Fjórir fræknir á sunnudagsmorgni

Fjórir hlauparar voru mættir til hlaups á sunnudagsmorgni frá Vesturbæjarlaug: Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur og Ólafur ritari. Veður hagstætt, hiti 14 gráður, hægur vindur og rigning hékk í loftinu. Í Brottfararsal var upplýst um dapurlegt heilsufar fyrrverandi hlaupara, sem áður hljóp með Hlaupasamtökunum en hætti. Einnig rætt um brunahringingu sem Samtökunum barst alla leið frá Bruxelles þar sem V. Bjarnason er staddur þessa dagana í hitasvækju og ætlar hvern mann lifandi að drepa.

Við vorum afar rólegir í dag, gerðum mörg stopp og gengum mikið. Sem var allt í lagi, Jörundur nýkominn úr fjallgöngu sem tók á. Stefnir á Laugaveginn eftir tvær vikur. Aðrir velta fyrir sér Vesturgötunni, sem NB leiddi hugann að ágætum þætti Jökuls Jakobssonar þar sem hann rölti um Vesturgötuna í Reykjavík upp úr 1970 með Einari Baldvin Pálssyni. Aðrir útvarpsþættir sem til umræðu komu var Útvarp Guðfræðideildar á sunnudagsmorgnum þar sem farnir hafa verið sjö hringir um kennarastofu deildarinnar á umliðnum misserum og þykir með dapurlegasta útvarpsefni sem um getur. Ennfremur viðtöl Jónasar á föstudagskvöldum sem bregðast ekki.

Vitanlega var óhjákvæmilegt að taka til umfjöllunar viðtalið við fyrrv. Seðlabankastjóra í Dödens avis í dag, en hér vantaði sárlega V. Bjarnason hlaupara, og var ekki laust við að menn hefðu orð á því að sunnudagshlaupin væru ekki söm og áður án hans, ef ritari væri vemmilegur hefði hann jafnvel látið þess getið að saknaðar hefði gætt í orðum manna.

Í Nauthólsvík var stanzað og sagðar sögur. Tillaga um sjóbað var felld. Áfram í kirkjugarð, sem er helgur reitur og menn beðnir að fara um hávaðalaust og af virðingu. Það gera menn ávallt þegar komið er í þennan stað. Upplýst að byrjað hafi verið að jarða í Fossvogi 1932, við sáum nokkur laus pláss hér og þar.

Á Flönum voru rifnar upp lúpínur, Þorvaldur kallaði Jörund öfgamann, Jörundur sagði á móti að án öfgamanna eins og okkar hefði Ísland aldrei náð sér á strik. Áfram um Veðurstofuhálendi og um það rætt hvers vegna menn hættu hlaupum.

Leiðin var einkennilega greið og engin umferð sem ógnaði lífi eða limum hlaupara. Farið hefðbundið um Klambratún og Hlemm, þaðan niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Eitthvað um túrista á ferð, þeim var heilsað kurteislega.

Pottur vel mannaður og rætt lengi um ættir manna, byggð við Ægisíðu og enn rifjuð upp glæsileg veizla þeirra Rúnu og Friðriks að Útey við Laugarvatn um síðustu helgi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband