Vassmýrarvegur

Fagur sunnudagsmorgunn og fjórir mættir til hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Flosi, Magnús, Ó. Þorsteinsson og skrifari. Það var tekin löng sessjón á Plani þar sem þetta var helzt: útför Ólafs Oddssonar íslenzkukennara í Reykjavíkur Lærða Skóla, sextugsafmæli Ingjalds Hannibalssonar og frammistaða hans Vilhjálms okkar í Hrepparnir keppa. Eftirminnilegur leikur Magnúsar á svari VB við spurningunni um staðsetningu BSÍ: "Hringbraut, Hringbraut. Vassmýrarvegur!" hrópaði Villi, henti frá sér blýantinum, hallaði sér aftur með sigurglott á vör og malaði eins og köttur.

Er við fórum á hægu tölti mætti okkur blómasalinn og kvaðst þá þegar vera búinn að fara tíu kílómetra, ekki veitti honum af enda væri hann orðinn feitur og þungur. Viðstaddir tóku undir þær áhyggjur hans og spurðust fyrir um hvernig á því stæði. Mataræði. Veður var hagstætt, 9 stiga hiti, þurrt og nánast logn. Skrifari spáði fyrir um að við myndum mæta tveimur mönnum í dag: Vilhjálmi og Jörundi. Ekki vorum við komnir langt á hlaupabrautinni er okkur mætti kunnugleg sýn: þarna var kominn sjálfur Vilhjálmur Bjarnason á reiðhjóli og staðnæmdist til þess að eiga við okkur stutt spjall. Ekki höfðum við heldur lengi skrafað er við sáum aðra kunnuglega sýn: Jörundur Guðmundsson prentari hlaupandi og horfði á okkur tómu augnaráði, sagði ekki orð en hljóp framhjá okkur eins og við værum honum með öllu ókunnugir.

Á leiðinni út í Nauthólsvík var haldið áfram að greina umræðuefni dagsins, sem við rétt tæptum á í upphafi hlaups. Bar á góma þekktar herrafataverzlanir í Shaftesbury Street í Lundúnum, þar sem mönnum er enn í minni heimsókn þeirra Vilhjálms Bjarnasonar og Ólafs Þorsteinssonar 1979. Merkjaæði Ólafs er þekkt og var í dag rætt um vaxborinn jakka frá Barbour, sem ku vera afbrigði af Burberry. Í Kirkjugarði var hlaupið framhjá leiði Ottós N. Þorlákssonar og spurði blómasalinn hvaða maður það væri. Ekki tók betra við þegar við fórum að tala um Hendrik og Hvíta stríðið, hann vissi ekkert um Hensa eða augnveika rússneska gyðingastrákinn sem Ólafur Friðriksson reyndi að hjálpa. Hér vorum við hinir alveg gáttaðir á þessum þekkingarskorti. Það er víst bara hægt að tala um klósett, málningu, festingar og prófíla við þennan mann.

Gengið á réttum stöðum og gnægð umræðuefna hvarvetna. Búið að skrúfa fyrir vatnið á Sæbraut og verður ekkert þar að hafa fram á næsta sumar. Þór lá við festar í Reykjavíkurhöfn og er tignarlegt skip. Messu að ljúka í Kristskirkju og einhverjir signdu sig. Komið á Plan að nýju í rólegheitunum eftir gott hlaup.

Í Potti voru Helga Jónsdóttir og dr. Einar Gunnar. Var mikil friðsæld yfir þessum pottverjum sem endranær, og var áfram haldið umræðu og greiningu frá því í hlaupi dagsins. Spurt var: hvað stendur N-ið í nafni Ottós N. Þorlákssonar fyrir? Aðeins barnakennarinn hafði rétt svar á takteinum: Nóvember.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband