Einn á ferð í þæfingsfærð

Það má merkilegt heita að ekki fleiri hlauparar sjást á ferð á degi sem þeim sem nú rann, en þverfótaði ekki fyrir hundum og eigendum þeirra. Vaknað seint á sunnudagsmorgni og því náði skrifari ekki ferð með Lýðveldishópnum sem alla jafna leggur af stað á sunnudögum kl. 10:10. Mætti því til Laugar upp úr 11 og hengdi af mér reyfið í Útiklefa. Hélt af stað í fögru veðri, frostlausu, logni og vetrarblíðu.

Tíðindalítið framan af, en skrifari allþungur á sér eftir fjarveru í vikunni og því mikilvægt að ná alla vega 10 km í dag vegna frekari fjarveru í næstu viku. Smám saman lagaðist ástandið og eftir 3-4 km var hér kominn flottur hlaupari með reistan makka. Þó verður ekki hjá því komist að hafa orð á ástandi stíga. Er komið var úr Skerjafirði og út að flugvelli var slík ófærð að maður varð að ganga, hnédjúpir skaflar sem greinilega hafa legið óhreyfðir dögum saman. Varð skrifara spurn á hvort ekki starfaði útivistarfólk hjá Borginni, hvort menn þar á bæ færu yfirleitt aldrei út fyrir hússins dyr. Ekki minnist skrifari þess að hafa séð ástandið jafnslæmt á stígum.

Það var mikil freisting að stytta í Nauthólsvik og fara Hlíðarfót, en enn meiri freisting að halda áfram og taka Suðurhlíð og í hana féll ég, hélt sumsé áfram niður hjá Kirkjugarði og út að Kringlumýrarbraut. Ástand stíga hér nokkurn veginn bærilegt og alveg upp að Perlu. Eftir þetta var það bara spurning um að stíma vestur úr og ná Potti með félögunum.

Í Potti var upplýst að þeir hefðu farið fjórir um morguninn: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Jörundur og Magnús. Hefðbundin uppstilling í Potti utan hvað Baldur lét sig vanta. Mikil umræða um Reykjavíkur Lærða Skóla og skólaskýrzlur sem þar voru gefnar út um árabil og Ólafur Þorsteinsson á til innbundnar í leður. Skýrzlur þessar munu vera ómissandi á mannamótum þegar ræðir um helztu persónur í samfélaginu og þarf að rifja upp frammistöðu þeirra í menntaskóla. Þótti mönnum horfa til afturfara í skólum þar sem æ meira er stuðst við símat en hætt að láta menn þreyta alvörupróf með tilheyrandi upplestri.

Ætla má að hlaupið verði í Hlaupasamtökunum á morgun kl. 17:30 og myndu menn sýna skynsemi í því að hafa tryggt sér mokstur á helztu leiðum, t.d. með tölvupósti á Reykjavíkurborg. En skrifari verður sumsé kominn til Brussel um það leyti. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband