Maður settur út í kuldann, hunzaður

Óvenjulegt var við hlaup kvöldsins að þá mættu óvenjumargir úrvalshlauparar, menn sem ekki hafa látið sjá sig að hlaupum um langt skeið. Fyrstan og fremstan meðal jafningja og vina skal  nefna sjálfan Vilhjálm Bjarnason, sem er endurheimtur eftir langa fjarveru. Hann stóð í Brottfararsal og átti langt samtal við sjálfan Söngvara Lýðveldisins, Egil Ólafsson, og var þeim mikið niðri fyrir. Þá var mættur Karl kokkur og urðu fagnaðarfundir í Brottfararsal er þessir ágætu menn mættu og áttu góðar samræður við félaga sína. Létt var yfir mönnum og gleðin skein úr hverju andliti. Konur voru mættar: dr. Jóhanna, Brynja, og Rúna mætti er við vorum á útleið. Ástæða er til að telja upp það mannval sem þarna var saman komið: Ágúst, Þorvaldur, Vilhjálmur, Bjarni, Gísli, Helmut, Denni, Rúna, Brynja, dr. Jóhanna, Benedikt (einnig kallaður Benjamín), Jörundur sjálfur, Hjörleifur, ritari og þá held ég upptalningin sé fullkomin. Jörundur kom síðastur á slaginu hálffimm þegar við erum vön að leggja af stað. "Skiljum hann eftir!" hrópaði ritari. "Nei, við bíðum eftir honum" sagði Vilhjálmur. "Jörundur er vinur minn." Þegar Jörundur var áminntur um stundvísi og klukkufræði, sagði hann: "Já, þið eruð ekkert nema ríkisstarfsmenn og auðnuleysingjar og getið þess vegna farið úr vinnu þegar ykkur hentar." Ég leit í kringum mig og varð að viðurkenna að hann hafði nokkuð til síns máls.

Berlínarmaraþon enn til umræðu og hvatt til þess að menn skráðu sig. Veður stillt, fremur kalt en gott að hlaupa. Enn var rætt um persónu non grata eða persónu non existant í félagsskapi vorum, Birgi hinn gleymna eða blinda, Birgi blinda, sem "gleymdi" að setja myndir af félögum sínum í hið árlega tímarit bróður síns. Héldu menn áfram að ræða það með hverjum hætti hægt væri að hrella þennan fyrrum félaga vorn. Jörundur upplýsti að hann væri búinn að loka fyrir köttinn hans og byrjaður að hrella hann (köttinn) andlega. Ritari lofaði að fjarlægja myndir af téðum aðila af bloggi Hlaupasamtakanna, dr. Jóhanna heimtaði að myndir af sér með fyrrnefndum aðila yrðu fótóshoppaðar til þess að hreinsa syndina úr röðum vorum.

Eitthvað var maður þungur á sér, að hluta til vegna hins langa miðvikudagshlaups, að hluta til vegna þess að ritari er vakinn og sofinn yfir hagsmunum Lýðveldisins og gjarnan andvaka af áhyggjum yfir stöðu mála í Lýðveldinu. En við ákváðum nokkrir að fara bara stutt og fara hægt. Þetta voru þeir Gísli, Ágúst, Bjarni, Kalli og ritari. Við styttum og fórum Hlíðarfót, aðrir fóru lengra. Það er athyglisvert að Ben. hleypur óskynsamlega, fór langt miðvikudag, fór fimmtudag, og aftur í dag, föstudag, fór hratt og langt á undan öðrum, uppskrift að meiðslum! Aðrir sem fóru hratt voru Helmut, dr. Jóhanna, og einhver sem ég man ekki eftir.

En við skynsömu drengirnir fórum Hlíðarfót og áttum góð samtöl um fyrri tíð. Við reyndum að baktala hver annan eftir megni, fórum ekki hjá Gvuðsmönnum, heldur þvert yfir einskismannsland, klakahellur og ófærur. Á þessum kafla flaug alls kyns dónaskapur sem ekki verður hafður eftir, enda er hér í gangi gæðatrygging og siðferðis. 

Enda þótt menn fagni því að fá Vilhjálm Bjarnason að nýju í hópinn voru þeir jafnframt haldnir fortíðarþrá vegna þess tíma þegar þeim mætti einungis skætingur og önugheit. Veltu menn vöngum yfir því hverju þetta sætti 

Er þessi hlaupari fór úr potti og gekk til útilklefa mætti hann Einari blómasala sem kvaðst hafa verið að hlaupum í tvær klukkustundir. Var vissulega á hlaupaklæðum, en ekki mjög móður. Næst er farið á sunnudag kl. 10:10 - Öl-hópur fer frá Salalaug kl.  9:30 að ég hygg. Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband