Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Hratt Þriggjabrúa

Sumir hlauparar eru lagstir í landshornaflakk með fjölskyldum sínum og því fjarri góðu gamni á hlaupadegi. En á miðvikudegi var afar góð mæting og verða engir nefndir nema lögmál frásagnarinnar kalli á slíkt. Nokkrir úr hópnum gerðu garðinn frægan í Ármannshlaupi í gær, en voru engu að síður mættir í dag, má þar nefna Flóka, Möggu, dr. Jóhönnu og Frikka. En þau ætluðu bara að taka því rólega í dag, rólegt Þriggjabrúahlaup. "Rólegheitin" fólust í því að skilja aðra hlaupara eftir í rykskýi og hverfa.

Fagurt sumarveður í dag, 20 stiga hiti og sólskin. Ritari lenti fljótlega í slagtogi við Ágúst og Kalla af Brimum. Farið á þokkalegu tempói með ágústínskum útúrdúrum hér og hvar. Má þess geta að Ágúst var enn ekki heill af veikindum sínum, enn með 40 stiga hita og hóstandi eins og berklasjúklingur. Þess vegna ætlaði hann bara stutt og hægt. Eftir Útvarp setti hann hins vegar upp hraðann. "Er þetta sprettur?" spurði ritari sig. "Er ekki verið að fara of hratt?"

Þegar komið var niður á Kringlumýrarbraut fór prófessorinn að gefa upp mælingar. 4:40, 4:20, 4:08. Halló! Hvað er í gangi? Á þessu gekk alla leið niður á Sæbraut, en ritari náði að hanga nokkurn veginn í þeim gamla. Hann tók þessa spretti inn á milli og skildi mig eftir, en ég náði honum þegar hann slakaði á. Ég fékk mér að drekka í vatnsbólinu, svalandi eins og ævinlega.

Við lengdum um Hljómskálagarðinn og enduðum í rúmum 14 á meðaltempóinu 5:15. Á grasflöt teygðu hlauparar og stilltu upp fyrir ljósmyndara sem var að viða að sér efni í hlaupablað RM. Í potti voru mættir þeir feðgar Helmut og Teitur eftir frægðarför kringum landið með þýzka túrista. Umræðuefni voru fjölbreytt að venju, m.a. var upplýst að prófessorinn gæti skreytt sig með ættarnafninu Schiöth. ´

Nú leggst ritari í flakk og kemur næst til hlaupa mánudaginn 26. júlí, sjálfan Byltingardag Kúbu.

Sól og sjór

Fagurt veður á mánudegi, en of heitt til að hlaupa. Það vantaði fjölda röskra hlaupara, þar á meðal Bjössa, Benzinn, Gústa, Magga, blómasalann, Þorvald, Kalla, Sigga Ingvars, Ósk, Hjálmar, Benna, Dagnýju, dr. Friðrik... og fleiri og fleiri og fleiri. Sumir ætluðu í Ármannshlaupið á morgun og fóru því bara Hlíðarfót rólega. Eða það sem þeir kalla rólega, 5 mín. tempó.  Það eina sem komst að hjá þessum hlaupara var sjórinn. Það yrði farið í sjó í Nauthólsvík hvað sem raulaði og tautaði. Farið fremur hratt út, 5:20. Fylgdi þeim dr. Jóhönnu og Bigga inn í Nauthólsvík, nema hvað Biggi tók þá skelfilegu ákvörðun í Skerjafirði að taka spretti með mági sínum. Væ dú æ hev a bed fílíng abát ðis? Uppskrift að meiðslum. Var enn þreyta til staðar eftir velheppnað laugardagshlaup þar sem ritari hljóp án aðstoðarmanns, án úrtölufólks, án músa?

Í Nauthólsvík var múgur og margmenni í sjónum og ég sleit af mér fötin og skellti mér í svala ölduna. Þoli ekki að sjá vatn þá verð ég að afklæðast og taka dýfu. Þarna fór fram þessi hefðbundna núllstilling allra kerfa. Fór svo áfram um Flanir og Suðurhlíð, upp að Perlu, niður Stokk, hjá Gvuðsmönnum og þannig áfram á góðu tempói. Hitti Bigga og Jörund á Plani. Þá voru flestir hlauparar þegar komnir til Laugar. Setið um stund í potti og rætt um veikindi. Hvernig geta t.d. afrekshlauparar sem hafa hlaupið mörg hundruð kílómetra í Sahara verið veikir í kvefpest um hásumarið? Þetta fannst viðstöddum óskiljanlegt.

Framundan átakahlaup á miðvikudag.

Að loknu löngu hlaupi á laugardagsmorgni

Hlaup reyna fyrst og fremst á sálrænan styrk manna. Spurt er: ertu maður eða mús? Á þetta reyndi í hlaupi dagsins. Mættir allir frambærilegustu hlauparar Samtaka Vorra: Flóki, Magga, Hannes, Snorri, Ragnar, dr. Jóhanna, Jóhanna hin, Ólafur ritari, Rakel, Flosi - og Rúnar á reiðhjóli. Sumir eru í prógrammi fyrir Laugaveginn eða fyrir RM, það átti að fara langt, mislangt þó. Undirritaður ætlaði að fara um 20 km.

Það er fljótsagt að hópurinn tvístraðist nánast þegar í upphafi og maður var fljótlega einn með sjálfum sér. Fólk fór líka í ýmsar áttir, í stað þess að halda hópinn og þreyta hlaupið sem félagshlaup eins og hefð var um hér áður fyrr hjá Samtökum Vorum. Ég var þreyttur og þungur þegar í upphafi og taldi víst að þetta yrði erfitt. Ég fór sömu leið fyrir viku síðan og það reyndist mér eiginlega um megn. Í þetta skiptið hafði ég þó engan með mér sem taldi úr mér kjark og hægði á mér Hér var það aðeins ég að kljást við sjálfan mig. Enda fór svo að ég hljóp "inn í þreytuástandið" og splundraði því - betur get ég ekki lýst því sem gerðist. Ég leyfði aldrei þreytunni að vinna bug á mér en hélt áfram og gaf bara í ef eitthvað var.

Þannig var farinn Fossvogur og Viktor, yfir Breiðholtsbraut, niður að Elliðaám og svo upp dalinn. Þar er mikill og grænn gróður og hreint yndislegt að vera á ferð á laugardagsmorgni í algjörri stillu, úðaregni og 12 stiga hita. Gerist ekki betra. Fór alla leið upp á Stíbblu og yfir hana, tilbaka niður hjá Rafstöð. Setti svo stefnuna á Laugardalinn. Er þangað kom sá ég Flosa framundan mér, hann hafði farið svipaða leið og ég, en eitthvað styttra. Sæbraut, Mýrargata, Ægisgata, Hofsvallagata. Leið vel á eftir og spjallaði við Jóhönnu og Flóka í potti.

Þannig má segja að þótt þreyta og þyngsli séu til staðar má vinna bug á því ef sálarstyrkur er nægur og engin mús með í för sem er með úrtölur. 

Sex í sjó

Það var föstudagur. Ritari mætti snemma í útiklefa og fann þar á fleti fyrir Þorvald Gunnlaugsson. Við skiptumst á upplýsingum um hlaup, fólk og fyrirsjáanlegar skemmtanir. Svo mættu þau hvert af öðru: dr. Jóhanna, Bjössi, Maggi, Kalli kokkur, Einar blómasali, Jörundur og Biggi. Ótrúlega vel mannað hlaup og lagt upp í góðviðrisblíðu, menn eru stundum villugjarnir í upphafi en það var leiðrétt, dr. Jóhanna sagði af myndugleik þegar menn gerðu sig líklega að snúa niður á Ægisíðu: "Hér er farinn Nesrhingur á föstudögum!" Meira þurfti ekki til og menn fylgdu forræði hennar og sneru upp Hofsvallagötu, farið upp á Víðimel og þaðan vestur úr út í Ánanaust.

Þetta var ótrúlega hægur hópur í dag, svo mjög að ritari var fremstur á hægu tölti og þótti ekki góð tilfinning að leiða hóp slíkra afbragðshlaupara á hraða sem mátti jafna við göngu. En þetta var allt í lagi, framundan var sjór. Þvagan nuddaðist áfram eins og í kiljanskri skáldsögu og áður en vitað var af blasti ströndin við með öllum sínum freistingum. Við vorum fremstir hér, ritari og jóginn, drifum okkur af fötum og skelltum okkur í svala ölduna. Svo komu þau hvert af öðru, dr. Jóhanna, Bjössi, Kalli og blómasalinn og dýfðu allir sér í sjóinn svo að full böðun telzt. Það voru sumsé sex hlauparar sem fóru í sjó, aðrir hlupu framhjá, ekki örlaði á áhuga á að berja þetta fáklædda fólk augum.

Áfram um golfvölll, Kalli, dr. Jóhanna og ritari og Biggi á eftir okkur, fór þó fljótlega fram úr. Krían var friðsæl og lét okkur í friði, svo að nú ætti að vera óhætt að fjölga ferðum um golfvöll. Við drógum uppi Einar og Bjössa og áttum samleið tilbaka til Laugar. Góð stund í potti með sögum Bjössa.

Síðar um kvöldið hélt Jörundur veizlu að heimili sínu, grillaðar pylsur í hellirigningu. Skrafað og skemmt sér fram á kvöld.

Næsta hlaup: laugardag kl. 9:30 frá Vesturbæjarlaug.

Einn eldsnöggur fyrir landsleik

Það var spenna fyrir landsleik Þjóðverja og Spánverja í kvöld - svo að almennt stefndu menn á stutt. Ég fór Hlíðarfótsaumingja með Benzinum, Bjössa og Þorvaldi, nokkrar konur með okkur, og svo Biggi, aðrir held ég hafi ætlað Þriggjabrúa og jafnvel lengra. Hneyksli dagsins: blómasalinn hljóp ekki, fór í pott og sást svo akandi eftir Miklubraut þegar við vorum að koma tilbaka. Hann sleppti sem sé ekki hlaupi til að horfa á boltann! Er þetta fáheyrð ósvífni og ekki til eftirbreytni.

Næst: föstudagur, búið er að auglýsa Fyrsta hjá Jörundi. Stendur það?

Súkkulaðiskrímslið kemur í heimsókn

Jæja, þá var kominn mánudagur. Mæting er yfirleitt með allra bezta móti á mánudögum. Svo var í dag. Of margir mættir til að vera að telja einstaka hlaupara upp, en þarna mátti sjá yfirburðahlaupara, miðlungshlaupara og svo hóflega metnaðargjarna hlaupara. Eitthvað virðist hafa kólnað í veðri, en samt var bærilegt að hlaupa í þessu. Farið upp á Víðimel og út að Skítastöð. Þar gerðu ofurhlauparar sig klára í að taka fimm kílómetraspretti. En við hin héldum áfram. Flosi og Ágúst fóru fyrir hópnum og tóku Stokk með útúrdúrum og náðu þannig ríflega seytján kílómetrum. Benzinn og Bjössi ætluðu að taka því rólega, fóru að ég hygg Hlíðarfót e.t.v. með brúalengingum. En við Blómasalinn settum stefnuna á Þriggjabrúa.

Hann fór að heiman með þau skilaboð að hann skyldi hlaupa langt í dag, hann væri kominn með bumbu. Á móti hafði hann skilið eftir fyrirmæli um kvöldverð, en var ekki fyllilega í rónni um að fyrirmælum yrði fylgt út í yztu æsar. Ritari gat samsamað sig ástandi blómasalans, enda búinn að berjast við offitu um langt skeið. Hvarflaði að ritara að tilefni væri til að stofna undirdeild í Hlaupasamtökunum helgaða þeim sem kljást við offitu og kalla hana Lýsisbræðslu Lýðveldisins.

Við héldum áfram á Flanir og fengum strax þessa tilfinningu að hlaup væri þegar hálfnað, þótt svo væri í rauninni ekki. Þegar komið var framhjá Útvarpshúsi jók blómasalinn hraðann og skildi ritara einan eftir. Ekki er gott að útskýra hvers vegna hann gerði þetta, því varla getur það verið skemmtilegt að hlaupa einn. Það dró í sundur með okkur þar sem blómasalinn lenti ávallt á grænu ljósi á leiðinni niður Kringlumýrarbrautina, en ritari ávallt á rauðu. Sæbrautin var ljúf og gott að komast í vatnsbólið svalandi.

Á Mýrargötunni rakst ég á Ragnar (eða hann á mig, öllu heldur) og hafði tekið sprettina brjálæðislegu - en var á hægu tölti tilbaka nú. Er komið var á Plan blasti við skrýtin sjón: Benzinn að traktera blómasalann á Euroshopper súkkulaði, sem bragðast ekkert yfirmátavel. Enda stillti blómasalinn neyzlu sinni í hóf. En svo breytti Benzinn um takt, fór út í bíl sinn og sótti "the real stuff": tvö stykki af Cadbury´s súkkulaði með hnetum, samtals 900 grömm! Hér missti blómasalinn sig algjörlega. Hann elti Benzinn um Planið eins og múkki og var einhvern veginn utan við sjálfan sig af græðgi. Bjarni greyið reyndi að verja súkkulaðið, en maðurinn hreinlega réðst á hann og krakaði til sín hverri röðinni á fætur annarri. Ja, þvílíkt og annað eins!

Um þetta leyti kom Ágúst á Plan. Venju samkvæmt var setið góða stund í potti og málin rædd. Næst verður hlaupið á miðvikudag, þá heldur lýsisbræðslan áfram. Tveir menn eru einbeittir í að léttast og verða hraðari í sumar.

Leiðin sem Gústi fór er hér: http://www.wikiloc.com/wikiloc/view.do?id=1007954 Þetta heitir Wikiloc og er skylt bæði Wikipediu og Wikileaks og er algjört patent.

"Djöfull ertu orðinn feitur!"

Elskulegheit af ofangreindu tagi heyrast vart lengur í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en menn fengu tilefni til þess að rifja þau upp í hlaupi dagsins. Þessi orð voru viðhöfð fyrir fáeinum árum þegar hlaupari í meiðslum mætti til Útiklefa og hitti þar fyrir félaga sína. Meira um það seinna. Nú voru þessir mættir á sunnudagsmorgni: Magnús tannlæknir, Jörundur, Flosi, Ólafur Þorsteinsson og Ólafur ritari. Það hafði kólnað frá því í gær og minna logn var á.

Lagt upp í rólegheitum, Jörundur og Maggi tæpir og gáfu til kynna að ekki væri víst að þeir tækju fulla porsjón í dag. En þeim var haldið við efnið með samfelldri orðræðu frá Hofsvallagötu og út í Nauthólsvík þannig að þeir höfðu ekki tækifæri til þess að snúa við. Samtalið snerist um bíla við Ægisíðu, íbúa, ættir og bílnúmer. Það var gerð örkönnun á þekkingu manna á eftirtöldum númerum: R-29, R-28 og R-27.

Jörundur spurði Magga hvort það væri rétt að lúpína yxi upp úr bílhræi sem stendur í garðinum hjá honum. Sjálfur er hann nýkominn úr ferð um Vestfirði þar sem allt veður uppi í lúpínu. Hér var rætt um fyrrverandi hlaupara sem ku vera komnir með ístruna niður á tær. Einhver lýsti yfir þeirri ósk að viðkomandi mættu í Útiklefa svo að hægt yrði láta í ljós skoðun á vaxtarlagi þeirra.

Áfram upp úr Nauthólsvík og í Kirkjugarð, gengið. Eftir þetta segir fátt af hlaupurum, enn fjallaði Ó. Þorsteinsson um hið velheppnaða Bláskógaskokk og veizluna á eftir. Það var fremur svalt á þessum kafla, öllu kaldara en í gær. Það var farið um Veðurstofu, Hlíðar, Klambra og niður á Sæbraut. Staldrað við hjá Hörpu og nýtt útlit skoðað. Farið um Austurvöll í von um hyllingu, sem engin varð fremur en seinast.

Teygt á Stétt. Jörundur kvaðst hafa áhuga á að nýta Fyrsta Föstudag maí-mánaðar sem mun hafa fallið niður. Gæti orðið af því næsta föstudag að Jörundar í Skjólum. 

Þeir kalla hann Viktor

Einn af þessum ótrúlegu og eftirminnilegu dögum, laugardagur rann upp bjartur og fagur, hlýtt í veðri, einhver gola. Þessir mættir til hlaupa: dr. Jóhanna, blómasalinn, ritari, Hannes, Flóki, Eiríkur, Ragnar og Jóhanna hin. Þessir á hjólum: Jóginn, Kári og Rúnar. Flóki og Hannes voru með plan um langt, um eða yfir 30 km. Aðrir hógværari, en þó áhugi á Stíbblu. Rifjuð upp ánægjuleg kvöldstund að Kára og Önnu Birnu í gærkvöld til þess að fagna Fyrsta Föstudegi. Þar var snætt, drukkið og horft á Uruguay og Ghana. Allir voru fegnir því að ekki var tekin mynd af berum karlmönnum á Nesi fyrr um daginn.

Lagt upp á rólegu nótunum, nema hvað Hannes og Flóki settu fljótt upp tempóið. Dólað inn í Nauthólsvík, Jóhanna og Ragnar ætluðu á Kársnesið, ég sá fram á að verða skilinn eftir. Beið því eftir blómasalanum og saman lögðum við í Fossvoginn. Þar var full ástæða til þess að lofsyngja veðrið og aðstæður allar, gróðurangan í lofti, fuglasöngur, fólk í görðum og á stígum. Íslenska sumarið gerist ekki betra!

Við fórum leið sem Flosi hefur gjarnan farið þegar við hinir höfum farið Goldfinger, það er hin neðri leið sem þau hafa kallað Viktor, gegnum hverfi sem kennt hefur verið við Blesugróf, yfir brú á Breiðholtsbraut. Yfir í Breiðholtið og upp að Stíbblu. Þar stöldruðum við við um stund og horfðum á fjöld laxa ofan í ánni. Áfram og niðurúr.

Það verður að segjast eins og er að hitinn hafði ekki góð áhrif á okkur, við vorum farnir að örmagnast í Fossvoginum á leiðinni tilbaka. Blómasalinn orðinn ansi hægur og farinn að dragast aftur úr. Ég dokaði þó við eftir honum inn á milli. Skellti mér í sjóinn í Nauthólsvík og kældi mig niður, það var gött!

Síðustu fjórir kílómetrarnir voru erfiðir. Við rifjuðum upp boð Jörundar um að fara með okkur um Laugaveginn, en ekkert hefur heyrst frá honum um þau áform. Er þeim vangaveltum hér með komið á framfæri.

Undir það síðasta var blómasalinn kominn í sykurfall og varð að fá sér límonaði í Móttökusal laugarinnar er komið var tilbaka. Við hittum dr. Jóhönnu, en aðrir voru farnir, utan hvað við sáum Flóka þar sem hann var að hefja hlaup af nýju þar sem við vorum að ljúka því. Frábær dagur, þokkalegt hlaup, en erfitt.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband