Alvaran hefst

Glæsilegur hópur hlaupara mættur til hlaups frá Vesturbæjarlaug á fyrsta mánudegi á nýju ári. Það var farið að kólna utandyra og blása af norðri og hálka að myndast á stígum. Það er við aðstæður sem þessar að menn finna hjá sér hvöt til þess að fara í hlaupagírið og taka á sprett í hópi vaskra sveina og meyja. Eðlilega var byrjað á að hrista skítspaða og óska gleðilegs nýs árs með þökk fyrir þau liðnu. Þetta telst bara sjálfsögð kurteisi. Að því búnu gaf þjálfari út instrúx um hlaup á Nes, það skyldu teknar Bakkavarir. Nú er um að gera að taka hlaupum af ábyrgð og alvöru því að undirbúningur fyrir hlaup ársins er hafinn.

Hlaupið rösklega upp á Víðimel og þaðan vestur úr, fremst var Magga, Jóhanna Ólafs, Ósk, Flosi, Helmut og dr. Jóhanna - á eftir skeiðaði ritari. Helmut kvaðst hafa leitað dauðaleit að ritara eftir Gamlárshlaupið með kampavínsflösku í hendi - en ekki fundið. Ritari trúði þessu mátulega. Hlaupið með ströndinni alla leið vestur á Lindarbraut og yfir á Suðurströnd. Þaðan var stefnan sett á Bakkavör og ekki var staldrað lengi við heldur teknar 6-7 Bakkavarir á rífandi tempói. Þar bættust fleiri hlauparar í hópinn, Bjössi, Ágúst, Kalli og Siggi Ingvars, dr. Friðrik, en fremstur fór Melabúðar-Frikki á ægilegu tempói, tók hvern sprett af fullum krafti. Einnig var fagnað endurkomu Hjálmars eftir langa fjarveru.

Eftir sprettina var farið yfir Valhúsahæð og niður á Nesveg. Hér var ritari kominn í félagsskap blómasala og við hófum að ræða matreiðslu. Fórum á ágætum hraða síðustu leið tilbaka. Menn fóru inn og teygðu í Sal vegna þess að það var farið að kólna úti. Af því varð mikill hávaði í sal, enda skvaldraði hver í munn á öðrum og var þetta líkt og í fuglabjargi. Fór svo að afgreiðslustúlkan sá sig tilneydda að þagga niður í okkur þar eð hún heyrði ekki til að geta afgreitt fólk sem æskti þjónustu. Var orðið við því af ljúfmennsku. Hér minntust menn Ólafs G. Björnssonar sem flæmdist á brott úr Sal, þar sem hann sat við lestur á sumarkvöldum, fyrir hávaðasömum óróaseggjum sem virtu ekki þörf fræðimanna fyrir ró og næði.

Í þetta skiptið var barnapotturinn fullur af heitu vatni, en búið að loka Örlygshöfninni. Það var ekkert verra, það skapast alltaf góður andi í barnapottinum og var setið þar góða stund og rædd ýmis mál rekstrarlegs eðlis.

Á miðvikudag kemur í ljós hvernig tekst til með skráningu í Laugaveginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband