Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
27.9.2011 | 20:54
Afhending Guðmundarbikarsins 29.ágúst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2011 | 20:29
Dagur fyrir meistara
Eins og fram er komið í samskiptum á póstlista Samtaka Vorra var dagurinn í gær dagur meistara: Kári Steinn með Íslandsmet í maraþonhlaupi 2:17:12 og kominn inn á Olympíuleikana í London á næsta ári, Melkorka Kvaran með frábæran tíma sem enginn sá fyrir í sama maraþoni, Dagný í sínu fyrsta maraþoni í Ósló á góðum tíma og Kristján Haukur Flosason í hálfu á glæsilegum tíma. Rúsínan í pylsuendanum var svo Íslandsmeistaratitill Vesturbæjarstórveldisins í knattspyrnu karla sem var fagnað að hætti Vesturbæjarins, klukkum Kristskirkju var hringt í það mund sem blásið var til leiksloka og niðurstaðan ljós. Þvílíkur dagur!
Furðu fámennt í mánudagshlaupi eftir slíkan dag, enda leiðindarok og rigning sem laðar ekki að sólskinshlaupara. Mættir þessir: próf. Fróði, Helmut, Flosi, Magga, Jóhanna Ólafs, Gummi Löve, Haraldur, Maggi, Rakel og skrifari. Af meðfæddri hæversku létu menn undir höfuð leggjast að ræða um meistaratitla en ræddu þeim mun meira um þau "mistök" sem mönnum verða á þegar þeir "gleyma" að karlar eru uppi en konur niðri og kom í ljós að fleiri en skrifari og dr. Einar Gunnar hafa lent í því klandri.
Ákveðið að fara bara stutt í dag, en prófessorinn var búinn að fara 10 km þá þegar. Sumir töldu nægilegt að fara Hlíðarfót. Þar á meðal voru Helmut, skrifari, Maggi og Rakel. Við Helmut urðum fljótlega viðskila við þau hin og dóluðum á eftir í virðulegri fjarlægð. Rætt um nýbyggingu FÁ, nám í framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og skilin þar á milli. Við Flugvallarveg náðum við þeim Magga og Rakel og saman tókum við töltið tilbaka, orðin heit og gátum sett upp hraðann.
Rólegur hlaupadagur, en á miðvikudag auka menn metnaðinn og fara minnst Þrjár brýr. Í gvuðs friði.
Skrifari
23.9.2011 | 21:16
Þorvaldskrókur
Maður ætti að fara varlega í að hæða félaga sína. Skrifari var búinn að breiða út og segja hverjum sem heyra vildi sögu af próf. dr. Einar Gunnari sem gekk í þungum þönkum frá Útiklefa til Inniklefa, en rambaði óvart á rangan klefa, lenti í orðastimpingum við e-n í tröppunni og var greinilega snupraður fyrir að fara ekki þangað sem körlum var ætlað að skola af sér. Jæja, í morgun var skrifari í sömu þungu þönkum er hann hljóp léttfættur úr Útiklefa í Inniklefa og var mjög hissa þegar hann mætti fáklæddri konu sem bar fyrir sig handklæði og æpti: "NEI!" Hann snöri burtu skömmustulegur og sjokkeraður. Jörundur spurði: "Hvað hefðirðu gert ef hún hefði hrópað JÁ!?" Við slíku er náttúrlega ekkert svar, one for the ages eins og maður segir í heimsbókmenntunum.
Fámennt í hlaupi dagsins. Jörundur, próf. Fróði, Þorvaldur, Bjarni Benz, René, Tobba og skrifari. Þorvaldur lét ófriðlega í Útiklefa og heimtaði afbrigði, vildi sýna okkur ávaxtatré við Brávallagötu. Við töldum öll tormerki á að geta orðið við slíkri bón, en hann hamaðist þeim mun meira og linnti ekki látum fyrr en við féllumst á að elta hann á Elliheimilið. Við óðum eld og reyk um Hofsvallagötu og Hringbraut og hóstuðum linnulaust alla leið. Er við nálguðumst Elliheimilið spurði Jörundur hvort við værum að fara með hann í innlögn. "Nei, það er komið að því að Gústi gamli fari í háttinn." Staldrað við Brávallagötu 20 og þreifað á ávaxtatrjám sem höfðu að geyma kirsiber og plómur, snætt af trjánum. Húseigandi var hinn alþýðlegasti og bauð aðgang að trjánum og rabbaði við okkur.
Eftir þetta var haldið út á Suðurgötu og í Skerjafjörðinn, þar fór að gisna vináttan og félagshyggjan og draga sundur með fólki. Við Ágúst reyndum að hlaupa eins hægt og við gátum en samt drógust þau hin aftur úr. Tókum útúrdúra og lengingar, en illa gekk að halda hópinn. Ágúst upplýsti að sunnudagsmorguninn 25. nk. yrði vaknað kl. 7:00 í Lækjarhjalla 40, hitað kaffi og kveikt á sjónvarpsrúðu. Þá verður þreytt Berlínarmaraþon og þar verður hann Kári okkar í hópi fremstu manna og kvenna. Verður þetta kjörið tækifæri til þess að koma saman og fylgjast með kappanum. Svo verður sent út eftir rúnstykkjum, en heimilisfaðirinn sér um viðbit og álegg og mun hita vatn fyrir grænt te. Vel mætt!
Jæja, áfram í Nauthólsvík og þar var dokað við eftir eftirlegukindum. Þá kemur í ljós að þau hin ætla ekki að fara hefðbundið, heldur Hlífðarfót og kom á óvart, kappar eins og Jörundur að stytta! Við Ágúst héldum áfram um Hi-Lux og upp brekku, og þannig hefðbundið. Er hér var komið þótti prófessornum ekki þess virði að halda mér félagsskap (hann er að fara í Sahara-maraþon í apríl 2012), og skildi mig eftir. Ég fór hins vegar rólega, enda hef ég meiri ánægju af að fara rólega, fara langt, vera lengi að því og njóta hlaups. Veðurstofa, saung- og skák, Klambrar, Hlemmur og niður á Sæbraut. Drukkið og dólað tilbaka.
Hefðbundin kæti í Potti. Þangað mættu Kári og Guðrún og síðar Anna Birna. Rætt um framleiðslu fornminja, sem er orðin sérgrein Árna Johnsen. Spurt var hvort hægt væri að koma honum í gagnlega atvinnustarfsemi við að varðveita þær fornminjar sem nú þegar eru til og þarfnast varðveizlu.
21.9.2011 | 21:15
Söguleg ónákvæmni í anda Ólafs Þorsteinssonar
Pottur sögulegur, meira um það seinna. Fyrst er að greina frá því að við komu í Brottfararsal blasti við hlaupurum Einar blómasali, klæddur í galla og kominn á ról löngu áður en hlaup hófst. Hafði hann engar haldbærar skýringar á snemmkomu sinni, en við það var ekki dvalið heldur haldið í Útiklefa og klæðst hlaupagíri. Mættir auk blómasala: Flosi, próf. Fróði, próf.dr. S. Ingvarsson Keldensis,Guðmundur Löve, Jörundur, Þorvaldur, René, Tobba, Ragnar, Magnús, skrifari og loks ku Kaupmaðurinn hafa hlaupið, en hann sást aldrei í sjálfu hlaupinu. Kári á reiðhjóli var á ferðinni með okkur.
Létt var yfir mannskapnum á Brottfararplani, enda veður gott, 10 stiga hiti, sólskin, hægur andvari, kjörið hlaupaveður. Samstaða um rólegt félagshlaup um Þrjár brýr. Brottför hæg. Tíðindalítið á Sólrúnarbraut, ég lenti í selskab með þeim Magnúsi og Þorvaldi, fyrir framan okkur voru nokkrir hraðari hlauparar, og fyrir aftan okkur voru m.a. blómasalinn, Jörundur og Tobba.
Hlauparar voru vel stemmndir í hlaupi dagsins, engin sérstök ástæða til þess að vera með aumingjaskap og stytta, þó gerðu þeir Maggi og Þorvaldur sig ánægða með Suðurhlíð, sem er þó skárra en að fara Hlíðarfóts-eymingjann. Aðrir héldu yfir brú á Kringlumýrarbraut, upp Boggabrekku og lögðu á Útvarpshæðina. Hér voru aktúellir skrifari, Flosi, Tobba og Jörundur. Rólegt félagshlaup eins og lagt var upp með. Á Kringlumýrarbraut greip einhver óróleiki Flosa og hann spólaði í burtu. Skrifari hélt ró sinni.
Á Sæbraut gerðist það að hann heyrði kunnuglegt tipl að baki sér og viti menn, blómasali tætti fram úr honum orðalaust einhvers staðar við eða eftir Höfða. Skrifara var hugsað: "Hvers konar félagi er þetta eiginlega?" Staldrað við drykkjufont og þá dúkkuðu Jörundur og Þorbjörg upp, Jörundur upplýsti að blómasali hefði sett sér sem markmið dagsins að vera á undan skrifara og má segja að þetta hafi bjargað deginum hjá honum.
Hefðbundið eftir þetta, utan hvað Þorbjörg bætti um betur í hlaupinu, skildi bæði Jörund eftir og fór fram úr blómasalanum. Skrifari rólegur upp Ægisgötuna og kláraði gott hlaup. Teygt á Plani og málin rædd. Góð mæting í Pott. Flosi söng glúntann Þjóðskáldsins um Hlaupasamtökin. "Þar er Óli og þar er Villi/þeir vita að hlaup eru ekkert spaug." Talið barst að nöfnunum í vísunni og e-r hafði á orði að "allir" væru fallnir frá. Það þótti fullmikil svartsýni að allir væru horfnir yfir móðuna miklu. Svo byrjaði upptalningin: Ingólfur, Jón Bjarni... "Villi" skaut Jörundur inn í. "Hann er ekki dauður" sagði Flosi. "Sama sem" svaraði þá Jörundur. Var haft á orði að hér væri höfð í frammi söguleg ónákvæmni sem Ó. Þorsteinsson væri einna þekktastur fyrir.
Á sunnudagsmorgun fer fram Berlínarmaraþon og hefst kl. 9 að staðartíma, 7 að íslenskum tíma. Þar keppir hann Kári Steinn okkar og gerði prófessor Fróði að tillögu sinni að menn sömluðust að heimili hans árla þess morguns til þess að horfa á hlaupið. Einhver fullyrti að prófessorinn myndi eiga erfitt með að vakna svo snemma á sunnudagsmorgni, en almennt töldu menn að það ætti ekki að þurfa að koma í veg fyrir að við hinir gætum komið okkur fyrir í sófanum fyrir framan sjónvarpsrúðuna í Lækjarhjalla til þess að fylgjast með okkar manni. Sjáum til hverju vindur fram.
18.9.2011 | 14:18
Fyrsta haustlægðin
Mæting eins og venjulega kl. 10:10 á sunnudagsmorgni við Vesturbæjarlaug, sem enn er lokuð til kl. 11. Fyrsta haustlægðin með hvassri suðaustanátt og regndropum, ekki beinlínis óskaveðrið til hlaupa og eingöngu einbeittustu hlauparar á ferð: Þorvaldur, Einar blómasali, Ólafur skrifari og Guðmundur. Eru þeir því réttnefndir karlmenni Samtakanna. Það var talsverður barningur alla leið inn Ægisíðuna og maður þurfti að hlaupa nánast láréttur til að komast áfram. Fáir á ferð. Vísbendingarspurning: hvaða kappleikur fór fram á þessum degi á Laugardalsvelli fyrir 43 árum? Sett var vallarmet í aðsókn sem enn stendur. Lið frá Portúgal lék þann dag á vellinum. Meðal stjarna í liðinu var einstaklingur að nafni Eusobio, auknefndur Ausubjúga að sið íslenzkrar aulafyndni. Þrátt fyrir allar þessar vísbendingar höfðu félagar mínir ekki svarið og kom á óvart. Þetta hefði Ó. Þorsteinsson vitað. Þarna léku Valur og Benfica og skildu jöfn.
Rifjaður upp seinasti sunnudagur, þar sem hlauparar rákust á V. Bjarnason ekki einu sinni, heldur tvisvar. Niðurstaðan úr þeim samtölum var sú að félagi vor væri að linast í hörðustu afstöðu sinni til Samtaka Vorra og að hann gæti jafnvel fallist á að meðlimirnir væru hinir mætustu. Ennfremur var sagt frá Reykjavellshlaupi er fram fór með miklum ágætum sl. föstudag og góðri þátttöku. Þar hlupu Flosi, Jörundur, Þorbjörg, Jóhanna, Bernard, Friedrich Kaufmann, Benedikt, Ágúst, Haraldur, skrifari, Magga og Þorvaldur. Helmut og Denni á hjólum og Kalli kom inn í hlaup á miðri leið. Hlaup tókst harla vel, utan hvað Helmut og Denni misstu hjólin undir lok hlaups og urðu að hlaupa síðasta spölinn. Farið í pott í Varmárlaug, kalt bað innifalið og svo stefnt að Reykjafelli. Þar var slegið upp mikilli veizlu með úrvals pastaréttum, brauði og salati. Bjarni Benz bauð upp á Cadbury´s súkkulaði sem blómasalinn hafði skenkt honum.
En aftur að hlaupi dagsins. Við náðum Nauthólsvík með harmkvælum og dokuðum við þar í skjóli af húsum. Héldum svo áfram í Kirkjugarðinn þar sem tekin var hefðbundin sunnudagsganga framhjá leiðum. Velt upp möguleikanum á þátttöku í haustmaraþoni. Upp hjá Veðurstofu, Hlíðar, Klambra, Hlemm og við Sjóklæðagerðina var veitt athygli framkvæmdum í nýju kínversku sendiráði. Verður það viðfangsefni næstu sunnudagshlaupa að fylgjast með framvindu framkvæmda.
Lensinn á Sæbrautinni, en strengur við Hörpu. Hlaupið alla leið tilbaka, en dokað við á Landakotshæð. Góð tilfinning að koma tilbaka í veðri sem fælir marga hlaupara frá hlaupi. Slíkir eru kallaðir "sólskinshlauparar". Í Pott mætti Ó. Þorsteinsson hafandi misst af hlaupi dagsins, svo kom dr. Baldur og loks Stefán verkfræðingur. Rætt um menningarviðburði og bókaútgáfu haustsins. Ennfremur gengi knattspyrnuliða í Austurbænum.
Hvað er framundan?
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2011 | 18:51
Skóviðgerðir milli jökla - Fimmvörðuhálsganga 2011
Árleg ferð Hlaupasamtaka Lýðveldisins á Fimmvörðuháls laugardaginn 3. september 2011. Mæting stundvíslega kl. 7:00 við Vesturbæjarlaug. Ekið sem leið lá austur að Skógum á lítilli, 30 manna háfjallarútu. 15 þátttakendur: Flosi og Ragna, Helmut og Jóhanna, Kalli og Guðrún, Jörundur og Anna Vigdís, Kári, Biggi og Unnur, Einar blómasali, Ólafur skrifari, pólska mærin Anya og Þorbjörg. Tíðindalítið austur. Veður gott, logn, þurrt og 12 stiga hiti. Lagt í hann upp þrepin mörgu upp á fjallið. Biggi berháttaði sig við hvern foss og Jörundur tók myndir af honum framan við hvern og einn þeirra.
Það fór að rigna, en þó ekki mikið, þetta er það sem Svíar kalla duggregn. Gangan gekk áfallalaust fyrir sig framan af. Farið yfir brú á Skógá. Þar var búið að koma niður nýjum stikum sem voru nær ánni en veginum og lengdi gönguna nokkuð. Við ákváðum að fylgja stikunum, þótt það væri breyting frá fyrri hefð. Blómasalinn kominn með hælsæri, enda á eldgömlum gönguskóm sem standast ekki kröfur nútímans. Kári klastraði á hann gelplástri. Svo var haldið áfram.
Ekki höfðum við farið langt þegar aftur þurfti að búa um hælsærið, en í þetta skiptið tók Anna Vigdís til sinna ráða, batt um af fagmennsku og eftir það var hællinn ekki til vandræða. Við reyndum að halda hópinn eftir fremsta megni, en auðvitað dró í sundur með fólki eins og verða vill. Við Flosi komum fyrstir að skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi (hvar svo sem sá góði staður er!) og var brekkan upp að skála frekar erfið eftir langa göngu. Sáum jeppa fastan í ís og drullu neðan við skála. Töldum víst að þarna hefði einhver unglingur af mölinni farið of gáleysislega í jeppaleik. Á daginn kom að það var skálavörðurinn sem átti jeppann og hafði sprungið á honum.
Gott að koma í hús og ylja sér, fá heitt vatn í bolla og setja súkkulaðiduft út í. Þarna hvíldum við í góðan hálftíma. Er blómasalinn kom í hlað höfðu skósólar skúa hans losnað. Hann brást við með því að negla annan sólann fastan, en límdi hinn með límbandi. Það var mikið hlegið að honum á þessum útbúnaði.
Hér vorum við stödd á hæsta punkti og því var lægra hitastig hér en við upphaf göngu og fannst það. Það tók nokkurn tíma að fá í sig hita á ný, en við ákváðum að fara inn á gömlu leiðina. Ekki höfðum við lengi farið þegar við komum inn á eldstöðvasvæði Eyjafjallajökuls, sáum eins árs gamalt hraun sem enn rauk úr og þá Móða og Magna, gígana sem spúðu hrauni og gjalli, fórum upp á nýtt fjall sem enn var snarpheitt. Var þetta sannarlega hápunktur ferðarinnar.
Nú fór að styttast í annan endann á ferðinni og enn voru skór blómasalans til vandræða. Það var gripið til þess ráðs að binda sóla upp með reimum sem Biggi hafði með sér. Það var farið um kunnuglegar slóðir, staldrað við á Heljarkambi og rifjað upp slys á Hvítasunnu 1970 þegar þrjú ungmenni urðu úti í aftakaveðri. Svo var Morinsheiðin og Kattarhryggir. Er niður var komið var upplýst að blómasalinn hafði bundið upp skó sína með húfu Bigga. Þannig lauk hann hlaupi og var mikið hlegið að honum við komu í Bása.
Ferðin gekk vel að öðru leyti og tók 10 tíma. Um kvöldið var svo slegið upp veizlu, grillað, etið, drukkið, sungið og í lokin var kveikt í gönguskóm Einars niðri á eyrum neðan við Skagfjörðsskála. Kári svaf vel í öndunartæki sem tengt var við rafgeymi.