Stórstreymt og hásjávað - veður fyrir hetjur

Það var ekki heiglum hent að hlaupa í dag, í arfavitlausu veðri, suðaustansnarvitlausum vindbelgingi svo stífum að 90 kg skrokki ritara var ekki óhætt á Brottfararplani þegar hann barðist þangað, laungu eftir að hlaup hófst. 6 stiga hiti, leysingar, bleyta, hálka, og annað eftir því. Um tíma stóð ritari kyrr og komst ekki lengra og hugsaði sem svo: hvaða vitleysingar skyldu hafa mætt til hlaups í dag? Inn kominn ræddi hann málið við Steinunni, og sér til mikillar furðu komst hann að því að tveir hefðu mætt til hlaups. Eftir mikið um og men gat hann togað upp úr Steinunni að það hefði verið Þorvaldur, og einhver annar sem hún hafði ekki nafnið á.

Nema hvað, þegar ég er kominn niður í klefa dúkka þeir upp Þorvaldur og Denni skransali af Nesi, blautir og illa til hafðir, en ákaflega stoltir. Þeir nánast lásu fyrir mér hvað standa skyldi í pistli dagisns, hetjur hefðu hlaupið 6,2 km og barist gegn öllum líkum (against all odds). Einkum var óskað eftir því að þeir sem það verðskulduðu fengju viðeigandi starfsheiti: Sólskinshlaupari, nánar tiltekið þeir sem ekki hlupu, öðrum fremur nefndur próf Fróði. Undanþegnir slíkri nafngift voru náttúrlega slasaðir menn og veikir eins og ég og blómasalinn.

Í potti sátu ritari og Denni, og svo birtist blómasalinn, og þarna sátum við í alvitlausu veðri sem bara færðist í aukana, og við hugsuðum um það eitt hvernig við ættum að koma okkur upp úr pottinum á ný. Staðfest að ritari væri undanþeginn hlaupum sökum meiðsla á Stóru tá. Svo bættist Skerjafjarðarskáld við og flutt vísan um Flosa:

Sagður er fróður séra Geir,
síst ég þessu hnekki,
en Flosi hann veit miklu meir
en man það bara ekki.

Svo barst talið að Jóni og séra Jóni - og rifjað upp samtal úr morgunpotti þar sem rætt var um Rússland, Pútín og Raspútín, og þá varð þetta gullkorn til: það er sitt hvað, Pútín og Raspútín, eða Rasspútín eins og séra Pétur var fljótur að finna út. En nú hverfur hann á slóðir Ármanns á Indlandi, næstu tvær vikur, hvílíkur léttir!

Næst morgunhlaup, sunnudag.  Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Lögreglan sagði að maður ætti ekki að vera á ferð úti.

Ég ólst upp við svo mikla löghlýðni að ég hlýddi tilmælum lögreglunnar enda vildi ég ekki vera hirtur uppúr fjörugrjótinu við Ægissíðuna í hlaupamúnderingunni af  kímnum hjálparsveitarmönnum og vera svo undir ámæli fyrir að steypa þeim í tvísýnu að ófyrirsynju með óábyrgu athæfi mínu.

Er ekki hægt að breyta "sólskinshlaupari" í "óvitlaus hlaupari"? 

Kári Harðarson, 9.2.2008 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband