"I am from Roma..."

Gríðarlegur fjöldi hlaupara mættur á  mánudegi milli jóla og nýárs. Þeirra á meðal er ástæða til að nefna sérstaklega blómasalann og próf. Fróða, sem hafa ekki sézt lengi að hlaupum. Svo mikill var fjöldinn að það væri að æra óstöðugan að nefna hvern og einn. Verða þeir því aðeins kynntir til sögu að lögmál frásagnarinnar kalli á slíkt. Veður hreint með eindæmum gott, þurrt, stillt og hiti yfir frostmarki.

Rólega út að Skítastöð og sprettir á Nesi, þetta var dagsskipunin frá þjálfurum, sem voru báðir mættir, annar á reiðhjóli. "Má hlaupa af stað?" spurði blómasalinn ráðvilltur og horfði í kringum sig, líkt og hann þyrfti leyfi þjálfara til að leggja upp. Það var farið upp á Víðimel og sú leið í Skerjafjörðinn. Á leiðinni kom í ljós að það voru hélublettir hér og þar og ástæða til þess að fara gætilega.

Er komið var í Skerjafjörðinn héldu Flosi og Fróði áfram austur úr, Maggi og dr. Friðrik sömuleiðis, en við hin fórum vestur úr á Nes. Þar af vorum við blómasalinn og Jörundur afgerandi slakastir í dag og fórum hægt yfir, á 6 mín. tempói. Við vorum búnir að taka vel til matar okkar um jólin og var það skýringin á hægaganginum, en við vorum ánægðir að vera komnir af stað aftur og farnir að hreyfa okkur. Fórum rólega á Ægisíðunni, um Skjólin og vestur að Hagkaupum, snerum þar við og fórum niður á Norðurströnd og þá leið tilbaka. Hér var farið að planera Laugaveginn, en skráning í hann verður opnuð 5. jan n.k. og þá verða menn að vera við tölvuna! Þessir þrír ætla að skrá sig og fara með tjöld og flottheit í Mörkina. Sömuleiðis hefur flogið fyrir að vilji sé til að fara í Mývatnsmaraþon. Hvað sem öllu líður er ljóst að menn þurfa að fara að undirbúa seríösar æfingar á næstu vikum.

Jæja, það var teygt á Plani eins og venjulega. Farið í pott. Barnapottur lokaður og því farið í Örlygshöfn. Þar voru erlendir einstaklingar fyrir á fleti. Ritari teygði úr sér eins og hann er vanur að gera. Snerti víst kálfa á útlendingi, sem brást hinn versti við og bað um að vera ekki snertur. Ritari benti á að það væri óhjákvæmilegt að snerting ætti sér stað í sundlaugum á Íslandi og menn kipptu sér ekki upp við slíkt. Gestir hér mættu til að átta sig á því. Hér bætti Kári við: "When in Rome, do as the Romans do." Hér sagði hinn viðkvæmi: "I am from Roma..." og áttaði sig um leið á því að hann gæti ekki setið í potti á Íslandi og frætt innfædda og Vesturbæinga á því hvernig menn hegðuðu sér í potti í Vesturbænum. Eftir því sem fjölgaði varð snerting enn meiri og því ekki annað að gera fyrir Rómverjann en hverfa á braut.

Er komið var úr potti voru Flosi og Fróði ekki enn komnir tilbaka og því fróðlegt að vita hversu langt var hlaupið og hvert.

Næst hlaupið á miðvikudag, og svo Gamlárshlaup á Gamlársdag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Við sama tækifæri hefði ég viljað rifja upp hollráð Epiktets sem var Rómverskur leysingi og Stóuspekingur: "Ef þú ferð í sund skaltu hafa hugfast hvað gerist í sundi. Menn sletta vatni og ærslast".

Kári Harðarson, 28.12.2010 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband