Ístra á undanhaldi

Blásið hafði verið til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins föstudaginn 6. marz AD 2009. Margir af þekktustu og bezt látnu hlaupurum Samtakanna mættir, má þar nefna Gísla skólameistara, próf. Dr. Ágúst Kvaran, Flosa, Þorvald o.fl. Sérstaka athygli vakti að blómasalinn var ekki mættur, né heldur Magnús Júlíus. Aðrir sem létu sjá sig að hlaupi voru Rúna og Brynja, dr. Jóhanna, Friðrik í Melabúðinni. Björn, Birgir og ritari. Einnig varð vart við Önnu Birnu, en ekki víst hún hafi hlaupið beinlínis með okkur. Þorvaldur að mæta í fyrsta sinn eftir veikindi og var bara sprækur í hlaupi dagsins. Veður stillt, bjart, sólskin, hiti líklega nálægt 4 stigum, sem er kjörhitastig hlaupara, nei, hugsuða.

Raunar var svo hlýtt í veðri að ritari varð að rífa af sér balaklövu eftir nokkur hundruð metra til þess að soðna ekki og var Gísli jafnframt beðinn að skrúfa aðeins niður í hitanum. Ágúst fór að hafa áhyggjur af hitanum í Sahara og spurði hvað Gísli gæti gert fyrir sig í þeim efnum. Var vel tekið í að skoða kostina í stöðunni.  Í tilefni þess að það var föstudagur var ákveðið að fara hægt og njóta hlaups, enda lægi ekkert á. Til þess að undirstrika þessa stefnu tóku Björn og Birgir strikið á undan öllum öðrum og voru horfnir fljótlega. Birgir þessi hefur tekið upp notkun á nýrri tegund af lækningaplástri, sem heitir LifeWire eða eitthvað í þá veruna. Plásturinn er án virkra efna, en hefur reynst honum vel í baráttu hans við feimni og lágan raddstyrk.

Við förum þetta í rólegheitunum og allt lítur þetta vel út, en svo er það segin saga, það er eins og fjandinn hlaupi í Gamalíel og menn eru óðara farnir að þeysa þetta á 5+ tempói. Það voru þessir sömu vandræðamenn sem stóðu fyrir látunum, Friðrik Fyrsti, Ágúst, Bjössi o.fl. Við Nauthólsvík voru þeir horfnir manni, ég fór með Þorvaldi upp Hi-Lux og þar var náttúrlega sami dónaskapur í gangi sem maður hefur vanist gegnum tíðina, menn að reykja sígarettur og annað eftir því. Brekkan var alveg þolanleg og merkilegt hvað maður er sprækur, en þeim mun mikilvægara að hafa einhvern með sér sem keyrir upp hraðann og pískar mann áfram. Mér fannst einkennilegt að sjá ekki til neinna hlaupara í brekkunni upp Öskjuhlíðina, þar hefði alla vega einn nafnkunnur hlaupari átt að vera.

Það er ekki fyrr en á Klambratúni að Flosi dúkkar upp að baki okkur og hafði ætlað að stytta, en óvart lent í því að lengja í staðinn. Því var hann þarna kominn, en hafði verið á undan okkur fram að því. Við héldum síðan áfram hefðbundið um Rauðarárstíg. Hver stendur ekki utan dyra við Galleríið nema sjálfastur Vilhjálmur Bjarnason, hlaupari og listunnandi úr Garðabæ? Hann tekur okkur vel og  er hinn vinsamlegasti í viðmóti. Bauð okkur inn á listsýningu, en við báðumst undan menningu í þetta skiptið, e.t.v. seinna.

Svo var tekin stefnan á Sæbraut, annað ekki í myndinni þegar veðrið er svona fallegt.  Á móts við gamla útvarpshúsið varð á vegi okkar viðskiptaráðherra, sem skrúfaði niður rúðuna á ráðherrabílnum og kallaði hvatningarorð til okkar. Við horn þess sama húss var svo dómsmálaráðherra rétt búin að keyra yfir okkur, en hún tengist Samtökunum óbeint bæði með búsetu í Vesturbæ og með viðkomu í Hagaskóla, er tengdadóttir Björns Jónssonar, skólastjóra þar um árabil. Við sluppum lífs frá þessum ráðherrum báðum og héldum sem leið lá gegnum bæinn og upp Ægisgötu á góðum hraða. Mér skilst meðaltempó hafi verið 5:30 eða því sem næst.

Er komið var til Brottfararsalar var fólk þá þegar búið að skila sér, Biggi og Jóhanna höfðu lengt gegnum bæinn og meðfram Tjörnum. Ágúst líklega lengt eitthvað enn meira. Í pott mætti svo Kári óhlaupinn, ræntur skynsemi fyrr um daginn með snittum og rauðvíni. Einnig Denni af Nesi, farinn í baki. Pottur svíkur aldrei, mikið rætt um áfengi, kokkteilblöndur og annað uppbyggilegt. Þegar við helztu drengirnir erum svo að klæða okkur í útiklefa rekst þar inn kunnugleg persóna, fyrrnefndur blómasali, einnig óhlaupinn, en ber því við að hann hafi þurft að hesthúsa heila nautalund í hádeginu og drekka kynstrin af rauðvíni með. Hann ætlaði hins vegar að taka sig á og hlaupa á laugardeginum. Sætti hann þungum ummælum af hálfu félaga sinna, einkum þar sem hann  hafði ætlað að lauma sér í pott óhlaupinn í trausti þess að við værum farnir. Í lokin var svo stigið á vigt og staðfest að hlaupin eru að skila árangri, ístran á undanhaldi, kílóunum fer fækkandi, en kílómetrunum fer fjölgandi.

Enginn Fyrsti Föstudagur, en athugað verður næsta föstudag með samkomuhald.

 Hátíðarhlaup sunnudaginn 8. marz 2009. Vel mætt og stundvíslega kl. 10:10.  Ritari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband