Þorvaldskrókur

Maður ætti að fara varlega í að hæða félaga sína. Skrifari var búinn að breiða út og segja hverjum sem heyra vildi sögu af próf. dr. Einar Gunnari sem gekk í þungum þönkum frá Útiklefa til Inniklefa, en rambaði óvart á rangan klefa, lenti í orðastimpingum við e-n í tröppunni og var greinilega snupraður fyrir að fara ekki þangað sem körlum var ætlað að skola af sér. Jæja, í morgun var skrifari í sömu þungu þönkum er hann hljóp léttfættur úr Útiklefa í Inniklefa og var mjög hissa þegar hann mætti fáklæddri konu sem bar fyrir sig handklæði og æpti: "NEI!" Hann snöri burtu skömmustulegur og sjokkeraður. Jörundur spurði: "Hvað hefðirðu gert ef hún hefði hrópað JÁ!?" Við slíku er náttúrlega ekkert svar, one for the ages eins og maður segir í heimsbókmenntunum.

Fámennt í hlaupi dagsins. Jörundur, próf. Fróði, Þorvaldur, Bjarni Benz, René, Tobba og skrifari. Þorvaldur lét ófriðlega í Útiklefa og heimtaði afbrigði, vildi sýna okkur ávaxtatré við Brávallagötu. Við töldum öll tormerki á að geta orðið við slíkri bón, en hann hamaðist þeim mun meira og linnti ekki látum fyrr en við féllumst á að elta hann á Elliheimilið. Við óðum eld og reyk um Hofsvallagötu og Hringbraut og hóstuðum linnulaust alla leið. Er við nálguðumst Elliheimilið spurði Jörundur hvort við værum að fara með hann í innlögn. "Nei, það er komið að því að Gústi gamli fari í háttinn." Staldrað við Brávallagötu 20 og þreifað á ávaxtatrjám sem höfðu að geyma kirsiber og plómur, snætt af trjánum. Húseigandi var hinn alþýðlegasti og bauð aðgang að trjánum og rabbaði við okkur.

Eftir þetta var haldið út á Suðurgötu og í Skerjafjörðinn, þar fór að gisna vináttan og félagshyggjan og draga sundur með fólki. Við Ágúst reyndum að hlaupa eins hægt og við gátum en samt drógust þau hin aftur úr. Tókum útúrdúra og lengingar, en illa gekk að halda hópinn. Ágúst upplýsti að sunnudagsmorguninn 25. nk. yrði vaknað kl. 7:00 í Lækjarhjalla 40, hitað kaffi og kveikt á sjónvarpsrúðu. Þá verður þreytt Berlínarmaraþon og þar verður hann Kári okkar í hópi fremstu manna og kvenna. Verður þetta kjörið tækifæri til þess að koma saman og fylgjast með kappanum. Svo verður sent út eftir rúnstykkjum, en heimilisfaðirinn sér um viðbit og álegg og mun hita vatn fyrir grænt te. Vel mætt!

Jæja, áfram í Nauthólsvík og þar var dokað við eftir eftirlegukindum. Þá kemur í ljós að þau hin ætla ekki að fara hefðbundið, heldur Hlífðarfót og kom á óvart, kappar eins og Jörundur að stytta! Við Ágúst héldum áfram um Hi-Lux og upp brekku, og þannig hefðbundið. Er hér var komið þótti prófessornum ekki þess virði að halda mér félagsskap (hann er að fara í Sahara-maraþon í apríl 2012), og skildi mig eftir. Ég fór hins vegar rólega, enda hef ég meiri ánægju af að fara rólega, fara langt, vera lengi að því og njóta hlaups. Veðurstofa, saung- og skák, Klambrar, Hlemmur og niður á Sæbraut. Drukkið og dólað tilbaka.

Hefðbundin kæti í Potti. Þangað mættu Kári og Guðrún og síðar Anna Birna. Rætt um framleiðslu fornminja, sem er orðin sérgrein Árna Johnsen. Spurt var hvort hægt væri að koma honum í gagnlega atvinnustarfsemi við að varðveita þær fornminjar sem nú þegar eru til og þarfnast varðveizlu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband