Holtavörðuhlaup hið fyrsta - kraftaverkin gerast enn

Laugardaginn 28. júlí sl. var þreytt hið fyrsta hlaup yfir Holtavörðuheiði á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Frá því afreki, og ýmsu tilheyrandi, verður sagt hér á eftir.

Menn vöknuðu að Melum, úthvíldir og hressir, eftir óslitinn nætursvefn í sveitaloftinu. Þetta voru Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magano, Þorvaldur, Ólafur ritari, Bjarni Benz, Hjálmar í hreppsnefndinni og Einar blómasali. Kvöldið áður hafði sá síðastnefndi matreitt dýrindis kjúklingapasta og salat beint úr garði frúarinnar á Melum. Að vísu kvörtuðu einhverjir yfir því að "kjúklinga-" væri misvísandi heiti á réttinum, þar eð kjúklingur var af heldur skornum skammti, en menn finna alltaf eitthvað til að kvarta yfir.

Eftir vel útilátinn morgunverð og spjall símleiðis við velunnara Samtaka Vorra, V. Bjarnason, álitsgjafa, var haldið á heiðina og höfðu nú Frikki og Rúna bætzt í hópinn. Það þótti sögulegt að Formaður treysti ektakvinnu sinni fyrir því að aka bíl þeirra hjóna, kampavínslitri jeppabifreið með auðkennisnúmerinu R-158, tilbaka yfir heiðina að Melum er búið var að skila mannskapnum á rásmark. Annað eins hefur ekki fyrr gerst í samanlagðri sambúð þeirra hjóna og má e.t.v. hafa til marks um það að nú falla þau vígin, hvert á fætur öðru.

Ekki var vel ljóst hver væri upphafspunktur hlaups og var þó búið að ganga á Formann um það smáatriði. Ekki fékkst nákvæmara hnit en "staður nálægt Fornahvammi". Er upp var staðið reyndist "staðurinn" vera í um 5 km fjarlægð frá Fornahvammi inni á heiðinni. Hér var útskot eftir fyrstu brekku, áður en kom að Byskupabrekku. Á var logn, sterkt sólskin og hiti kominn í 12 gráður. Klukkan var 9:27 að morgni. Lagt var upp.

Það voru samtals 11 hlauparar er þreyttu Holtavörðuhlaup hið fyrsta, því að áður en langt var liðið á hlaup bættust þeir Jörundur og Magnús tannlæknir í hópinn. Þar eð ekki var um keppnishlaup að ræða tókum við frændur því rólega framan af, enda tvær erfiðar brekkur framundan, Byskupabrekka og Hæðarsteinsbrekka. Óþarfi að eyða allri orku í þær. Því var gengið á þeim slóðum. En að öðru leyti var hlaupið.

Maggie var uppfull af keppnisskapi og skildi aðra hlaupara eftir, það þýddi ekki fyrir Benzinn að reyna að halda í við hana eða að ná henni, hvað þá aðra. Svo voru Einar og Hjálmar svolítið sperrtir, en það kom þeim í koll síðar og það sýndi sig að ekki var fyllilega innstæða fyrir kappinu er komið var á hæðina.

Það gladdi okkur frændur að menn sýndu af sér þann félagsþroska að bíða eftir okkur er komið var á háhæðina. Þar er vefmyndavél er sýnir aðstæður þar uppi hverju sinni. Svo var haldið áfram og nú var þetta að mestu niður á við. Ekki leið á löngu þar til unnt var að horfa niður í Hrútafjörð og þá datt inn þessi gamalkunna hugsun: "Þetta er búið áður en það byrjar." Skrifari Hlaupasamtakanna er náttúrubarn og vill njóta þess að vera úti í gróskunni. Á miðjum vegi vék hann sér því út í móa, dró af sér skúa og sokka, lagði frá sér höfuðfat og gleraugu og þvó andlit sitt og fætur upp úr gruggugu heiðarvatni. Svo áfram.

Þrátt fyrir geigvænlega veðurspá reyndist nægjanlegt að hafa með sér 75 cl af vökva að drekka. Þessu olli svalandi andvari sem blés á hlaupara á völdum stöðum á heiðinni. Það var ekki hlaupið í einni halarófu, heldur dró sundur með fólki, og var skrifari einn að mestu síðustu 10 km eða svo. Síðustu spelina var brugðið á göngu, enda er þetta lengsta hlaup skrifara í sumar, rúmir 23 km. Farið fram hjá Ormsá og að Melum. Hlaupurum var stillt upp að hlaupi loknu og hópurinn myndaður. Rúna studdist síðan við nútímatækni er hún sendi mynd og frásögn á mbl.is - sem birtist stuttu síðar.

Eftir hlaup var ekið sem leið lá á Hvammstanga og farið í sund. Að því búnu var leitað uppi útieldhús þar sem boðið var upp á grillað lamb. Þetta rifu menn í sig. Að því búnu var skoðuð eldforn Krambúð S. Pálmasonar, sótt heim kaffihús og Selasetur. Að kveldi var boðið upp á gæsalifur og grafinn lax að Melum í forrétt og grillað lamb í aðalrétt. Á eftir buðu Benz og skrifari upp á Irish Coffee af alkunnri rausn. Undir borðum las Hjálmar úr ævisögu langömmu sinnar er bjó að Melum á árum áður.

Frábært fyrsta Holtavörðuheiðarhlaup að baki á ógleymanlegum degi, svo sólfögrum og góðum. Nutum við gestrisni þeirra Melahjóna í hvívetna. Menn héldu harla glaðir í bragði í bæinn, þegar Benzinn var búinn að finna bíllykilinnn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband