Þvílíkur kraftur - þvílíkar hetjur!

Þetta var einn af þessum klassísku dögum haustsins þegar menn safnast saman til hlaupa og fá ekki við neitt ráðið, líkaminn öskrar á hlaup og hreyfingu og það rifjast upp hlaup liðinna tíma þegar hetjur liðu um héruð í haustsvalanum, uppgötvuðu nýja stíga í henni Reykjavík, svitnuðu og reyndu á þrek og úthald. Mættir til hlaupa: Þorvaldur, Flosi, próf. Fróði, Vilhjálmur, Björn (þeir virtust hafa náð fullum sáttum), Bjarni, Kalli, Denni og loks birtist Rúna - auk þess var ritari mættur.

Við tók lýðræðisleg umræða á Plani og rómversk rekistefna um leiðir, markmið og hraða. Ýmsar hugmyndir höfðu poppað upp um daginn - en þegar upp var staðið þótti öruggast að fara hefðbundið, þá kæmi ekkert óvænt upp á og ró hinna viðkvæmari í hópi vorum yrði ekki raskað. "En við skulum bara fara hægt og stutt og halda hópinn" sagði einhver vitur hlaupari. "Já, það skulum við gera" sagði einhver annar. Almenn samstaða um að fara hægt og stutt. Í upphafi hlaups virtist sem menn ætluðu í alvöru að standa við þessa áætlun.

En það gat náttúrlega ekki enst lengi. Við héldum hópinn furðu lengi, en svo fóru menn að hnappa sig saman. Ritari endaði með Birni, Bjarna, Flosa og próf. Fróða. Áður en við vissum orðið af né ástæðu vorum við komnir á fullt blúss, en inn á milli hægðum við ferðina. Einhvern veginn æxlaðist það svo að þar sem við erum vanir að taka þéttinga á föstudögum var farið hægt, og þar sem farið er hægt á föstudögum fórum við á fullu stími. Til þess að gera spennuna ekki óbærilega fyrir lesendur skal upplýst hér og nú að meðaltempóið í þessu hlaupi var 5:20 - og fór niður í 4:30 á Sæbraut.

Nema hvað, þessir fimm fræknu hlauparar, allir meira eða minna farlama og meiddir, fóru á hörkustími um Nauthólsvík, Hi-Lux og Veðurstofu. Á leiðinni var m.a. rætt um nýuppkomið framleiðslumál í Hafnarfirði þar sem háskólaborgarar nýttu þekkingu sína til þess að framleiða ólögleg efni er valda miklum skaða okkar minnstu bræðrum og systrum. Prófessorinn fékk vart hamið reiði sína yfir þessari misnotkun þekkingarinnar og fann sig knúinn til þess aö öskra út í loftið. Við það missti hann þrótt lungna og kraft og var eins og sprungin blaðra á eftir.

Við áfram um Hlíðar, Klambratún og um Hlemm. Sökum þess hversu veður var hagstætt, suðrænn vindur, var ákveðið að fara niður á Sæbraut. Þar gerðust ævintýrin. Menn höfðu haft góð orð um þéttinga - en þetta var makalaust. Flosi tók á rás og skildi aðra eftir, en bróðir hans, ritari, sætti sig ekki við að liggja óbættur hjá garði og rifjaði upp orð sem féllu um daginn: Af því að við getum það, af því bara! Gaf í og hér var farið á 4:30. Félagar okkar fylltust aðdáun og virðingu er þeir sáu kraftinn og hraðann, en létu sig ekki dreyma um að reyna að ná okkur. Hægt á við Tónlistarhús og farið á hægu tölti eftir það tilbaka til Laugar. Ágúst lengdi við mót Ægisgötu og Mýrargötu og hefur líklega farið hátt í 20 km er upp var staðið, miðað við endurkomu til Laugar. Aðrir beint í pott. Ægisgatan var ritara erfið og ljóst að bæði maraþon og miðvikudagur sitja enn í honum. Nei, nú verða bara farin hin styttri hlaupin, 10-15 km.

Potturinn var vel heitur og við hæfi á haustdegi sem þessum að láta notalegan hita leika um þreytta vöðva og liði. Ekkert óvænt hér, en setið alllengi og rætt um rauðvín og rauðvínsdrykkju. Sögð sagan af manninum sem fór í sveitina, við skulum segja Borgarfjörðinn til þess að gera þetta svolítið áhugavert. Hann kynntist heimasætum, systrum, tók þær tali og leist vel á þær. En ákvað á endanum að sér litist betur á aðra systurina. Hvarf aftur í bæinn og fór að rita henni heit bréf og endaði með því að bera upp bónorð. Því var vel tekið og ákveðið að tilvonandi brúður kæmi í bæinn á tilsettum tíma. Kæmi með skipi. Hann ákvað að mæta brúði sinni á bryggjunni. Þegar skipið leggst að kemur í ljós að það var hin systirin sem kom með skipinu. Maðurinn hafði sumsé ruglast á nöfnum systranna. Giftist henni engu að síður. Vinir hans spurðu: af hverju giftistu henni, þetta var ekki sú sem þú varst hrifinn af? "Nú, hvað átti ég að gera? Konan var komin suður!" Svona sögur eru gjarnan sagðar í morgunpotti VBL og þar eru ekki sagðar nafnlausar sögur. En ritara skyrti nöfn hér.

Hvað næst? Að hverju skal stefnt? Aðeins að halda í horfinu - Fyrstu Föstudagar fyrir bí? Nei, hér þarf að efla félagsandann og efna til hátíðar. Prófessorinn hyggst þreyta maraþonhlaup um næstu helgi og fara rólega. Einnig hefur heyrst að Birgir stefni á það sama þótt það sé ekki skynsamlegt manni sem nýverið hefur lokið Berlín. En við finnum upp á einhverju til þess að fagna félögum vorum. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband