Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Hefðbundinn föstudagur með dánumönnum

Föstudagur. Mættir: Þorvaldur frá Óðagoti, Denni, skrifari, Benzinn, Bjössi - og hver dróst ekki þarna inn með semingi og þvermóðsku nema hann Jörundur okkar sem hefur verið örlátur á fé við skrifara gegnum tíðina vegna nauðsynlegra utanlandsferða í þágu Lýðveldisins. Jæja, samtöl í Brottfararsal fóru fram af kurteisi og hógværð allt þar til Benzinn mætti, þá var friðurinn úti. "Er hann slæmur í dag?" spurði Denni. "Það kemur bara í ljós," sagði skrifari. "Á hverju er hann?" spurði Denni. "Það er nú nefnilega málið, hann er ekki á neinu" sagði skrifari. "Nú?" sagði Denni skilningsríkur.

Jæja, hvað um það. Ekki kom til álita annað en fara hefðbundið á föstudegi og ekkert helvítis Nes. Menn voru hægir, og þeir Denni og Jörundur hægastir. Aðrir hraðari og Bjössi bara flottur. Það blés á austan, bölvaður strekkingur á móti hlaupurum. Við létum það ekki á okkur fá og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar þegar viðsnúningur yrði eftir Veðurstofu. Það var hávaði í Benzinum eins og venjulega, en svo krimti í honum á milli og var eins og hann væri að hrekkja menn með hávaðanum. Menn spurðu um blómasala sem ku vera á leið í maraþon eftir mánuð.

Þetta var nú ekki með stórtíðindum fram að Nauthólsvík, þar beygði Björninn af, en við hinir héldum áfram. Síðar fréttum við að Jörundur og Denni hefðu farið Hlífðarfót og svo Klambra. Endurnýjuð kynni við Hi-Lux og þá kom próf. Fróði upp í hugann, Benzinn kvaðst hafa reynt að hringja í hann í Akademíunni, en einhverjir Kínverjar svarað og haft litlar upplýsingar um íverustað prófessorsins. Menn eru sumsé að leita að karlinum, en ekkert fæst uppgefið um hvar hann heldur sig. Það verður líklega að fara að lýsa eftir honum eins og krökkunum sem strjúka af upptökuheimilum.

Fórum brekkuna rólega, staldrað við inn á milli enda menn þungir, tveir á tíunda tugnum og daðrandi við Desítonnið. Hér er verk að vinna. Áfram hjá Garði og upp hjá Veðurstofu. Saung- og skák, Hlíðar, Klambrar og Einar Ben. Rauðarárstígur tíðindalítill, en þegar kom á Hlemm sveik Þorvaldur okkur og fór Laugaveginn sem er geðbilun á föstudegi með kaupsjúka korthafa á nýju tímabili. Við Benzinn fórum niður á Sæbraut og hvern sáum við þar? Var ekki Denni dólandi sér í vorkyrrðinni með sjávarölduna við hlið sér. Við náðum honum og höfðum við samfylgd til loka hlaups. Frikki kaupmaður dúkkaði upp á Plani og hafði farið 8 km - Benzinn byrjaði að grenja á hann, en Frikki lét sem hann heyrði ekki. Það æsti Benzinn bara upp og hann hljóp á eftir kaupmanni öskrandi.

Í Móttökusal gerðust þau tíðendi að Samfylkingarþingmaðurinn R. Marshall átti leið um án þess að Benzinn tæki eftir honum og komst hann því óáreittur út á stétt. Hér var rifjað upp að aðrir Samfylkingarþingmenn hafa ekki verið jafnlánsamir, og nefndu menn hér nafn Marðar Árnasonar, sem var svo óheppinn einn föstudagseftirmiðdag að lenda í Benzinum og öfgum hans.

Pottur makalaus. Þar var Kristján Hreinsmögur Skerjafjarðarskáld með ádíens. Hann flutti okkur ljóð og tækifærisvísur. Hér var Biggi mættur og hafði skoðanir á hlutunum. Hann hefur ekki hlaupið svo lengi að hann er farinn að fjarlægjast hugsjónir Nagla. Það þarf að taka hann í klössun við tækifæri. Svo mætti Guðrún Harðardóttir og var fagnað vel. Hérna sátum við og áttum gæðastund saman. Framundan árshátíð 14. apríl, eru allir skráðir?


"Nú er Bleik brugðið!"

Bleik var brugðið í dag. Meira um það seinna. Veður með bezta móti þegar hlauparar söfnuðust saman til hlaupa frá Vesturbæjarlaug. Þurrt, stillt, 6 stiga hiti hið minnsta. Og það bara batnar fram að helgi. Mættir: Magnús, Flosi, Þorvaldur, Magga, dr. Jóhanna, Ósk, Helmut, blómasali, skrifari, Bjössi, Benz, Frikki - og loks kom Kalli af Brimum, vinur Goðmundar vinalausa. Hann hefur ekki sézt að hlaupum um langt árabil. Í okkar hópi er engin skömm að því að vera vinalaus, það er legio.

Jæja, það var þetta venjulega karp í Brottfararsal og baktal um náungann. En loks var ekki undan því vikizt að hefja hlaup. Nes var nefnt, sem er óvenjulegt á miðvikudegi, en það var einhver pastoral rómantík í mannskapnum, menn sáu fyrir sér hæga ölduna falla að og frá, bleika akra og slegin tún. Skrifari hafði efasemdir, en á þær var ekki hlustað frekar en fyrri daginn. Magga lagði til að það yrði byrjað á að fara út að Drulludælu og svo vestur úr. Leist þeim vel á þessa áætlun sem stefna á langt á næstunni, en okkur hinum var sosum alveg sama.

Skrifari hélt sér aftast af ráðnum hug, hann hefur ekki hlaupið að ráði síðustu þrjár vikurnar, orðinn feitur og þungur af hreyfingarleysi og óhófi í mat og drykk er tengist fundahöldum um landið. Einhverra hluta vegna raðaði blómasalinn sér í sama flokk, maður sem er búinn að æfa eins og heltekinn síðustu vikur og ætti að vera í fantaformi. Þarna voru Maggi, Benzinn, Kalli, Bjössi og fleiri.

Blómasalinn er ólíkindatól og hrekkjusvín. Hann hafði frétt af því að Benzinn væri viðkvæmur fyrir Hamborgarabúllunni. Upphóf hann nú mikinn munnsöfnuð og afflutning á þessum hjartnæma og geðþekka matsölustað, taldi fæðinu þar allt til foráttu og menn ættu að forðast hann eins og pestina. Ekki hafði hann lengi malað þegar Bjarni var stokkinn upp á nef sér, orðinn trítilóður og kvaðst ekki hlusta á svona óhróður. Var sem rakettu væri stungið í óæðri endann á honum og hann var horfinn með sama, náði hraðförunum á stuttum tíma og hélt sig þar.

Við hinir fórum þetta í hægðum okkar í Skerjafjörðinn og snörum við hjá Stoppustöð SVR og Oddi ættfræðingi. Á móti okkur kemur Friðrik kaupmaður og hafði eitthvað villst. Hann sneri líka við og hélt á Nes. Nú tók Kalli við sér og Bjössi og skildu okkur eftir. En blómasali og Maggi voru rólegir. Ég innti menn eftir því hvað blómasalinn hefði fengið í hádeginu, það var skyrdolla og glas af ávaxtasafa - ekkert sem getur útskýrt hægaganginn. Fór fetið er komið var að Hofsvallagötu, en lagði svo á Nes með Magga. Bjössi og blómasalinn hættu hlaupi hér.Hér var Bleik brugðið.

Við Maggi fengum félagsskap af Þorvaldi á Nesi og saman héldum við út að Haðkaupum, niður á Norðurströnd og svo í humátt að Laug. Er þangað kom sátu Bjössi og blómasalinn úti í glugga að trúnaðarhjali. Skrifari slóst í hópinn og áttum við langt spjall þar. Svo kom Sif langhlaupari og hafði pínt sig 6 km, hálffarlama konan. Svo var farið í Pott. Þar áttum við gæðastund nokkur. Bjarni með hávaða að venju, en sem betur fer hás svo það heyrðist ekki mikið í honum. Lagt á ráðin um Árshátíð og eru þeir hvattir til að skrá sig sem ekki hafa gert það, plássin fara að fyllast! Björn upplýsti að hann ætlaði að opna nýjan dagskrárlið: "The airing of grievances" í anda Frank Costanza. Leyfa félögunum að heyra um öll þau tilvik sem þeir hafa valdið honum vonbrigðum allt síðastliðið ár, hér verða einkum ákveðnir félagar skotspónn kokksins. Hins vegar verður enginn látinn gjalda fyrir hugsunarleysi sitt í mat Kokksins - hann verður ósvikinn! Hægri afturlöpp af íslenzkri rollu. Laugardaginn 14. apríl, muna það.

Í gvuðs friði.
Skrifari


Benzinn með skásta móti

Venju samkvæmt söfnuðust menn saman við Vesturbæjarlaug kl. 10:10 til þess að hlaupa, skrafa og fræðast. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Benzinn, skrifari, blómasali og Flosi á hjóli. Það var nokkurra stiga frost og menn því vel búnir. Balaklava er skilyrði við þessar aðstæður. Nokkuð er liðið síðan skrifari þreytti sæmilegt hlaup og hann búinn að bæta á sig, því var útlit fyrir átakahlaup. Fór þó rólega af stað.

Umræðan snerist eðlilega um þau ósköp að starfsmaður Akademíunnar hefur gerzt ber að óvandaðri umgengni um fjármuni stofnunarinnar og sætt fyrir að úttekt. Um tíma höfðu einhverjir af okkar minnstu bræðrum áhyggjur af því að sá sómakæri og gegnheili Ó. Þorsteinsson væri innblandaður og sæti jafnvel bak við lás og slá. Nokkur símtöl í þá veru fóru um landsnetið, en á móti sat Formaður og hafði vart undan að svara tölvuskeytum og brunahringingum, engri þó frá V. Bjarnasyni. En við sem þekkjum okkar mann að engu nema heiðarleik og séntilmennsku vissum að fréttin gat ekki átt við um hann. Um þetta snerist umræðan fyrsta spölinn.

Menn höfðu eðlilega áhyggjur af Bjarna, sem hefur valdið umferðaröngþveiti og handalögmálum í nokkrum af seinustu hlaupum Samtakanna. En það verður að segjast honum til hróss að hann var bara með ágætum í dag, hávaði með minnsta móti (líklega sökum hæsis) og umfjöllun í samhengi. Það var fjári kalt í dag og blés á norðan. Blómasali og Þorvaldur skildu okkur hina fljótlega eftir og sást síðast til þeirra í Nauthólsvík, en ekki eftir það.

Við hinir héldum ró okkar enda um margt að ræða þegar menn hafa verið fjarverandi frá hlaupum um lengri hríð. M.a. barst talið að próf. Fróða sem hefur ekki mætt í hlaup svo mánuðum skiptir og verður fljótlega afskrifaður fari hann ekki að gera vart við sig. Hefðbundinn stanz í Nauthólsvík og málin rædd. Svo var haldið áfram í Garðinn og hann genginn í andakt.

Eftir Veðurstofuhálendið lagaðist veðrið og varð bærilegt. Við dóluðum þetta á sömu rólegu nótum og var enginn skortur á umræðuefnum, gamlar frægðarsögur af Bjarna Benz. Farinn Laugavegur og talin tóm verzlunarrými, 9. Hylling á Café Paris. Rólega upp Túngötu, krossmark við Kristskirkju.

Er komið var tilbaka var blómasali á leið upp úr. Hann taldi það merki um hreysti að þurfa að þurrka sér á glerhörðu, gegnfrosnu handklæði, aðrir kölluðu það bara aulahátt. Hann lánaði Benzinum handklæðið, en Benzinn hafði gleymt sínu. Það var gauðrifinn, útslitinn handklæðissnepill sem sjaldan hefur sézt ómerkilegri slíkur í Vesturbænum. Pottur góður, rætt um allt frá La Boheme til Barbour-jakka. Aristókrata og prófessora. Nú er að sjá hvort skrifari helst sæmilegur í fótnum áfram.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband