Dagur fyrir meistara

Eins og fram er komið í samskiptum á póstlista Samtaka Vorra var dagurinn í gær dagur meistara: Kári Steinn með Íslandsmet í maraþonhlaupi 2:17:12 og kominn inn á Olympíuleikana í London á næsta ári, Melkorka Kvaran með frábæran tíma sem enginn sá fyrir í sama maraþoni, Dagný í sínu fyrsta maraþoni í Ósló á góðum tíma og Kristján Haukur Flosason í hálfu á glæsilegum tíma. Rúsínan í pylsuendanum var svo Íslandsmeistaratitill Vesturbæjarstórveldisins í knattspyrnu karla sem var fagnað að hætti Vesturbæjarins, klukkum Kristskirkju var hringt í það mund sem blásið var til leiksloka og niðurstaðan ljós. Þvílíkur dagur!

Furðu fámennt í mánudagshlaupi eftir slíkan dag, enda leiðindarok og rigning sem laðar ekki að sólskinshlaupara. Mættir þessir: próf. Fróði, Helmut, Flosi, Magga, Jóhanna Ólafs, Gummi Löve, Haraldur, Maggi, Rakel og skrifari. Af meðfæddri hæversku létu menn undir höfuð leggjast að ræða um meistaratitla en ræddu þeim mun meira um þau "mistök" sem mönnum verða á þegar þeir "gleyma" að karlar eru uppi en konur niðri og kom í ljós að fleiri en skrifari og dr. Einar Gunnar hafa lent í því klandri.

Ákveðið að fara bara stutt í dag, en prófessorinn var búinn að fara 10 km þá þegar. Sumir töldu nægilegt að fara Hlíðarfót. Þar á meðal voru Helmut, skrifari, Maggi og Rakel. Við Helmut urðum fljótlega viðskila við þau hin og dóluðum á eftir í virðulegri fjarlægð. Rætt um nýbyggingu FÁ, nám í framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og skilin þar á milli. Við Flugvallarveg náðum við þeim Magga og Rakel og saman tókum við töltið tilbaka, orðin heit og gátum sett upp hraðann.

Rólegur hlaupadagur, en á miðvikudag auka menn metnaðinn og fara minnst Þrjár brýr. Í gvuðs friði.
Skrifari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband