Dómsorð: af við öxl!

Fjórði dagur í röð sem sumir okkar hlupu, og aldrei skemur en 14 km. Þetta eru dagar hinna sælu, löngu hlaupa, einsemdar og vanlíðanar. Sum okkar mætt við Neslaug á tilskildum tíma, aðrir ákváðu að vera við útskrift Hagaskóla Íslands, einhverrar merkustu menntastofnunar landsins. Engir þjálfarar, en þessir mættir: Ágúst, Flosi, ritari, dr. Jóhanna, Friðrik kaupmaður, Dagný, Magnús og svo voru Neshlauparar. Þeir svermuðu mjög fyrir okkur og voru impóneraðir og vildu ólmir fá okkur í grindarbotnsæfingar fyrir hlaup - ekkert slíkt fyrir miðaldra hlaupara sem vilja hefja hlaup sem fyrst.

Ákveðið að fara Þriggjabrúahlaup, þótt það yrði ívið lengra en alla jafna. Farið sem fyrr með ströndinni, gegnum Flosaskjól og út á Ægisíðu. Þar hittum við Frikka fyrir sem hafði lagt í hann á undan okkur alveg ruglaður. Ætlunin var að fara rólega eftir hlaup gærdagsins, en það fór nú eins og það fór. Framan af hægt, en svo gefið í. Veður hryssingslegt, mótvindur, skýjað og 10 stiga hiti.

Í Nauthólsvík sneri Jóhanna við og átti auðvelt með að tala Magga inn á að fylgja sér tilbaka, 10 km, enda kvaðst hann fyrir hlaup vera svolítið slappur. Við hin áfram, nema Frikki sem tók spretti skv. ráðum þjálfara og hefur líklega farið aðra leið en við. Ágúst, Flosi, Dagný og ritari fóru Þriggjabrúa, því eins og ég sagði við prófessorinn: þetta er nánast búið. Það var svo stutt austur að Bogganum, Boggabrekkan erfið eins og venjulega og áður en maður vissi af stóð maður efst á Útvarpshæð. Svo var haldið áfram eins og hefðin bauð.

Þeir urðu eitthvað stressaðir á Miklubraut Ágúst og Flosi er þeir sáu hvað ritari var nálægt þeim. Hér fóru þeir af alvöru að ræða þann möguleika að ritari gæfi í og færi jafnvel fram úr þeim segjandi: Fögur er fjallasýnin! Slíkt er óbærileg tilhugsun hverjum hlaupara í Hlaupasamtökunum sem hefur snefil af sjálfsvirðingu. Af þeirri ástæðu hertu þeir heldur hlaupið því að ekkert er verra á hlaupi en láta niðurlægja sig. Dagný var rétt fyrir aftan þá og ritari rak lestina, þreyttur eftir Móahlaupið í gær.
Dagný beið eftir mér við ljósin á Háaleitisbraut og við áttum samleið niður á Sæbraut og vestur úr. Ég slakaði á eftir vatnsfontinn og þreytan fór að segja til sín. Farið sem leið lá um Mýrargötu út í Ánanaust og svo með Ströndinni vestur í Neslaug. 16,6 km skv. úri prófessorsins.

En tíðindin urðu eftir pott, þegar Friedrich Kaufmann  tók flugið ekkert ósvipað prófessornum, skall illa á stétt laugar, meiddist. Flosi leit sem snöggvast á sárin og mælti með því að fóturinn yrði tekinn af við öxl. Þetta eru víst kallaðar fornmannalækningar, og læknisráðið hefði sæmt Agli forföður vorum. Hann hefði jafnvel tekið aðgerðina að sér. Það gat nú farið alla vega hér áður fyrr, menn voru ekkert mjög hittnir með verkfærin eins og menn þó eru nútildags á Skadestuen.

Næst: hefðbundinn föstudagur, 16:30.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband