Fámennt á föstudegi

Ástand Samtaka Vorra er heldur dapurlegt þessar vikurnar, aðeins örfáir hlauparar mæta til hlaupa hverju sinni. Nú voru það Þorvaldur, skrifari, Maggie og blómasali - og Frikki kaupmaður að vandræðast eitthvað. Heldur varð lítið úr hlaupi hjá blómasalanum, hann hljóp alla leið niður á Ægisíðu, en sneri við þar og hætti hlaupi með vanabundnum afsökunum. Þau hin hlupu sem leið lá hefðbundinn föstudagshring. Á leiðinni var rætt um aldur, fjölskyldustærðir og fleira af persónufræðilegum meiði. Maggie ansi hreint spræk og létt á sér og hélt uppi öflugu tempói fyrir okkur Þorvald.

Farið um Nauthólsvík og upp hjá allsherjargoðanum, Hi-Lux og svo löngu brekkuna. Dokað við er upp var komið eins og venja er, en svo haldið áfram hjá Veðurstofu og saung- og skák. Frikki mætti okkur á Klambratúni og saman var haldið að Hlemmi, þar skildu leiðir því þau hin settu stefnu á Laugaveg en skrifari Sæbraut. Er komið var að höfninni dúkkuðu þau Friðrik og Maggie þó upp og höfðu elt skrifara á Sæbraut. Þau voru hins vegar miklu frískari en skrifari og skildu hann fljótlega eftir.

Í Pott komu Kári og Anna Birna. Umræðan snerist um Helmut sem ákvað að hætta við Laugavegshlaup og skýringin "bólgur". "Bulgur"? spurði Frikki. "Af hverju var hann að éta bulgur?" "Nei, bólgur," sagði skrifari. "Líklega föðurlífsbólgur." Þá sagði Kári: "Hann fær þó ekki legsteina eins og konurnar." Svona gekk bullið fram og tilbaka.

Að kveldi var haldinn Fyrsti Föstudagur hjá þeim Ágústi og Ólöfu. Ágæt mæting helztu hlaupara. Við fengum að heyra löngu útgáfuna af slysi Ágústs í Sviss og um batahorfur, en líklega má karlinn fara að hlaupa á ný í september. Þá fara Samtök Vor að endurheimta fornan svip sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband