Fagurt mannlíf á föstudegi sem endar með saung í potti

Í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sameinast ólíkir hópar úr öllum stigum samfélagsins, allt frá framkvæmdastjórum í minniháttar fyrirtækjum og allt upp eða niður í fulltrúa í æðstu stjórnsýslu, og getur þó engu að síður lynt saman í sameiginlegu áhugamáli: hlaupi. Þarna koma ekki saman hlaupaeðjót sem hugsa einvörðungu um vegalengdir, hraða, tempó, úthald, snerpu og annað í þeim dúr. Nei, til eru þeir sem njóta samveru við skemmtilegt fólk, njóta þess að hreyfa sig þótt á hægri ferð sé. Slíkur hópur var saman kominn í hlaupi dagsins í Hlaupasamtökunum, nánar til tekið voru það við helztu drengirnir: Jörundur, Þorvaldur, Flosi, Karl Gústaf, Helmut, Kári, Ólafur ritari, Benzinn og Gísli rektor. Ákveðið að fara hægt í dag. Talið að prófessorinn væri að hvíla fyrir Sveifluhálsinn á morgun.

Veður fagurt í Vesturbænum í dag, hiti 10 stig, logn, bjart. Margt spjallað á Ægisíðu. Einhver spurði hversu langur texti hefði safnast saman í Króniku Samtakanna. Ritari taldi að árið 2006, sem þó væri aðeins skráð til hálfs, teldi 112 blaðsíður. Ályktuðu menn að frásagnir af hlaupum til þessa hlytu þá að nema 1000 blaðsíðum hið minnsta. Mætti jafna þessu við ævisögu Jóns Sigurðssonar eftir Pál Eggert Ólason, sem aðeins er vitað til að einn maður hafi lesið til enda og sá lenti inni á Kleppi.

Auðvitað fór það svo að sumir drógust aftur úr, en þá voru bara teknar lykkjur til þess að lengja hlaup og gefa þeim kost á að ná okkur. Farið nokkuð samtímis upp Hi-Lux og þá sáum við bíl sem var á leiðinni inn á slóðann, en snöri við er hann sá okkur. Greinilega Snusk-Pelle á ferð sem hafði grátt í hyggju. Gott er til þess að vita að hlauparar Samtakanna geta látið gott af sér leiða og fælt menn frá óviðurkvæmilegu athæfi. Stefnan sett á brekkuna. Gísli virtist vilja kanna afbrigði, við hinir töldum að það væri í sama tilgangi og Magnús tekur sér hlé í sunnudagshlaupum, en það sanna kom síðar í ljós.

Ekki var staldrað lengi við efra, heldur hlaupið hjá Kirkjugarði og þá leið, upp hjá Veðurstofu, niður Hlíðar, Klambratún, þar tóku Flosi og Benzinn þvílíkan sprett - og telja dómbærir menn að þar hafi jafnvel verið farið undir fjögurra mínútna tempó! Við hinir rólegir. Er hér var komið héldu hópinn ritari, Jörundur, Karl og einhver fjórði sem ég er búinn að gleyma. Nálguðumst Hörpu og veltum fyrir okkur hvenær hægt yrði að hlaupa kringum hana og endurvekja þannig Hafnargönguhópinn. Nema, hvað, við Sjávarútvegshús rekumst við á fígúru með kunnuglegan baksvip og hlaupastíl. Var þar kominn sjálfur Denni skransali af Nesi. Ekki kunni hann trúverðugar skýringar á veru sinni þarna, en féllst á að hlaupa með okkur. Fórum um Miðbæ og Fríkirkju, þar sem hann fór með katólska bæn fyrir okkur.

Stefnan sett á Hljómskálagarð. En hvað gerist? Við ljósin rekumst við á kampavínslita jeppabifreið af Landcruiser gerð með einkennisnúmerinu R-158, innan við glerið sat Formaður Vor til Lífstíðar og þeytti flautuna okkur til hvatningar og uppörvunar. Við fögnuðum foringja vorum og stöðvaði hann bifreið sína til þess að hleypa okkur yfir götuna, þótt hann væri á grænu og við á rauðu. Svona gera bara höfðingjar með auktorítet!

Farið á góðu tempói tilbaka og hér sagði Karl okkur söguna af brunninum og verðinum. Svo var mál með vexti að ákveðið var að setja upp brunn í Tjörninni syðri hér á árum áður (sem Þorgeir Þorgeirson rithöfundur kallaði brunnmig). Brunninum var fjarstýrt. Of langt var fyrir fjarstýringuna að fara alla leið úr miðbænum, svo að frændi Kalla sem bjó við Bjarkarstíg tók að sér að annast stýringu á brunninum, sem var m.a. nauðsynlegt vegna þess að það gat þurft að slökkva á honum í óheppilegri vindátt. Jæja, nú kemur ljósmyndari sem hyggst taka mynd af gosbrunninum og stillir upp tækjum sínum á tjarnarbakkanum. Frændinn ákveður að sprella með ljósmyndarann. Þegar ljósmyndarinn er búinn að stilla upp þrífæti og öllum græjum, slekkur frændinn á gosbrunninum. Ljósmyndarinn er grallaralaus. Rífur hár sitt. Frændinn fer út úr húsi og niður á tjarnarbakka, stendur þar og mænir á gosbrunninn, fer svo að hoppa á bakkanum, og viti menn! Brunnurinn tekur til við að sprauta vatni á ný! Frændinn hverfur síðan á ný til híbýla sinna, en fylgist með ljósmyndaranum. Brunnurinn var hættur að blása vatni. Ljósmyndarinn var við það að örvinglast, en dettur þá í hug það snjallræði að hoppa á tjarnarbakkanum. Og viti menn....!

Hlaupi lokið á þéttu tempói. Mættum rektornum í Móttökusal og hafði lokið hlaupi. Hann ætlar að mæta í hlaup sunnudagsins, sem er 10.10.10.10.10.10, þ.e. 10. október 2010, kl. 10.10:10, tíu mínútur og tíu sekúndur yfir tíu. Verður ekki magnaðra. Sátum í potti og við bættust Anna Birna og dr. Jóhanna. Á föstudögum er að skapast sú hefð að menn syngja ættjarðarsöngva. Í þetta skiptið var sungið ljóðið "Hver á sér fegra föðurland?"  - og vakti almenna hrifningu og vatn rann milli skinns og veggjar.

Næstu hlaup: hið árlega hlaup til minningar um John Lennon í fyrramálið kl. 9:30.  Og sunnudagurinn, sbr. það sem segir um það hlaup hér að framan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband