Reykjafellshlaup hið fyrsta

Ný hefð hefur orðið til í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, Reykjafellshlaup að sumri, og verður sagt frá því fyrsta á þessum blöðum.

Mættur við Vesturbæjarlaug kl. 9:30 vaskur hópur hlaupara sem hugði á langt hlaup, rúma tuttugu og tvo kílometra, alla leið upp að Varmárlaug í Mosfellssveit. Hér má fyrstan nefna dr. Ágúst Kvaran sem hugðist hlaupa með tvö barnabörn sín í kerru, ellefu mánaða gamla tvíbura sem við til einföldunar skulum kalla Ágúst og Ágústu. Þetta var fyrsta hlaup þessara nýju einstaklinga, en sannarlega ekki hið síðasta, ef marka má afann. Búið var um hina nýju félaga í sérútbúinni kerru með mörgum fínessum og skyldi nú reynt hversu tækist til með að hlaupa með þessa auknu byrði.

Aðrir mættir: Rúna, Brynja, Margrét, Rúnar, Birgir, Helmut, dr. Jóhanna, nýr hlaupari sem mun heita Ósk, Friðrik í Melabúðinni, - ekki man ég hvort fleiri voru mættir við Laug. Jörundur bættist við á Ægisíðu, Björn kokkur í Nauthólsvík og Magnús, Denni, Eiríkur og Ólafur ritari við Víkingsheimili. Veður þokkalegt til hlaupa, 12 stiga hiti, skýjað og rigningardropar, en lítill vindur. Við félagarnir biðum inni í Víkinni og langfyrst þangað voru Margrét, Rúnar og Friðrik, aðrir töluvert langt á eftir. Slógumst í för og héldum á vit ævintýranna. Farið sem leið liggur undir Breiðholtsbraut og yfir Elliðaárnar yfir hjá Rafstöð eða þar um bil og svo undir Miklubraut og út á Sævarhöfðann. Bryggjuhverfi, upp úr Grafarvogi brekkuna hræðilegu, stöðvað við benzínstöð og fyllt á brúsa, og haldið áfram. Þá tók við Listaverkabrekkan (niður á við) og svo hver brekkan á fætur annarri. Við fórum fyrir golfvöllinn hjá Korpúlfsstöðum, sem er býsna löng leið, og tók verulega á að fara allar þessar brekkur.

Menn voru misvel á sig komnir, sumir nýrisnir af öldrykkju - aðrir með löng hlaup að baki í vikunni. Það reyndist Ágústi erfið raun að ýta kerrunni á undan sér og varð Helmut að hjálpa honum í síðustu og erfiðustu brekkunum. Það var ófögur sjón sem mætti sómakærum borgurum sem voru úti á morgungöngu með ungviði sín: tveir karlmenn að ýta barnakerru á undan sér. Hvar endar þetta?

Leiðin var einkar falleg og gaman að sjá að hlaupið er nær eingöngu á göngustígum og sárasjaldan að þurfti að fara yfir götur og gatnamót. Maður fann á sér að hér var í uppsiglingu nýtt hlaup og ný hefð í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Á sama tíma vorkenndi maður þeim félögum sem tóku þá ákvörðun að halda sig heima og sofa á sitt græna í stað þess að fara út og spretta úr spori.

Við náðum í Varmárlaug á um tveimur tímum og skelltum okkur í pott. Eftir klukkutíma í potti var haldið á slóðir Helmuts í Mosfellssveit, Reykjafelli í nágrenni Reykja. Þar var slegið upp mikilli veizlu með brauði, ostum, hráskinku, salati af mörgum sortum, og tertum á eftir. Er hér var komið hafði bæst í hópinn og var sannkallaður fjölskyldudagur haldinn í fögru umhverfi og góðu veðri. Þarna var setið góða stund og notið góðs félagsskapar og góðra veitinga. Þökk Helmut og Jóhanna! Nýtt hlaup er orðið til!



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

…tveir karlmenn að ýta barnakerru á undan sér… og ekki nóg með það heldur annar þeirra nýbúi, eða allavega af erlendu bergi brotinn. En að öllu gamni slepptu… FRÁBÆR DAGUR! Takk fyrir mig.

Biggi Jógi

Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband