Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Aumingjar

“Ég er aumingi” heitir ljóð eftir Þórberg. Svo voru mál vaxin á þessum degi að mættir voru einungis þrír hlauparar á lögboðnum hlaupadegi Samtaka Vorra: dr. Jóhanna og tveir af hlaupasveinum hennar, Skrifari og blómasali. Jóhanna var allt annað en sátt með mætinguna og lét þau orð falla að þegar hún væri reiðubúin að taka svolítið seríöst hlaup þá byðist bara hlaup með aumingjum. Við Einar tókum þetta ekki til okkar og vissum sem var að Jóhanna meinti þetta meira sem hvatningu til okkar að standa okkur í hlaupi dagsins. Sem við gerðum, á okkar hátt. 

Vitanlega veltum við fyrir okkur hvar Ágúst væri, hann hafði sent myndir af brúsum með torkennilegu innihaldi og drógum við okkar ályktanir af því: líklega væri hann lagstur í kojufyllerí á einhverjum orkudrykkjum.

Við af stað í einmuna hlaupaveðri daginn fyrir Skírdag og héldum hópinn inn í Skerjafjörð. Þá heltók skynsemin skrifara og hann ákvað að ganga, en þau hin héldu áfram á skokkinu. En er skrifari kom í námunda við Skítastöð beið blómasali hans þar og hafði einnig ákveðið að vera skynsamur, enda bíður hlaup í fyrramálið frá Minni-Borg um Sólheima og tilbaka með viðkomu í árbíti hjá Gylfa Kristinssyni. Við fórum á léttu tölti tilbaka um Skuggahverfi Skerjafjarðar og ræddum bækur Stefáns Mána og þann veruleika sem þær endurspegla. Einnig spillingu í íslensku samfélagi. 

Gott hlaup þótt stutt væri. Þetta er allt að koma. Næst verður hlaupið frá Laug Vorri Föstudaginn langa kl. 10:10.


Einmunablíða á laugardegi

Hópur fólks kom saman á Ljóninu í gær til að fagna Fyrsta föstudegi hvers mánaðar. Var hér um að ræða óúttekinn Fyrsta frá því á árinu 2009. Mætt voru prófessor Fróði (hlaupinn), Ólöf, Jörundur, Skrifari og Íris kona hans. Menn tóku til matar síns og kneyfuðu ölið af kappi meðan Jörundur sagði gamlar sögur úr baráttunni, m.a. þegar hann var handtekinn fyrir að hlæja að löggu sem datt og meiddi sig.

Skrifari fór síðan að hlaupa í morgun í veðurblíðunni, Vesturbæjasólin skein glatt, en hiti var ekki nema rétt um tvö stig. Það er einstök tilfinning að vera kominn á ný með braut undir sóla og byrjaður að hreyfa sig, alveg inn diss lekt, eins og Fróði hefði kallað það. Fór sem fyrr á rólegu nótunum, hljóp og gekk til skiptis, vitandi að svona á þetta að vera og þannig byggist þrek og úthald upp. Hljóp fram úr nokkrum konum úr Kópavogi sem voru á skokkinu og lét Skítastöð ekki nægja í þetta skiptið heldur fór alla leið út í Nauthólsvík. Beygði af þar og fór Hlíðarfót, yfir um hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautina til baka. Dásamlegt! Er til eitthvað betra en að vera kominn í gírinn, bæta þannig geðheilsuna, bægja frá Allanum og seinka innlögninni? Að maður tali ekki um gyllinæðina!

Nú má hugsa með tilhlökkun til þess tíma er ég kemst með félögum mínum á sunnudagsmorgni inn í kirkjugarð að hlýða á Formann til Lífstíðar fara með æviatriði Brynleifs Tobíassonar af sinni alkunnu nákvæmni og sannleiksást.


Endurkoma á vori

Ja, það fór þó aldrei svo að Skrifari mætti ekki af nýju til hlaupa. Raunar hafði hann laumast einum þrimur sinnum út að hlaupa í kyrrþey áður en hann hafði kjark til að sýna sig innan um félaga sína. Seinast var það á mánudaginn eð var, en þá varð prófessor Fróði á vegi hans fyrir slysni. Prófessorinn horfði á fætur Skrifara þar sem hnýttir höfðu verið hlaupaskúar á fæturna. “Eru þetta hlaupaskór?” spurði hann forviða. “Hvað eru hlaupaskór að gera á fótunum á ÞÉR?” - og þannig áfram. 

Nú var mætt á miðvikudegi á lögboðnum hlaupatíma og mætt voru Jóhanna, Flosi, fyrrnefndur Fróði, Magnús tannlæknir og Einar blómasali. Einar hefur heitið Skrifara mórölskum stuðningi á endurkomutíma meðan þrek og úthald er að byggjast upp. Á meðan er bannað að hæða og leggja í einelti. Er komið var út á stétt dúkkaði upp hreppsnefndarfulltrúi Sveinsson og bar ekki við að kasta kveðju á Skrifara enda þótt nærvera hans hljóti að teljast til nýlundu. Ja, sá hefur ekki áhyggjurnar af atkvæðum í hreppsnefndarkosningunum á vori komanda.

Einar er á leið í Kaupmannahafnarmaraþon í maí og má því fara að herða sig, hann ætlaði 16 km. Aðrir voru hófstilltari. Lagt upp á rólegu nótunum og fékk Skrifari það óþvegið frá ónefndum hlaupurum, hvort hann væri ekki þreyttur, hvort hann ætlaði alla leið niður á Einimel o.s.frv. Ég lét ókvæðisorðin sem sem vind um eyrun þjóta og hélt mínu striki og hélt enda í við Flosa, Einar og Magga út í Skerjafjörð, ja, eða kannski væri nákvæmara að segja að Lambhóli, nánast. Þá tók við ganga hjá undirrituðum, enda mikilvægt að fara sér hægt og skynsamlega í endurkomunni og ekki of geyst. Á þessu gekk út að Skítastöð, en þar sneri ég við og fór tilbaka. Nú brá svo við að ég var orðinn heitur og gat tekið Ægisíðuna á góðu blússi. Mætti þar TKSurunum Guðrúnu Geirs, Rúnu, Hönnu og Öldu - svo var Baldur Tumi eitthvað að villast þarna. 

Kom þreyttur og sveittur til baka til Laugar og hitti Magga, sem fór fyrir flugvöll. Gott hlaup sem lofar góðu um framhaldið. (Nefndi e-r Fyrsta Föstudag nk. föstudag?)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband