Bloggfærslur mánaðarins, október 2012
31.10.2012 | 21:24
Höfum séð það svartara
Það hristist allt og skalf utan á Vesturbæjarlaug þegar skrifari kom þar á Plan kl. 17:15 í dag, slík var veðurhæðin. Nú skyldi hlaupið. Skrifari hlakkaði til hlaups. Hann sá að fleiri voru spenntir, því að Einar leirskáld og blómasali var klæddur og kominn í Brottfararsal kl. 17:15! Segi og skrifa: seytján fimmtán. Maður sem er vanur að koma hlaupandi með símann límdan við eyrað tvær mínútur í hálfsex vælandi: á ekki að bíða eftir mér? Í Útiklefa stóð skrifari á Adamsklæðum þegar Bjössi aðalnagli kom inn og sagði:"Djöfull ertu sexí!" Stuttu síðar komu Flosi yfirnagli og Bjarni súpernagli og fljótlega fór að hitna í kolunum með skeytum í allar áttir. Þorvaldur sást rjátla. Aðrir mættir: Maggi, Heiðar, Gummi Löve, Ragnar, Rúna, René og svo einn í viðbót sem ekki fékkst nafn á. Það eru svo margir sem vilja hlaupa með okkur. Framangreindir eru allir réttnefndir NAGLAR, aðrir mega SÓLSKINSHLAUPARAR heita.
Ekki urðu neinar bollaleggingar um skynsamlegar leiðir í þessari veðráttu, menn settu bara hausinn undir sig og hlupu af stað. Stefnan sett á Ægisíðu, ekki bakgarða. Er þangað var komið létti mjög veðri og var eiginlega bara þolanlegt, ef ekki allgott alla leið. Hér voru þrír hópar: Gummi, Ragnar, Heiðar og hinn gaurinn fremstir, Þorvaldur að þvælast fyrir þeim,en hann slóst fljótlega í hóp með heppilegri félagsskap, skrifara og Magga. Þar á eftir komu aðrir, þó dróst enginn verulega aftur úr.
Við Maggi og Þorvaldur ákváðum að taka hlaup dagsins í félagsskap hver annars. Þetta fer nú að verða eins og gamalt, þreytt hjónaband. Það var rifist og kítt um hvaða leið ætti að fara. Hlíðarfót? Nei, það er alltof hvasst þar. Öskjuhlíð, nei, þar eru perrarnir. Veðurstofa, nei, þar fjúkum við um koll. Þorvaldur heimtaði að farið yrði inn í hverfi þar sem við nytum skjóls. Á endanum var ákveðið að fara í Kirkjugarð, upp að Bústaðavegi og undir hann, en snúa strax til vinstri. Ég verð að segja að það var nánast logn alla þessa leið.
En svo var framhaldið. Enn heimtaði Þorvaldur íbúðagötur, en við Maggi vorum bara brattir. "Förum niður Eskihlíðina og sjáum til." Þetta fannst Þorvaldi hið mesta glapræði. "Við fjúkum um koll við BSÍ!" hrópaði hann. En hún er opt lúnknari, músin sem læðist, heldur en sú sem stekkur. Kom á daginn er við fórum niður hjá Kristsmönnum að þar var blankalogn, sem hélst alla leið meðfram Hringbraut út að Tjörn. Þar gerði hæg gola vart við sig, en annars var þetta eins og á ljúfum síðsumardegi. Við sáum einkaþotu hefja sig á loft og dáðumst að því hvað hún fór bratt upp. Farþegar hljóta að hafa setið í 60 gráðu vinkli og hafa þrýstst niður í sætin. Magnús hafði áhyggjur af því að þeim myndi veitast erfitt að ná nærbuxunum út aftur millum kinnanna.
Þetta var glæsilegt hlaup hjá okkur og vorum við ánægðir að því loknu. Fórum líklega e-a 10 km á ágætistíma. Aðrir hlauparar voru komnir eða að koma á Plan um svipað leyti og við, utan hvað Flosi kom síðastur, fór enda Þriggjabrúa með lensi á Sæbraut.
Nú er upplýst að Kaupmaður heldur Fyrsta Föstudag hvers mánaðar. Hver lætur slíkt boð framhjá sér fara? Vel mætt!
21.10.2012 | 13:49
Hlaupið á fallegum sunnudagsmorgni
Í nýliðnum stjórnlagaráðskosningum samþykkti þjóðin að hlaupahópur ríkisins héti Hlaupasamtök Lýðveldisins og skyldi það skráð í Stjórnarskrá. Því til staðfestingar mættu þrír staðfastir hlauparar til hlaups á sunnudagsmorgni: Einar blómasali, Ólafur skrifari og Magga stórhlaupari. Okkur Einari þótti ekkert leiðinlegt að hafa Möggu með okkur. Dagurinn var fagur, stillt, sólríkt og fjegurra stiga hiti. Einar var búinn að fara á Nes. Hann hefur gerst náttúruvinur og lýríker í seinni tíð og notar hvert tækifæri til þess að biðja menn að horfa upp og dást að fegurð náttúrunnar. Hver segir svo að hann sé innantómur braskari? Þetta er maður með ást á þjóð og landi og unnir öllu sem lífsanda dregur. Hvað um það við töltum af stað.
Haustmaraþon bar á góma og frábær frammistaða okkar fólks þar. Dr. Jóhanna sigurvegari og Gummi Löve flottur. S. Ingvarsson með sitt 56. maraþonhlaup, "hljóp af vana" eins og Magga orðaði það. Einnig varð okkur hugsað til okkar fólks í Amsterdam, Maggiar, Frikka, Rúnu og Ragnars. Frammistaðan sýnir að Samtök Vor hafa unnið sér réttmætan sess í Stjórnarskrá Lýðveldisins.
Dóluðum þetta Ægisíðuna, en fórum líklega hraðar en alla jafna er farið á sunnudögum. Formaður var staddur á Túndru, ákvað að fara með dæturnar úr Borgarsollinum í haustfríinu í hreint loft Húnavatnssýslna. Rætt um framboðsmál Villa Bjarna í suðvesturkjördæmi þar sem hann kemur inn sem ferskur vindur í bæli braskara og svindlara. Nú mega menn fara að gæta sín.
Magga ætlaði bara stutt í dag, en fannst greinilega svo skemmtilegt að hlaupa með okkur Einari að hún fékk sig engan veginn til þess að skilja við okkur. Í Kirkjugarði var staldrað við leiði þeirra hjóna Guðrúnar og Brynleifs og sögð Sagan. Eftir á kom í ljós að Skrifari fór í öllum meginatriðum rangt með og telst því standa vel undir skyldleika við Ó. Þorsteinsson.
Það var ekki fyrr en við Veðurstofu að Magga mannaði sig upp í heimferð og kvaddi. Við áfram á hálendið og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Það var rætt um sameiginlega kunningja, áform þeirra og afdrif í lífsstríðinu. Við héldum ágætu tempói og stoppuðum sjaldnar og skemur en alla jafna. Vorum sáttir við stjórnlagaráðskosninguna og einkum var Einar ánægður með að Íslendingar vilji halda í Þjóðkirkjuna þar eð hún sé ómissandi þegar kemur að því að búa menn undir tréverkið.
Triton var við Faxagarð og var að taka olíu. Við áfram hjá Ægisgarði og gengum upp Ægisgötu. Þrátt fyrir ást Einars á Þjóðkirkjunni sá hann ekki ástæðu til að taka ofan hjá Kristskirkju og signa sig. Hann er dæmigerður Íslendingur eins og þeim er lýst bezt í Innansveitarkróniku (sem hann NB lauk við að lesa í morgun). Ólafur á Hrísbrú er maður eftirminnilegur, sennilega trúlaus með öllu, en reiðubúinn að berjast með vopnum til að vernda kirkjuna í sveitinni. Ja, vopnum og vopnum, ljá og hrífu. Hlaupið létt niður Hofsvallagötu og til Laugar. Teygt lítillega.
Í Potti voru dr. Einar Gunnar, Jörundur, Helga og Stefán. Jörundur undraðist það að Magga hefði fengið af sér að hlaupa með okkur Einari. Við Einar urðum móðgaðir, enda alkunnir að gáfum og skemmtun. Einar upplýsti að næsti Fyrsti Föstudagur yrði að heimili hans, flatbökur á færibandi og hvers kyns meðlæti. Í gvuðs friði, skrifari.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2012 | 21:31
Gerist ekki betra
Fjöldi frambærilegra hlaupara mættur í Vesturbæjarlaug á mánudegi þegar hlaupið er í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þar mátti sjá Karl Gústaf, Magnús Júlíus, Þorvald, Einar Þór, Gumma Löve, Ragnar, Bjarna Benz, Kára, Helmut, Ólaf Grétar, Tobbu og Möggu. Dagurinn var fagur, heiðskírt, stilla, hiti 10 gráður. Gerist ekki betra. Helmut heimtaði hlaup á Nes af slíkri ákefð að undrum sætti. Síðar kom í ljós hvað bjó undir. Lagt upp á hröðu tempói. Þau Magga, Ragnar og Gummi skildu okkur hin fljótlega eftir og koma ekki meira við þessa sögu. Fólk sem ekki skilur hið félagslega inntak hlaupa þarf ekki að kvarta yfir því að aldrei segir af því í pistlum. E.t.v. er það einmitt þess vegna sem það forðar sér: til að lenda ekki í frásögn.
Hratt tempó upp Hossvallagötu og vestur Víðirmel. Áfram rætt um glæsilega afmælisveizlu Óskar og Hjálmars á föstudaginn eð var sem var eftirminnileg og æ því meir sem blómasalinn svaf hana af sér. Við Helmut virtum Kalla fyrir okkur og ályktuðum að sonurinn hefði ekki erft hlaupastílinn hans. Kalli er svo vel lottaður að hlaupa í buxum sem hlaupa fyrir hann. Ekki geta margir státað af því. Áfram niður í Ánanaust og reynt að lenda fyrir bílum í kvöldsólinni. Engin slys urðu á mönnum og var stefnan sett á Nes.
Hér fór Helmut að draga sig frá okkur, skrifari lenti á milli og fyrir aftan voru Einar, Benzinn og Kalli. Er nær dró hefðbundnum sjóbaðstað Hlaupasamtakanna á Nesi gerðist Helmut ær, hann heimtaði að fá að baða sig í sjónum í kvöldsólinni. Skrifari var skynsamur og vakti athygli á því að sjórinn væri kaldur og aftankulið myndi gera endurkomu úr sjó frekar napra. Helmut lét sér ekki segjast og gerði sig líklegan til að rífa sig úr öllum klæðum. Tók þrjá fullhrausta karlmenn til þess að halda aftur af honum og telja honum hughvarf. Það hafðist á endanum og var haldið áfram hlaupinu með Helmut maldandi í móinn.
Fljótlega var sett upp nokkuð hratt tempó og var því haldið til loka hlaups. Meðaltempó hefur líklega verið 5:30 og á köflum vorum við á 5 mínútna jafnaðartempói eftir því sem Garmin Kalla sagði til um. Hér blandaði Þorvaldur sér í hlaup með styttingu og svindli. Var allt í einu kominn fram fyrir okkur, en við drógum hann uppi og mæltum blíðlega: "Fögur er fjallasýn."
Farin hefðbundin leið um Flosaskjól með fjöruborðinu (freistandi að fara í sjóinn þar!) og þá leið til Laugar. Teygt á Plani í yndislegu veðri. Mætt dr. Jóhanna og Tumi óhlaupin bæði. Setið góða stund í Potti og rætt um geimferðir og hvað verður um fólk sem stígur út úr geimstöðinni og skellir á eftir sér. Fræði fyrir nörda. Eins og að reikna út flatarmál kúlu. Þegar skrifari heyrir svona umræðu fær hann hausverk. Skrifari er máladeildarstúdent. Hann forðaði sér því snemma og hélt heim að elda súrsæta svínakássu. Næst: Þriggjabrúa á hröðu tempói. Í gvuðs friði.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2012 | 13:45
Haustblíðan yfir mér
Fjórir hlauparar mættir á Plan Vesturbæjarlaugar á sunnudagsmorgni reiðubúnir til þess að renna skeið á Ægisíðu: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Sól, blíða, 10 stiga hiti og einhver vindbelgingur framan af, en svo lægði er komið var norður fyrir. Mönnum var ofarlega í hug glæsileg afmælisveizla Óskar á föstudagskvöld, sem Einar missti af. Ólafur sagði okkur frá útgáfuteiti vegna bókarinnar Boðið vestur,sem hefur að geyma glæsilegar uppskriftir með vestfirzku hráefni og ekki síðri ljósmyndir að vestan. Í útgáfuteitinu var boðið upp á snittur og rautt, hvítt og bjór. Einar blómasali missti af útgáfuteitinu. Þá var í hlaupinu sagt frá Nauthólshlaupi sem þreytt var að morgni laugardags, 5 og 10 km, og súpa, brauð og verðlaun að hlaupi loknu, m.a. málsverðir á Nauthóli. Einar missti af Nauthólshlaupi.
Við félagarnir erum í rólegu deildinni og því ekki mikill asinn þennan fagra morgun. Dólað sér rólega meðan Einar lét dæluna ganga um sukkið og svínaríið hjá Orkuveitunni, en hann hefur nýverið lokið lestri skýrslunnar góðu um Orkuveituna. Hann kvaðst vera orðinn reiður vegna þessarar óráðsíu og sjálftöku sem þarna var stunduð. Hann lét reiði sína bitna á hlaupafélögum sínum.
Ekki höfðum við lengi hlaupið þegar við mættum kunnuglegu andliti. Þar var kominn sjálfur Guðjón hortugi á reiðhjóli og lá vel á honum. Við stöldruðum við og áttum við hann stutt spjall. Hér bar Holtavörðuheiðarhlaup á góma, en Ó. Þorsteinsson hefur upplýst að það verði þreytt af nýju á næsta ári, mitt á milli Laugavegshlaups og Reykjavíkurmaraþons. Síðan hélt hlaup áfram og Einar hélt áfram að barma sér.
Í Nauthólsvík sagði Magnús okkur fallega sögu sem sýndi að í Vesturbænum býr eðalfólk sem er reiðubúið að veita meðborgurum sínum liðsinni þegar vandi steðjar að. Sagan fjallaði um dekkjaskipti hjá Borgarspítalanum þar sem erlend kona var vanbúin til verksins. Eftir stutta göngu og sögustund hlupum við af stað aftur endurnærðir og sannfærðir um að það eru enn til sannir heiðursmenn.
Það var þetta hefðbundna, Kirkjugarður (þar sem enn rennur vatn úr krönum), Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar og stanzað við Óttarsplatz. Svo var rölt eftir Rauðarárstíg, en hlaupið á ný við utanríkisráðuneyti. Niður á Sæbraut og þaðan vestur úr. Enn gerðist Einar lýrískur, benti á Esjuna og bað okkur um að berja dýrðina augum. Hér var sannarlega fallegt og var maður þakklátur fyrir að vera staddur á þessum stað, á þessum tíma, í þessu veðri og í þessum hópi góðra félaga.
Miðbær, Túngata. Við Túngötu 20 var spurt: hver bjó hér á undan Gísla Sigurbjörnssyni? Hann var forsvarsmaður tæknistuddrar ríkisstofnunar, fæddur 1881. Við gizkuðum á fjölda stofnana áður en við duttum niður á Vegamálastjórn, þar sem Geir Zoega var vegamálastjóri. Þegar komið var á Plan kom þar Baldur Símonarson aðvífandi og svaraði sömu vísbendingaspurningu svo til umsvifalaust með mótspurningu: "Var hann frændi nöfnu eiginkonu Formanns til Lífstíðar og með sama ættarnafn?" Hér kom á okkur og við urðum að hugsa okkur um áður en svarað var.
Pottur góður og margt rætt. Mættir auk fyrrnefndra dr. Einar Gunnar og Jörundur. Svo kom dr. Jóhanna og taldi upp öll verðlaunin sem Einar blómasali missti af í Nauthólshlaupinu. Hann emjaði og æjaði eftir því sem þeirri frásögn vatt fram. Haustmaraþon ku vera um næstu helgi. Í gvuðs friði.
4.10.2012 | 17:30