Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Gömul kona dettur, eða var henni hrint?

Þar sem skrifari Hlaupasamtakanna er seztur í bifreið sína fyrir utan Melabúð Friðriks hafandi innhöndlað kostinn mæta þar hlauparar askvaðandi, óðamála og nánast slefandi af skelfingu, Magnús tannlæknir og Jörundur prentari. Þeir plöntuðu sér fyrir framan bíl skrifara og heimtuðu að ná tali af honum. Skrifari er maður fólksins og alþýðlegur í viðmóti og ævinlega reiðubúinn að hlýða á vanda annarra manna. Þeir segja sem svo að fjórir menn hafi haldið frá Laug fyrr um daginn: Benzinn, próf. Fróði, og þeir tveir, Jöri og Maggi. 

Segir nú ekki af ferð þeirra, utan hvað þeir tveir fyrstnefndu voru öllu sprækari og keikari, héldu hraðara tempói og voru þarafleiðandi á undan. Magnús og Jörundur horfðu á þá fyrrnefndu þar sem þeir mættu gamalli konu, sem féll við og lamdi andliti sínu í malbikaðan hlaupastíginn, braut tvær tönnur og blóðgaðist öll. Ekki báru þeir við Benz og Fróði að hjálpa konunni, létu sem þeim væri málið óviðkomandi og hlupu áfram. En slíkir öðlingar sem þeir eru, Magnús og Jörundur, þá reistu þeir konuna við, liðsinntu henni á alla lund, buðust til að lána hárband Jörundar til að þurrka blóð (sem var afþakkað), buðust til að skipta á skóm við hana (hún var á töflum, en vildi ekki þiggja hlaupaskó Jörundar). Og þannig frameftir götunum. Buðust til að aka henni heim, en hún treysti sér til að klára ferð sína.

Hér er vel lýst eiginleikum og geðslagi manna. Prúðmenni á borð við Jörund og Magnús halda á lofti heiðri Hlaupasamtakanna, dólgar eins og Benzinn og Fróði koma óorði á Samtökin.

Jæja, nú gerist það að skrifari heldur til Laugar. Sest þar í Pott og bíður þess sem verða vill. Það sást til dr. Einars Gunnars, Maggi henti sér í Laug, en hvörgi bólaði á Jörundi. Er skrifari hafði setið um stund í Potti dúkkaði upp kunnuglegt, búlduleitt andlit og tilheyrði þekktum blómasala í Vestbyen. Við hæfi þótti að hreyta í hann ónotum og kommentera á vaxtarlag. Hann virtist meðvitaður um aukningu í líkamsumfangi. Við tók samtal um lífið í Gvuðseinalandi, morgunverði á 25 dollara með beikoni, eggjum, pönnukökum og sýrópi.

Svo kom dr. Einar Gunnar í Pott, þar á eftir frú Helga Zoega, Stefán Sigurðsson verkfræðingur. Svo Benz og lét illa, en þegar prófessor Fróði sýndi sig á Laugarbakka stóðu skrifari og blómasali algerlega samtímalega upp úr Potti og létu sig hverfa.

Næsti föstudagur er Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar. Þá mun skrifari bjóða upp á næringu fyrir illa haldna hlaupara að heimili sínu, en hver taki þó með sér drukk. Þá verður skrifari grasekkill og því svigrúm fyrir vín og villtar meyjar!

Gleðjumst!  


Vinátta

Þar sem skrifari gekk í hægðum sínum eftir Öldugötu til hádegisverðar að setri sínu við Bræðraborgarstíg rennir svört glæsibifreið upp að honum og nýkjörinn þingmaður Lýðveldisins ávarpar hann: "Á hvaða ferð eruð þér?" Skrifari gerði grein fyrir erindi sínu, en var jafnskjótt inntur eftir uppruna yfirhafnarinnar sem hann var í. "Er þetta Barbour?" spurði þingmaðurinn. "Það veit ég andskotann ekki," sagði skrifari, "mér er eiginlega alveg sama". Síðan tóku við stimpingar um fatnað sem hæfi herramönnum og merkjaóðum Vesturbæingum. Þingmaðurinn heimtaði að skrifari færi úr frakkanum og sýndi honum merkin. Skrifari hlýddi góðfúslega, enda er brýnt að löggjafarvald og framkvæmdavald vinni vel saman. Eftir að hafa skoðað frakka skrifara í krók og kring grýtti þingmaðurinn frakkanum í eigandann með þessum orðum: "Þetta er drasl!" 

Loks varð stutt samtal um vináttu og samskipti og bað hann fyrir kveðju til "fyrrverandi vina" sinna. 

Nú er frá því að segja að skrifari leggur leið sína sem oftar í Vesturbæjarlaug síðdegis hafandi þrælað allan daginn í Stjórnarráðinu. Þar verður á vegi hans prófessor Fróði sem á í fullu fangi með að hafa stjórn á ökutæki sínu og virðist honum vera um megn að stjórna svo stórri vél. Þar sem skrifari stendur á Plani heyrir hann klirra í ótölulegum fjölda vínflaskna í skotti bílsins og furðar sig á því að svo heilsusamur maður skuli láta slíkt vitnast að hann mæti til hlaupa um miðja viku með bílskottið fullt af áfengi. Prófessorinn var forhertur og kvaðst ætla að skila þessum birgðum, til þess eins að kaupa miklu dýrari og betri veigar.

Jæja, þar sem gengið er til Brottfararsalar innir prófessorinn skrifara eftir heilsu. Jú, það er setið við sama keipinn og beðið eftir bata. "Já," sagði prófessorinn, "þetta á eftir að taka sjö mánuði, og eftir það kemur ábyggilega eitthvert nýtt mein upp."

With friends like these... Það bætti heilsu skrifara að hitta Benzinn og son við Hamborgarabúlluna að loknum kvöldverði og eiga við þá stutt spjall. Sem betur fer eru enn til heilbrigðir menn í hópi vorum.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband