Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Hlaupið í vorblíðu - að hausti - Fyrsti Föstudagur

Það var brostin á vorblíða þegar hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins mættu til hefðbundins föstudagshlaups föstudaginn 7. nóvember 2008 - sjálfan Byltingardaginn. Það rifjaðist upp fyrir Ritara að hér áður fyrr voru menn vanir að detta íða á Byltingarafmælinu, en nú eru menn bara heilbrigðir og fara út að hlaupa, allir búnir að gleyma Lenín og Trotskí. Jæja, hvað um það, mættur töluverður fjöldi hlaupara, Flosi, Helmut, Þorvaldur, Birgir meiddur, Karl, Magnús, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Bjarni, Bjössi, Frikki og Rúna, Ósk og Hjálmar, S. Ingvarsson, ritari, Benedikt. Menn dáðust að Bigga í útiskýli sem hafði skellt sér í Laugina með Magga til þess að liðka sig upp fyrir hlaup, en var greinilega sárþjáður og hefur líklega þurft ofurmannlegan kraft til þess að manna sig upp í hlaup.

Það er dagamunur á fólki. Þeir sem voru sprækir á miðvikudag eða mánudag og skildu ritara eftir, voru það ekki í dag. Þannig að ritari var í góðu, hröðu kompaníi framan af. Ekki verður orðum eytt að hraðafíklum eins og Benna og Bjössa - sem bara hurfu. Og segir ekki frekar af þeim á þessum blöðum, nema hvað menn furðuðu sig á því hver væri ástæðan fyrir hlaupum þeirra, það er bara gefið í og ekkert sagt! Meðan aðrir hlaupa til þess að geta átt góðan selskap og menningarleg samtöl við félaga sína. Maður skilur ekki svona. Nú er búið að malbika hjólastíginn á Ægisíðu og virðist það ægileg framkvæmd og nær alla leið inn í Nauthólsvík.

Magnús sagði sögu af manninum í London sem var að ræða efnahagsástandið á Íslandi. Þetta væri eins og skilnaður. Þá sagði vinur hans: Nei, þetta er verra, þetta er eins og að missa helminginn af eignum sínum og samt sitja uppi með konuna! Líklega er þetta brezkur húmor fínstilltur sem við eigum erfitt með að skilja. Farið hefðbundið um Hi-Lux, Veðurstofu og Hlíðar. Friðrik var með okkur og Þegar hlaup var gert upp kom í ljós að meðaltempó þeirra fremstu var 5:06 - en líklega hef ég verið á 5:15.

Skammur pottur. Fyrsti Föstudagur. Mætt heima hjá Helmut og dr. Jóhönnu. Þar var fyrir miðill þýzkrar ættar, sjáandi og árulesandi. Birgir sat og gutlaði á gítar, spilaði Bubba og Megas við dræmar undirtektir. Blómasalinn mætti með "bjórkassa" - en þessi skilgreining hans skreppur mjög saman eftir því sem lengra líður, nú er "bjórkassi" kassi með sex flöskum af sunnlenzkum bjór. Þarna vorum við trakteruð á öli og rauðvíni og loks var borinn fram málsverður, lasagna. Um það er Ritari var að búast til brottferðar sagði sjáandinn: "Ég sé að þessi maður er innræktað kvikyndi, drullusokkur og mykjudreifari - ef ekki Framsóknarmaður líka!" Ritara hlýnaði um hjartarætur er hann heyrði þessa nákvæmu greiningu.

Er út var komið í haustmyrkrið og svalann  hugsaði ritari sem svo: Það eru forréttindi að búa á Íslandi.

Kári mömmustrákur - Einar týndur - Biggi á batavegi - Þjálfari enn haltur

Mikið er ég feginn að Kári bloggvinur er ekki enn búinn að gera upp hug sinn um að flytja - þannig að vera kyrr er enn inni í myndinni. Auðvitað á hann að koma aftur heim og vera kyrr, hér er þörf fyrir brilljant hugsuði og vinnufúsar hendur. Tel ég sennilegt að mamma hans hafi hringt í hann í framhaldi af skýrslugerð minni um textagerð hans og talað við hann af umhyggju og umvendni. Ekkert spurðist til Einars blómasala, Biggi trúlega enn meiddur (skilji enginn orð mín sem afsökun honum til handa, hér hlaupa menn svo fremi fætur séu enn fastir við búkinn og hausinn á sínum stað). Margrét enn ein að tjónka við óstjórnlegan skríl, og ferst það furðu vel úr hendi.

Nú ætla ég að reyna að muna hverjir voru mættir (þeir sem ég hef nafnið á): Ágúst, Ólöf, Flosi, Þorvaldur, Friðrik, dr. Jóhanna, Benedikt, Björn, Eiríkur, ritari, Una, Jóhanna (ýmist kölluð "litla" eða "yngri" - ég veit ekki hvort er réttara), Ósk, Margrét, og einhverjir fleiri. Frjálst val um vegalengdir og leiðir. 8- 10 - 12 eða lengra, en meginatriðið að taka 5 km þétting e-s staðar á leiðinni. Áður en lagt var upp kom stutt anekdóta. Litli strákurinn var í skólanum og það var starfskynning. Hann var spurður að því hvað faðir hans starfaði. Stráksi gat ekki með nokkru móti viðurkennt að pabbi hans væri bankamaður, svo að hann svaraði: "Hann er strippari."

Við mættum Magnúsi þegar við lögðum af stað og hann hrópaði: "Haldið bara áfram, ég næ ykkur!" Svo bættist Friðrik í hópinn og það var farið rólega af stað skv. ráði þjálfara. Nú er farið að móta fyrir hjólabrautinni á Ægisíðu og verður gaman að sjá þegar hún verður fullgerð. Það er orðið alldimmt þegar lagt er í hann og hellist þunglyndið að sama skapi yfir hlaupara. Mikil umræða um Evrópusambandið, lýðræðið, nýjan forseta BNA og kassakrakkana á Alþingi.

Ritari þungur á sér eftir lítinn svefn undanfarnar nætur og eiginlega bara slappur, þetta hlýtur að fara að lagast! Datt því fljótlega aftur úr fremstu hlaupurum og hljóp lengi einn. Spurt var: á ég að fara Hlíðarfót, Hi-Lux eða lengra? Sjáum til. Aðrir höfðu gefið út yfirlýsingar um 69 (sem einhverjir eru farnir að kalla "Viktor") eða jafnvel lengra. Um síðir náði Ósk mér við Suðurhlíð og var því ákveðið að fara þá skemmtilegu leið. Við áttum langt spjall um kosningarnar í BNA, aðstæður íslenzkra nemenda í útlöndum, okkar eigin reynslu þar af og fleira. Fórum Hlíðina á góðu tempói, gáfum í á Hringbrautinni á fullu tempói - loks rifjaðist upp fyrir Ósk að hún væri með pott á hlóðum heima fyrir og hvarf hún til þess að huga að honum. Ég einn vestur úr.

Í potti var upplýst að margir hefðu farið Þriggjabrúahlaup, Benedikt og Eiríkur fóru 69 (þar af 6 km á 4:20). Björn fór venju samkvæmt á kostum með frásögum af Dettifossi, þar sem hann kokkaði um árabil. Skrautlegt líf um borð og fjöldi kynlegra kvista. Enn er minnt á Þingstaðahlaup og þó öllu heldur það sem mikilvægara er: Fyrsti Föstudagur n.k. föstudag. Auglýst er eftir venjúi, nánar tiltekið íverustað þar sem safna má nokkrum einmana sálum saman sem vilja reka tungur í mjöð og fagna. Skilyrði er að hann sé í námunda við Vesturbæjarlaug (með þessu er ég ekki að segja að hann ÞURFI að vera á Kaplaskjólsvegi).

Þjálfarinn áfram haltur, Biggi meiddur, kvennadeild berst liðsauki

Sjaldan hafa Hlaupasamtök Lýðveldisins verið jafnöflug og þessi missirin, geta státað af bæði öflugum hlaupurum og gáfuðum. Það er nánast sama hvenær hlaupið er, alltaf er Brottfararsalur uppfullur af hlaupurum sem ráða sér ekki fyrir eftirvæntingu og gleðin skín af hverju andliti af ánægju yfir endurfundunum og yfirvofandi samveru. Sérstök ástæða er til að geta Ólafar sem mætt var að lokinni langri fjarveru. Aðrir voru þekktar stærðir. Helmut þó fjarverandi í Bratislövu á þingi um upplýsingatækni fyrir BDSM-fólk eða eitthvað í þá veru, ég er ekki alveg með vinkilinn á hreinu, en tel líklegt að Helmut hafi verið sendur þangað fyrir einhvern misskilning.

Rúnar sagður haltur og mætti ekki, Margrét ein um að reyna að hafa stjórn á mannskapnum. Upplýst að Þingstaðahlaup verður þreytt n.k. laugardag. Rótgróin hefð er um Þingstaðahlaup, sem fer þannig fram að lagt er upp frá Lögbergi á Þingvöllum og hlaupið sem leið liggur alla leið til Höfuðborgarinnar um Mosfellsheiði og ekki numið staðar fyrr en við dyr Alþingis og tekið í dyrnar (ekki ósvipað því þegar próf. Fróði snertir snerilinn á Goldfinger á miðvikudögum). Þeir sem standa fyrir hlaupinu eru téður próf. Fróði, Sigurður Gunnsteinsson og einhverjir fleiri. Hlaupurum er frjálst að koma inn í hlaupið einhvers staðar á leiðinni, t.d. í Mosfellssveitinni, og ljúka því með prófessornum. Allt er þetta liður í undirbúningnum fyrir Sahara.

Dagsskipunin var rólega út að Skítastöð, svo þéttingar út á Nes, 1 mín. þétt, 1 mín. hvíld, 2 mín. þétt, 2 mín. hvíld o.s.frv. upp að 5 mín. og svo að trappa niður. Gerðum þetta prógramm víst í síðustu viku líka. Ritari getur viðurkennt að hann var illa upplagður í hlaupi kvöldsins - vansvefta vegna skemmtanahalds í götunni þegar tilkynningar um fjöldauppsagnir renna í þúsundatali inn til Vinnumálastofnunar. Ef það er ekki tíminn til þess að sletta rækilega úr klaufunum - hvenær kemur hann þá?

Það var farið um Víðimel og þá leið út á Suðurgötu og svo í áttina að Skítastöð. Ritari var sumsé þungur, þreyttur og ómótíveraður til hlaupa. Ætlaði sannarlega ekki að fara að taka þátt í einhverjum sprettum. Myndi líklega láta nægja að fara út að Hofsvallagötu. Er komið var út í Skerjafjörð var ég lentur með öftustu hlaupurum. Þetta var dapurlegt. Eg var lentur með Kalla og stúlku sem ég hef ekki nafnið á, svo kom Bjarni og fór fram úr okkur og skildi okkur eftir. Ég náði að hanga í Kalla og það var farið í Skjólin, of stutt að fara bara á Hofsvallagötu. Þegar þangað kom var ákveðið að lengja út að Vegamótum, og þegar við komum þangað ákvað ég að fara alla vega út að Eiðistorgi, en félagsskapur minn snöri til Laugar. Á þessum kafla var ég allur að koma til svo það var ekki hægt að fara styttra en á Lindarbrautina.

Ég var einn og yfirgefinn eins og venjulega, algerlega vinalaus, klukkulaus, og því ómögulegt að vita hvenær ég væri búinn með 1 mín., 2 mín., að maður tali ekki um 5 mín. Af þeirri ástæðu lét ég eiga sig að vera að rembast við einhverja þéttinga. Tók þetta bara með skynseminni og var ánægður með mína 12 km.

Í potti var aðeins valmenni. Þar var helzta umræðuefnið hvers vegna bankarnir sæktust frekar eftir verkfræðingum en viðskiptafræðingum til starfa. Staðreynd er (að sögn viðstaddra) að auðveldara er að kenna verkfræðingum viðskipti en kenna viðskiptafræðingum að reikna. Viðskiptafræðingar kunna (að sögn viðstaddra) að leggja saman, draga frá, margfalda og deila -- þetta sem allir kunna úr barnaskóla, en ekki meira. Ónefndur aðili í potti rifjaði upp að viðskiptafræðideildin í ónefndum ríkisháskóla hefði gjarnan verið kölluð "Ruslakistan" hér á árum áður, einhverra hluta vegna. Ekki er þetta sagt hér til ófrægingar heilli stétt manna, heldur til þess að endurspegla umræðuna eins og hún er hverju sinni í hópi málsmetandi einstaklinga. En eins og menn vita er samvizkusamlega greint frá helztu staðreyndum um hlaup og það sem fer manna á milli og ekkert dregið undan.

Á miðvikudag er langt hlaup. Í gvuðs friði. Ritari.

Haltur þjálfari snýr við - en veður gott að öðru leyti

Heilir og sælir hlaupafélagar! 
Í morgun mætti þjálfarinn Rúnar og hljóp haltur
með okkur að Fossvogsgöngubrú þar sem hann snéri við
en við Kalli og Jóhanna fórum svokallaðan "Viktor"
sem er nákvæmlega sama leið og Sixty Nine
nema hún heitir VIktor en ekki Sixty Nine.

Við vorum létt á okkur og geystumst þetta áfram
á tempóinu 5+ og leið vel allan tímann.
Veður gott, hlýtt og í bakið alla leið, utan smá kafla
á leiðinni til baka meðfram sjónum.
Tíðindalaust að mestu en almennt áhyggjuleysi
einkenndi umræður. Ekki kæruleysi, almennt erum
við á því að allt fari þetta nú vel, en aðeins þó ef
fólk sinnir hlaupum reglulega og af einhverju veti.

Í potti voru engir markverðir utan ein kona sem mun
hafa verið í marki fyrir KR á árunum 1958-1962.
Ég held hún heiti Friðbjört.

Í gvuðs friði,

Biggi Jógi

ps. árshátíð hjá Kór Neskirkju í kvöld.
Enn vantar okkur góða tenóra.

PS - við þessa frásögn Birgis er því að bæta að á framangreindri árshátíð slasaðist Biggi við það að sveifla öðrum fætinum yfir hinn (hvernig sem það er hægt!) - þar með slítandi eitthvað í hné. Kveðst ekki munu hlaupa á næstunni, nema þá bara beint áfram, af mikilli íhygli og þarafleiðandi jafnvel í kyrrþey.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband