Súkkulaðiskrímslið kemur í heimsókn

Jæja, þá var kominn mánudagur. Mæting er yfirleitt með allra bezta móti á mánudögum. Svo var í dag. Of margir mættir til að vera að telja einstaka hlaupara upp, en þarna mátti sjá yfirburðahlaupara, miðlungshlaupara og svo hóflega metnaðargjarna hlaupara. Eitthvað virðist hafa kólnað í veðri, en samt var bærilegt að hlaupa í þessu. Farið upp á Víðimel og út að Skítastöð. Þar gerðu ofurhlauparar sig klára í að taka fimm kílómetraspretti. En við hin héldum áfram. Flosi og Ágúst fóru fyrir hópnum og tóku Stokk með útúrdúrum og náðu þannig ríflega seytján kílómetrum. Benzinn og Bjössi ætluðu að taka því rólega, fóru að ég hygg Hlíðarfót e.t.v. með brúalengingum. En við Blómasalinn settum stefnuna á Þriggjabrúa.

Hann fór að heiman með þau skilaboð að hann skyldi hlaupa langt í dag, hann væri kominn með bumbu. Á móti hafði hann skilið eftir fyrirmæli um kvöldverð, en var ekki fyllilega í rónni um að fyrirmælum yrði fylgt út í yztu æsar. Ritari gat samsamað sig ástandi blómasalans, enda búinn að berjast við offitu um langt skeið. Hvarflaði að ritara að tilefni væri til að stofna undirdeild í Hlaupasamtökunum helgaða þeim sem kljást við offitu og kalla hana Lýsisbræðslu Lýðveldisins.

Við héldum áfram á Flanir og fengum strax þessa tilfinningu að hlaup væri þegar hálfnað, þótt svo væri í rauninni ekki. Þegar komið var framhjá Útvarpshúsi jók blómasalinn hraðann og skildi ritara einan eftir. Ekki er gott að útskýra hvers vegna hann gerði þetta, því varla getur það verið skemmtilegt að hlaupa einn. Það dró í sundur með okkur þar sem blómasalinn lenti ávallt á grænu ljósi á leiðinni niður Kringlumýrarbrautina, en ritari ávallt á rauðu. Sæbrautin var ljúf og gott að komast í vatnsbólið svalandi.

Á Mýrargötunni rakst ég á Ragnar (eða hann á mig, öllu heldur) og hafði tekið sprettina brjálæðislegu - en var á hægu tölti tilbaka nú. Er komið var á Plan blasti við skrýtin sjón: Benzinn að traktera blómasalann á Euroshopper súkkulaði, sem bragðast ekkert yfirmátavel. Enda stillti blómasalinn neyzlu sinni í hóf. En svo breytti Benzinn um takt, fór út í bíl sinn og sótti "the real stuff": tvö stykki af Cadbury´s súkkulaði með hnetum, samtals 900 grömm! Hér missti blómasalinn sig algjörlega. Hann elti Benzinn um Planið eins og múkki og var einhvern veginn utan við sjálfan sig af græðgi. Bjarni greyið reyndi að verja súkkulaðið, en maðurinn hreinlega réðst á hann og krakaði til sín hverri röðinni á fætur annarri. Ja, þvílíkt og annað eins!

Um þetta leyti kom Ágúst á Plan. Venju samkvæmt var setið góða stund í potti og málin rædd. Næst verður hlaupið á miðvikudag, þá heldur lýsisbræðslan áfram. Tveir menn eru einbeittir í að léttast og verða hraðari í sumar.

Leiðin sem Gústi fór er hér: http://www.wikiloc.com/wikiloc/view.do?id=1007954 Þetta heitir Wikiloc og er skylt bæði Wikipediu og Wikileaks og er algjört patent.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband