Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Fullkomið hlaup

Mættir til hlaups: Helmut, dr. Jóhanna, prófessor Fróði, Björn kokkur, Jörundur, Birgir, Einar blómasali, Bjarni, Anna Birna, Vilhjálmur, Ólafur ritari, Rúnar þjálfari, Kalli, Eiríkur sjaldséni, Benedikt hljóðláti, Kári og Magnús. Og svo strákurinn á hjólinu. Vilhjálmur kvaddi sér hljóðs á tröppunum, kvaðst hafa hringt í Gísla félaga okkar og sagt honum að hann væri aumingi. Gísli samsinnti því og kvaðst mundu mæta til hlaups á föstudag. Þá verður honum jafnframt afhent afmælisgjöf sem Vilhjálmur tók að sér að velja af sínu alkunna listfengi. Var ræðunni vel tekið og lýstu margir þá þegar yfir vilja til að mæta.

Þjálfari flutti tölu um skó og nauðsyn þess að huga að skókaupum tímanlega til þess að vera ekki að hlaupa á nýlegum skóm í maraþoni. Töldu viðstaddir að þjálfara hefði mælst sköruglega og ekki var síður dáðst að því að Rúnar náði að þagga niður í Birgi eitt augnablik meðan hann talaði. En bara eitt augnablik, svo byrjaði dælan aftur að ganga. Dr. Jóhanna lagði til breytta hlaupaleið frá því sem vanalegt er. Þegar prófessor Fróði heyrði þetta sagði hann: Já, en þetta er breyting! Varð hvítur sem nár í framan og fór að sýna byrjunareinkenni kvíðakasts, greip í handriðið við tröppurnar sér til stuðnings. Síðan var bara lagt í hann. Veður gott, bjartviðri, 12 stiga hiti, en smávindur framan af. Farið hægt af stað enda stóð til að fara langt.

Það blés aðeins á Ægisíðu, en ekki svo að það truflaði. Þegar veður er eins og það var í dag vekur það manni furðu að ekki skuli vera fleiri að hlaupum - þetta var afar ljúft. Hersingin var bara róleg, m.a.s. sá sem þegir - hann var rólegur enda á leið á Mývatn. Blómasalinn samkjaftaði ekki, blaðraði út í eitt um hækkanir á stáli úti í heimi. Þá sagði Benedikt: Það hefur aldrei meitt neinn að þegja.

Er frá leið fór hópurinn að grisjast og aðeins lítill hópur hélt í Kópavoginn. Próf. Fróði, ritari, dr. Jóhanna, Helmut, Birgir og Einar. Tveir síðustu þó alllangt á eftir okkur hinum. Fórum niður í Voginn og héldum svo á Kársnesið. Þar dúkkaði Bjössi upp, öllum til mikillar furðu, enginn skildi hvaðan hann kom. Hvað um það, áfram var haldið fyrir Kársnesið og yfir sunnanmegin. Alltaf var strákurinn á hjólinu að sniglast í kringum okkur, berandi í okkur drykkina. Prófessorinn sagði okkur að stuttur stanz yrði gerður í Lækjarhjalla, þar sem myndarleg húsmóðir biði okkar með veitingar úti á svölum og elskulegt viðmót. Er þangað kom var enginn heima og ekkert að hafa. Voru það vonbrigði. Ekkert stoppað, keyrt áfram.  Það veitti mér einskæra gleði að ég skyldi geta fengið mér að drekka af bláa Gatoradinum sem blómasalinn hafði keypt og skilið eftir að bögglabera stráksins. Hugsa sér, fá að drekka ókeypis!

Hér voru hlauparar farnir að lýjast, enda eru brekkurnar í Kópavogsdalnum erfiðar. Við héldum upp úr dalnum og inn í Reykjavík, komnir með aðskilnaðarkvíða eftir svo langa fjarveru. Undir Breiðholtsbraut, hjá benzínstöð. Hér skildu leiðir, Björn og Ágúst fóru upp að Stíbblu - en við hin fórum niður í Elliðaárdal og tókum stefnuna á Fossvoginn með það í huga að fara stytztu leið heim.

Við vorum orðin ansi lúin er hér var komið og fórum fretið. Við vorum hins vegar ánægð með frammistöðuna. Ég varð að ganga nokkrum sinnum sökum þreytu - en þegar upp var staðið reyndist hlaup 23,8 km. Björn og Ágúst fóru 28 - Einar og Birgir 18 km. Aðrir væntanlega eitthvað styttra. Í potti var 6 mánaða sköllóttur drengur. Björn horfði á hann og sagði: Heyrðu, hann er alveg eins og ég! Rifjaðar upp minningar úr menntaskóla og öðrum skólum. Niðurstaða: langt hlaup og lýjandi - en uppbyggilegt á yndisfögrum degi. Í gvuðs friði, ritari.

Grunnt á afrekin, alvöruhlauparar á ferð

Ekki var veður hlaupalegt, hvass vindur af austri og fremur kalsalegt. En hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins láta slíkt ekki á sig fá: geysilega góð mæting var þar sem fremsta meðal jafningja mátti þekkja dr. Friðrik, dr. Karl, Magnús Júlíus,  próf. Fróða og fleiri góða hlaupara. Þá voru mættir tveir þjálfarar, en slíkt er jafnan fyrirboði válegra tíðinda. Kom það enda á daginn er út var komið að þjálfarar hugðust bjóða upp á fartleik. Hér dæstu sumir, og varð lítillar hrifningar vart. En tuttugu manna hópur lagði í hann þegar búið var að stilla tæki.

Kári varaði aðvífandi og grunlausa vegfarendur við því að hér væru þungaflutningar á ferð og mönnum best að vara sig. Haldið niður á Ægisíðu og þar tók mótvindurinn við - ekki skemmtilegt! Mér til mikillar furðu náði ég að hanga í fremstu hlaupurum, en sá listi var eftir bókinni. Dagsskipunin var að fara út að Dælustöð og hefja fartleikinn eftir það. Er þangað var komið var Benedikt leyft að halda áfram án þess að taka þátt í leiknum. Ég spurði hvort hann væri með sérkjör - en var þá sagt að Benni væri að fara í Mývatnsmaraþon og mætti ekki hlaupa. Helmut og dr. Jóhanna og einhverjir fleiri héldu áfram án þess að stoppa, við hin stöldruðum við og hlýddum  á fyrirmæli þjálfara. Svo var lagt í hann eftir að þjálfarar höfðu áréttað hvað "fartleikur" er og hvað hann er ekki.

Það var farið á fullu stími frá Dælustöð út að lyftingatækjum, og svo aftur frá Strikinu í Nauthólsvík upp á Flanir og hægt eftir brekkuna fyrir neðan kirkjugarð. Hægt út að Kringlumýrarbraut og svo sprett úr spori upp Suðurhlíðar. Þrátt fyrir að ég næði í sveigjanlegri merkingu þeirra orða að "halda í við" hina - teygðist eitthvað á halarófunni. Í brekkunni neðan við Perluna heyrði ég hróp og köll. Ég leit upp og sá hund á harðaspretti í áttina til mín. Sá einnig að eigandinn stóð álengdar og kallaði á hundinn. Hundurinn hafði hins vegar rekið augun í hóp hlaupara og sá að þar var mikið gaman í gangi, miklu skemmtilegra að blanda geði við þetta fólk en einhvern fúlan hundeiganda. Hundurinn, sem reyndist vera af Doberman-gerð, kom á harðaspretti til mín og köldum svita sló út um mig allan, ég fékk adrenalín-skot og fann fyrir auknum krafti í skrokknum, tók vel á því á síðasta kaflanum upp brekkuna.

Hundurinn reyndist vel þjálfaður og hinn prúðasti, en afar fjörlegur. Hann hljóp fram og tilbaka milli okkar og vildi greinilega leika. Við höfðum hins vegar efasemdir um að taka hann í hópinn, spurning hvort ekki sé nóg að hafa einn hund í Hlaupasamtökunum (Töru). Hundurinn var núna kominn langt frá eiganda sínum og endaði með því að slást í för með erlendu ferðafólki sem þarna var á ferð. Við áfram niður brekkuna. Svo var farið Flugvallarveg tilbaka út í Nauthólsvík og tekinn nýr sprettur. Það kom ritara skemmtilega á óvart að ná því sem næst að hanga í þessum afrekshlaupurum sem hann naut heiðursins að hlaupa með, þjálfurunum tveimur, Bjössa, Ágústi, Birgi og svo tveimur ungum sem ég hef ekki nöfnin á. Þrátt fyrir nokkra fjarveru og slitróttar æfingar er grunnt á líkamlegan styrk og úthald - maður verður fljótur að ná sér á strik á ný.

Fartleikur hentar vel til þess að þagga niður í Birgi, hann þarf að taka svo vel á því að hann getur ekki talað. 

Hittum þau Helmut, dr. Jóhönnu og Kára við Laug - þau höfðu farið sömu leið og við að því er Helmut fullyrti (?) en farið hratt yfir og því náðum við þeim ekki! Ég var með strengi eftir sunnudagshlaupið, og vakti það furðu mína og annarra viðstaddra, sem fóru háðuglegum orðum um sunnudagahlaupin, þetta minnti meira á gönguferðir með gömlu fólki sem ræddi um ættfræði, gyllinæð og bílnúmer. Við Bjössi og Ágúst lentum í félagsskap við skemmtileg ungmenni sem vildu ræða hlaup, atvinnuhorfur og framtíðaráform. Rætt var um þekkt góðmenni og fylgdu persónulýsingar, einn smándurinn benti á ritara og sagði um viðkomandi: Hann er miklu feitari en þessi... Jæja, þar fór það!

Næst miðvikudagur, Ágúst ætlar 30 km - aðrir líklega eitthvað skemmra. Í gvuðs friði, ritari.

Hlaupið af list á sunnudegi

Vilhjálmur spurði mig hvort ég hefði skilið póstinn frá Ólafi Þorsteinssyni sem Hlaupasamtökunum barst s.l. föstudag. Hann fullyrti að erindið hefði verið með öllu óskiljanlegt. Hlauparar hefðu staðið á stétt á föstudaginn og reytt hár sitt í ergelsi yfir að fá svo margræðar sendingar. Ég lýsti skoðun minni á því  hvað pósturinn hefði fjallað um og í framhaldi af því bað VB mig að senda ritskýringu á hlaupahópinn og útskýra inntak póstsins. En í stuttu máli fjallaði pósturinn um fyrirhugað föstudagshlaup 20. júní á slóðir Víkinga í Fossvogi, gönguferð um sýningu með leiðsögn og innbyrðzlu próvíants að því loknu. Flóknara var það nú ekki.

Mættir á þessum fagra sunnudagsmorgni voru Ó. Þorsteinsson, V. Bjarnason, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur ritari. Harðsnúinn hópur og til alls líklegur. Ritari búinn að missa töluvert úr og orðinn slakur. Úti á stétt lýsti blómasalinn hlaupi föstudagsins, ef hlaup skyldi kalla, því staldrað var við á ekki færri en þremur myndlistarsýningum og á einni fasteignasölu og innbyrtur mikill matur, snittur, plokkfiskur, o.fl., og mikill drykkur. Maður er alveg hættur að skilja svona íþróttaiðkun sem hefur sem helzta takmark að komast í matar- og drykkjarveizlur og verða sér þar til skammar með óhófi og græðgi.

Ekkert rætt um Júróvisjón, en hins vegar lýsti Ó. Þorsteinsson ferð sinni í miðbæinn í gær um miðjan dag og bar saman við fyrri tíma þegar ungir menn léku knattspyrnu á túninu framan við Reykjavíkur Lærða Skóla og fólk gekk prúðbúið upp Bankastræti og niður í Austurstræti og allt var með öðrum blæ en nú. Nú má um miðjan dag í miðbæ Reykjavíkur sjá fótboltalið af fillibittum illa til reika og málaðar konur með vafasaman starfsvettvang að gyrða sig í brók. Þetta þurfa heiðvirðir heimilisfeður að horfa upp þegar þeir bregða sér í bæinn ásamt dætrum á fermingaraldri að nálgast próvíant á Jómfrúnni. Hér var öllu náttúrlega snúið á haus og frændi gerður tortryggilegur: "Hvað segiru, varstu að koma AF Jómfrúnni?" og annað eftir því.

Farið á skynsamlegri ferð inn í Nauthólsvík. Samt entist blómasalanum ekki erindi lengra en inn í Skerjafjörð, þá gafst hann upp segjandi að hann væri illa fyrirkallaður. Þvílíkt og annað eins hefur ekki gerst í mannaminnum, nema menn hafi beinlínis verið meiddir. Eða þegar Magnús hefur þurft að bregða sér á Kirkjuráðsfund. Svo fáheyrð þótti þessi framkoma að um hana var rætt alla leið inn í Nauthólsvík. Þar tók við saga á ensku af konu og pí og tí sem Vilhjálmur sagði. Mikið grín - mikið gaman eins og segir í kvæðinu.

Sem vænta mátti rann berserksgangur á Jörund á Flönum þegar hann rak augun í lúpínuna. Réðst á hana sem óður væri og sleit upp heilu flókana. En hann róaðist nokkuð í kirkjugarðinum þar sem kyrrðin ríkir ofar hverri kröfu. Persónufræðin á fullu, rætt um fólk og bílnúmer. Vísbendingar.

Á Hlemmi varð óvæntur atburður: hópurinn fór nýja leið, meðfram lögreglustöðinni út á Snorrabraut og svo niður á Skúlagötu. Var þetta að sögn gert vegna framkvæmda við Tónlistarhús sem mjög trufla hlaup þessi missirin. Var þetta þó ekki mótmælalaust, þar sem við frændur og nafnar vildum fara hefðbundið, enda vanir því að gera alltaf allt eins.

Vel mannaður pottur, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar og fleira fólk. Loks dúkkaði upp ónefndur blómasali og var með afsakanir á reiðum höndum, og var umfram allt dapurlegt að sjá hlaupara, sem af mörgum hefur stundum verið talinn lofandi, fara svo illa með góðan hlaupadag. En á morgun er nýr hlaupadagur og þá verður hlaupið. Framundan margir spennandi viðburðir og óhætt að segja að félagslíf sé í miklum blóma í Samtökum Vorum. Ritari.  

Hlaupari snýr aftur

Hvöss orð hafa gengið manna á milli á eternum. Heitstrengingar og hótanir, gælur og glefsur, köpuryrði og hæðni. Ritari mættur á ný til hlaupa eftir fjarveru og hlaupaleysi. Aðrir mættir: Björn kokkur, Birgir jógi og Rúnar þjálfari. Hlýtt í veðri, en stíf austanátt. Fréttir af miðvikudagshlaupi voru helztar þær að einhverjir hlupu ekki út af einhverjum fóbboltaleik í sjónvarpinu. Þeir sem hlupu kvörtuðu yfir illum þef sem lagði af hlaupafatnaði ónefnds blómasala. Þykir því enn og aftur ástæða til þess að brýna fyrir hlaupurum að tryggja að fatnaður sé þveginn að loknu hverju hlaupi.

Lofað hafði verið löngu hlaupi, en þegar til átti að taka virtust menn eitthvað tímabundnir, og ég skildi það svo að það væru brýn störf að mikilvægum mannúðarmálum sem hindruðu löng hlaup. Hið rétta kom í ljós í lok hlaups. Hann var hvass á Ægisíðu og menn fengu storminn í fangið. En létu það ekki á sig fá og tóku á honum stóra sínum. Óvenjumikið af hjólreiðafólki á stígnum, sumir fóru mjög hratt og óvarlega og gera sér greinilega ekki ljóst hve hættan er mikil að slys verði þegar óvitar hreyfa sig með ófyrirsjáanlegum hætti (og hér er ég ekki að vísa til hlaupara í ónefndum Hlaupasamtökum sem sumum kynni að virðast hegða sér óskynsamlega á hlaupum).

Þrátt fyrir að vart heyrðist mannsins mál í storminum heyrðist í Birgi alla leið. Loud and clear. Ritari var furðu sprækur eftir langa hvíld frá hlaupum, þrátt fyrir veikindi og hvers kyns óreglu. Hinir voru einnig allgóðir. Eftir því var tekið að búið er að skrúfa frá vatni á fontum á leiðinni og ber að fagna því.

Við fórum upp Flanir (grasi gróin hæð austur af Nauthólsvík) - þar er lúpínan að taka við sér og tímabært að ónefndir lúpínuóvinir taki til óspilltra málanna. Ritari mátti þola ýmsar glósur á leiðinni, að hann væri feitur og þungur, liti út eins og dráttarklár, Sörli. Birgir kvaðst hlaupa í Sörlaskjóli og fyndi ekki fyrir vindi. Farið upp Suðurhlíðar og ekki slegið af. Hér var í raun gefið í og tempóið keyrt upp. Áfram hjá Perlu, niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Keyrt á fullu stími vestur úr. Björn sagði okkur af kynnum sínum af Gústafi Agnarssyni, lyftingamanni, og voru þær allar í klassiskum anda Íslendingasagna. Hetjudáðir og hreystibrögð.

Þeir Björn og Birgir voru stutt í potti, lá einhver ósköp á. Þegar ég gekk á þá viðurkenndu þeir að ætlunin væri að horfa á Júróvisjón. Ég hváði og lýsti yfir furðu minni á þessu kúltúrleysi. Svo rann það upp fyrir mér að meginástæða þess að ekki fleiri hlauparar voru mættir í dag til hlaupa væri þessi: menn vildu ekki missa af Júróvisjón. Fóbbolti í gær, Júróvisjón í dag! Hvar er karlmannslundin? Hvert stefna þessi Samtök? Ég bara spyr. Skyldu menn sniðganga hlaup á morgun til þess að missa ekki af útsölu á fótlagaskóm? Nú þurfa menn að fara að taka sér taki, framundan er maraþon. Nú þarf að fara að hlaupa af alvöru og eftir áætlun. Hver ætlar að gera áætlun? Ritari er mættur til starfa.  

Mönnum verður á og mismæla sig

Föstudagurinn 16. maí verður lengi í minnum hafður. Afar vænn hópur góðhlaupara samankominn á hefðbundnum slóðum, flestir með gervihnattasamband, léttir í skrefinu frá upphafi hlaups til enda. Eins og oft áður voru sumir skrafhreifir fram úr hófi, eða svo lengi þeim entist öndun til, en dró þó úr mesta masinu þegar komið var út af Klambratúni. En fyrir þá sem ekki vita, er nafnið dregið af bænum Klömbrum í Vestur –Húnavatnssýslu. En klambra er sérstök lögun á hnaus.

Það verður nú að segjast ýmsum til hróss, að ég hljóp ekki einn allan tímann, þó lengst af.  Tónlistarhúsið teygir nú anga sína í átt Seðlabanka og verður að sýna sérstaka varfærni þegar klöngrast er yfir Skúlagötuna. Hraði bifreiða er þar all nokkur og eru menn brýndir til að líta til allra átta áður en farið er yfir.  Á þetta sérstaklega við þá sem gjarnir eru á að hlaupa út undan sér.

Þegar til laugu kom, tóku menn eftir því að það vantaði ónefndan blómasala og var sem honum hefði hreinlega ekki enst orka til að ljúka hlaupi. Það var ekki fyrr en menn höfðu skrafað drjúga stund í potti að hann skreiddist til okkar. Lagði af honum angan ljúfa; hann sagðist hafa fengið nokkur hvít og rauð á leiðinni. Þögn sló á íþróttamennina í potti, en blómasali var bæði glaðr og reifr. 

Á einhvern undarlegan, óútskýrðan hátt, hafði hann lagt langa leið á sína lykkju og „komið við” á Þjóðminjasafninu, 600 metrum austan við Hofsvallagötu, og verið þar við opnun sýningar Ragnheiðar kokksins. Þar brynnti hann sér í fyrsta sinnið. Að því loknu hélt hann að háskólabyggingu, kom við í teiti nema í viðskiptafræði og var einnig boðin mungát heit; að lokum og í hið þriðja sinnið hóf hann bikar á loft í veislu hagfræðinema, eilítið sunnar í sömu byggingu. Verður þetta að teljast met í upphafningu andans og það í sveittum hlaupagírnum. Menn voru furðu lostnir, en bros blómasalan hljóp í vöxt eftir því sem á frásögnina leið. Var nú stutt í að menn fóru að tala um mat. Við þá umræðu dvaldi vararitari ekki.

 

Mánudagurinn 19. maí

Enn og aftur var létt í hlaupverjum þennan fallega mánudag. Hægur að austan og sæmilega mætt. Sem fyrr átti að taka langan þétting. Reyndar verður að segjast eins og er, að mánudagsþéttingar eru orðnir það langir, að styttri hluti leiðarinnar er á rólega tempóinu. Út að dælu og lens vestur á Lindarbraut, vel á fimmta kílómetra. Einn í hópnum fremstur, en þjálfari ekki víðs fjarri. Þóttust menn vart í annan tíma hafa tekið eins feiknarlangan sprett. Og í raun öllum til mikils sóma, sem á annað borð mættu.

Höfðu sumir á orði þegar þarna var komið hlaups, að andinn í hópnum væri venju fremur vinsamlegur, hverju sem sætti. Er aðalritari í Svíþjóð, spurði lærður maður í hópnum. Umlaði í lýðnum miður glöðum, en engin svör.

Skildu nú leiðir með þeim sem koma til hlaupa, og hinna sem koma til að tala.  Fórum við próf. Fróði út Nesið og smöluðum rúmum 16 kílómetrum inn á mælinn. Reyndar vil ég geta eins, vegna þess hversu feikn mér var brugðið; próf. Fróða lagði til að við styttum, færum ekki fyrir völlinn. Ég þvertók fyrir þetta og próf. F. sagðist hafa mismælt sig, sagðist hafa spurt; er þetta stytta? Við tóku nokkrar gargandi kríur og málið leystist af sjálfu sér. Var síðan hlaupið á fullu gasi, fyrir völl, norður og austur úr til laugar. Vararitari.


Feitur hlaupari í Svíþjóð

Ritari situr á sléttum Uppsalaauðs og bara fitnar. Ekkert hlaupið vegna veikinda og þyngsla. Horfur slæmar. Missi óðum niður áður fenginn styrk og þrótt, bæti stöðugt á mig kílóum vegna ofáts og agaleysis. Vonast þó til að komast út að hlaupa á laugardaginn, en fer ekki mjög langt. Hlaupist ykkur vel félagar! kv. ritari

Í rangri messu...

Ánægjulegt er að geta sagt frá því að það var hlaupið á þessum Hvítasunnudagsmorgni frá Vesturbæjarlaug. Sem fyrr voru það merkisberar útivistar og hollrar hreyfingar í Vesturbæ Lýðveldisins sem stóðu fyrir viðburðinum, félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, þeir Ól. Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni, Birgir, Einar blómasali og ritarinn. Veður þolanlegt, blautt og einhver vindur.

Ólafur Þorsteinsson sagði frá mikilli veizlu sem hann sótti s.l. föstudag og haldin til heiðurs Geðlækni Lýðveldisins sextugum. Mikið var um dýrðir og margt þjóðþekktra andlita. Frekari lýsingar á veizluhöldum minntu á efnistökin í Heljarslóðarorrustu.

Ritari allstirður eftir hlaup gærdagsins, en lét sig hafa það að staulast á eftir þeim hinum, sem voru frískir eins og venjulega. Farið hefðbundið um Sólrúnarvelli og austurúr. Mikið var notalegt að geta stoppað í Nauthólsvík og gengið smáspöl. Ólafur Þorsteinsson lýsti yfir því  að flugvöllurinn skyldi fluttur, Birgir tók undir með honum. Aðrir voru þessu andvígir og spratt upp hávaðadeila þarna á stígnum um hvort flugvöllurinn fengi að vera eða hvort hann yrði að víkja. Þetta stefndi í vandræði þegar einhver tók upp á að hlaupa af stað og hinir eltu, misklíð gleymdist og menn voru þess í stað sammála um að seint gengi að byggja Nauthól, hinn nýja skemmtistað við ströndina.

Komið í kirkjugarðinn. Þar er hægt að skrúfa frá vatni og drekka. Á hinni hefðbundnu hlaupaleið okkar á sunnudögum eru tveir vatnsfontar - en ekki enn búið að skrúfa frá vatni þótt langt sé liðið á sumar. Þetta er hneyksli og tímabært að Jakob Frímann grípi til sinna ráða sem einhver helzti framfaramaður miðborgarinnar og láti skrúfa frá vatninu. Gengið í garðinum og menn anda að sér angan vorsins og horfa á gróður fara grænkandi.

Haldið áfram og farið hefðbundið um Veðurstofuhálendið, Hlíðar, Hlemm og niður á Sæbraut. Ekki bar neitt til tíðinda á þessum kafla og héldu menn friðinn að kalla. Er kemur að tónlistarhúsi þarf að fara yfir Sæbrautina og hjá Útvarpshúsinu gamla og Seðlabanka vegna framkvæmda við Tónlistarhús. Við gengum langar leiðir og ræddum þjóðþrifamálefni.

Það sást til Flosa í laug og flugu einhverjar glósur um hvaða messu hann hefði sótt á þessum degi, alla vega ekki þá sem Ó. Þorsteinsson stýrði með sínum takmörkuðu réttindum í Nessókn. Mættir dánumenn í potti, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar - og fluttar helztu fréttir.

Næst hlaupið á morgun, annan í hvítasunnu, kl. 10:10.


Frá Laug til Laugar

Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins reis árla úr rekkju á þessum fagra laugardegi í maí, tók til hlaupafatnað og hélt til Laugar. Nú hefur ekki verið hlaupið í viku vegna embættisanna og úr því skyldi bætt. Klukkan var hálfníu og fáir á ferli. Veður kjörið til hlaupa, 10 stiga hiti og úrkoma í nánd. Hitti Flosa í útiklefa - hann sagði að blómasalinn hefði verið dreginn í 15 km hlaup í gær og fengið ókeypis orkudrykk sér til styrkingar. Mætti séra Ólafi í anddyri Laugar, hann rak upp hæðnishlátur þegar hann sá mig á stuttbuxum - það er hlegið að manni hvarvetna.

Ég lagði í hann einn og yfirgefinn, eins og venjulega, og mætti strax mótvindi á Ægisíðu, en hugsaði gott til glóðarinnar að fara langt á þessum morgni. Hugsaði um brekkuna í Kópavogi, hugsaði um Goldfinger, Stíbblu, Árbæjarlaug. Planið var sem sagt að fara langt, mjög langt. Ekkert bar til tíðinda inn í Nauthólsvík, og í raun ekki heldur inn í Fossvog. Til að gera langa sögu stutta má raunar segja að ekkert hafi borið til tíðinda allt hlaupið, nema að það var hlaupið. Og hlaupið. Ég mætti nokkrum hlaupurum á leiðinni, en ekki mörgum. Leið vel eftir brekkuna hjá Lönguvitleysu, og raunar alla leiðina upp að Árbæjarlaug, hugsaði um það eitt hvað þetta væri yndislegt, veðrið, náttúran, allt saman.

Staldraði við efra og bætti á mig vatni, hélt svo áfram niðurúr. Fór að finna til þreytu í Laugardalnum, en ekki svo að það truflaði mig, bætti vel á mig vökva, enda rann svitinn í stríðum straumum. Lauk hlaupi á viðunandi tíma, enda er þessi hlaupari alltaf að bæta sig.

Næst hlaupið á morgun, hvítasunnudag, kl. 10:10, frá Vesturbæjarlaug.

Hvass á austan

Það heyrir til sögunni og skráist hér með á bækur að hlaupið var í Hlaupasamtökum Lýðveldisins föstudaginn 2. maí 2008 og Strákurinn á Hjólinu átti afmæli. Af því tilefni sungu menn vitanlega afmælissönginn á miðjum stígnum á Ægisíðu. Mættir margir valinkunnir hlauparar svo sem eins og dr. Friðrik, dr. Jóhanna, próf. dr. Fróði, dr. Karl, og nokkrir í viðbót, Kári og Birgir - og ritari var einnig mættur. Og Strákurinn á Hjólinu. Hlaup allt var hófstillt, enda sat enn þreyta í skrokkum eftir erfitt miðvikudagshlaup. Við slepptum sprettum, en fórum hratt yfir og héldum hraða vel. Veður fagurt.

Að kvöldi var svo komið saman Fyrsta Föstudag á heimili Helmuts og Jóhönnu, þar sem bakaðar voru flatbökur og drukkinn mjöður með. Björn flutti hugnæma tölu um mikinn afreksmann og hlaupagarp sem vel væri að því kominn að taka móti verðlaunum sem hlaupari aprílmánaðar: ritari Hlaupasamtakanna. Ritari þakkaði af auðmýkt auðsýndan heiður.

Sunnudag 4. maí var annað upp á teningnum, þá var þungbúið veður og blés ákaflega af austri. Mættir til hlaups Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Einar blómasali og ritari. Þungt hljóð í mönnum eftir dapurlegt gengi Garðabæjar gegn Reykjavík í Útsvari - en VB var ekki á svæðinu og því fór sem fór. Það var farið hægt út og hlaupið rólega alla leið. Á Ægisíðu lentum við í stífri austanátt og svo miklu roki að vart heyrðist mannsins mál. Staðnæmst í Nauthólsvík og gerð úttekt á menntakerfinu og starfi innan Evrópusambandsins.

Áfram inn í kirkjugarð og rætt um endurmenntun ríkisstarfsmanna og þá ánægju sem hafa má af því að leita sér frekari menntunar. Þetta er mikið afmælisár, margir núverandi og fyrrverandi hlauparar sem fylla einhvern tuginn, mikið um veizluhöld, sumum er boðið, öðrum  ekki, svona er þetta bara!

Nú eru aðstæður slíkar við Tónlistarhúsið nýja að þar er ófært hlaupurum og fara verður yfir Kalkofnsveginn að Seðlabanka og halda þannig áfram gegnum Kvosina. Miklar framkvæmdir framundan á Kvisthaga, um þær var rætt fram og tilbaka og gefin góð ráð.

Pottur var þéttsetinn öndvegisfólki, var þar mættur Jörundur hlaupari sem er á batavegi eftir meiðsli. Aðrir  fastagestir sem sækja í félagsskap Hlaupasamtakanna eftir upplýstum samræðum.

Ritari hverfur nú til embættisverka á erlendri grundu, en hleypur næst fimmtudaginn 8da maí - langt.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband