Hvassviðri hindrar ekki hlaup á sunnudegi - hetjur á ferð

Það voru þrátt fyrir allt fjórir mættir til hlaups í því hvassviðri er ríkti að morgni þessa sunnudags. Þetta voru til að byrja með Ólafur Þorsteinsson, Flosi og Ólafur Grétar ritari Hlaupasamtakanna - og svo bættist Ragnar við á Ægisíðunni. Í Útiklefa urðu þegar miklar umræður um þær spurningakeppnir sem boðið hefur verið upp á nýlega þar sem spurningahöfundar virðast vera að færa sig æ meira upp á skaftið og verða aðalmyndefnið, en ekki keppendur. Einnig var til þess tekið að ónefndur blómasali sendi þá um morguninn skeyti úr sumarhöll sinni þar sem hann kvaðst dvelja í góðu yfirlæti og kæmist ekki í hlaup. Var ákveðið að gefa höll blómasalans heitið Skálkaskjól - og er við hæfi. Upplýst um niðurstöðu úr uppgjöri á dánarbúi Sigurðar Svans baðvarðar í Laug Vorri sem lesa má um í Lögbirtingablaðinu.

Hlauparar lögðu í hann og voru bara brattir. Undruðumst það að Þorvaldur skyldi ekki vera mættur, en hann lætur sig sjaldan vanta á sunnudögum. Urðum eitthvað varir við vind framan af hlaupi, en seinna var þetta mest í bakið og ekki til vandræða. Áframhaldandi umræða um spurningakeppnir og var það samdóma álit að þær væru að verða harla leiðinlegar og ekki það skemmtiefni sem þær voru hér á árum áður.

Fáir voru á ferli á þessum tíma, fáeinir hlauparar og hundeigendur. Hugsað til Jörundar sem er á Kanaríeyjum og verður sjötugur í mánuðinum. Staldrað við í Nauthólsvík og gengið um stund. Svo var haldið áfram í Kirkjugarð og enn var stoppað eins og hefðin býður, rætt um stöðu mála hjá knattspyrnudeild Víkings. Áfram um Veðurstofu og Hlíðar, Klambratún og Hlemm. Í þetta skiptið létum við nægja að fara Laugaveginn, enda löngu orðið tímabært að telja tóm verzlunarrými við götuna. Þau reyndust 13 ef mig misminnir ekki. Teknar út framkvæmdir við horn Austurstrætis og Lækjargötu, sem og í Kirkjustræti.

Hafði frændi á orði í lok hlaups að svona hlaup væru til þess að lyfta andanum og entist mönnum langt fram í vikuna. Í Pott mættu auk hlaupara dr. Baldur og dr. Einar Gunnar. Sá fyrrnefndi hafði fengið það heimaverkefni um seinustu helgi að finna eigendur þriggja bílnúmera sem og gerð og lit bifreiðanna sem báru þessi númer: R-45, R-46 og R-47. Hann hafði ekkert gert í málinu og var snupraður fyrir. Var nú verkefninu breytt í vísbendingaspurningar og þannig leitað að réttum svörum. Gekk það nokkurn veginn með góðum stuðningi annarra í pottinum. Undir lokin mætti svo frú Helga í pottinn og átti við okkur stutt spjall um persónufræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband