Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Andar líkið?

Nú fer að hausta og reglubundin starfsemi Hlaupasamtaka Lýðveldisins að færast í samt lag. Fjöldi valinkunnra hlaupara mættur til hlaupa á mánudegi eftir brýningu sunnudags. Þessir voru: próf. Fróði, Flosi, Kalli, Þorvaldur, Magnús, dr. Jóhanna, Magga, Einar blómasali, Þorbjörg, skrifari - og svo bættist G. Löve í hópinn neðarlega á Hofsvallagötu. Á Plani heimtaði Einar stutt - 19 km - "ja, ekki styttra" sagði prófessorinn. Lagt upp í ljúfu hlaupaveðri. 

Þorvaldur markaði sér bás með þeim spræku dömum, Möggu og Jóhönnu, þar fyrir aftan lakari hlauparar og allra síðast komu Magnús og Þorbjörg með skrifara í eftirdragi, þungan og þreyttan. Ekki var skrifari að nenna þessu, en lét sig hafa það og vissi sem var að þetta myndi lagast. Þessi hlaupari hafði farið 16 km gangandi á laugardag, 12 km hlaupandi með frænda sínum og vin Ó. Þorsteinssyni á sunnudag - og nú var kominn mánudagur og ekki skyldi slakað á. Það var um að gera að þrauka inn í Nauthólsvík - eftir það yrði þetta bærilegra.

Það stóð heima að lífið varð allt bjartara við komuna í Nauthólsvík. Maggi hitti kunningja úr Áslandsskóla sem höfðu slegið upp veizlu í siglingaskúrunum og grill á fullu. Framundan mátti grilla blómasalann og varð ekki betur séð en hann væri að gæla við Hlíðarfót meðan prófessorinn lét óbótaskammir ganga yfir hann. Gat það verið?

Við Maggi og Tobba gerðum hóflegar væntingar til hlaups dagsins og létum Hlíðarfót duga. Gengið á köflum, enginn að flýta sér. Maggi sagði brandara af Breta og Skota sem lentu í árekstri. Skotinn var í áfalli og taldi ekki annað koma til greina en bjóða viskí. Svo þegar lögreglan kom hvíslaði hann: "Ég held þið ættuð að láta hann blása, þennan!" og benti á Englendinginn.

Er komið var á beina legginn hjá Gvuðsmönnum brá okkur í brún að sjá Flosa, Kalla og - blómasalann framundan okkur. Þarna hefur einhver mælingaskekkja komið upp því að þeir mundu engan veginn ná 19 km með þessu móti - nema ætlunin væri að fara út á Nes og hringa golfvöllinn. Hvað um það, menn komu í sama mund á Plan og það var teygt. Það kulaði.

Kári mætti í Pott og sagði okkur frá tónleikum David Byrne í Háskólabíói. Þeir ku hafa verið frábærir. Svo var náttúrlega skipst á uppskriftum og rætt um áfengi. Menn þurftu að fara í Melabúðina að kaupa næturkostinn. Í útiklefa mætti Helmut og svo hélt Hjálmar íþróttakennari ádíens.

Í Melabúðinni stóð blómasalinn við kjötborðið í djúpum samræðum við Melabúðarkaupmann. Skrifari bauðst til þess að fjarlægja hann úr búðinni og hvort hann hefði rutt úr mörgum hillum í dag.

Þegar skrifari ók á brott á bifreið sinni sá hann hvar próf. Fróði kom tilbaka úr hlaupi sínu og hefur vart verið skemmra en 20 km. Tók blómasali hann tali við Melabúðina og var greinilega ekki örgrannt um að prófessorinn vildi veita honum ráðningu fyrir svikin. Eða það las skrifari úr líkamstjáningu prófessors, en skrifari er sérfræðingur í að lesa í líkamstjáningu fólks.

Næsta hlaup: miðvikudag. Langt. 


Gengið og hlaupið

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru íþrótta- og menningarsamtök í Vesturbænum. Félagsmenn iðka heilbrigða lífshætti með margvíslegum hætti og miðla þekkingu ómældri um hvaðeina, persónur og bílnúmer. Laugardaginn 16. ágúst var þannig skipulögð ganga frá Djúpavatni að Suðurstrandarvegi, einir 16 kílómetrar. 11 tóku þátt í göngunni í blíðskaparveðri. 6 hlupu svo gagnstæða leið frá Suðurstrandarvegi að Djúpavatni og mættust hóparnir á leiðinni. 

Á sunnudögum er hlaupið frá Vesturbæjarlaug kl. 10:10. Mættir í dag voru þeir frændur, nafnar og vinir, Ó. Þorsteinsson og Ólafur skrifari. Þeir lögðu upp í ágætu veðri, björtu, logni og ágætlega hlýju. Nú höfðu þeir ekki hlaupið saman um skeið og því af nógu að taka í umræðuefnum. Meðal umræðuefna var hin einkennilega þögn sem umlukið hefur V. Bjarnason þingmann frá því hann var kosinn á þing. Tækifæri gafst til að spyrja Gunnar Gunnarsson í Speglinum hvort þingmaðurinn væri ekki alltaf á snerlinum í Efstaleitinu, en Gunnar kvað svo ekki vera - lengur. Gunnar kvað fjölmarga hafa komið að máli við sig og spurt hvort V. Bjarnason væri dauður. Við slíkum spurningum hefur Gunnar klassískt svar: "Það kemur yður ekki við!"

Jæja, það var skyldubundin umfjöllun um Vigdísi Hauksdóttur og palladóm um hana í Fréttablaðinu þar sem einungis nánasta skyldulið hennar fékkst til að segja eitthvað jákvætt um hana.

Við ræddum um fjarstadda félaga, sem telja sér það skyldara að snudda í kringum fjölskyldur sínar en að spretta úr spori með góðum drengjum og hlýða á fallegar sögur. Var þeirra saknað og bundnar vonir við að þeir færu að láta sjá sig á hlaupum á næstu dögum. Voru sérstaklega nefndir til sögu Einar blómasali og Magnús Júlíus. 

Fyrsta stopp í Nauthólsvík var verðskuldað. Síðan var það bara Kirkjugarður, Veðurstofa, Hlíðar og Klambrar. Stoppað á öllum hefðbundnum stöðum. Þannig afber syndaselur eins og skrifari endurkomu til hlaupa. Sæbraut, Miðbær, Túngata og Laug.

Pottur vel mannaður. Auk hlaupara voru Flosi, Margrét, Helga Jónsdóttir Zoega, St. Sigurðsson, dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Ólafur Jóhannes og Felix sonur hans. Rætt um óperu Gunnars Þórðarsonar um hana Ragnheiði okkar, sem ku vera eitt snilldarverk.

Næstu hlaup mánudag. Hefðbundið.  


Óráðshjal

Það er segin saga að þegar prófessor Fróði mætir í Föstudagspott snýst talið um áfengisdrykkju og hann verður drafandi. Þannig var það á þessum degi þegar skrifari mætti meiddur í Pott til þess að hitta hlaupandi félaga sína. Hann greindi Magnús tannlækni, Þorvald, Flosa, prófessorinn, Ólaf heilbrigða og Kalla - óhlaupin voru Kári, Anna Birna, sjálfur skrifari - og svo birtust seint og um síðir óhlaupnir Einar blómasali, Biggi jógi og er skrifari yfirgaf Laug kom Benzinn stormandi á rútunni.

Þeir kváðust hafa mætt til hlaupa á réttum tíma, hvað veit ég um það. Altént var það svo að skrifari mætti til Laugar um fimm- hálfsexleytið og tók fljótlega nótís af Þorvaldi Gunnlaugssyni, sem var kominn tilbaka frá hlaupum, en bar ekki við að heilsa frekar en alla jafna. Lét sem hann sæi ekki skrifara, sem þó hefur embættisgengi í Samtökum Vorum og því virðingar verður. Ekki sást til dr. Einars Gunnars, en sonur hans, dr. Ólafur Jóhannes sást í Laug í gær.

Nú það var ekki um annað að ræða en að þrífa sig og halda til eimingar. Þar voru settar á tölur um fiskneyslu við Stefán Sigurðsson verkfræðing. Að lokinni hreinsun hins innri manns var steðjað á ný í Pott. Nú voru Kári og Anna Birna mætt og Magnús tannlæknir var í heita pottinum. Svo var stefnan sett á Barnapott og þangað komu hlauparar hver á fætur öðrum. Einkennilegt með Föstudagspott hvað talið berst fljótt að áfengisdrykkju og blöndum. Cuba Libre, tvöfaldur brennivín í tvöföldum Bianco og smáborð fyrir bland. Og svo rifjuðu menn upp uppáhaldsþynnku- og æluminningar sínar. Kári benti á mikilvægi þess að menn þrifu vel klósettin fyrir drykkjuna þannig að þeir gætu faðmað Gustavsberg af þeim mun meiri ástríðu þegar kæmi að því að skila því frá sér sem drykkjan útheimti.

Jæja, svona tal var fjarri hug skrifara, sem einbeitti sér að göngu morgundagsins. Hann lagðist gegn því að prófessorinn fengi sér rauðvínsglas til undirbúnings göngu. Kemur í ljós hvort því ráði hafi verið fylgt. Í gvuðs friði. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband