Söguleg ónákvæmni í anda Ólafs Þorsteinssonar

Pottur sögulegur, meira um það seinna. Fyrst er að greina frá því að við komu í Brottfararsal blasti við hlaupurum Einar blómasali, klæddur í galla og kominn á ról löngu áður en hlaup hófst. Hafði hann engar haldbærar skýringar á snemmkomu sinni, en við það var ekki dvalið heldur haldið í Útiklefa og klæðst hlaupagíri. Mættir auk blómasala: Flosi, próf. Fróði, próf.dr. S. Ingvarsson Keldensis,Guðmundur Löve, Jörundur, Þorvaldur, René, Tobba, Ragnar, Magnús, skrifari og loks ku Kaupmaðurinn hafa hlaupið, en hann sást aldrei í sjálfu hlaupinu. Kári á reiðhjóli var á ferðinni með okkur.

Létt var yfir mannskapnum á Brottfararplani, enda veður gott, 10 stiga hiti, sólskin, hægur andvari, kjörið hlaupaveður. Samstaða um rólegt félagshlaup um Þrjár brýr. Brottför hæg. Tíðindalítið á Sólrúnarbraut, ég lenti í selskab með þeim Magnúsi og Þorvaldi, fyrir framan okkur voru nokkrir hraðari hlauparar, og fyrir aftan okkur voru m.a. blómasalinn, Jörundur og Tobba.

Hlauparar voru vel stemmndir í hlaupi dagsins, engin sérstök ástæða til þess að vera með aumingjaskap og stytta, þó gerðu þeir Maggi og Þorvaldur sig ánægða með Suðurhlíð, sem er þó skárra en að fara Hlíðarfóts-eymingjann. Aðrir héldu yfir brú á Kringlumýrarbraut, upp Boggabrekku og lögðu á Útvarpshæðina. Hér voru aktúellir skrifari, Flosi, Tobba og Jörundur. Rólegt félagshlaup eins og lagt var upp með. Á Kringlumýrarbraut greip einhver óróleiki Flosa og hann spólaði í burtu. Skrifari hélt ró sinni.

Á Sæbraut gerðist það að hann heyrði kunnuglegt tipl að baki sér og viti menn, blómasali tætti fram úr honum orðalaust einhvers staðar við eða eftir Höfða. Skrifara var hugsað: "Hvers konar félagi er þetta eiginlega?" Staldrað við drykkjufont og þá dúkkuðu Jörundur og Þorbjörg upp, Jörundur upplýsti að blómasali hefði sett sér sem markmið dagsins að vera á undan skrifara og má segja að þetta hafi bjargað deginum hjá honum.

Hefðbundið eftir þetta, utan hvað Þorbjörg bætti um betur í hlaupinu, skildi bæði Jörund eftir og fór fram úr blómasalanum. Skrifari rólegur upp Ægisgötuna og kláraði gott hlaup. Teygt á Plani og málin rædd. Góð mæting í Pott. Flosi söng glúntann Þjóðskáldsins um Hlaupasamtökin. "Þar er Óli og þar er Villi/þeir vita að hlaup eru ekkert spaug." Talið barst að nöfnunum í vísunni og e-r hafði á orði að "allir" væru fallnir frá. Það þótti fullmikil svartsýni að allir væru horfnir yfir móðuna miklu. Svo byrjaði upptalningin: Ingólfur, Jón Bjarni... "Villi" skaut Jörundur inn í. "Hann er ekki dauður" sagði Flosi. "Sama sem" svaraði þá Jörundur. Var haft á orði að hér væri höfð í frammi söguleg ónákvæmni sem Ó. Þorsteinsson væri einna þekktastur fyrir.

Á sunnudagsmorgun fer fram Berlínarmaraþon og hefst kl. 9 að staðartíma, 7 að íslenskum tíma. Þar keppir hann Kári Steinn okkar og gerði prófessor Fróði að tillögu sinni að menn sömluðust að heimili hans árla þess morguns til þess að horfa á hlaupið. Einhver fullyrti að prófessorinn myndi eiga erfitt með að vakna svo snemma á sunnudagsmorgni, en almennt töldu menn að það ætti ekki að þurfa að koma í veg fyrir að við hinir gætum komið okkur fyrir í sófanum fyrir framan sjónvarpsrúðuna í Lækjarhjalla til þess að fylgjast með okkar manni. Sjáum til hverju vindur fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband