Meinlegur misskilningur

Þessi hlaupari var ekki að nenna að fara að hlaupa í kvöld. Í fyrsta lagi varð honum ekki svefnsamt. Í öðru lagi flaug hann norður á Akureyri með morgunvélinni og ók að Laugum í Reykjadal þar sem ráðuneytismenn áttu ánægjulegan fund með Norðanmönnum. Hápunkti var náð er matreiðslumaður staðarins galdraði fram kótiléttur í raspi, lostæti sem ávallt hefur slökkt sól skynseminnar í hug ritara og eru til frægar sögur af því frá því hann var þriggja ára að jólaborðhaldi og kunni sér ekki hóf. Kótiléttur vekja með ritara kenndir sem liggja djúpt og laða fram hegðun sem þekkist fremur með úlfum sléttunnar en siðmenntuðum forsvarsmönnum mennta og menningar í Lýðveldinu. Ég missi, m.ö.o., stjórn á mér og sökkvi tönnunum í þennan gómsæta mat. Eina sekúndu flögraði að mér að það væri e.t.v. ekki skynsamlegt á hlaupadegi að eta tvöfaldan skammt af kótiléttum - en ég sló þær vangaveltur frá mér er ég gaumgæfði góðgætið á disk mínum.

Fló suður með vélinni 14:25 og þótti mikið til koma hvað þetta er þægilegur ferðamáti,  maður röltir út í vél 10 mín. fyrir flugtak og er lentur 40 mín. síðar- kominn heim 5 mín þar á eftir. Þurfti að halla mér um stund sakir svefnleysis og til þess að geta hlaupið - en varð enn hugsað til hádegisverðarins. Jæja, ég hugsaði sem svo að það yrðu nóg af briggskipum til þess að þvælast með ef heilsan leyfði ekki átakahlaup sem jafnan eru í boði í mánudögum.

Fjölmargir hlauparar mættir á þessum mánudegi: Ágúst, Friðrik, Björn, Benedikt. Una, Elín Soffía, Kári, Birgir, Ólafur ritari, Sigurður Ingvarsson, og svo þjálfarar tveir: Margrét og Rúnar. Það vakti þegar ugg að Rúnar skyldi mæta á mánudegi - hvað var í gangi? Athygli vakti að hvorki dr. Jóhanna né Helmut voru mætt til hlaupa.

Úti á stétt urðu tíðindi sem virkuðu eins og sprengja: nú ætlum við að gera nokkuð frábrugðið, við ætlum að breyta til. Þekktir forsvarsmenn reglu og stöðugleika í Samtökum Vorum voru gripnir kvíða og sögðu: Breyta? Á að breyta til? Það var ekki sagt mér að það ætti að breyta til...! Angistarsvipur færðist yfir andlit sumra viðstaddra, en þjálfarinn hélt áfram ótrauður: Við ætlum að fara í Fartleik. Hér spruttu fram taugaveiklaðar hláturgusur hjá sumum sem kunna ekki sænsku, og halda að þetta sé amerískur leikur. Prógrammið var sumsé að taka þétttinga eins og við höfum tekið á umliðnum árum og eru ekkert nýtt fyrir okkur og hvíla á milli. Breytingin er fólgin í því að fartleikur er hraðari en tempó. Eða svo sagði þjálfari.

Það var lagt í hann, og menn voru kvíðnir, því að hér lágu breytingar í loftinu sem voru ekki til þess fallnar að stuðla að andlegri heilbrigði félagsmanna. Farið að vísu hægt af stað, og ég fór mjög hægt, sá fyrir mér að vera með allra öftustu mönnum, fara afar hægt og afar stutt. Fann fyrir kótiléttunum í belgnum, en taldi mikilvægt engu að síður að taka þátt í hlaupi. Hópurinn var hægur framan af og engar gloríur í gangi. Ég endaði með Birgi og Kára sem tóku því rólega og ætluðu sér engin stórvirki á þessum degi. Við Dælustöð var hins vegar ekki vikist undan verkum, þar beið hópurinn og þjálfararnir og það var bara að gefa í. Farið á hröðu brokki út í Nauthólsvík. Það var erfitt, en það kom mér á óvart að ég réð við þokkalegan hraða. 

Hópurinn beið út við  Kringlumýrarbraut eftir hraðaaukningu númer tvö og svo var tekinn þriðji þéttingurinn upp Suðurhlíðar. Upp að Plani, þaðan niður að Flugvallarvegi, þaðan suðurúr og þétt út í Nauthólsvík. Þetta var mönnum erfitt, og sumir hinna eldri hlaupara kvörtuðu yfir hraðanum. Hér varð vart misskilnings um fartleikinn, og varð það til þess að sumir hertu hlaupin til þess að forðast gufur sem ekki áttu neitt skylt við náttúrulegan ilm Öskjuhlíðar.

Hægt tilbaka, nema hvað sumir gátu ekki á sér setið að herða hlaupin á ný og stofna heilsu okkar í hættu. Teygt mikið og lengi í Móttökusal. Þjálfarinn spurði hver þessi Magic væri sem hefði verið með í för s.l. miðvikudag - var það Strákurinn á Hjólinu? Heitir hann Magic? Eða voruð þið að drekka Magic, þann ógeðslega drykk, fullan af kolsýru, koffíni, þrúgusykri og öðrum óþverra sem hentar ekki hlaupurum? Hér urðum við stúm - vissum ekki hvað við ættum að segja. Og sögðum  eitthvað í þá veruna að þetta hafi bara verið strákur á hjóli sem dúkkaði upp með orkudrykk. Já, forðist hann, sagði þjálfarinn.

Framundan eru bara spennandi tímar. Á miðvikudag er stefnt á Árbæjarlaug, 25 km - með nóg af orkudrykkjum í beltum. Blómasalinn horfinn úr landi. Tilboð í Byko á borvélum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rannveig H

Ég er farin að hafa verulegar áhyggjur,verð að seigja það Undirrituð hefur ekki séð góðvin sinn Ólaf Þorsteinsson í háaherrans tíð.Bið ég hlaupamenn og konur í þessum merkilegu samtökum að koma skilaboðum til Ólafs að muna nú eftir hlaupinu með Rektor kl 15 á miðvikudag,enn fremur hef ég pantað stóra tertu og annað góðgæti í tilefni afmælis ÍHÍ sem bíður hans eftir hlaup.Dagurinn væri ekki samur ef Ólafur mætir ekki .Kv Rannveig

Rannveig H, 28.4.2008 kl. 23:11

2 identicon

Why fart and waste it when you can burp and taste it? Þetta sígilda orðtak á vel við frásögnina um hlauparann, kótilettuna og fartinn.

Jóhanna (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 16:41

3 identicon

Mórall sögunnar var sá að kótiletturnar virkuðu vel sem eldsneyti, þó þær hefðu verið sex, en óþefur í Öskjuhlíð var sprottinn af misskilningi: gáfaðir menn misskildu fartleikinn, héldu að þegar þjálfarinn hrópaði: Nú! og átti við "Hlaupa!", þá ættu þeir að láta iðrin tala. Það var ekki gott. Bara svo að staðreyndum málsins sé til skila haldið. Með virðingu, ritari.

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband