlaupara, annað en að þeir ætluðu sömu leið aðeins hraðar en við. Hins vegar fór prófessor Fróði 69 og lýsti hann yfir í potti að héðan í frá og út árið myndi hann hlaupa nýja leið í hverju hlaupi.

Í potti var hefðbundin uppstilling, utan hvað menn röðuðu sér í hálfhring og skildu eftir svæði fyrir prófessorinn þar sem við hin gætum horft á hann og gagnrýnt hann. Hér áréttaði ritari boð um Árshátíð í Viðey, en fáir hafa tilkynnt áhuga á þátttöku. Eru áhugasamir hér með hvattir að láta vita í síðasta lagi á föstudag hvort þeir vilja vera með.


Hvað var EKKI að?

Hlaup í Vesturbænum geta verið ævintýri. Alltaf gerist eitthvað eftirminnilegt sem fært er í búning þjóðsögunnar og fest á blað. Veður var svona og svona þegar nokkur fjöldi hlaupara mætti í Brottfararsal, hiti við frostmark, snjófjúk og einhver vindur. Mættir: Jörundur, Flosi, Siggi Ingvars. Maggi, Bjössi, Benzinn, blómasalinn, Magga, Þorbjörg K., Ósk, Jóhanna, Helmut, ritari, Karl og svo var ný manneskja, Maki, og sýndi góða takta í hlaupi dagsins.

Það var farið lengri leiðina út á Nes og í Bakkavörina, farið um Lindarbraut. Menn missprækir, en ritari furðuléttur á sér eftir að hafa ekki hlaupið í 12 daga vegna meiðsla. Lenti einhvers staðar á milli hópa, hefðbundnir hraðafantar fremstir, og slugsarar á eftir. Þó fór svo að blómasalinn náði mér og við fórum hringinn. Er komið var í Bakkavör þraut okkur erindi, blómasalinn kominn með hjartaflökt og slæmsku í maga eftir rostbiff-samlokuna með remolaðinu sem hann borðaði kl. tvö í dag. Þannig að við ákváðum að fara beinustu leið tilbaka.

Ekki tók betra við þegar komið var á Nesveginn, þar gaf hnéð sig og urðum við að ganga það sem eftir var leiðar, reyndar þurfti blómasalinn að hökta hluta leiðar og virtist mér stefna í að ég þyrfti að halda á honum. Þetta var ekki fallegt! Hafðist þó á endanum. Í Brottfararsal hófum við að undirbúa Þorrablót/Árshátíð Hlaupasamtakanna og verður sagt fleira af þeim áformum er fram í sækir.

Setið lengi í potti og rætt um gömul afrek á hlaupabrautinni, m.a. í Mývatnsmaraþoni. Hópur hlaupara hyggur á landvinninga í Þingeyjarsýslum á vori komanda, svona til þess að undirbúa Laugaveginn síðar um sumarið. Slpurt var: "Hver er Birgir Þ. Birgisson?" Einnig var spurt hvort verið gæti að blómasalinn hafi ekki skráð sig í Powerade-hlaupið á fimmtudaginn eð var, en engu að síður náð að særa 3 flöskur af orkudrykknum út úr skipuleggjendum hlaupsins. Rætt um leikinn við Japan og spáði Bjössi fimm marka sigri Íslands, 33-28. Það þótti ritara bjartsýn spá.

Lokahnykkurinn kom svo í Útiklefa þegar blómasalinn beygði sig eftir einhverju á gólfinu og bakið gaf sig! Heppinn er hann að vera hvorki hestur né togari. Það eru til hugtök yfir afdrif slíkra gripa þegar þeir eru komnir með öll einkenni...                              


Hlaupaskór blómasalans - er opið í Össuri?

Mér er ljúft og skylt að viðurkenna að ég er aumingi. Lappalaus aumingi sem réttast væri að gera fætinum styttri við öxl samkvæmt hefð. En maður ber lóminn og þraukar, mætir þó til Laugar í von um að mæta þar vingjarnlegu augntilliti og meðaumkun. Einna helzt er að vænta vingjarnlegs viðmóts hjá afgreiðslufólki, sem virðist ekki setja fyrir sig þótt einn og einn hlaupara vanti í hlaup. Er ritari mætti til Útiklefa varð hann steinhissa. Á gólfinu miðju klæðandi sig í garmana stóð sjálfur blómasalinn. Klukkan að verða sex og hópurinn löngu farinn af stað. Hvað var í gangi? Þegar gengið var á kappann hafði hann þá skýringu á reiðum höndum að konan hefði gleymt að pakka skónum með öðrum hlaupafatnaði í tösku dagsins. "Af hverju hljópstu ekki heim og náðir í skó?" spurði ritari. "Var of seinn - hafði ekki tíma. Fór bara í pott." Svona menn hafa engan sjálfsaga og spurning hvort þeir eiga nokkurt erindi í Laugaveginn.

Ritari, sem er meiddur, lét sér nægja heitan pott, gufu og kaldan pott á eftir. Sá hlaupara koma tilbaka eftir stutt hlaup, enda flestir á leið í Powerade á morgun. Félagar mínir létu sem þeir sæju mig ekki þar sem ég hvíldi í setlaug, en flykktust í barnapott. Þekkjandi vel uppeldisfræðin og hrekkjusvínafræðina gat ég vel greint eineltismynstrið í hegðun félaga minna og lét mig hverfa. Hitti fyrir Bjarna Benz í Útiklefa og vildi hann hafa eitt og annað um það að segja hvað færi í pistil dagsins, nú mætti alls ekki spara mönnum skammaryrðin, einkum bæri að fara hörðum orðum um framferði blómasalans. Bilaður fótur væri engin afsökun fyrir fjarveru ritara: "Er ekki opið í Össuri?"


Skráning að baki - þjálfun tekur rífandi start

Nokkrir úr Hlaupasamtökum Lýðveldisins gengu frá skráningu sinni í Laugavegshlaupið í morgun. Hér ræðir um þá Einar blómasala, Jörund, Flosa og ritara. Fleiri hafa sýnt þessu málefni áhuga, svo sem Björn Nagli. Í byrjun febrúar kemur svo í ljós hvort við hljótum náð fyrir augum aðstandenda hlaupsins og verðum valdir til þátttöku. En við höldum ótrauðir áfram með undirbúninginn og göngum út frá því að við munum hlaupa á sumri komanda.

Menn minntust fallins félaga, dr. Jóns Braga Bjarnasonar, prófessors í lífefnafræði, eins af upphafsmönnum hlaupa frá Vesturbæjarlaug.

Fjöldi hlaupara mættur til hlaups í dag. Magga þjálfari, Magnús, dr. Friðrik, Melabúðar-Frikki, Jóhanna Ólafs, dr. Jóhanna, Tumi, Flosi, ritari, Einar blómasali, Þorvaldur, Jörundur, Hjálmar, René, Bjarni, Bjössi og Albert. Frost 6 stig, en stillt veður og þurrt. Sól að hníga til viðar í suðri og himinninn afar speisaður á að líta. Nú fer sól að hækka á lofti og við munum merkja mun í hverri viku hvað við njótum lengri sólargangs. Það verður ljúft. Þjálfari mælti fyrir um langt hlaup í dag (henni finnst Þriggjabrúa langt!), en fyrst rólega út að Skítastöð. Ég veit ekki hvort sumir hlauparar eru skilningssljóir, en svo virðist sem þeim sé hulin merking orðsins "rólega", menn æddu af stað þegar á Ægisíðu eins og þeir ættu lífið að leysa og skildu okkur hina eftir í frostreyk.

Við félagarnir, Jörundur, blómasali og ritari, sórumst í fóstbræðralag vegna þess að við ætlum að feta Laugaveginn saman í sumar og ákváðum að halda hópinn á rólegu nótunum, til þess að undirstrika mikilvægi þess að fara rólega í byrjun (bæði byrjun hlaups og við upphaf þjálfunartímabils). Það var þetta hefðbundna 6 mín. tempó sem er svo ágætt byrjunartempó. Það gekk vel, en blómasalinn var afar þungur á sér, 94,5 kg, og útlistaði hann fyrir okkur matseðlana sem lágu að baki þessari miklu þyngdaraukningu. Jörundur lýsti yfir furðu sinni og jafnvel vonbrigðum með að maður sem þættist ætla Laugaveginn í sumar gæti ekki reynt að hafa betur taumhald á matarlystinni, sínum versta óvin! Slíkar vangaveltur bíta ekki á blómasalanum, hann heldur bara áfram að gera grein fyrir því sem hann hyggst snæða á næstu dögum.

Einhvers staðar á leiðinni náði Bjarni okkur, en jafnframt var Þorvaldur að dóla með okkur. Við gerðum harða hríð að honum þar sem spurn hefur borizt af því að hann spili bridge vikulega og eigi fyrir makker ekki ómerkari mann en sjálfan Vilhjálm Bjarnason. Þessu hefur Þorvaldur haldið leyndu fyrir okkur þrátt fyrir að oftar en ekki sé rætt um Vilhjálm í löngu máli á sunnudagsmorgnum. Þorvaldur varðist fimlega og vildi gera sem minnst úr þessari spilamennsku V.B. Hann væri í bezta falli aukamaður.

Bjarni var ólmur eins og unghross og vildi keyra upp hraðann, en við þremenningar og vinir létum ekki spilla áður gefnum heitum og dóluðum þetta áfram rólega. "Á nokkuð að fara hratt í Brekkuna?" spurði Jörundur. Átti hann við Boggabrekkuna, sem er löng og erfið. "Nei, nei, við förum þetta rólega," svaraði ritari. Blómasalinn dróst smásaman aftur úr, en Bjarni reyndi sem fyrr að keyra upp tempóið. Er komið var í Brekku varð Jörundur viðskila við ritara, sem hélt jöfnum hraða upp brekku með Bjarna, og blómasalinn rak lestina. Er upp var komið höfðu þeir hinir dregist aftur úr, en við Bjarni gerðum stuttan stanz efra og héldum svo áfram, trúðum því að þessir ágætu hlauparar myndu ekki einasta hlaupa okkur uppi, heldur tæta fram úr okkur og skilja okkur eftir í fullkominni spælingu.

Áfram um Útvarpshæð, yfir Miklubraut og út á Kringlumýrarbraut. Er komið var niður hjá Fram-heimili stóðu þeir tveir uppi á brúnni og hrópuðu: "Ekki fara svona hratt!" Við hægðum lítillega á okkur og biðum þess að þeir skiluðu sér, en þegar það gerðist ekki var tempóið sett upp aftur og við stikuðum stórum niður Kringlumýrarbraut og yfir á Sæbraut. Þar var bara gler á stígnum og mátti fara varlega. Það var orðið anzi kalt og svitinn farinn að kæla skrokkinn niður. En við héldum okkar striki og væntum þess að senn skiluðu blómasalinn og Jörundur sér. Það gerðist ekki. Bjarni fór um Ægisgötuna, en ritari fór Hljómskálagarðinn til þess að ná 14 km. Var bara góður alla leið og lauk hlaupi í góðum gír.

Í Sal voru nokkrir hlauparar (þessir sem eiga erfitt með að skilja "rólega") og teygðu. Ég hóf að teygja. Að lítilli stundu liðinni komu Jörundur og blómasali tilbaka, horfðu í kringum sig með brjálæðisglampa í augum og gnístandi tönnum: "Hvar er hann? Hvar er svikarinn?" Ritari faldi sig á bakvið súlu. "Við erum sko búnir að hugsa upp margar leiðir til þess að refsa honum fyrir svikin. Það var talað um að halda hópinn, og svo svíkur hann." Fá svör voru við þessum ásökunum, önnur en að þetta væri allt Bjarna að kenna, hann væri svo alvitlaus þegar kæmi að hlaupum.

Setið í potti um stund og rætt um Kasakstan og Borat. Vildi þá ekki betur til en svo að það voru Kasakstanar fyrir í pottinum, en þeir virtust ekki taka það nærri sér að menn ræddu heimaland þeirra á léttum nótum.

Næst er það svo Fyrsti Föstudagur. Blómasalinn tók því ekki fjarri að hýsa viðburðinn að þessu sinni og verður nánar greint frá því síðar með hverjum hætti þátttakendur geta lagt sitt af mörkum til þess að gera kvöldið að vel heppnaðri skemmtun. Í gvuðs friði, ritari.


Alvaran hefst

Glæsilegur hópur hlaupara mættur til hlaups frá Vesturbæjarlaug á fyrsta mánudegi á nýju ári. Það var farið að kólna utandyra og blása af norðri og hálka að myndast á stígum. Það er við aðstæður sem þessar að menn finna hjá sér hvöt til þess að fara í hlaupagírið og taka á sprett í hópi vaskra sveina og meyja. Eðlilega var byrjað á að hrista skítspaða og óska gleðilegs nýs árs með þökk fyrir þau liðnu. Þetta telst bara sjálfsögð kurteisi. Að því búnu gaf þjálfari út instrúx um hlaup á Nes, það skyldu teknar Bakkavarir. Nú er um að gera að taka hlaupum af ábyrgð og alvöru því að undirbúningur fyrir hlaup ársins er hafinn.

Hlaupið rösklega upp á Víðimel og þaðan vestur úr, fremst var Magga, Jóhanna Ólafs, Ósk, Flosi, Helmut og dr. Jóhanna - á eftir skeiðaði ritari. Helmut kvaðst hafa leitað dauðaleit að ritara eftir Gamlárshlaupið með kampavínsflösku í hendi - en ekki fundið. Ritari trúði þessu mátulega. Hlaupið með ströndinni alla leið vestur á Lindarbraut og yfir á Suðurströnd. Þaðan var stefnan sett á Bakkavör og ekki var staldrað lengi við heldur teknar 6-7 Bakkavarir á rífandi tempói. Þar bættust fleiri hlauparar í hópinn, Bjössi, Ágúst, Kalli og Siggi Ingvars, dr. Friðrik, en fremstur fór Melabúðar-Frikki á ægilegu tempói, tók hvern sprett af fullum krafti. Einnig var fagnað endurkomu Hjálmars eftir langa fjarveru.

Eftir sprettina var farið yfir Valhúsahæð og niður á Nesveg. Hér var ritari kominn í félagsskap blómasala og við hófum að ræða matreiðslu. Fórum á ágætum hraða síðustu leið tilbaka. Menn fóru inn og teygðu í Sal vegna þess að það var farið að kólna úti. Af því varð mikill hávaði í sal, enda skvaldraði hver í munn á öðrum og var þetta líkt og í fuglabjargi. Fór svo að afgreiðslustúlkan sá sig tilneydda að þagga niður í okkur þar eð hún heyrði ekki til að geta afgreitt fólk sem æskti þjónustu. Var orðið við því af ljúfmennsku. Hér minntust menn Ólafs G. Björnssonar sem flæmdist á brott úr Sal, þar sem hann sat við lestur á sumarkvöldum, fyrir hávaðasömum óróaseggjum sem virtu ekki þörf fræðimanna fyrir ró og næði.

Í þetta skiptið var barnapotturinn fullur af heitu vatni, en búið að loka Örlygshöfninni. Það var ekkert verra, það skapast alltaf góður andi í barnapottinum og var setið þar góða stund og rædd ýmis mál rekstrarlegs eðlis.

Á miðvikudag kemur í ljós hvernig tekst til með skráningu í Laugaveginn.


Undirbúningurinn er hafinn!

Sex hlauparar voru mættir við Vesturbæjarlaug kl. 10 í morgun til þess  að taka fyrsta hlaup ársins. Þetta voru Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur, blómasali, ritari og Rúna Hvannberg. Veður gott og færð góð. Lagt upp á rólegu nótunum. Formaður sagði í ítarlegu máli frá dularfullu morðmáli í Bristol á Englandi þar sem formaður LibDem í plássinu hefur setið undir grun. Var þessi frásögn svo ítarleg að hún entist okkur 1,8 km leið og var ekki minnst á nafn V. Bjarnasonar alla þá leið. En svo var ekki hjá því komist að taka stuttan upplýsingapunkt um hann.

Eðlilega var Laugavegurinn ofarlega á baugi í hlaupi dagsins, þar eð senn líður að skráningu, 5. jan. n.k. Mun Jörundur miðla upplýsingum um hvenær skráningin byrjar. Staldrað við í Naúthólsvík þar sem við tókum umræðu um skófatnað sem er nauðsynlegur á Laugavegi. Svo tók við Kirkjugarður og Veðurstofuhálendi. Voru hlauparar þokkalega fram gengnir eftir hátíðirnar og gekk stórvandræðalítið að fara fetið.

Eftir Veðurstofu fórum við Jörundur og Þorvaldur að síga fram úr þeim hinum og var ákveðið að stoppa ekki eftir Ottarsplatz, en halda áfram allt til Laugar. Teygt vel á Plani. Í potti voru helztu fulltrúar sunnudagsklúbbsins, þ. á m. Mímir eftir nærri þriggja mánaða fjarveru. Aðrir: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, og þau hjón, Stefán og Helga Jónsdóttir. Setið góða stund og margt skrafað, t.d. um Skaupið.

Þetta var fyrsti leggur í undirbúningi fyrir Laugaveginn - og lofar bara góðu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband