Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012
14.11.2012 | 20:32
Fantar á ferð
Nei, djók. Þetta var bara nokkuð hefðbundið. Mætt í Brottfararsal: Flosi, Maggi, skrifari, dr. Jóhanna, Þorbjörg, Pétur, Gummi, Heiðar, Haraldur, Karl von Bremen og hlaupari sem mig vantar nafnið á. Sennilega verður það að teljast óhefðbundið þegar fastaliðið lætur ekki sjá sig. Hvar var blómasali? Hvar var Benzinn? Eða Þorvaldur?
Einhver nefndi Þriggjabrúa á Plani. Við Maggi stóðum þarna eins og illa gerðir hlutir innan um ofurhlaupara meðan beðið var eftir að Pétur yrði klár. Skyndilega sló hugsunin mig hvað þetta væri súrrealískt: við Maggi að bíða eftir Pétri til þess að hann geti skilið okkur eftir í reykmekki þegar á horni Ægisíðu og Hofsvallagötu. Ég nefndi þetta við Magga og hann tók kipp og við rukum af stað með Þorbjörgu með okkur. Þau hin gætu þá bara reynt að ná okkur!
Þau náðu okkur eftir 2 km. og fóru geyst fram úr, fnæsandi eins og hross. Maggi ætlaði bara Hlíðarfót þar sem hann átti að mæta á kóræfingu um kvöldið til að syngja "Hver á sér fegra föðurland?" Skrifari var ekki búinn að gera upp við sig hvert skyldi haldið. Þegar kom í Nauthólsvík var líðanin of góð til þess að stytta og það var haldið áfram á Flanir. Stefnan sett á Suðurhlíð í kompaníi við Kalla, en Tobba var týnd.
Gott tempó á okkur, meðaltempó 5:45. Snerum upp Suðurhlíðina og tókum brekkuna í einum sprett án þess að stoppa, alla leið upp á plan hjá Perlu, þar pústaði skrifari út meðan Kalli skokkaði létt í hringi. Svo haldið niður Stokk og hjá Gvuðsmönnum. Þá leið vestur úr og var allt tíðindalaust á meðan. Gott veður til hlaupa, hvorki of kalt né of heitt. Komum til Laugar á innan við klukkutíma, gott hlaup og sýnir að skrifari er ekki dauður úr öllum æðum.
Þau hin munu hafa strækað á Þriggjabrúa og fór Gummi Löve víst þar fyrir uppreisnarseggjum. Í staðinn var farið í Fossvoginn og teknir sprettir. Flosi mun einn hafa farið Þriggjabrúa.
Tekinn góður tími í teygjur eftir hlaup og svo inntekinn Pottur. Að þessu sinni voru allir pottar opnir, en að undanförnu hafa tveir verið lokaðir vegna vanstillingar. Ljúft að hvílast og slaka á eftir gott hlaup og ræða val ungmenna á framhaldsskólum, en þar virðast Vesturbæingar vera mjög samstiga.
12.11.2012 | 21:36
"Lífið er svo stutt að maður getur ekki eytt því í að drekka vont kaffi."
Alltaf hrjóta spakmæli af vörum félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þessi féllu í Potti að loknu átakahlaupi (fyrir suma), höfundur: Dr. Jóhanna. En upphaf þessarar sögu var að fjöldi valinkunnra hlaupara mætti til Laugar í þeim góða ásetningi að þreyta hlaup á mánudegi. Þessir voru: fyrrnefnd dr. Jóhanna, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Bjarni Benz, blómasali, skrifari, Pétur, Gummi, Karl Gústaf og S. Ingvarsson. Gríðarlegt mannval. Nú heyrir það til sögunni að menn hafi í frammi ónot í Brottfararsal, en þó var eftir því tekið að Þorvaldur kom að borði Hlaupasamtakanna við gluggann þar sem fyrir á fleti voru útlendingar með hafurtask á borðinu, og kona sat og gaf barni sínu brjóst. Þorvaldur ruddi burtu dóti þessa fólks, enda átti það engan rétt á að hafast við á borði Samtaka Vorra, og lagði á borðið ýmsar miður frambærilegar hlaupaflíkur. Fór svo að gera teygjur sínar sem hann er þekktur af.
Dr. Jóhanna ákvað að farinn yrði Neshringur og teknar Bakkavarir. Hér æjuðu miðaldra menn og eldri, sögðu að þetta væri ekkert fyrir þá. "Við fylgjum þá bara í humátt á eftir hinum og förum stutt." Hefðbundin þróun hlaups, fremstir fóru þekktir afrekshlauparar, en við hinir lakari þar á eftir. Nú er hlaupið í myrkri og verður að varast allan þann fjölda bíla sem þvælist fyrir hlaupurum. Það var vitanlega rætt um hann Vilhjálm okkar og þann óhróður sem andstæðingar hans í eigin flokki hafa í frammi um hann. Einhver sagði það mat flokksforystunnar að Villi væri ekki nógu vitlaus til þess að sæma sér á lista Sjálfstæðisflokksins.
Upp á Víðirmel, út í Ánanaust og svo vestur úr. Fljótlega var vesalingur minn orðinn aftastur, hafði snætt fiskbollur í hádeginu sem reyndust vond undirstaða fyrir hlaup. Og eitthvað þreyttur í ofanálag. Bjarni aumkaði sig yfir mig og fylgdi mér alla leið, gekk með mér þegar við átti, og hvatti áfram eftir atvikum. En þar kom að honum blöskraði og hann sagði: "Nei, nú verður þú að herða þig upp!"
Farið út á Lindarbraut og yfir á Suðurströndina, þaðan austur úr og að Bakkavör. Þar var hópur vaskra hlaupara að búa sig undir að fara 8 brekkuspretti. Aðrir fóru bara þrjá, enn aðrir sex "Borgarneslega séð" eins og það var orðað. En við Bjarni, Maggi og Þorvaldur héldum bara áfram og skeyttum ekki ókvæðishrópum félaga okkar. Niður á Nesveg og stystu leið tilbaka. Teygt í Móttökusal og svo inntekinn Pottur. Ljúf stund með umræðu um mat, svoldið um hlaup, kaffidrykkju, en einnig efnahagsmál.
Vonandi verður þetta eitthvað skárra á miðvikudag.
11.11.2012 | 16:21
Fjölgar í þingmannaliði Hlaupasamtakanna
Rætt var um sigra á hinum pólitíska vettvangi. Mætt til hlaups á sunnudagsmorgni voru: Ó. Þorsteinsson, Magnús, Þorvaldur, blómasali, Ósk og skrifari. Þetta er annan sunnudaginn í röð sem Ósk mætir og hefur bragur hlaupa þegar batnað með þátttöku hennar, minna slen, snarpara hlaup, en þó eru málin rædd.
Um fátt var rætt meira í hlaupi dagsins en sigur Vilhjálms í Kraganum, þar sem hann hreppti fjórða sætið. Formaður til Lífstíðar upplýsti að fjöldi manns hefði hringt í hann langt fram eftir nóttu til að færa honum árnaðaróskir í tilefni af þessum góða árangri. Svo virðist sem fjölmargir líti á Formann sem sérstakan umboðsmann Vilhjálms hér í Vestbyen og of langt sé að hringja alla leið í Garðabæinn.
Orð var haft á því hve slaka kosningu formaður flokksins fékk á sama tíma. Með hans eigin reikniaðferðum mátti komast að því að 80% flokksmanna í kjördæminu hefðu EKKI kosið hann.
Ekki á að þurfa að koma á óvart að hópurinn skiptist fljótlega í tvennt: við nafnar og frændur í síðari hópnum og þau hin í þeim fyrri. Upplýst var eftir hlaup að mikið hefði verið rifist í fremri hópnum. Mestir voru þar hávaðamenn blómasalinn og Þorvaldur, stækir íhaldsmenn báðir tveir og höfðu allt á hornum sér: umhverfisvernd, efnahagsmál, menntun og menningu. Þeir vilja virkja ALLT og draga úr ríkisbákninu. Ósk varðist fimlega.
Við náðum saman við Skítastöð og svo aftur í Kirkjugarði, en eftir það skildu þau okkur Ólaf eftir. Í Fossvogsgarði var athöfn erlendra sendimanna í tilefni af 11.11. - friðardeginum. Þar glytti á pyttlur, að sjálfsögðu kl. 11.
Skrifari var þungur á sér eftir að hafa ekki hreyft sig í heila viku, eina utanlandsferð og því sem slíku fylgir. Því var gott að geta stoppað og hvílt inn á milli. Var það gert á öllum hefðbundnum stöðum. Fórum Sæbrautina, þar var stillt veður og gott. Þau hin fóru víst Laugaveginn, héldu að það væri brjálað veður við Sæbraut.
Er komið var tilbaka í Útiskýli afhenti skrifari blómasala Lindt súkkulaði eins og lofað hafði verið. Síðan var Pottur. Hann var fremur kaldur til að byrja með, en eftir hálftíma var hann orðinn óbærilega heitur og ekki verandi í honum. En í Pott mættu auk hlaupara dr. Mímir, dr. Einar Gunnar, Jörundur óhlaupinn, Helga og Stefán. Miklar umræður urðu um prófkjör og virkjanir. Gott að vera kominn aftur til hlaupa, nú verður tekið á því!