Hlaupið um nætur

Nú þegar Vetur konugur hefur haldið innreið sína og appelsínuguli fáráðurinn í Hvíta húsinu hefur fengið afhent brottfararspjaldið sitt halda menn ótrauðir áfram hlaupum sínum. Helst er frá hlaupum að segja sem gerast þegar venjulegt fólk hvílir höfuð á kodda, 6:02 á morgnana, í niðamyrkri svo menn sjá vart handa sinna skil. Þegar lokað er í Laug Vorri er boðið upp á aukna þjónustu sem felst í því að valdir hlauparar eru sóttir heim að dyrum og farið með þá einn hring um bæinn áður en þeim er skilað heim aftur. Einkum eru það Einar blómasali og Frikki sem hafa nýtt sér þessa þjónustu. Hafa menn þá gjarnan verið leystir út á Grenimel með kaffibolla í morgunsárið. Ekki er nú sosum farið langt, 7-8 km, á hægu tölti, rétt til að ná að halda sér í formi fyrir þá tíma þegar höftum á friðhelgi einkalífsins verður aflétt og við fáum að njóta fulls einstaklingsfrelsis á ný.

Þessutan kemur fyrir að menn spretti úr spori á hefðbundnum brottfarartímum af Stétt, 17:30 mánudaga og miðvikudaga, og 16:30 á föstudögum. Þá kemur fyrir að Ólafur Gunnarsson sláist með í för, og jafnvel Baldur Tumi. Svo gerðist það sl. sunnudag þegar hlaup var boðað kl. 8:30 með fullkominni grímuskyldu að prúðmennið Magnús Júlíus mætti til hlaups - og var raunar sá eini með grímu. Hinir voru Einar og Ólafur skrifari. Aðrir sváfu á sitt græna. Þá var farinn hefðbundinn sunnudagshringur utan hvað Maggi beygði af við Hlíðarfót. Var ekki að sjá að hann væri úr þjálfun eða kominn á áttræðisaldurinn.

Þegar skrifari vill hreyfa sig eitthvað að ráði og upplifa e-a áreynslu sem heitið getur fer hann einn og þá 12-14 km á 6 mín meðalhraða. Fór t.d. sl. laugardag kl. 7 að morgni áður en ljóst var orðið af degi. Hljóp Ægisíðu, um Skerjafjörð, og var rétt lentur í flasinu á ca 20 manna hlaupahópi sem hljóp þétt saman þvert ofan í tilmæli sóttvarnalæknis og allir svartklæddir. Þá varð undirritaður hissa. Þá var farinn Þriggjabrúa.

Svona heldur þetta áfram, þrátt fyrir pestina. Áfram er hlaupið undir fána Lýðveldisins.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband