Færsluflokkur: Dagskrá

Hlaupið um jólin

Hlaupasamtök Lýðveldisins bjóða upp á hlaup um hátíðarnar sem hér segir:

Aðfangadag, stutt hlaup frá Vesturbæjarlaug kl. 9:30 (laugin lokar kl. 12:30).

Annan dag jóla (sunnudag) - hefðbundið sunnudagshlaup frá Laugardalslaug kl. 12:10 (laugin opnar kl. 12).

Vel mætt! Gleðileg jól!
ritari


Hlaupasamtökin eru gestgjafar Samskokks 6. nóvember

Laugardaginn 6. nóvember nk. verður þreytt Samskokk frá Vesturbæjarlaug. Það eru Hlaupasamtök Lýðveldisins sem annast undirbúning og skipulag skokksins að þessu sinni. Lagt er upp frá Laug kl. 9:30 og farnar valdar leiðir eins og lýst hefur verið á Hlaupadagbókinni. Að hlaupi loknu er boðið upp á vel valdar neyzluvörur úr hillum Melabúðar. Gaman verður að sjá sem flesta hlaupara af Höfuðborgarsvæðinu (og jafnvel víðar) taka þátt í hlaupinu.

Fleira stendur fyrir dyrum hjá Samtökum Vorum. N.k. er Fyrsti Föstudagur og verður hann haldinn hátíðlegur með hefðbundnum hætti hvað sem öllu samskokki líður. Ennfremur er verið að leggja lokadrög að 25 ára afmælishátíð Samtakanna og verður fljótlega send út lokadagskrá og veittur lokafrestur til skráningar, en hátíðin sjálf verður föstudaginn 12. nóvember í safnaðarheimili Neskirkju.

Allt var þetta uppi á borðum í hlaupi dagsins, sem ritari missti af sökum anna í þágu upplýsingar í Lýðveldinu. Hann vanrækti hins vegar ekki að láta sjá sig í potti þegar hlauparar komu þangað. Varð fagnaðarfundur meðal hlaupara sem ekki höfðu sézt í allnokkurn tíma, svo sem blómasala og ritara, en viðstaddir höfðu á orði að þeir hefðu bætt á sig aðskiljanlegum fjölda kílóa í formi fitu. Við tóku miklar umræður um matargerð, m.a. rætt um brezka eiturbrasarann Nigellu Lawson, sem ritari hefur ekki miklar mætur á. Gefnar upp uppskriftir af ýmislegu tagi. Voru þarna mætt dr. Jóhanna, Helmut, Frikki, Bjarni Benz, auk fyrrgreindra feitlaginna ferðamanna, og svo kom Flosi hafandi farið 18 km og dottið á svelli.


Reykjafellshlaup 2010

Boðað er til Reykjafellshlaups haustið 2010 með svofelldum boðskap:

Þá er komið að hinu árlega Reykjafellshlaupi, sem að þessu sinni verður haldið laugardaginn 11. september.

Mæting við Vesturbæjarlaugina kl. 14.30. Íris hefur boðist til að flytja farangur að Varmárlaug fyrir þá sem óska þess. Hlaupið hefst stundvíslega kl. 14.45.

Hlaupið er um Ægisíðu, Nauthólsvík, Flanir, Fossvogsdal, Elliðarárdal, Grafarvog og sjávarstíg í Mosfellsbæ og að Varmárlauginni.

Vegalengdin er u.þ.b. hálft maraþon, en þeir sem vilja hlaupa styttra geti komið inn við Víkingsheimilið  (ca. 13 km), við Elliðarárvoginn (ca. 10 km)  eða við höggmyndir á hólnum fyrir ofan Gufunes (ca. 8 km).

Einnig er tilvalið að hjóla alla leiðina eða hluta þess.

Í Varmárlauginni má hvíla lúin bein og fara í sturtu. Frá Varmárlauginni förum við upp í sveitasæluna okkar að Reykjafelli og ættum við að koma þangað  upp úr kl. 18.00.

Þeir sem ætla hvorki að hlaupa, hjóla né að fara í sund koma beint þangað.

Þar er boðið upp á kraftmikla kjötsúpu, brauð og gos. Um aðra drykki sér hver sjálfur.

Ef veður leyfir ætlum við að kveikja varðeld eftir mat. Einn gítar er á staðnum og gott væri ef fleiri gætu komið með hljóðfæri og söngbækur.

Bestu kveðjur,

Helmut og Jóhanna


27.06.2009 - Brákarhlaupið

Landnámssetrið í Borgarnesi efnir til hlaups með þrautum á hlaupaleiðinni sem kallað verður Brákarhlaup.

Tímasetning
Hlaupið fer fram 27. júní 2009 og hefst kl. 11.00.

Hlaupaleið
Hlaupið er eftir Borgarnesi endirlöngu. Frá Sandvík og út í Brákarey. Vegalengd um 2.000 m. Á leiðinni verða hlaupar að leysa ýmsar þrautir.

Nánar um sögu hlaupsins:
Þegar Vesturbæjarhópurinn var að hefja göngu sína undir forystu Ingólfs Arnarsonar fór frægasta hlaup Íslandssögunnar fram í Borgarnesi þegar Skallagrímur Kveldúlfsson elti ambáttina Þorgerði Brák niður í Brákarey þar sem hún fleygði sér til sunds. Karlinn greip bjarg mikið og fleygði á eftir henni og tókst að hitta hana. Nú er ætlunin að endurtaka leikinn, allt nema steinakastið.

PS
Frétzt hefur að Gísli Ragnarsson rektor muni mæta í hlaupið og skella sér í sjóinn líkt og kerling forðum. Félagar Hlaupasamtakanna eru hvattir til að taka þátt.


Hlaupaáætlun

Brýningarorð Páls Ólafssonar eru...brýn:

Hárgreiðslustaði hér má kalla

helst þegar á að fara að slá

gengur þá hver með greiðu og dalla

guðslangan daginn til og frá,

með hendurnar þvegnar og hárið greitt

úr heyskapnum verður ekki neitt.

 

Svo þegar kemur kaldur vetur

kafaldsbylur og jarðlaust er

biður þá hver sem betur getur

blessaður taktu lamb af mér.

Þá segi ég: fjandinn fjarri mér,

farðu nú út og greiddu á þér.

 

                        Páll Ólafsson

Í framhaldi af því má svo gjarnan birta hlaupaáætlun Þjálfara Vorra, og engin ástæða til þess að blygðast sín fyrir svo metnaðarfull áform (tek fram að ég hef íslenzkað verstu slettur Þjálfaranna, en sleppt t.d. orðum eins og tempó þar sem til var íslenzk hljómsveit með því nafni og það því feztzt í sessi; Fartlek treysti mér ekki til að þýða, er ekki enn viss um merkingu þess, auk þess er þetta gott og gilt sænskt orð og Svíar frændur vorir og vinir):

Hlaupaáætlun v. Berlínarmaraþons 2008

Núna eru 12 vikur fram að Berlínarmaraþoni og tími til kominn að spýta í lófana. Hér kemur fyrsta vikan af áætlun sem hægt er að nýta sér fyrir þá sem það vilja. Þau sem ekki eru að fara í maraþon en ætla t.d. að hlaupa hálft í Reykjavík ættu að geta notað þessa áætlun líka. Þá er nóg að hlaupa 18 - 20 km  sem lengsta hlaup.

Dögunum eru raðað upp eftir mikilvægi. Þið ákveðið síðan sjálf hvaða dag þið gerið æfingarnar.

Skipulagið hjá okkur þjálfurunum verður aftur á móti þannig:

Mánudagar: gæðaæfing (t.d. tempó, Fartlek og fl.)

Miðvikudagar: rólegt hlaup

Fimmtudagar: gæðaæfing (t.d. langt og stutt millispil)

Laugardagar: langt og rólegt hlaup

Við vitum að flest ykkar eru með langar æfingar á miðvikudögum og ekki ætlum við að breyta því, hver og einn verður að finna sitt tempó og vera ánægður með það sem hann er að gera.

Það er aftur á móti mjög gott að taka langar æfingar á morgnana (t.d. á laugardögum!) sérstaklega þegar komið er upp í 28+

1. Brennslan í líkamanum er önnur á morgnana

2. Líkaminn er ekki eins þreyttur á morgnana (andinn er það kannski)

3. Berlínarmaraþon er að morgni til þannig að það er gott að hafa tekið nokkrar æfingar á svipuðum tíma - líkaminn virkar öðruvísi á morgnana en seinni partinn

Þessi vika (12 vikur í Berlin) ætti að innihalda fjóra æfingadaga. Þið sem viljið leggja meira á ykkur bætið þeim fimmta við. 

Hafið í huga að mikilvægt er að:

* bæta ekki nema 10% á viku við löngu hlaupin og heildarmagn vikunnar

* löngu hlaupin fari ekki yfir 40-45% af heildarhlaupum vikunnar

* löngu hlaupin eiga ekki að fara mikið yfir tvo og hálfan tíma og alls ekki yfir þrjá

Tímarnir sem eru gefnir upp eru viðmiðunartímar. Fyrsti tíminn er fyrir þá sem ætla sér vel undir 3.30. Annar tíminn er fyrir þá sem ætla sér vel undir 4:00. Og þriðji tíminn er hugsaður fyrir þá sem ætla að vera í kringum 4:00. Óhætt er að bæta við km magni í rólegu hlaupunum en óþarfi að fara mikið yfir 11 km.

Áætlun:

I.Rólegt hlaup 8 - 10 km (4:50 - 5:30 - 6:00 per. km)

II.Langt og rólegt hlaup 22 - 28 km (4:50 - 5:45 - 6:30 per. km) 

III.Tempó 10 - 14 km (3 km upphitun, 2 km niðurskokk) 5 - 10 km tempó (4:15 - 4:30 - 5:15 per. km)

IV. Sprettir 8 - 10 km (3 km upphitun, 2 km niðurskokk) 8-12x400m sprettir (1:20 - 1:30 - 1:50 hver sprettur 45-60sek hvíld á milli)

V. Rólegt hlaup 8 km (4:50 - 5:30 - 6:00 per. km)

Athugið! Þið sem eruð á gömlum skóm kaupið ykkur nýja - þið eigið eftir að hlaupa um 600 km fram að maraþoninu. Skór duga yfirleitt í 1000 til 1500 km. Kaupið skó sem henta ykkur, farið t.d. í Afreksvörur í Síðumúla og fáið aðstoð þar.



 


Úr

Úr er hvorugkynsorð sem alla jafna merkir úði eða suddi. Svo skemmtilega vill til að það getur einnig merkt önugleiki eða jafnvel geðvonska, sbr. úrillur. En um það skulum við ekki fást, heldur beina huga okkar að hlaupi dagsins, en Kára til upplýsingar skal það sagt að hér á landi er nú hvassviðri og rignir eins og hellt væri úr fötu. Aldrei mæta fleiri til hlaupa heldur en þegar veður eru eins og í dag - en stóra spurningin er: kemur Karl? Það er jú 12.

Dagskrá hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins

Frá hausti 2007 er hlaupið sem hér segir í Hlaupasamtökum Lýðveldisins:

Mánudaga kl. 17:30
Miðvikudaga kl. 17:30
Fimmtudaga kl. 17.30
Föstudaga kl. 16:30
Laugardaga kl. 10:00
Sunnudaga kl. 10:10

Þjálfarar eru með okkur alla daga nema föstudaga og sunnudaga. Hlaupið er frá Vesturbæjarlaug.


Minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar.

Þriðjudaginn 19. júní fer fram minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar.

Mæting/upphaf hlaups er við Hrafnhóla-gatnamótin kl. 17:30.

Bílum má leggja rétt ofan við Gljúfrastein, á Þingvallavegi (nr. 36) við gatnamótin inn að Hrafnhólum og Skeggjastöðum. Fyrst verður hlaupið að Skeggjastöðum, upp með Leirvogsá, framhjá Tröllafossi og yfir ána. Þá verður farið sunnan Stardalshnúks, að Stardal, út á þjóðveg aftur og að gatnamótum Skálafellsvegar. Þar verður stoppað um stund og því næst hlaupinn þjóðvegurinn til baka.

Heildarvegalengdin er á að giska 13 km: 8 km uppeftir og 5 km niðureftir.

Kveðja,

Ágúst Kvaran og Sigurður Ingvarsson

Sjá: http://www.hi.is/~agust/ymisl/myndir/gkg7904/gkg7904.htm


Dagskrá hlaupa

Við hlaupum frá Vesturbæjarlaug :

  • Mánudaga    17:30
  • Miðvikudaga  17:30
  • Föstudaga    16:30
  • Sunnudaga   10:10

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband