Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2020
12.1.2020 | 17:35
Ástin á sannleikanum
Seint verður fullyrt um félaga Hlaupasamtakanna að þeir láti góða sögu líða fyrir sannleikann. Fjórir vaskir piltar mættir til Sunnudagshlaups: Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Hríðarhraglandi utandyra og tveggja stiga frost, en ekki hvarflaði að mönnum að láta slíka smámuni koma í veg fyrir hlaup. Lagt upp á tilsettum tíma og Formaður vopnaður myndavél til að festa viðburðinn á filmu. Stígar óruddir með öllu og urðum við að ösla snjóinn upp að ökklum.
Nú gekk á með fallegum sögum sem toppuðu hver aðra. Fyrstur reið skrifari á vaðið með sögnum af viðburðum gærdagsins. Þá var komið að tannlækninum og var frásaga hans þó margfalt hjartnæmari. Og þá var rifjuð upp sagan af því þegar hann Þorvaldur okkar datt. Hún var nokkurn veginn svona: Biggi Jógi leiddi hlaup í Öskjuhlíðinni þar sem keðja hafði verið strengd fyrir stíginn til lokunar. Hann kallar aftur fyrir sig:Varið ykkur á keðjunni! Hvað menn gera. Nema Þorvaldur. Hann hleypur beint á keðjuna og flýgur á hausinn, skurmslast við það á höfði og lagar blóðtaumur niður kinnar, framhjá ennisbandinu. Einhver segir: Þú ert bara eins og Kristur krossfestur með þyrnikórónuna. Annar segir: Já, væri ekki þjóðráð að krossfesta hann? Magnús sem allt vill laga og bæta skaut þá inn: Já, en bræður, leyfið mér að sækja tannlæknaborinn minn fyrst svo að ég geti borað fyrir nöglunum. Þorvaldi þótti gamanið grátt og muldraði: Og þetta kallar maður vini sína.
Í hlaupi dagsins kannaðist Magnús ekki við að hafa boðið fram borinn sinn þegar til stóð að krossfesta Þorvald. Alltént hljóti hann að hafa ætlað að deyfa aðeins fyrst. Á þessu gekk í hlaupi dagsins og var líf og fjör alla leið. Rætt um habíta sem þarf að skipta um sökum þess hvað vaxtarlag manna er að breytast með aukinni og reglulegri hreyfingu. Rifjaðir upp þeir tímar þegar ungir menn fóru í Faco og Karnabæ að kaupa sér hólkvíð jakkaföt sem gætu enst nokkur ár og litu út eins og menn hefðu notið framlaga Vetrarhjálparinnar.
Smelltum af myndum á völdum stöðum til þess að skjalfesta viðburðinn og settum á fésbók.
Í Pott mættu Mímir, Jörundur, Einar Gunnar og Biggi. Gylfi yfirgaf pott þegar við komum. Það eru þrjár bækur sem Jörundur ætlar að lána Einari blómasala. Einar spurði Jörund hvort hann gæti ekki keypt þá fjórðu, eftir Eyvind hinn norska sem Gylfi mælti með. Mímir sagði frá því að hann hefði hitt fyrrv. þingmann á tónleikum í gærkvöldi og spurt hann hvað hann væri að gera þarna. Vitanlega var rætt um tap Dana fyrir Íslendingum í handbolta í gær og virtust menn sáttir við þá niðurstöðu.
Dagurinn og stundin ánægjuleg og eftirminnileg. Hvílíkur hópur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2020 | 14:18
Er rafskutla næsti valkostur?
Mættir voru til Sunnudagshlaups Ó. Þorsteinsson, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Veður váleg, rok og rigning, slabb og hálka á stígum. Það er óþekkt sjónarmið að veður hamli hlaupum í elsta og virðulegasta hlaupahópi landsins og sannaðist það sem oftar á þessum morgni. Við óðum svelginn við Vesturbæjarlaug og komumst um síðir á gangstétt við Hofsvallagötu, blautir og hraktir. Tafsamt var fyrir Formann til Lífstíðar að komast úr sporunum og þurftum við Einar að doka við eftir honum. Svo var skellt á skeið og stefnan sett á Nauthólsvík eins og jafnan er gert á sunnudagsmorgnum. Brá nú svo við að Formaður dróst fljótlega aftur úr og mátti sjá ennisljós hans flökta í morgunskímunni.
Hlauparar voru búnir eða byrjaðir að lesa Arnald og spannst umræða um málfar á bókum, en þó einkum prófarkalestur jólabóka og hvaða heimildir prófarkalesarar hafa til þess að betrumbæta texta sem líður fyrir augljósa fljótfærni í samningu. Ekki náðist niðurstaða í það mál í ljósi þess að helsti heimildamaður Samtakanna í prófarkalestri jólabóka var víðs fjarri og sýndi engin merki þess að ætla að ná okkur Einari. Skal þó tekið fram að ekki verður með neinum hætti hægt að fullyrða að hratt hafi verið farið. Á hinn bóginn mætti velta fyrir sér hversu hægt megi hlaupa til þess að athöfnin skilgreinist engu að síður sem hlaup.
Lái oss því hver sem vill þótt umræðan hafi beinst að því hvers konar hjálpartæki kæmi að notum í hlaupum Samtaka Vorra næstu misserin og var nefnd rafskutla, en einnig göngugrind.
Einar upplýsti um brunahringingu sunnan frá Kanaríeyjum á laugardagskvöldið. Þar hringdi Bjarni Benz og kvartaði yfir hita. Hlakkaði mikið til þess að komast í betra veður og fara að reima á sig skúana fyrir hlaup.
Þrátt fyrir að veðurútlit hafi verið hið versta í upphafi hlaups verður ekki sagt að það hafi valdið okkur vandkvæðum. Rjómablíða var brostin á eftir Nauthólsvík og eftir það var þetta líkast þokkalegasta vordegi. Afbrigði voru gerð á Klambratúni, hlaupið þvert yfir mitt tún í norður og farin gata sem heitir Reykjahlíð, Háteigsvegur, Stórholt, Skipholt og Hlemmur. Eftir það normalt hlaup niður Laugaveg.
Þau stórtíðindi gerðust við komu til baka að Einar blómasali bauð upp á kaffi. Keypti og greiddi sjálfur með beinhörðum peningum fyrir tvo kaffibolla (að vísu á verði eins eftir mikið þjark við afgreiðslumanninn). En kaffi engu að síður og verður slíkur rausnarskapur lengi í minnum hafður.
Ekki fórum við félagarnir í Pott og erum því ekki til frásagnar um viðveru né umræðuefni. En um það er við yfirgáfum Laug var Ó. Þorsteinsson að koma úr hlaupi sínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)