Endurheimtur skrifari - blómasali styttir

Mættir til hlaups á fögrum degi: próf. Fróði, Jörundur, Flosi, Kalli, Helmut, Benzinn, dr. Jóhanna, Baldur Tumi, Gomez, Maggi, Einar blómasali og skrifari. Sumir ætluðu stutt, aðrir lengra, og lengst allra ætlaði blómasalinn, ekki styttra en 18 km. Skrifari og Maggi ætluðu bara að fara Hlíðarfót þar sem Maggi var slappur og skrifari að snúa til hlaupa eftir þriggja vikna meiðsli. Nú skyldi látið á það reyna hvort hnéð dygði til að halda uppi þessum þunga skrokki á hlaupi. 

Skrifari fór að láta smúla í sér eyrun innan í gær og hitti við það tækifæri Frikka Guðbrands og Sjúl, hvorugur tók þó verkið að sér. Engu að síður var slegið á létta strengi í spjalli þeirra og kom þar að Frikki upplýsti að menn væru sendir af konum sínum til háls-, nef- og eyrnalæknis af þremur ástæðum: 1. þeir hrjóta (að sögn sömu kvenna), 2. þeir heyra illa (enn að sögn sömu kvenna), 3. þeir eru andfúlir (enn óstaðfestar fullyrðingar téðra kvenna). Skrifari var sem sagt álitinn heyra illa að mati ónefndrar konu í Vesturbænum. Nú er sá vandi úr sögunni og fannst honum háreysti mikil í hlaupi dagsins, og þurfti hvorki Bjarna né Jörund til.

Almennt var fólk rólegt í hlaupi dagsins, einhver asi á gamla barnakennaranum, og Ágúst að sperrast við að reyna að ná honum - og tók góða stund. Aðrir rólegir á eftir, Magnús, Benz, blómasali og skrifari og aftastir fóru Jörundur og Helmut. Af mörgu var að taka í umræðu dagsins, m.a. varpaði blómasali fram fyrraparti sem skrifari leiðrétti strax þar sem báðir stuðlar voru í lágkveðu. Hér brást blómasali ókvæða við og kvartaði undan smásmygli skrifara. Svona hefði nú frændi hans, Ó. Þorsteinsson, ekki brugðist við, enda þekktur fyrir viðkvæðið: "Það er nú ekki svo nöje með það." 

Er komið var í Nauthólsvík stóðu Maggi og skrifari við sitt, beygðu af og fóru inn á Hlíðarfótinn. Benzinn og blómasalinn fylgdu orðalaust á eftir, þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um að ætla ekki styttra en 18 km í dag. Hins vegar hélt Jörundur áfram á Flanir. Það var gengið um stund svo að ekki yrði reynt um of á fót skrifara. Svo haldið áfram og farið hjá Gvuðsmönnum. Þar vildi Einar halda áfram um göng og yfir á Klambratún. Það var ekki tekið í mál, heldur kúrsinn settur á Vesturbæinn stystu leið. Hér upphófst slíkur fúkyrðaflaumur og formælingar í blómasalanum út í félaga sína að annað eins hefur ekki heyrst frá því Vilhjálmur Bjarnason hljóp með okkur. Menn héldu ró sinni og dóluðu sér áfram. Þó fengu þeir Einar og Benzinn að fara um brýr á Miklubraut meðan við Maggi fórum hjá flugbraut.

Er komið var í Vesturbæinn hlupum við fram á framkvæmdir ýmislegar þar sem fyrirtækin hétu ýmist Línuborun eða Múrlína og varð hugsað til hans Magga okkar. Komið til Laugar og hafði hnéð skrifara verið til friðs. Veit vonandi á gott. Góður langur Pottur með umræðu um mat. Þeir Ágúst og Jörundur voru á stétt úti og þegar þeir heyrðu hversu litlar fortölur hefði þurft til að fá blómasala til að stytta áform sín úr 18 km í 8 ærðust þeir og helltu sér yfir hann.

Næst: föstudagur. Nema Fjölnishlaup hjá e-m á morgun. Og Grafningshlaup 1. júní með málsverði að blómasala á eftir. Meira um það síðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband