Bjarni - 9,5

Já, ég veit það ekki. Hvað skal segja? Við vorum nefnilega mættir helstu drengirnir - og svo hann Bjarni - til hlaups á föstudegi. Það var skipst á kurteislegheitum og vingjarnlegum athugasemdum, allt þar til er Bjarni kemur brunandi á Benz-bifreið sinni. Ekki hafði hann haft fyrir að klæða sig í hlaupagallann. Nei, hann var í flónel vinnuskyrtu, gallabuxum og einhverju sem gæti gengið sem hlaupaskór. Hann klæddist þó hlaupajakka og kom þannig albrjálaður enda greinilega búinn að liggja með eyrað límt við Útvarp Sögu frá hádegi. Maður náði vart að henda á hann kveðju áður en fúkyrðaflaumurinn var byrjaður að berja hlustirnar í manni utan og bunan stóð út úr honum linnulaust inn að Veðurstofu. Það var Icelandair. "Í tunnuna með þá!" heimtaði Bjarni. Það var Covid. "Já, það er lygi að Trump hafi ráðlagt inntöku á frostlegi!" Og þegar ýjað var að þeim möguleika að Trump væri ekki með öllum mjalla kom mikill pistill um hvað Trump hefði sagt á fyrsta fundi sínum með Nato og hvernig hann og boðskapur hans væri affluttur alla daga á Rúv. Ekki var orði skjótandi á Bjarna í þessum ham, hvað þá að hægt væri að halda uppi rökræðum sem staðið gætu undir því nafni. Við vorum óupplýstir fávitar sem aldrei reyndu að afla sér réttra upplýsinga, heldur lægjum í lygasneplum eins og Washington Post sem fullyrti að einn mánuðinn hefði Trump logið 1800 sinnum (og lygarnar raktar). "Já, en könnuðuð þið nánar fullyrðingar Washington Post? Neeeiiii, það gerðuð þið ekki!"

Við sem komnir vorum til þess að hreyfa okkur mitt í faraldrinum, njóta útiveru, góðs veðurs, góðs félagsskapar og skiptast á vinsamlegum orðum. Hlaupið var mjög krefjandi andlega og við vorum eiginlega eins og sprungnar blöðrur á eftir.

Að öðru leyti var þetta nokkuð gott, hefðbundið föstudagshlaup. Hugur okkar leitaði upp í Kópavoginn, nánar tiltekið í Boðaþing, þar sem við eigum félaga sem hleypur í garðinum hjá sér í algjörri einsemd. Kannski við ættum að kíkja til hans og taka sosum eins og eitt hlaup í Heiðmörkinni, upp á gamlan kunningsskap?

Á leiðinni niður Laugaveg rákumst við Einar á dragtklæddar karríerkvinnur sem voru úti á galeiðunni að njóta lífsins. Ósköp fannst okkur það trist.

Nú hefur Laug Vor verið lokuð í mánuð og menn almennt að missa vitið af þeim sökum. Og boðuð er lokun alla vega mánuð í viðbót. En við verðum að þrauka og höldum úti hlaupaprógrammi voru. Næst verður fast hlaup á morgun, sunnudag kl. 9:15 frá VBL. Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband