Er síðasti Framsóknarmaðurinn útdauður?

Af hverju var Vilhjálmur Bjarnason svona glaður þegar hann kom í Útiklefa í dag? Var síðasti Framsóknarmaðurinn útdauður? Hann ávarpaði okkur "kæru bræður" og kvaðst telja óþarft að nota hefðbundið ávarp: skíthælar, drullusokkar og aðrir Framsóknarmenn. Það væri hvort eð er ekki neinum "öðrum" Framsóknarmönnum til að dreifa. Hann lék á als oddi og virtist virkilega upprifinn eftir sjónvarpsviðtal gærdagsins þar sem hann fór á kostum og lét skuldarana finna til tevatnsins. Skuldaradekur er nýtt orð í nútímanum, komið frá frumkvöðlinum og skoðanamótaranum Vilhjálmi.

Áætlun fjórðu viku liggur fyrir. Það skyldi farið stutt og snöggt. Mættir helztu Berlínarfarar nema Helmut og dr. Jóhanna, og menn er farið að lengja eftir prófessor Fróða sem alltaf er hugvitssamur og hugmyndaríkur þegar finna þarf góðar hlaupaleiðir að hausti. Menn hugleiddu hvort ekki væri tímabært að hann mætti í vinnu. Jú, er það ekki, spurði einhver, er ekki kennsla komin á fullt uppi á Melakleppi? Ja, er hann í svo mikilli kennslu þessi missirin? Já, nei, þá getur hann náttúrlega dulist langt fram á haust án þess að nokkur sakni hans. Þannig gekk dælan.

Meðal merkra viðstaddra skulu nefndir þeir dr. Karl og dr. Friðrik, Magnús tannlæknir, Þorvaldur, Flosi, Benedikt, Björn, Eiríkur, Hjálmar, Rúnar, Birgir, Una, Rúna, Einar blómasali og á endanum komu Ósk og Bjarni hlaupandi. Og að sjálfsögðu ritari og Vilhjálmur. Þjálfari gaf upp leiðarlýsingu, skv. hefð út að Skítastöð, sem ekki má kalla Kúkatanga eða Skeljungsstöð. Stöðva þar og bíða nánari leiðbeininga, þ.e.a.s. þeir sem vildu vera innan áætlunar. Þessi hlaupari hafði hins vegar ákveðið fyrirfram að fara lengra en áætlun gerði ráð fyrir,  69. Menn voru furðu lostnir yfir þessu og töldu djarflega hugað að hlaupi. Aðrir áætluðu að taka spretti, ekki segir af þeim hér, ritari missti af þeirri skemmtun.

Á leið í Skerjafjörðinn var rætt um undirbúning að Berlín, m.a. bindindi það sem innleitt hefur verið og aðrar viðlíka aðgerðir, en þær virðast hafa komið mörgum í opna skjöldu og sumir sem virðast ekki vera fyllilega sáttir við svo eindregnar kröfur. Er kom á leiðarenda hélt ég áfram og lét háðsglósur félaga minna sem vind um eyru þjóta. Heyrði skömmu síðar í hlaupara að baki mér og var þar kominn Bjarni og var ákveðinn í að fara 69 með ritara. Í Nauthólsvík var staldrað við vatnspóst og fékk ég mér orkugel, sem ég hef ofurtrú á þessar vikurnar. Svo var haldið áfram í Fosvoginn á góðu tempói. Þar mættum við Sif Jónsdóttur langhlaupara og félögum hennar, hún virtist hins vegar svo tekin af hlaupi að hún sá okkur ekki. Við áfram.

Við fórum hefðbundið og vorum bara í góðum gír, yfir árnar og aftur tilbaka. Um Laugardalinn og niður á Sæbraut, þar vorum við rétt lentir undir bíl sem kom á miklum hraða niður Kringlumýrarbraut, ökumaðurinn náði að hægja á sér, en þótti vissara að þeyta flautuna svona eftir á, rétt til að leggja áherslu á rétt sinn til að aka greiðlega um Borgarlandið. Ekki var bilbug á okkur að finna á Sæbraut og bara þeyst áfram. Lukum hlaupi heilu og höldnu og bara í góðum fíling. Í potti lágu félagar okkar og voru gleiðgosalegir rifjuðu upp kúrekasöngva Hallbjörns Hjartarsonar.

Næst verður farið langt. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband