Benni mætir

Ha? Benni mættur! Það voru fleiri en skrifari sem ráku upp stór augu þegar Benedikt spretthlaupari dúkkaði upp í Brottfararsal óforvarandis og öllum á óvart. Menn töldu að hann væri vandari að virðingu sinni og vali á meðhlaupurum en svo að kjósa að hlaupa með okkur aumum harðdálkum í Vesturbænum. En þarna birtist hann bljúgur og alminlegur, bauð gleðilegt ár og spurði: "What´s up?" Aðrir mættir: Ingi Hermann Vilhjálmsson, Flosi, Magga, Þorvaldur, Helmut, dr. Jóhanna, Kári, skrifari, Einar blómasali, Gummi, Maggi og René - og seinna Ragnar, Hjálmar, Frikki og Jóhanna Ólafs.

Það var einboðið að hlaupið yrði Þriggjabrúa, ekki metra skemur. Menn tóku vel í þessa tillögu og var lagt upp. Veður með ágætum, 2 stiga frost og stilla. Spurt um Trabantklúbbinn, en hann ku liggja í rúminu. Einhverjir kváðust vilja vera í Trabanthópnum, en var tjáð að slíkt yrði ekki í boði í hlaupi dagsins. Það voru troðningar frá Laug og eitthvað niðureftir, en á Ægisíðu var þetta strax orðið skaplegt. Sosum ekki frá miklu að segja framan af hlaupi, fyrirsjáanleg framvinda og hefðbundin forysta.

Við Helmut héldum hópinn og ákváðum að taka blómasalann undir okkar verndarvæng, aðallega til verndar fyrir honum sjálfum. Hann lét sem hann drægist aftur úr og er það alkunn aðferð til þess að geta komið sér út úr hlaupi og stytt. En við biðum eftir honum á strategískum punktum og sáum til þess að hann héldi áfram. En þegar komið er upp Boggabrekku og upp hjá Úbbarti er leiðin hvort eð er hálfnuð og engin leið að stytta. Þá hættum við að bíða eftir honum og leyfðum hlaupinu að hafa sína eigin lógíkk. Farið allhratt niður Kringlumýrarbraut og sprett úr spori á Sæbraut, tekið vel á því. Gott að koma líkamanum á óvart með því að fara aðeins hraðar en mann langar til.

Því fór það svo að er við komum hjá Hörpu sáum við glytta í gamla barnakennarann sem hafði verið með fremsta fólki framan af. En ekki vorum við að rembast við að ná honum. Blómasalinn var einhvers staðar langt að baki okkur. Farið um Hafnarhverfið og upp Ægisgötu. Hofsvallagatan var lang versti hluti leiðarinnar, glerhál og varasöm.

Nú er frá því að segja að blómasalinn heyktist náttúrlega á því að vera með Fyrsta Föstudag, sagði að þetta bæri upp á Þrettándann sem væri hefðbundinn hátíðisdagur hjá fjölskyldunni! Dr. Jóhanna var ekki lengi að velta hlutunum fyrir sér, bauðst strax til þess að bjóða heim til sín eftir hlaup og vera tilbúin með næringu. Á móti hét blómasalinn því að bjóða upp á móttöku 13da jan eftir hlaup og einnig 29da jan eftir sunnudagshlaup, en þá yrði boðið upp á afganga úr Þorrablóti. Við getum horft björtum augum til framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband