Guðmundarbikarinn afhentur

Fjölmenni samankomið í Hátíðarsal Vesturbæjarlaugar stundvíslega kl. 17:15 í dag til þess að heiðra minningu Guðmundar Karls Gíslasonar og afhenda bikar kenndan við hann þeim unglingi á þrítugsaldri sem kom í mark á beztum tíma í Reykjavíkurmaraþoni. Að þessu sinni vildi svo skemmtilega til að ekki einasta kom Arnar Pétursson á beztum tíma, 2:44:18, heldur sigraði hann í hlaupinu og er því réttnefndur Íslandsmeistari í maraþoni 2011. Arnar var mættur ásamt fyrrverandi handhöfum bikarsins, foreldrum Guðmundar og félögum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Flosi hélt inngangstölu um Samtökin, svo kom S. Ingvarsson og sagði fáein orð um Guðmund og afrek hans á hlaupabrautinni. Loks afhenti Gísli Ragnarsson, faðir Guðmundar heitins, bikarinn Arnari Péturssyni, miklu hlaupaefni og afreksmanni sem á framtíðina fyrir sér ef hann leggur hlaupin fyrir sig. Jörundur var allt í öllu í athöfninni og skaut inn nauðsynlegum upplýsingum og afhenti viðurkenningar fyrri ára.

Myndataka fór fram á grasflöt og verður mynd og pistill sendur í Vesturbæjarblað auk þess sem Marathon.is hefur áhuga á að gera Guðmundarbikarnum hærra undir höfði en hingað til. Vonandi koma myndir fljótlega inn á blogg. Ekki var til setunnar boðið. Lagt af stað í hlaup. Skrifari var þeirrar meiningar að Magga hefði merkt út hlaup fyrir hópinn, en svo reyndist ekki vera. Menn æddu af stað í einhverjum stjórnlausum tryllingi og ekki varð við neitt ráðið.

Já, ég gleymdi að nefna hverjir voru mættir. Það voru auk áðurnefndra Þorvaldur, Benzinn, Helmut, dr. Jóhanna, Rakel, Dagný, Frikki, Ragnar, Einar blómasali, Magga, Haraldur, skrifari, Kári, Magnús og Kalli.

Algjör óvissa um plan dagsins. Maður fór á eftir þeim hinum á þokkalegu tempói. Fremst fóru þekktir aðilar, Magga, Siggi, Flosi, Frikki o.fl. - en á eftir kom skrifari og aðrir þar fyrir aftan. Athygli vakti að blómasali hljóp með meint fótbrot eða "hálffótbrotinn" eins og einhver sagði. Tempói haldið út í Nauthólsvík, en þar voru fremstu menn horfnir, Ragnar og Helmut voru í reiðileysi er okkur Dagnýju bar að og saman fórum við Suðurhlíð.

Helmut sprækur í brekkunni og skildi okkur hin eftir, en róaðist við Perlu. Þar tók Ragnar við og lék sama leikinn og Helmut og sást ekki eftir það. Niður Stokk og bjóst ég við að farið yrði hjá Gvuðsmönnum og vestur úr. En við Flugvallarveg kom óvænt flétta, snúið til vinstri og farið aftur út í Nauthólsvík. Þetta var sjokk fyrir líkamann, en þessi karl sætti sig við áskorunina og elti hina.

Drukkið í Nauthólsvík og haldið svo áfram á góðum hraða. Komið tilbaka og teygt á Plani. Í Potti var mannval, og sætti þar mestu að Bjössi kokkur og Ósk komu nær dauða en lífi af kulda og höfðu verið í sjónum. Rifjuð upp innsetning á Reykjavíkurhöfn þar sem einhver var blóðgaður og svo synt yfir að Hörpu, eitthvað virðist hnísan hins vegar hafa verið utan við sig, því að enginn var etinn.

Góður hlaupadagur að baki og framundan margar góðar stundir á stígunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband