Þrjú á palli

Við vorum sumsé þrjú: Þorvaldur, Ólafur skrifari og Tobba. Magnús Júlíus var að vísu líka á staðnum, kominn í gírið og út á Plan - en þar tilkynnti hann ólundarlegur að hann ætlaði að fella niður hlaup og synda og teygja í staðinn - sem við trúðum svona rétt mátulega. Við hlupum sumsé þrjú. Og það var alla vega. Það var lens í stífri vestanátt út alla Ægisíðu og alla leið út í Nauthólsvík. Þar lægði og var rólegheitaveður lengi vel og raunar allar götur þar til komið var vestur fyrir Læk aftur, þá get ég svo svarið að við lentum í snjóbyl. Við börðumst áfram upp Túngötuna af mikilli seiglu og harðfylgi og eftir það steinlá Hofsvallagatan. Fínt hlaup hjá okkur öllum. 

Torvelt reyndist skrifara að ná utan af sér hlaupajakkanum að hlaupi loknu, rennilásinn sat pikkfastur. Á endanum var brugðið á það ráð að klippa jakkann utan af honum. Nú er skrifari jakkalaus.

Góð mæting í Pott: próf. dr. Einar Gunnar, dr. Mímir, Helga Jónsdóttir Gröndal, Stefán, Margrét barnakennari, og Ólafur Þorsteinsson óhlaupinn. Baldur í Englandi. Hér var mikið rætt um veru manna í barnaskólum og líðan þar, en einnig var sagt frá heimsókn Vilhjálms Bjarnasonar þingmanns í Vesturbæinn og í Morgunpott Vesturbæjarlaugar á fimmtudaginn er var. Ó. Þorsteinssyni tókst að fara rangt með fæðingarár Ástu Möller hjúkrunarfræðings og fv. þingkonu, var leiðréttur af Margréti Melaskólakonu og hefði þessi uppákoma glatt Baldur mikið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband