Andar líkið?

Nú fer að hausta og reglubundin starfsemi Hlaupasamtaka Lýðveldisins að færast í samt lag. Fjöldi valinkunnra hlaupara mættur til hlaupa á mánudegi eftir brýningu sunnudags. Þessir voru: próf. Fróði, Flosi, Kalli, Þorvaldur, Magnús, dr. Jóhanna, Magga, Einar blómasali, Þorbjörg, skrifari - og svo bættist G. Löve í hópinn neðarlega á Hofsvallagötu. Á Plani heimtaði Einar stutt - 19 km - "ja, ekki styttra" sagði prófessorinn. Lagt upp í ljúfu hlaupaveðri. 

Þorvaldur markaði sér bás með þeim spræku dömum, Möggu og Jóhönnu, þar fyrir aftan lakari hlauparar og allra síðast komu Magnús og Þorbjörg með skrifara í eftirdragi, þungan og þreyttan. Ekki var skrifari að nenna þessu, en lét sig hafa það og vissi sem var að þetta myndi lagast. Þessi hlaupari hafði farið 16 km gangandi á laugardag, 12 km hlaupandi með frænda sínum og vin Ó. Þorsteinssyni á sunnudag - og nú var kominn mánudagur og ekki skyldi slakað á. Það var um að gera að þrauka inn í Nauthólsvík - eftir það yrði þetta bærilegra.

Það stóð heima að lífið varð allt bjartara við komuna í Nauthólsvík. Maggi hitti kunningja úr Áslandsskóla sem höfðu slegið upp veizlu í siglingaskúrunum og grill á fullu. Framundan mátti grilla blómasalann og varð ekki betur séð en hann væri að gæla við Hlíðarfót meðan prófessorinn lét óbótaskammir ganga yfir hann. Gat það verið?

Við Maggi og Tobba gerðum hóflegar væntingar til hlaups dagsins og létum Hlíðarfót duga. Gengið á köflum, enginn að flýta sér. Maggi sagði brandara af Breta og Skota sem lentu í árekstri. Skotinn var í áfalli og taldi ekki annað koma til greina en bjóða viskí. Svo þegar lögreglan kom hvíslaði hann: "Ég held þið ættuð að láta hann blása, þennan!" og benti á Englendinginn.

Er komið var á beina legginn hjá Gvuðsmönnum brá okkur í brún að sjá Flosa, Kalla og - blómasalann framundan okkur. Þarna hefur einhver mælingaskekkja komið upp því að þeir mundu engan veginn ná 19 km með þessu móti - nema ætlunin væri að fara út á Nes og hringa golfvöllinn. Hvað um það, menn komu í sama mund á Plan og það var teygt. Það kulaði.

Kári mætti í Pott og sagði okkur frá tónleikum David Byrne í Háskólabíói. Þeir ku hafa verið frábærir. Svo var náttúrlega skipst á uppskriftum og rætt um áfengi. Menn þurftu að fara í Melabúðina að kaupa næturkostinn. Í útiklefa mætti Helmut og svo hélt Hjálmar íþróttakennari ádíens.

Í Melabúðinni stóð blómasalinn við kjötborðið í djúpum samræðum við Melabúðarkaupmann. Skrifari bauðst til þess að fjarlægja hann úr búðinni og hvort hann hefði rutt úr mörgum hillum í dag.

Þegar skrifari ók á brott á bifreið sinni sá hann hvar próf. Fróði kom tilbaka úr hlaupi sínu og hefur vart verið skemmra en 20 km. Tók blómasali hann tali við Melabúðina og var greinilega ekki örgrannt um að prófessorinn vildi veita honum ráðningu fyrir svikin. Eða það las skrifari úr líkamstjáningu prófessors, en skrifari er sérfræðingur í að lesa í líkamstjáningu fólks.

Næsta hlaup: miðvikudag. Langt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband