Ágúst? Ég sá aldrei Ágúst...

Benedikt var hetja dagsins, átti bezta hlaupið sem vænta mátti og skeleggustu skilaboðin í potti eftir hlaup. Þetta var venjulegur miðvikudagur, sem þýðir langt hlaup. Bjartsýnustu menn vonuðust eftir sjóbaði, en nú orðið hlaupa slíkar veimiltítur með þessum hópi að beztu menn eru farnir að örvænta um að nokkuð verði farið í sjóinn framvegis, var þó hitinn heilar 2,7 gráður skv. mælum Hafró. Nei, vér verðum að bíða endurkomu Gísla og dr. Friðriks til þess að fá skikk á sjóbaðsmálin. Annars þokkalega mætt, og góð representasjón úr báðum kynjum. Ekki verður neinna getið umfram aðra, en þó það nefnt að þjálfari Rúnar var mættur og var hvass.

Það voru stillileg stríðmæli sem gengu út í Brottfararsal, hlaupa hægt framan af, síðan að auka hraðann til þess að fá sem mest úr hlaupinu, auka gæði þess - að vísu gleymdist að láta þess getið hvert ætti að hlaupa, en það kvisaðist út að stefnt yrði á Þriggjabrúahlaup. Lokaorð þjálfara voru þessi:  Og þið, þessir vitleysingar, sem eigið Garmin - notið tækin, fíflin ykkar! Þau hjálpa ykkur að vita hvort þið séuð að gera eitthvað af viti (eða eitthvað í þessa veru, man ekki hvort þetta er alveg orðrétt haft eftir). Ég lagði fljótt og hratt af stað og var með fremsta fólki, hinir voru ýmist að kjafta saman á stétt eða ná tungli.

Var þreyttur og þungur eftir æfingu mánudagsins, sem tók á. Einnig seig steikin í sem ég fékk mér í hádeginu og hefði líklega betur sleppt. Endaði það með því að hlaupararnir tóku fram úr mér og ég sat uppi með þá Einar blómasala og Kára sem kompaní - ekki slæmur félagsskapur að vísu, en stöðug áminning um að maður sé ekki að bæta sig neitt í hlaupinu (ég sem var vanur að raða mér með fremstu og grennstu hlaupurum hér áður fyrr! Sic transit gloria mundi!) Nei, nú þarf að fara að snúa þessari þróun við og keppa að því að ritari tylli sér meðal fremstu og glæsilegustu hlaupara Samtakanna. Minn tími mun koma!

Ekki er eyðandi orðum að þeim sem á undan fóru, enda er maður í reynd hættur að hlaupa með þeim, þeir einfaldlega hverfa og fara á e-u 4:40 tempói alla leið. Mér skilst þeir hafi einhverjir farið 69, aðrir líklega eitthvað skemur. Nema hvað, við Einar týndum Kára við Kringlumýrarbraut, þar beið Rúnar eftir okkur til þess að tryggja að ekki yrði stytt. Við héldum áfram yfir brúna og fórum svo upp í hverfi. Leiðin var nýstárleg, ég hef aldrei áður farið þessa leið, milli húsa, hjá Útvarpshúsi, yfir Miklubraut (hér leið okkur Einari illa, við vorum á óvinasvæði), og svo vesturúr og út að Kringlumýrarbraut. Hér skildu leiðir, ég nennti ekki að fylgja þeim lengur eftir, orðið ómótt af steikinni í belgnum, þeir sneru norðurúr, niður Kringlumýrarbraut, alla leið niður í Borgartún og niður að sjó, þaðan vestur úr og til Laugar. Ég hélt hins vegar beint áfram eftir Miklubraut og beinustu leið til Laugar, gekk langar leiðir.

Sem fyrr var sagt var það Benedikt sem átti pottinn að hlaupi loknu. Hann kvartaði sáran yfir þjálfaranum sem tefði hlaup með kjaftagangi: Ég skil ekki fólk sem er síblaðrandi þegar það á bara að hlaupa. Ég skil ekki þessa miklu þörf fyrir að tjá sig um allar heimsins náttúrur! Það á bara að hlaupa, og hætta að kjafta. Þessi kjaftagangur allur hélt bara aftur af manni og það var ekkert hægt að spretta úr spori.

Við spurðum Benedikt hvort Ágúst hefði samt ekki haldið aðeins aftur af honum. "Ágúst? Ég sá aldrei Ágúst..." Svo spurðist að Sigurður Ingvarsson hefði verið á ferðinni og mætt hópnum. "´Já, þessi Sigurður Ingvarsson, hann er nú liðin tíð." Þannig flugu yfirlýsingarnar hver af annarri og var skáldið vígreift og orðdjarft. Einnig var kvartað yfir Bjarna í potti fyrir sakir hávaða.

Á föstudaginn er merkilegur dagur. Þá er Hlaupaföstudagur, en samkvæmt ævafornri hefð halda hlauparar upp á Hlaupaföstudag með því að koma saman í gleðskap og lyfta glösum og fagna lengingu ársins, því að þarna bætist við einn hlaupadagur sem ella hefði ekki boðist. Er því beint til hlaupara að þeir ryðji öðrum fyrirætlunum til hliðar og geri ráðstafanir til þess að geta mætt á Mimmann n.k. föstudag til þess að halda í þess fornu hefð Hlaupasamtakanna.

Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband